mánudagur, 28. nóvember 2005

Kattakonan


Kattakonan, originally uploaded by Guðný Pálína.

Svo það sé alveg á hreinu þá eru það kettirnir sem elta mig um allt en ekki öfugt ;o) En þeir eru aldrei langt undan eins og sjá má á þessari mynd. Vil bara taka það fram að ég var ekki að borða þetta nammi sem sést á skrifborðinu hjá mér... þetta er sjónvarpsnammið hans Vals (og nú verður hann glaður - eða þannig...).

sunnudagur, 27. nóvember 2005

Súlur "í skýjunum"


Súlur "í skýjunum", originally uploaded by Guðný Pálína.

Þessa mynd tók Valur síðdegis í dag - enn skreyti ég mig með fjöðrum annarra...

þriðjudagur, 22. nóvember 2005

Vantaði buxur í fjósið

Ég fór í Hagkaup í gær að svipast um eftir jólafötum á Ísak. Mér datt nefnilega í hug að vera einu sinni tímanlega í þessu, er yfirleitt á síðustu stundu með allt sem tengist jólunum. Nema hvað, þar sem ég stend og skoða jakkaföt, skyrtur, vesti ofl. kemur fjölskylda aðvífandi og mamman segir við son sinn að nú sé upplagt að skoða föt fyrir jólin. Hann er ca. 7-8 ára gamall og tekur vel í það. Sér fyrst standinn með flauelsjakkafötunum og fer að skoða dökkbláar flauelsbuxur vel og vandlega, svona eins og hann væri fæddur skraddari og væri að athuga hvort efnið væri nógu vandað og saumarnir nógu sterkir. Svo gellur allt í einu í honum "Mamma, þessar væru fínar í fjósið, mig vantar líka fjósbuxur". Hér mættust augu mín og mömmunnar og báðar brostu út í annað því tónninn í rödd stráksa var alveg óborganlegur. Það var eins og hann hefði fundið gull og gleðin eftir því. Sú gleði stóð reyndar ekki lengi því mamman var fljót að kippa honum niður á jörðina aftur og benda honum á að nú væru þau að leita að jólafötum. Hvernig þessu lyktaði veit ég ekki, kannski hafa þau keypt flauelsbuxurnar og komist að samkomulagi um að þegar þær væru búnar að gegna hlutverki sínu sem sparibuxur fengju þær nýtt hlutverk sem fjósbuxur ;O)

sunnudagur, 20. nóvember 2005

Hélt að ég væri í nokkuð góðu formi

af öllu sundinu en komst að því um helgina að svo er ekki. Fór á jóganámskeið sem stóð frá 18-21 á föstudagskvöldinu og 10-17 í gær og er að drepast úr strengjum eftir þetta. Var svo búin á því í gær að mér leið eins og ég hefði verið í fjallgöngu en er skárri í dag.

Annars fórum við Valur áðan að heimsækja vinafólk okkar sem voru að byggja hús og ég verð nú að játa að mikið er ég fegin að vera ekki í þeirra sporum. Allt hálfklárað og náttúrulega langt, langt á eftir áætlun. Iðnaðarmenn á vappi um húsið alla daga og þau eru bara nýbúin að fá hurðar á herbergin + það eru engar gardínur komnar enn svo ekki er hægt að segja að það sé mikið næði/einkalíf á þeim bæ.

Hef í sjálfu sér ekkert meira að segja - og segi þetta því gott...

þriðjudagur, 15. nóvember 2005

Hmm



Fræðatröll


Þú ert vanafastur, tilfinningaríkur innipúki.

Fræðatröllið er forvitið að eðlisfari og er köllun þess í lífinu að komast að sannleikanum. Fræðatröll má gjarnan finna í dimmum skúmaskotum bókasafna þar sem þau rykfalla og sussa á aðra gesti safnsins. Fræðatröllið klæðist gjarnan flaueli - nema þegar það er í tísku. Hringitónninn í síma þess er stefið úr þættinum Nýjasta tækni og vísindi, sem það grætur stöðugt að sé ekki lengur á dagskrá.



Hvaða tröll ert þú?

mánudagur, 14. nóvember 2005

Er komin með

nýtt vinnuskrifborð hér heima - vá þvílíkur munur! Það er reyndar svolítið stórt, fyllir næstum upp í herbergið (bara næstum...) en það er L-laga og með yfirdrifnu plássi. Borðið sem ég var með var gamalt eldhúsborð, keypt í IKEA í Noregi fyrir ansi mörgum árum en það var nú búið að duga vel. Svo eftir að ég fékk nýtt skrifborð í vinnunni þá fann ég hvað var mikill munur að vera með svona almennilegt borð og ákvað að drífa bara í því að fá nýtt borð hérna heima líka. Nú vantar bara betri skrifborðsstól, sá sem ég sit á núna var keyptur á sama stað og eldhúsborðið og þjónaði því hlutverki að vera skrifborðsstóll Hrefnu lengi framan af. Hann er reyndar orðinn svo lélegur að maður fær í bakið innan nokkurra mínútna frá því maður sest í hann og Valur var kominn á fremsta hlunn með að henda honum í síðustu ferð á haugana.... En þetta kemur allt með kalda vatninu, gallinn er bara sá að það getur reynst þrautin þyngri að finna stól við hæfi, sérstaklega þar sem hann þarf helst að þola ketti (þeir halda nefnilega að skrifborðsstólar með ullaráklæði séu hugsaðir til að brýna klær á þeim). Þegar rétti stóllinn kemur í leitirnar þá er líka meiningin að unglingurinn á heimilnu noti þessa aðstöðu til að læra - og hætti þá að skilja skólabækurnar sínar eftir á stofuborðinu ;o)

laugardagur, 12. nóvember 2005

Birthday girl...

samanber Uptown girl... með Billy Joel. Má ekki bara skipta uptown út fyrir birthday? Allavega þá á ég afmæli í dag. Er víst orðin 41 árs samkvæmt þjóðskrá! Ísak hélt í dag að ég væri 39 ára - betur að svo væri... En mér finnst fínt að vera 41, það er ágætis tala ;o) Ég þakka hér með fyrir allar góðar afmæliskveðjur, minn heittelskaði eiginmaður mundi eftir afmælinu um leið og hann vaknaði í morgun, mamma hringdi í hádeginu, Anna systir hringdi um miðjan daginn og tengdó hringdu í kvöldmatnum. What more can a girl want?? Afmælisgjöfin frá Val (aka Hal) var að fara með mér í sund í morgun og á meðan ég synti tuttugu ferðir skriðsund þá svamlaði hann í heitu lauginni en við fórum saman í pottinn og gufu (þetta hljómar eitthvað undarlega en var ekki illa meint, sjá pistil Hals í dag , hann vantar bara ýmis hjálpartæki til að geta nýtt sér sundlaugina að fullu.

Eftir sundið + morgunkaffi þá fóru þeir feðgar, hann og Andri, í fjallið en ég fór í langa göngu hér innanbæjar í skíðabuxum og dúnúlpu og gönguskóm. Var að drepast úr þreytu á eftir og lagði mig í sófanum með Mána mér við hlið. Svo birtust dóttirin og tengdasonurinn óvænt á kaffitíma og að minni tillögu bakaði Halur vöfflur sem sumir (Hrefna) borðuðu að norskum sið, með brúnosti (NB! norskum TINE brúnosti sem Anna systir færði í búið í haust). Elli btw (þetta er stytting úr "by the way" fyrir þá sem eru ekki innvígðir í enskar orðastyttingar) er mun betri af andlitslömuninni og VÞM segir að það sé af því hann hafi stundað DNA heilun á Ella.... Sel þetta ekki dýrara en ég keypti það ;-)

En allavega, áður en ég hætti þessu þá vil ég bara geta þess að Valur minn eldaði handa mér dýrindis máltíð í kvöld, heimagert pasta með sjávarréttum (og krabbalöppum sem Kári hennar Bryndísar kom með frá "Russia with love") og bragðaðist allt saman afar vel. Á morgun erum við svo boðin í afmæliskaffi til Hrefnu minnar sem á 22ja ára afmæli - og ég hlakka til ;o)

fimmtudagur, 10. nóvember 2005

In her shoes

heitir bíómynd ein - sem er bara mun betri en ég átti von á - og kom ánægjulega á óvart.

mánudagur, 7. nóvember 2005

Það er stundum sagt um karlmenn

að þeir geti ekki gert margt í einu, þ.e.a.s. ekki horft á sjónvarpið, straujað þvott og haldið uppi samræðum á sama tíma. En það geta konur hinsvegar. Einhverjir fræðingar hafa reiknað út að þetta sé kynbundinn munur samkvæmt meðaltalskonunni og meðaltalskarlinum. Ég hef komist að því að ég hlýt að hafa meira af karllægum heilasellum hvað þessa hlið snertir, það hentar mér alveg hrikalega illa að vera með mörg verkefni í takinu á sama tíma.

Þetta var speki dagsins ;O)

föstudagur, 4. nóvember 2005

Loksins, loksins

í fjórðu tilraun tókst okkur vinkonunum, mér, Unni og Heiðu að komast á kaffihús. Og mikið sem það var notalegt að hitta þær og spjalla saman yfir tebolla. Við erum allar sjúkraliðar og unnum saman á Selinu, sem er hjúkrunardeild fyrir aldraða, fyrir tuttugu árum síðan. Það var virkilega gaman hjá okkur í vinnunni þá, megnið af sjúkraliðunum voru ungar stelpur og hressar og það var oft mikið hlegið. Og líka í gærkvöldi - það er nú kosturinn við að hitta þessar tvær - við hlægjum alltaf mikið, jafnvel þó við séum að tala um eitthvað leiðinlegt...

En talandi um vinkonur þá átti Sunna vinkona mín afmæli þann 1. nóvember en af því ég var eitthvað utan við mig þá (eins og flesta daga) fær hún sem sagt afmæliskveðjuna núna. Til hamingju með afmælið Sunna mín ;o)

þriðjudagur, 1. nóvember 2005

Þetta er engin frammistaða hjá mér

Læt líða nærri viku á milli þess að ég skrifa hérna. Og það er ekki von á neinu gáfulegu frá mér í augnablikinu, er alltof þreytt til að skrifa eitthvað af viti.

Það er nú hálfgert ástand á fjölskyldunni þessa dagana. Tengdasonurinn kominn með lömun í helminginn af andlitinu (sem gengur vonandi tilbaka) og svo skar Andri sig í fingurinn í kvöld, stóran skurð með brauðhnífnum, og pabbi hans þurfti að fara með hann upp á sjúkrahús og láta sauma hann. Mér brá nú við þetta enda sá ég óhappið gerast og sá bara í hvítt og hélt að hann hefði skorið sig inn að beini. En sem betur fer skaddaðist ekki sinin þannig að hann slapp við aðgerð og vesen. Ég er hálf glötuð eitthvað þegar svona lagað kemur uppá. Kalla bara á Val og bíð eftir því að hann reddi málunum. En ef í harðbakkan slægi þá gæti ég nú verið róleg og yfirveguð og farið með barnið á slysadeildina, það er bara svo þægilegt að geta treyst á að Valur sjái um allt svona lagað. Því miður var hann hvergi nálægur þegar Hrefna fór í "meint" hjartastopp í sumar, mér hefði örugglega liðið betur ef hann hefði verið á svæðinu. Ég held reyndar að mér hafi aldrei brugðið svo mikið á allri ævinni eins og mér brá þá - og gott að vera stödd á slysadeildinni af öllum stöðum - en það er nú önnur saga.

Annars er bara vinna og aftur vinna + afslöppun um helgar + sundferðir á morgnana. Var búin að gera þrjár tilraunir til að komast á kaffihús í síðustu viku en þær klikkuðu allar. Fyrst vegna kvennafrídagsins, svo vegna ælupesti vinkonu minnar og síðast vegna þess að önnur vinkona afboðaði sig. Og ég sem var að reyna að gera átak í því að eiga mér eitthvað líf utan vinnunnar ;O)