föstudagur, 29. september 2006

Matarlyst fer ekki alltaf saman við matarlist

Dygga lesendur þessarar síðu rekur án efa minni til þess að hafa séð pistla mína varðandi skort minn á matreiðsluhæfileikum. Hef ég iðulega fengið a.m.k. vægt kvíðakast þegar eiginmaðurinn hefur verið að heiman því það hefur í för með sér að ég þarf að elda. Nú er kokkurinn staddur í Rússlandi og ég þarf að sjá um matinn í rúma viku, nokkuð sem undir venjulegum kringumstæðum hefði gert mig klepptæka.

Ég tók hinsvegar meðvitaða ákvörðun um að stressa mig ekki upp út af þessu og hef verið sallaróleg þann tíma sem liðinn er. Byrjaði reyndar með því að panta pítsu s.l. laugardag en eldaði hrísgrjónagraut á sunnudaginn og fiskibollur í karrýsósu á mánudaginn. Á þriðjudeginum splæsti ég Subway á strákana því þá var ég sjálf á súpufundi hjá Félagi kvenna í atvinnurekstri og á miðvikudaginn var ég með lambanagga með súrsætri sósu og hrísgrjónum. Ísak borðaði naggana með bestu lyst en sá eldri var nú ekki alveg jafn hrifinn og ég sá að ég yrði að hafa einhvern "alvöru" mat kvöldið eftir. Var svo heppin að í Fréttablaðinu þann dag var uppskrift að kjúklingabringum með pestói og fannst alveg gráupplagt að elda þær. En þar sem Ísak skellti sér í bíó með félögum sínum þá vorum við Andri bara tvö í mat og þess vegna var töluverður afgangur af matnum. Honum var komið fyrir inni í ísskáp, við hliðina á afgöngunum af hrísgrjónagrautnum og lambanöggunum.

Í dag vissi ég ekki hvað ég átti að elda en blaðið Birta kom mér til bjargar, eða öllu heldur Halla Bára Gestsdóttir blaðamaður. Hún var með uppskrift að tómatsúpu með makkarónum og ég var alveg viss um að súpan myndi falla í kramið hjá yngri syninum. Var ekki eins viss um þann eldri en hann var hvort eð er á leiðinni á handboltaæfingu og myndi því ekki borða mikið. Þegar ég var að saxa laukinn (þrjá skalottulauka) varð mér í smá stund hugsað til þess að ef til vill væri uppskriftin í stærra lagi fyrir okkur þrjú. Sú hugsun staldraði þó ekki lengi við og ég hélt áfram að gera súpuna. Dreypti á einu rauðvínsglasi við eldamennskuna og var harla ánægð með sjálfa mig. Ég gæti sko alveg eldað!

Þetta var alvöru súpa, engin pakkasúpa, og ég varaði drengina við því að þetta væri sko "the real thing" og þess vegna svolítið þykk. Ísak smakkaði súpuna og kvað upp þann dóm að hún væri góð. Ég varð auðvitað yfir mig glöð og þegar ég var búin að setja harðsoðna eggið ofaní súpuna mína og raspa parmesan ost yfir hana smakkaði ég líka og var alveg sammála syninum. Sá eldri sagði fátt. Eftir smá stund, þegar Ísak var ca. hálfnaður með skammtinn sinn, spurði hann hvort það væri til afgangur af hrísgrjónagraut. Þá var svarti piparinn farinn að segja til sín (NB! bróðir hans fann ekki einu sinni piparbragð enda vanur sterkum mat föður síns) og skyndilega var súpan ekki svo góð lengur.

Ég kyngdi stoltinu og sótti grjónagraut í ísskápinn og gaf honum. Handboltastrákurinn lét einn disk nægja og ég varð pakksödd af einum diski. Þannig að ég sit uppi með tæpan lítra af súpu í afgang. Er einhver svangur? Sá hinn sami getur valið um nagga, kjúkling eða súpu...

Blöð sem ég er búin að lesa í dag:

Morgunblaðið
Fréttablaðið
Blaðið
Birta
Orðlaus
Sirkus

er það nema furða að ég sé orðin hálf þung í höfðinu?

miðvikudagur, 27. september 2006

Nú get ég ekki þagað yfir leyndarmálinu lengur

Ég sem ætlaði ekki að segja neitt fyrr en allt væri klappað og klárt! En ég er sem sagt að fara að gerast verslunareigandi ásamt Sunnu vinkonu minni. Við ætlum að kaupa rekstur verslunarinnar Dagga og erum búnar að stofna nýtt félag um reksturinn og heitir það "Pottar og prik ehf". Verslunin mun einnig fá það nafn þegar við erum komnar með lógó (Dísa í Concept er að hanna það fyrir okkur) og búnar að breyta skiltinu utan á búðinni. Við ætlum sem sagt að versla með búsáhöld og umhverfisvænar ræstivörur og komum til með að fá vörur frá heildsölum hér á Íslandi (a.m.k. til að byrja með), t.d. frá Kokku á Laugavegi og fleirum. Við munum leggja áherslu á að vera með vandaðar vörur en þó reyna að bjóða upp á hluti í mismunandi verðflokkum svo fólk geti fundið eitthvað við sitt hæfi þó það sé ekki milljónamæringar:-) Svo verðum við með heimasíðu þannig að hægt verður að skoða/panta vörur og fá heimsendar með póstinum.

Þetta er búið að vera í bígerð síðan í sumar en nú er loks að verða af þessu og munum við taka við rekstrinum á mánudaginn. Þá byrja ég líka að vinna aftur og hætti þessu hangsi. Mér hefur reyndar liðið ljómandi vel í mínu langa sumarfríi en "vinnan göfgar manninn" eins og sagt er og ég hlakka til að takast á við þetta nýja og spennandi verkefni.

Þá vitið þið það!

mánudagur, 25. september 2006

Jæja, hvíldin um helgina hefur haft sitt að segja

ég er þónokkuð hressari í dag en undanfarna daga. Blogglesendum hlýtur að létta við þessar fréttir því þá fer ég kannski að skrifa um eitthvað annað en mitt ömurlega heilsufar ;-)

Ég fór í Bónus í dag. Passaði vel og vandlega að hafa með mér í bílinn gulu innkaupapokana sem ég keypti í þeirri sömu verslun á tvöhundruð kall stykkið (eða var það þrjúhundruð?) og rúma marga lítra af mjólk hver, auk annarra hluta. Mér finnst þessir pokar algjör snilld en áður en þeir fóru að fást í Bónus reyndi ég alltaf að taka kassa undir vörurnar. Eini gallinn við þetta allt saman er sá að mér tekst alltaf að gleyma pokunum í bílnum meðan ég fer og versla. Svo stend ég við kassann og byrja að setja vörurnar á bandið og þá fyrst man ég eftir pokunum í bílnum. Tvisvar sinnum hef ég verið með bílinn svo nálægt að ég hef getað hlaupið út og sótt þá á meðan kassadaman (eða drengurinn ef svo ber undir) klárar að renna vörunum í gegn, en í dag (og oftar) var bíllinn svo langt undan að það kom ekki til greina. Þannig að heim kom ég með þrjá plastpoka í hendi (engir kassar til í dag) og fínu innkaupasekkirnir lágu óhreyfðir í aftursæti bílsins. Þannig fór um sjóferð þá.

sunnudagur, 24. september 2006

Allsherjar andleysi

hefur hrjáð mig þessa helgina. Kenni ég þar um kvefinu sem ætlar engan endi að taka. Hálsbólgan er að vísu á undanhaldi en í staðinn er höfuðið á mér stappfullt af hor. Þannig að ég hef ekki verið til stórræðanna en brá á það ráð að reyna að sofa sem mest ef hvíld skyldi vera meðalið sem virkar á þessi ósköp. Fór snemma að sofa bæði föstudags- og laugardagskvöld og svaf lengi frameftir. Er ekki alveg viss um að allur þessi svefn hafi haft þau heilsubætandi áhrif sem honum var ætlaður - finnst ég vera ennþá slappari ef eitthvað er. Vona bara að botninum sé náð því þá hlýtur leiðin að liggja uppávið héðan í frá...

Annars er ég grasekkja þessa dagana því eiginmaðurinn skellti sér til Rússlands í laxveiði, hvorki meira né minna. Þessi ferð hefur verið marga mánuði í undirbúningi og hann var orðinn spenntur eins og smákrakki þegar hann loks lagði af stað. Gaman að þessu!

fimmtudagur, 21. september 2006

Mamma er 80 ára í dag

til hamingju með það mamma mín! Afmælisveislan var reyndar haldin í gærkvöldi og heppnaðist hún afar vel. Þrjár frænkur mínar, þær Sigga, Palla og Bára (bróðurdætur mömmu), voru svo rausnarlegar að gefa henni veisluna í afmælisgjöf og var hún haldin heima hjá Pöllu í Sæviðarsundi. Anna systir kom frá Noregi og Palli bróðir kom frá Danmörku og það var sérlega ánægjulegt að við skyldum vera þarna öll saman komin. Það gerist alltof sjaldan. Í dag hittumst við systkinin svo á Lækjartorgi, röltum uppá Laugaveg og enduðum inni á Te og kaffi þar sem við sátum heillengi og spjölluðum. Á leiðinni tilbaka rak ég augun í jurtaapótekið og rauk þangað inn til að kaupa mér eitthvað gott við hálsbólgunni sem hefur hrjáð mig í hálfan mánuð núna. Er orðin þreytt á "whisky voice", hósta og særindum. Vona bara að þetta virki!

þriðjudagur, 19. september 2006

80 skinkusnúðar

eru afrakstur nokkurra klukkutíma vinnu. Mér líður alla vega eins og ég hafi staðið hálfan daginn í eldhúsinu... Hef ekki bakað skinkusnúða í nokkur ár en dreif í því í dag vegna þess að mér leiddist. Önnur ástæða var sú að Ísak bað mig um að baka svona snúða fyrir einhverjum vikum eða mánuðum síðan (já framtakssemin er mikil á þessu heimili). Og eins og sannri húsmóður sæmir ákvað ég að gera tvöfalda uppskrift, án þess að spá mikið meira í það. Var ekki alveg viðbúin þeirri viðveru við eldhúsbekkinn sem þetta krafðist - en hafði svo sem ekki mikið annað að gera svo þetta slapp nú allt saman.

Á morgun stendur ferð til Reykjavíkur fyrir dyrum. Ég er búin að setja persónulegt met, ég sem fer nánast aldrei suður er að fara mína þriðju ferð síðan í byrjun ágúst!

mánudagur, 18. september 2006

Var að hengja út þvott áðan

í alveg yndislegu veðri. Nema hvað, einhvern veginn tókst mér að missa snjóhvítan stuttermabol niður í iðagrænt grasið, og ótrúlegt en satt þá kom grasgræna í bolinn! Bara við að detta í grasið kom fagurgrænn blettur beint framan á brjóstið. Ég skil ekki hvernig þetta er hægt (en það er nú svo margt sem ég skil ekki).

Talandi um bletti í fötum þá verður spennandi að sjá hvernig Andri kemur útleikinn heim úr skólanum í dag. Ég skildi ekkert í því að hann fór í vinnugallann þegar hann vaknaði í morgun en skýringin er sú að í dag er víst busavígsla. Stóra spurningin er bara hvaða "efni" verða notuð við vígsluna, skyldi það vera skyr eða eitthvað verulega ógeðslegt?

sunnudagur, 17. september 2006

Handbolti

hefur verið þema helgarinnar hér í Vinaminni. Andri var að keppa og til tilbreytingar fór mótið fram hér á Akureyri, nokkuð sem gaf okkur tækifæri til að fylgjast með leikjunum. Það hafði reyndar ekki góð áhrif á röddina í mér sem var nú tæp fyrir. En ég bara get ekki mætt á leiki án þess að hvetja. Í fyrravetur var ekki eitt einasta mót fyrir norðan heldur þurftu strákarnir að fara margsinnis suður til að keppa. Já, svona er að búa úti á landi... Annars hefur Andri hafið nám í þeirri virðulegu menntastofnun MA og fetar þar með í fótspor systur sinnar. Ja og mín líka, nema hvað ég var algjör aumingi og hætti þar námi eftir nokkra mánuði á sínum tíma. Ég treysti því að hann taki ekki upp á slíkum heimskupörum... Annars má segja að líklega hefðum við Valur aldrei hist ef ég hefði ekki hætt í MA svo eiginlega var það bara til góðs þegar upp er staðið. Held að ég láti þetta gott heita í bili, sjáumst síðar.

föstudagur, 15. september 2006

Gömul og ung (eða ung og enn yngri... ;-)


gps&hse, originally uploaded by Guðný Pálína.

Hér má sjá dóttur mína á flugvellinum rétt áður en hún flaug af landi brott til baunaveldis. Þar sem hana er hvorki að finna á msn né skype í augnablikinu brá ég á það ráð að horfa á mynd af henni í staðinn. Að vísu er mamma gamla með á myndinni...

Sundið

var sérlega ljúft í dag, að minnsta kosti framan af. Þegar ég byrjaði að synda reglulega að nýju eftir áratuga hlé velti ég því oft fyrir mér hvað það væru mikil forréttindi. Að geta farið í sund á morgnana fyrir vinnu, sama hvernig sem viðrar, og svo er afslöppunin í heita pottinum á eftir alveg gulls ígildi. Smám saman verður þetta að vana og maður hættir að hugsa um það hvað þetta er frábært allt saman.

En í morgun var alveg sérlega yndislegt að synda. Ég var óvenju seint á ferð og það var verið að kenna þremur bekkjum skólasund, með tilheyrandi hávaða og látum í krökkunum. Sólin skein og ég fann að ég er farin að hressast eftir þessa pesti sem hefur verið að angra mig undanfarið. Að vísu var ég reyndar nærri búin að lenda í árekstri við mann sem synti allt í einu þvert í veg fyrir mig rétt í því andartaki sem ég var að spyrna mér frá bakkanum. Ég þurfti að snarbremsa og hann baðst afsökunar og þá ætlaði ég að segja að þetta væri í góðu lagi en röddin í mér var ekki alveg að hlýða svo það heyrðist bara eitthvað krunk í mér.

Svo kláraði ég dagskammtinn (er núna 750 metrar, var 1000 metrar fyrir veikindin) og fór í pottinn. Sat þar og hlustaði á skvaldrið í krökkunum og horfði á geisla sólarinnar smella léttum kossi á allt sem á vegi þeirra varð þegar ég fann að það byrjaði að leka úr nefinu á mér. Minnug þess að hafa fengið blóðnasir í gær greip ég um nefið á mér og jú jú, það var byrjað að fossa úr því á ný. Dreif mig upp úr pottinum og inn i hús og mætti á leiðinni manninum sem ég hafði nærri klesst á. Hann leit undrandi á mig og spurði hvort ég hefði lent í árekstri við einhvern annan og slasað mig... ég sagði að þetta væru bara saklausar blóðnasir og í þetta sinn heyrðist alla vega hvað ég sagði, hæsin aðeins á undanhaldi.

Þessi friðsæla sundferð endaði með því að ég þurfti að standa heillengi í sturtuklefanum á meðan ég beið eftir því að blóðnasirnar hættu - sem þær gerðu fyrir rest. En ekki áður en kona ein hafði sagt mér söguna af mömmu sinni sem var alltaf að fá blóðnasir og þá kom í ljós að hún var með of háan blóðþrýsting. Ég fullvissaði konuna hins vegar um að ekkert væri að mínum blóðþrýstingi, ég væri bara búin að snýta mér svo mikið undanfarið ...

fimmtudagur, 14. september 2006

Auglýsi hér með eftir húsráðum við hæsi

Er búin að vera svo þegjandi hás síðan í gær að ég get ekki haldið uppi eðlilegum samræðum við fólk. Veit ekki hvort þetta er einhver ábending til mín um að tala minna yfirhöfuð, en mikið óskaplega sem þetta er þreytandi ástand. Var t.d. áðan í klippingu og litun og átti í mestu erfiðleikum með að gera mig skiljanlega við hárgreiðslukonuna. Sem er reyndar vinkona mín og mér þótti enn verra að geta ekki spjallað almennilega við hana. Að svara í símann er hreinasta hörmung og hið sama má segja um að bjóða góðan daginn í verslunum. Ef ég fer í Pollýönnuleik þá dettur mér helst í hug að ég megi vera heppin að vera ekki í vinnu þessa dagana. Það hefði t.d. ekki verið gaman að vera að kenna undir þessum kringumstæðum!

Berjatími


krækiber, originally uploaded by Guðný Pálína.

Af því margir eru að tína ber þessa dagana þykir mér við hæfi að birta hér mynd af krækiberjalyngi. Myndin var að vísu tekin fyrr í sumar, á Seyðisfirði, en þar rákumst við á fullþroskuð aðalbláber og krækiber í lok júlímánuðar.

miðvikudagur, 13. september 2006

Anna systir á afmæli í dag

og fær hér með senda afmæliskveðju alla leið til Noregs :-) Ætlaði nú reyndar að hringja í hana en þá var hún upptekin í hinum símanum - að tala við mömmu... Ég geri aðra tilraun á eftir, en blogga á meðan ég bíð.

Eins og velflestir hafa gert sér grein fyrir eru skólarnir byrjaðir að nýju, með tilheyrandi foreldrafundum og fjöri. Ég mætti á einn slíkan fund nú í vikunni þar sem verið var að kynna skólastarf vetrarins. Þegar leið að lokum fundarins kvaddi ein mamman sér hljóðs og spurði hvernig kennaranum litist á ákveðna kennslubók í stærðfræði. Ég kveikti strax á perunni þegar hún nefndi bókina því kvöldið áður hafði ég setið með sveittan skallann að reyna að aðstoða Ísak við heimanámið.

Áður en lengra er haldið ber þess að geta að Ísak þarf nánast aldrei aðstoð við að læra heima, hann sér alveg um þetta sjálfur. En í þetta sinnið gekk honum illa að kljást vð ákveðið reikningsdæmi þar sem m.a. átti að teikna hring og inn í hann sexhyrning, sem aftur átti að skipta í jafnhliða þríhyrninga, og loks átti að mæla stærð hornanna á þríhyrningunum. Þetta tók nú töluvert á mig enda hefur stærðfræði aldrei verið mín sterka hlið en að lokum var það drengurinn sjálfur sem kláraði dæmið.

Kennarinn kannaðist ekki við að krakkarnir hefðu átt að leysa sérlega flókið dæmi heima og sótti bókina til að athuga hvað málið snérist um. Ekki kannaðist mamman við bókina sem kennarinn kom með og ég sá strax að þetta var ekki bókin sem Ísak hafði verið að læra í. Hann hafði verið með verkefnabók sem tilheyrði þessari og ég sagði kennaranum það. Þá kom upp úr kafinu að strákarnir okkar báðir og einn í viðbót höfðu tekið vitlausa bók með sér heim. Ekki var búið að fara í efnið sem dæmið fjallaði um og þar af leiðandi ekki nema von að þeim gengi illa að leysa það.

Þegar ég áttaði mig á því hvernig í öllu lá og varð hugsað til þess hvað ég eyddi miklum tíma í að klóra mér í höfðinu yfir þessu dæmi, fannst mér þetta allt saman eitthvað svo fyndið að ég sprakk úr hlátri og átti erfitt með að hætta að hlægja. Hinir foreldrarnir horfðu á mig og hafa örugglega ekkert skilið hvað var svona fyndið - enda veit ég það varla sjálf...

þriðjudagur, 12. september 2006

Þegar ég kynntist manninum mínum

var hann sannkallaður skipulagsfíkill hvað snertir ákveðna hluti. Sem dæmi má nefna að þegar hann hafði sótt myndir í framköllun raðaði hann þeim samstundis í albúm og losnaði þannig við vandamál sem margir kannast við. (Vandamálið að sitja uppi með ótal myndabunka og vaxa það svo mikið í augum að raða þeim í albúm að fólk sleppir því frekar). Bræður hans áttu það til að gera grín að honum fyrir þessa skipulagsáráttu en ég held að þeir hafi nú bara öfundað hann ;-)
Nema hvað, ég fór fljótt í sama farið og það var aldrei nein óregla í myndasafninu hjá okkur - fyrr en stafræn myndavél kom á heimilið. Þá voru ekki framkallaðar myndir svo mánuðum/árum skipti og þegar það var loks gert voru framkallaðar nokkur hundruð myndir. Við fengum bara þrjá risastóra bunka í hendurnar og mér féllust hendur þegar að því kom að raða í albúm. Er búin að geyma allt heila klabbið ofan í skúffu í rúmt ár og hef aldrei komið mér að því að raða þeim. Ætlaði svo að byrja núna í kvöld - en aftur féllust mér hendur. Þurfti að sækja tölvuna til að geta sorterað og raðað nokkurn veginn í rétta tímaröð og þegar það var búið nennti ég ekki meiru. Þannig að blessaðar myndirnar eru ekki enn komnar í albúm - og heilt ár sem á eftir að framkalla og raða í albúm... Já, tæknin er til framfara á ýmsum sviðum en ekki öðrum!


miðvikudagur, 6. september 2006

Það er eiginlega stórskrýtið

hvernig ég dett í og úr stuði til að blogga. En ég er sem sagt á lífi ennþá, kvennaklúbburinn gekk vel og svo fór helgin síðasta mestmegnis í að halda áfram að taka til og henda hlutum. Nú er ég að verða búin að fara í gegnum öll herbergi í húsinu og grynnka á þessu endalausa dóti sem vill safnast fyrir í krókum og kimum, engum til gagns. Valur er líka búinn að taka bílskúrinn í gegn og nú á ég bara eftir geymsluna undir stiganum, þá er þetta komið.

Annars er ég heimavinnandi húsmóðir þessa dagana og kann því bara nokkuð vel. Fínt að byrja daginn á því að synda og koma svo heim aftur og fá sér morgunmat og lesa blöðin í rólegheitum. Taka úr uppþvottavélinni, ryksuga, þvo þvott og gera önnur tilfallandi húsverk. Enda hefur húsið sjaldan verið svona fínt hjá mér... Ég er nefnilega ekki beint þessi týpa sem er með allt strokið og hreint alla daga, þannig að þetta er ágætist tilbreyting ;-)