fimmtudagur, 10. nóvember 2011

Enn ekkert pils...

en hins vegar tókst mér nánast verkfræðilegt afrek í kvöld, er ég skipti um rennilás í vinnubuxum sem Andri á. Rennilásinn gamli var orðinn ónýtur, en það gekk nú ekki þrautalaust að ná honum úr, svo vel festur var hann. Þetta hafðist þó allt fyrir rest en líklega var ég 1,5 tíma að þessu. Það rifjaðist upp fyrir mér að sérstakur rennilása-fótur fylgdi með saumavélinni og var ég nú bara nokkuð ánægð með mig að geta græjað þetta sjálf. Já, það þarf stundum ekki mikið til að gleðja mann.

Annars er bara endalaust fjör í vinnunni við að taka upp vörur. Þrátt fyrir miklar yfirlýsingar um leti hér á blogginu í gær, fór ég niður í vinnu í klukkutíma fyrir kvöldmat og lagaði til á lagernum. Mætti svo líka fyrr í morgun og hélt áfram að hagræða hlutum. Enda kom í ljós að ekki veitti af, þegar Pósturinn mætti með 2 stór vörubretti og svo marga kassa að ég nennti ekki einu sinni að telja þá. Til að kóróna ástandið sótti Sunna svo líka vörur á leiðinni í vinnuna í dag, þannig að það er hreinlega allt á floti í vörum hjá okkur. Lagerinn er svo lítill og það er heldur ekki pláss í búðinni fyrir þetta allt saman. Eins gott að nú taki jólaverslunin góðan kipp um helgina :-)

Engin ummæli: