fimmtudagur, 30. ágúst 2012

Góð ferð vestur á Strandir (1. hluti)

Um miðja síðustu viku rann það allt í einu upp fyrir mér að nú væri Valur að verða búinn með sitt 5 vikna sumarfrí. Og það eina sem við höfðum gert saman í þessu langa fríi, var að fara í 3ja daga ferð austur á land, en svo ekki söguna meir. Að minnsta kosti höfðum við ekki farið í fleiri ferðalög, hvorki innanlands né utan. Þar að auki hafði ég verið býsna þreytt/illa upp lögð í ferðinni austur, svo hún varð ekki alveg eins góð og vonir stóðu til. Þannig að nú var að duga eða drepast ef við ætluðum að ferðast meira áður en fríinu hans lyki. Mér datt í hug að gaman gæti verið að fara á Strandirnar, svona ef veðurspáin væri þokkaleg. Það var hún og eftir að hafa viðrað hugmyndina við bóndann og gengið þannig frá hnútum að ég fengi frí úr vinnu á föstudeginum, hófst ég handa við að hringja út um víðan völl og kanna með gistingu fyrir okkur.

Það varð úr að eftir vinnu hjá mér á fimmtudeginum byrjuðum við að pakka og mig minnir að við höfum lagt af stað úr bænum um sexleytið. Fyrsta stopp var í Varmahlíð, þar sem okkur datt í hug að fá okkur kvöldmat á hótelinu. Þar fengum við afskaplega ljúffengan saltfisk en þurftum að bíða dálítið lengi eftir honum, og því var þetta rúmlega klukkutíma stopp með öllu. Þá var stefnan sett á Hólmavík en þar hafði ég pantað gistingu um nóttina. Vegurinn frá Staðarskála var frekar leiðinlegur og eftir að það var orðið dimmt gekk ennþá hægar að keyra, svo við vorum ekki komin til Hólmavíkur fyrr en að nálgast hálf tólf um kvöldið.

Hótelið sem við gistum á heitir Hótel Finna og fengum við ágætis herbergi á efri hæð, nýlega uppgert. Á hæðinni var líka eldhús, svo við gátum geymt matinn okkar í ísskáp og fengið okkur morgunmat sjálf daginn eftir. Það er pínu áskorun að ferðast þegar maður (kona) borðar ekki mjólkurvörur, hveiti né egg og nokkuð ljóst að hefðbundinn morgunverður á hóteli hentar ekki. Eftir morgunmatinn tókum við smá rúnt um plássið, en fórum svo í Kaupfélagið að versla. Það var nú bara eitthvað smálegt sem við keyptum því við vissum að það væri líka verslun í Norðurfirði, þar sem við ætluðum að gista. Svona eftirá að hyggja, þá hefði auðvitað verið skynsamlegra að versla meira á Hólmavík, því þar var mun meira úrval, en það er önnur saga. Veðrið var svona allt í lagi, frekar grár himinn, vindur og hitastigið ca. 7-8 gráður.

Svo lögðum við í hann. Ákváðum að fara lengri leiðina til Norðurfjarðar og skoðuðum m.a. Drangsnes en þar var nú ekki mikið líf að sjá. Sáum samt konu sem var úti að ganga með tvo litla kjölturakka í hífandi roki, og ég var nú mest hissa á því að hundarnir fykju hreinlega ekki. Eftir að hafa ekið í einhvern tíma fundum við okkur afdrep niðri í lítilli fjöru og borðuðum nesti. Það var ennþá hvasst en við gátum fundið skjól bakvið klett í fjörunni. Sólin skein meira að segja á meðan við borðuðum, svo þetta var bara mjög fínt.

Næsta stopp var í Djúpavík. Þar skoðuðum við ljósmyndasýningu eftir þýskan ljósmyndara, Claus Sterneck, sem haldin var í afmörkuðu rými í gömlu síldarverksmiðjunni. Ekki er lengur hægt að skoða síldarverksmiðjuna sjálfa nema með leiðsögn og við slepptum því í þetta sinn.




Áfram héldum við og komum í Norðurfjörð um þrjúleytið. Þar hittum við á eldri konu (Áslaugu) sem lét okkur hafa lykilinn að smáhýsinu sem við gistum í en eigandinn var sjálfur staddur í Reykjavík. Það gekk nú ekkert alltof vel að komast inn í húsið, þrátt fyrir að hafa lykil... og var læsingin eitthvað að stríða okkur. En það hafðist nú fyrir rest. Þetta var ljómandi snoturt hús þó lítið væri. Allt leit út fyrir að vera glænýtt og mjög hreint og snyrtilegt. Eftir að hafa hent dótinu okkar inn brunuðum við í Kaupfélagið því Áslaug hafði sagt okkur að þar væri lokað um helgina. Það verður að segjast eins og er, að ekki var úrvalið mikið og t.d. einungis hægt að kaupa frosið kjöt og fisk. En við vorum svo heppin að finna frosnar laxasneiðar og nýjar kartöflur og gulrætur, svo við vorum í góðum málum.

Eftir að hafa síðan fengið okkur kaffi heima í húsi, drifum við okkur út í smá könnunarleiðangur um nánasta umhverfi. Fórum á bílnum og stoppuðum nálægt stakstæðum kletti sem við sáum niðri í fjöru. Þessi klettur heitir "30 dala stapi" og sagan segir að efst í honum hafi verið faldir 30 dalir, sem yrðu eign þess sem klifið gæti klettinn. Eyfirskur sjómaður varð fyrstur til þess í kringum árið 1900, en enga fann hann dalina.



Hér er Valur að kanna hvar best sé að komast niður í fjöru :)

Við létum okkur hafa það að klöngrast niður frekar bratta urð til þess að komast niður í fjöru. Þar mynduðum við stapann í gríð og erg, og einnig ýmislegt annað tilfallandi, eins og ljósmyndara er háttur.





En þar sem við höfðum ákveðið að borða kvöldmat á Hótel Djúpavík, þá höfðum við ekki ótakmarkaðan tíma. Það er ríflega hálftíma akstur þangað og kvöldmatur aðeins framreiddur milli 19 og 21. Við vorum nú reyndar aðeins lengur á leiðinni því auðvitað þurftum við að stoppa og taka myndir þegar kvöldsólin lét allt í einu sjá sig.







Við vorum reyndar frekar óheppin með það að lenda á eftir stórum hópi fólks, og það tók tímann sinn að elda ofan í þau, en að lokum fengum við okkar pönnusteikta þorsk sem bragðaðst alveg hreint ágætlega.

Ég gat ekki annað en velt því fyrir mér hvernig væri í Djúpavík á veturna. Hótelið er opið árið um kring en hjónin sem eiga hótelið eru jafnframt eina fólkið sem býr í Djúpavík á veturnar. Veginum frá Hólmavík er ekki haldið opnum frá 6. janúar til 20. mars, en það er flogið á Gjögur tvisvar í viku, og þannig hafa íbúar Árneshrepps samband við umheiminn - ja þegar viðrar til flugs a.m.k.

Heim ókum við svo eftir ágætis máltíð og fórum fljótlega í háttinn.

föstudagur, 17. ágúst 2012

Smá lífsmark


Ég held ég sé að setja nýtt met í bloggleti - og það er kannski ekki neitt sem ég ætti að vera að státa mig af. En svona til að sýna að ég er enn á lífi þá kemur hér mynd sem ég tók í Lystigarðinum snemma í sumar. Vinkona mín átti fimmtugsafmæli nú í vikunni og þá vann ég þessa mynd aðeins í myndvinnsluforriti og sendi ég vinkonu minni með afmæliskveðjunni á facebook. Ég er bara nokkuð ánægð með þessa mynd, eða að minnsta kosti litina í henni. 

Ég er byrjuð að vinna aftur eftir 3ja vikna rólegheita-sumarfrí. Við vorum svo lánsöm að hafa gesti megnið af tímanum sem ég var í sumarfríi og mér fannst það voða notalegt. Áður en ég fór í sumarfrí komu reyndar Palli bróðir og Sanne kærastan hans. Síðan kom Hrefna frá Köben og hálfum mánuði síðar kom Egil kærastinn hennar. Síðust kom svo Anna systir og stoppaði hún í tæpa viku.

Annars er það helst í fréttum að Andri er að flytja að heiman nú um helgina. Úff það verður skrítið að vera bara þrjú eftir í húsinu og við eigum eftir að sakna hans. En þetta er víst gangur lífsins og bara ánægjulegt þegar börnin manns fara að standa á eigin fótum. Valur er búinn að leigja kerru og ætlar að aðstoða soninn við flutningana. Þeir feðgar stefna að því að keyra suður á sunnudaginn. Andri var í smá aðgerð á hné, þannig að hann má ekki reyna á fótinn og heppilegt að Valur er í sumarfríi og getur skutlast með honum.

Glöggir lesendur taka kannski eftir því að þessi pistill er skrifaður um miðja nótt... Það hefur loðað við mig í gegnum tíðina að eiga í erfiðleikum með að sofna á kvöldin, og sérstaklega þegar mikið er um að vera. Þá fer kollurinn á mér á einhvern yfirsnúning og ég næ ekki að slaka á þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir í þá áttina. Núna er klukkan að verða þrjú og ég er búin að gera þrjár tilraunir til að fara inn í rúm að sofa. Eigum við ekki bara að segja að það takist í næstu tilraun ;o)

miðvikudagur, 1. ágúst 2012

Fallin í faðm kolvetnapúkans

eina ferðina enn...

Staðreyndir málsins:
* Ég er alveg hreint svakalegur kolvetnafíkill og hafði gert margar tilraunir til að draga úr kolvetnaáti, áður en mér tókst það s.l. haust.
* Mér líður almennt séð miklu betur ef ég borða minna af kolvetnum
* Blóðsykurinn verður jafnari yfir daginn og ég er ekki stöðugt í þessari rússíbanareið sem samanstendur af aukinni orku í smá stund með eftirfylgjandi orkuleysi, sem leiðir af sér meira kolvetnaát, sem gefur orku í smá stund ... o.s.frv.
* Þegar mér tekst að draga úr kolvetnaáti í lengri tíma þá dregur úr sykurlönguninni með tímanum og ég sakna sykursins ekki neitt

En ........
* Þegar ég dett í lengri þreytuköst og er gjörsamlega orkulaus, svo dögum og vikum skiptir, þá fer ég að leita í kolvetnin því þau gefa mér smá orkubúst, þó stutt sé
* Þetta geri ég gegn betri vitund en mér er hreinlega ekki sjálfrátt
* Kaffi (reyndar ekki kolvetni í því en gefur falska orku), 70% súkkulaði, döðlur og maísflögur eru stóru syndirnar mínar þessa dagana.



Ég fann það sérlega vel síðustu tvær, þrjár vikurnar að ég var að detta í kunnuglegan gír. Það er að segja, að úða í mig mat, sætindum og kaffi til þess að halda haus. Þetta er nokkuð sem ég var búin að gera í mörg ár áður en ég breytti mataræðinu. Og það sem ég lærði á Kristnesi, að hlusta meira á líkamann og hvíla mig, í stað þess að keyra mig áfram, var bara orðinn dauf endurminning. 

Það er reyndar ekki þannig að ég hafi verið á fullu allan daginn, alla daga, bara svona ef einhver skyldi nú fá þá ranghugmynd. En ég er alltaf að berjast við sama vandamálið, að vilja ekki vera eins þreytt og ég er, og þá fer ég að keyra mig áfram, gegn betri vitund. Svo var líka búið að vera meira að gera í vinnunni og það segir fljótt til sín - eins gaman og það er samt.

Nú er ég búin að vera viku í sumarfríi (fyrstu dagana var ég reyndar að vinna í bókhaldi hér heima). En þessa viku hef ég verið skelfilega þreytt og sleppti því m.a. að fara með Vali til Reykjavíkur á þriðjudaginn vegna þess að ég treysti mér hreinlega ekki. Í staðinn lá ég mest fyrir og las og náði loks að slappa aðeins af. Hið sama gerði ég í gær og í dag - og hipp hipp húrra - ég er loks búin að safna pínu ponsu orku. Nógu mikilli til að ég treysti mér í ferðalag. Haha, snillingurinn ég, fer náttúrulega strax að eyða orkunni... en vonandi næ ég líka að safna aðeins í sarpinn í íslensku útilofti :-)

P.S. Ég skrifaði þessa færslu fimmtud. 26. júlí en gat ekki ákveðið hvort ég ætti að birta hana eða ekki... Mér finnst ég alltaf vera að skrifa um sömu hlutina og falla enn og aftur ofan í sömu gryfjuna og skammast mín satt best að segja ofurlítið fyrir það. Vildi óska að ég hefði meiri viljastyrk og sjálfsaga stundum. 
En það er víst bara svona sem ég er, og ég hef ósköp takmarkaða þörf fyrir að sýna umheiminum einhverja glansmynd af mér. Þannig að hér kemur þessi pistill - en ég lofa skemmtilegri pistli von bráðar. Við skruppum nefnilega í smá ferðalag um helgina og þegar ég er búin að fara í gegnum myndirnar þá kemur ferðablogg :-)

P.P.S. Ef aðrir kannast við að vera alltaf að berjast við sömu vindmyllurnar, og hafa stundum betur og stundum verr - þá væri gaman að fá að heyra af því. Þetta geta verið hinir ýmsu hlutir, og þurfa alls ekki að tengjast mat. Þannig að endilega skrifa nokkur orð í athugasemdakerfið, ef þið eruð í stuði. Þeir sem hafa ekki blogger aðgang geta hakað við "nafnlaust" og skrifað svo bara nafnið sitt undir athugasemdina í staðinn.