miðvikudagur, 2. nóvember 2011

Eins og pendúll

Já ég held áfram að sveiflast milli hláturs og gráturs (orku og þreytu). Í heildina séð hef ég samt verið miklu betri á ýmsan hátt eftir að ég breytti mataræðinu, þó vissulega sé leiðin stórgrýtt. En það koma dagar sem ég er ótrúlega góð í rauninni og svo aðrir dagar þar sem þreytan hefur yfirhöndina, eins og í dag. En ég vaknaði líka klukkan sex í morgun og sofnaði seint, svo það skýrir ástandið að hluta til.

Ísak er farinn á Hólavatn með bekknum sínum. Þau eru ca. einn sólarhring í ferðinni og markmiðið er að þjappa þeim betur saman og efla hópinn, ef ég hef skilið það rétt.

Andri vinnur 10 tíma á dag núna. Hann var svo heppinn að fá vinnu hjá SS Byggi og er að vinna við Naustaskóla.

Allt gengur sinn vanagang hjá eiginmanninum og hann heldur áfram að sjá til þess að við hin fáum mat á diskana okkar á kvöldin. Bæði með því að vinna fyrir matnum og eins með því að elda hann. Nú þarf hann oft að elda tvöfalt því ég er jú stundum að borða allt annað heldur en karlpeningurinn. Í gær fengu þeir sér t.d. kjúklingavefjur en ég borðaði lambakótilettur. Svo þarf ég alltaf að fá öðruvísi meðlæti heldur en þeir, af því ég borða ekki hrísgrjón, pasta né kartöflur. Í dag fæ ég spergilkál en þeir hrísgrjón með heimagerðu fiskibollunum.

Brjálaða Birta var skárri af athyglissýkinni um hríð, en er eiginlega að versna aftur. Hún á það til að arka eirðarlaus um húsið og mjálma og mjálma, og þagnar þá bara ef einhver aumkar sig yfir hana og fer að klappa og/eða klóra henni.

Þetta voru ekki-fréttir dagsins í boði Guðnýjar.

Engin ummæli: