fimmtudagur, 15. desember 2011

9 dagar til jóla

Úff ég er ekki að fatta að þetta sé svona stutt eftir. Og svo standa jólin yfir eina helgi, það er nú allt og sumt. Ekki eins og maður fái einhver verðlaun í formi hvíldar fyrir að hafa lagt svona hart að sér í desember. Segir ein sem var á fullu frá 10-16 í gær við að taka upp vörur og er hálf lúin í dag, það verður að segjast eins og er. Samt og svo það sé alveg á hreinu, er ég í raun ótrúlega spræk enn sem komið er. Ég meina, ég er lúin en ég er ekki algjörlega úrvinda. Vona bara að það haldist þannig.

Annars er ég að fara í síðasta leikfimitímann fyrir jól núna á eftir. Ég fór ekki á mánudaginn því þá var ég á hárgreiðslustofu. Þrátt fyrir að hafa verið mjög tímanlega í að panta þá átti hún samt engan tíma handa mér (sem skaraðist ekki á við vinnu hjá mér) nema þennan og ég stökk á hann því ekki vil ég vera gráhærð um jólin. Það væri kannski í lagi ef allt væri þá grátt, en sem sagt, ekki fallegt að vera með gráa rót.

Í gærkvöldi fórum við Valur á jólahlaðborð hjá Læknastofum Akureyrar. Þá kemur starfsfólkið sjálft með veitingar á sameiginlegt hlaðborð og á notalega stund saman. Þetta var afskaplega ljúft þó ekki gæti ég borðað margt. Ég fékk mér þó hangikjöt, grænt salat og rauðkál. Var orðin ægilega svöng þegar ég kom heim, hehe ;-) Um jólin ætla ég að borða hangikjöt og svo þarf ég græja eitthvað meðlæti annað en kartöflustöppu. Svona ef ég finn einhvern tíma til að leita að góðri meðlætisuppskrift. Kannski eitthvað sé að finna í nýju uppskriftabókinni hennar Sollu, sem Valur færði mér.

Að lokum kemur hér mynd sem ég tók í gærkvöldi þegar ég áttaði mig á því að ég væri ekki búin að taka neina mynd fyrir daginn. Mig langar að halda áfram að taka mynd á dag, en myndefnið verður þá líka bara hitt og þetta. Málverkið er eftir Óla G. bara svona ef einhver er að spá.

Læt ég nú þessum fremur samhengislausa pistli lokið.


Engin ummæli: