mánudagur, 5. desember 2011

Að fara öfugu megin framúr

Sumir dagar byrja eitthvað svo öfugsnúnir, þó svo ekkert hafi í raun gerst til að réttlæta það, nema einhverjar vitlausar hugsanir. Í dag var þannig dagur hjá mér. Ég hafði ætlað að fara snemma að sofa í gærkvöldi en var eitthvað svo upprifin þó þreytt væri og sofnaði ekki fyrr en undir miðnætti. Þá hugsaði ég með mér að ég skyldi bara sofa aðeins lengur í dag en stillti samt klukkuna á rúmlega hálf átta til að fylgjast með því að Ísak myndi örugglega vakna í skólann. Sem hann gerir yfirleitt en í dag var hann steinsofandi þegar ég leit inn til hans. Klukkan hafði hringt, hann hafði kveikt ljósið og síðan sofnað aftur.

Eftir að hafa ýtt við Ísaki fór ég aftur inn í rúm og ætlaði að halda áfram að sofa. Svo heyrði ég að hann var með endalaust hóstakjöltur og þá fór ég að hafa samviskubit yfir því að bjóðast ekki til að skutla honum í skólann því það er ansi kalt úti í dag. Samt fór ég ekki á fætur, til þess var rúmið of heitt og notalegt og ég of þreytt og fúl. Svo hringdi síminn og ég heyrði að hann talaði við einhvern en síminn var greinilega ekki til mín, þannig að ég lá sem fastast. Eftir smá stund kom Ísak svo og spurði hvort ég vissi pin númerið á gsm símanum pabba síns. Hann hefði hringt og beðið Ísak að taka símann uppúr skúffunni. Ég sagði nei og skildi ekkert um hvað málið snérist. Ekki dugði þessi ráðgáta þó til að draga mig upp úr rúminu. Svo fór Ísak í skólann en eftir lá ég, glaðvakandi og komin í frekar vont skap yfir því að hafa ekki getað sofið lengur. Fór að rifja upp að það eru skil á virðisaukaskatti í dag og ég er búin að færa allar færslurnar en það var eitt mál sem ég þurfti að kanna nánar áður en hægt er að skila. Þar að auki voru allt í einu komnar einhverjar sölufærslur með 24,5% vsk um daginn, en þar sem vaskurinn á að vera 25,5% mun ég þurfa að leiðrétta þetta, og man ekki í augnablikinu hvernig á að gera það.

Þegar hér var komið sögu sá ég að ekki myndi mér nú takast að sofa meira og best væri að drattast á fætur. Sem ég er að fara fram úr rúminu heyri ég umgang í forstofunni og kalla fram en fæ ekkert svar. Heyri útihurðina lokast og fer fram og sé að Valur er að ganga niður útitröppurnar. Ég átta mig þá samstundis á síma-ráðgátunni, því hann er jú á vakt í dag og hefur greinilega gleymt vaktsímanum heima. Valur gengur í vinnuna þegar of mikill snjór og hálka er til að hjóla, og nú hafði hann sem sagt gengið heim til að sækja símann. Ég kallaði í hann að ég skyldi keyra hann aftur niður í vinnu, en það vildi hann ekki. Hefur ábyggilega ekki viljað gera mér rúmrusk þegar hann talaði við Ísak og svo vildi hann sem sagt ekki draga mig út á náttfötunum til að skutla sér í vinnuna aftur. Sem var vel meint af hans hálfu en mér hefði liðið betur ef ég hefði fengið að skutla honum. Það hefði kannski getað gefið mér þá sýn á sjálfa mig að ég væri nú ágætis manneskja, þrátt fyrir allt, þó ekki hafi ég boðist til að skutla hóstandi syninum í skólann í frostinu...

Þannig var nú það. Sem betur fer er leikfimi núna á eftir og ég bind vonir við að hún dugi til að hressa mig við, bæði andlega og líkamlega.

Engin ummæli: