mánudagur, 31. mars 2008

fimmtudagur, 27. mars 2008

Snilldarvefsíða

Eitt af því sem vefst oft mikið fyrir fólki er að ákveða hvað á að vera í matinn hverju sinni. Það getur beinlínis verið streituvaldandi - eða dregur a.m.k. ekki úr streitu - að vita að það á eftir að ákveða með kvöldmatinn. Minnsta málið er að kaupa inn og elda sjálfan matinn (segi ég... auðvelt fyrir mig að segja þetta þar sem Valur eldar). En á einhverju vafri mínu um bloggheima datt ég niður á snilldarvefsíðu þar sem hægt er að velja hversu oft í mánuði maður vill borða ákveðnar matartegundir og svo er forrit sem setur saman matseðil mánuðarins í framhaldinu og kemur með uppskriftir að réttunum. Hægt er að biðja um uppástungur að öðrum réttum ef manni líst ekki á það sem í boði er þann daginn. Á síðunni eru líka upplýsingar um tilboð verslana hverju sinni og uppástungur að rétti dagsins. Mæli með þessu!

mánudagur, 24. mars 2008

Smá sjálfsvorkunn í gangi

Mér er ekki að batna jafn hratt í bakinu og ég sjálf hefði helst viljað - og ég viðurkenni að ég er orðin svolítið leið á þessu ástandi. Skrýtið annars hvað frídagar geta verið misjafnir. Það er eins og ég fái ekki notið þess á sama hátt að vera í jóla- og páskafríi eins og sumarfríi. Um jól og páska er ég einhvern veginn bara að bíða eftir því að fara að vinna aftur og geri lítið af viti en á sumrin nýt ég þess miklu betur að vera í fríi. Hvernig skyldi standa á þessu?

sunnudagur, 23. mars 2008

Fröken skökk og skæld

fer víst ekki meira á skíði þessa páskana, því miður. Geri lítið annað en borða á mig gat af góðum mat eiginmannsins og hreyfa mig á milli herbergja. Fór reyndar í sund í gær og skrapp í Nettó og Hagkaup en var líka alveg búin í bakinu á eftir. Til að kóróna ástandið þá fara allir vöðvar og vöðvafestur í bakinu í skrall því ég hreyfi mig svo vitlaust og bæta þannig á hina verkina útfrá mjóbakinu. En þetta lagast víst allt á nokkrum dögum og til lítils að detta í sjálfsvorkunn.

Hér er áfram sama blíðan og hægt að gleðjast yfir því. Það er gaman fyrir Gunnu og Matta (tengdó) að fá svona gott veður þó þau fari kannski ekki mikið út enda heilsan svolítið farin að gefa sig hjá þeim. En það er þó alltaf hægt að bjóða þeim í bíltúr - kannski einn hring fram í fjörð - ætli það verði ekki dagskrá dagsins í dag í stórum dráttum.

Jamm og jæja, læt þetta gott heita í bili, páskakveðjur til allra nær og fjær með sérstakri áherslu á ættingja í Reykjanesbæ, Danmörku og Noregi :-)

föstudagur, 21. mars 2008

Enn meiri skíðafréttir


Herra Halur og frú tóku daginn nokkuð snemma og skelltu sér í fjallið. Átti Halur vart til orð, svo mikil breyting fannst honum hafa orðið á skíðastíl frúarinnar á nýju skíðunum. Í gleðivímu var ákveðið að prófa eina ferð upp í Strýtu en þangað hafði frúin ekki komið í ca 20 ár. Ekki vildi þó betur til en svo að þegar hún var að fara úr lyftunni fataðist henni flugið og datt á rassinn. Við þetta litla fall fékk hún hnykk á bakið og því fékk skíðaferðin fremur snöggan endi. Á sama tíma var reyndar að verða ólíft í brekkunum fyrir fólki svo það var eiginlega sjálfhætt. En hér má sjá Hal og frú í skíða"gírnum".
Annars eru tengdaforeldrarnir að koma í heimsókn og verða hjá okkur yfir páskana og það er gaman að því. Ég var að baka speltbrauð í fyrsta sinn og ilminn leggur um húsið. Vonandi bragðast það jafn vel!

þriðjudagur, 18. mars 2008

Búin að prófa skíðin og þau eru rosafín

Þar sem ég átti ekki að fara að vinna fyrr en klukkan tvö í dag ákvað ég að athuga hvort ein vinkona mín vildi koma í fjallið snemma. Hún er nýbúin að fá skíðakennslu og kennarinn hafði sagt við hana að nú yrði hún að vera dugleg að æfa sig, þannig að það var tilvalið að bjóða henni með.

Við vorum komnar uppeftir um tíuleytið en svo tók smá tíma að klæða sig í skóna og Hafdís þurfti að standa heillengi í biðröð til að kaupa kort. Það er svo heppilegt að ég er með árskort (sem Valur keypti handa mér) og þá þarf maður ekki að vesenast í því að kaupa aðgang í hvert sinn sem maður ætlar á skíði. Það verður mun fýsilegra að skreppa uppeftir í einn til tvo tíma þegar maður er laus við biðröðina fyrir frman sölubásinn.

Fyrst fannst mér nú voða skrítið að vera á nýjum skíðum en eftir nokkar ferðir hafði ég vanist þeim og er ekki frá því að þau séu töluvert mikið betri en þau gömlu. Spurning hvort ég fari ekki bara bráðum að hætta mér upp í Strýtu...

Tíminn var fljótur að líða í glampandi sólskini og besta færi sem hægt er að hugsa sér og um eittleytið þurftum við að halda heim á leið svo ég gæti undirbúið mig fyrir vinnuna. Var líka orðin glorhungruð eftir alla útiveruna. Sit svo hér í vinnunni og verkjar í fæturnar eftir skíðin - en það er nú allt í lagi :-)

mánudagur, 17. mars 2008

Páskaveður

Já, þessa dagana er sannkallað páskaveður hér í höfuðstað Norðurlands og ekki annað hægt en vera glaður með það. Ég afrekaði meira að segja að fara á skíði bæði laugardag og sunnudag og það er sannkölluð vítamínsprauta að vera í Fjallinu og finna sólina ylja sér í framan. Í gær gleymdi ég að fara í ullarsokka og fann áþreifanlega það sem mig grunaði áður, að skíðaskórnir mínir eru alltof stórir. Ég rann til ofan í þeim og fylltist óöryggi á skíðunum. Valur var að horfa á mig skíða og fór að spá í að líklega væri ég á of löngum skíðum og þungum, þannig að við skelltum okkur til Vidda í Skíðaþjónustunni og skoðuðum ný skíði og skó. Því miður voru ekki til neinir passlegir skór (ég verð bara að vera í þykkum sokkum og troða bómull í tána...) en skíði fékk ég. Nú verður spennandi að prófa nýju skíðin í næstu ferð í Fjallið.

föstudagur, 14. mars 2008

5 pítsur, 4 kassar af ostabrauðstöngum, 6 lítrar af gosi og 13 íspinnar

hurfu ofan í svanga afmælisgesti núna í kvöld. Afmælisbarnið er hann Ísak, sem er 13 ára í dag. Annars er ekki orðið mikið mál að halda afmælisveislu fyrir strák á þessum aldri, það eina sem krefst einhverrar vinnu er að deila út pítsunum, að öðru leyti sjá þeir um sig sjálfir. Eftir að hafa horft á videomynd eru þeir farnir út að leika sér enda mikið sport að mega núna vera úti til klukkan tíu á kvöldin.

Á meðan strákarnir horfðu á myndina stóð ég í hálfgerðum stórræðum. Á tíu mínútum bókaði ég flug fyrir mömmu til Noregs (í fermingu Sigurðar sonar Önnu systur 3. maí) og flug fyrir tengdaforeldra mína hingað norður um páskana. Áður hafði ég bókað flug fyrir sjálfa mig til Oslóar. Svo er bara að vona að ég hafi gert allt rétt ;-) Nú er ég búin að tékka á því, allt saman rétt!

Kona sem ég þekki lenti í því um daginn að dóttir hennar var að panta fyrir hana flug suður og snéri óvart við flugleiðinni, þ.e. pantaði flug frá Reykjavík til Akureyrar en ekki öfugt. Þegar blessuð konan mætti í flugstöðina skildi hún ekkert í því hvað fáir voru að fara í flug en ætlaði samt ekki að trúa því að engin flugvél væri að fara suður á þessum tíma. Því miður var allt upppantað í næstu vél svo ekki komst hún til Reykjavíkur þann daginn. Þannig fór um sjóferð þá.

sunnudagur, 9. mars 2008

Erfitt líf þetta kattalíf...

Þau gera lítið annað þessa dagana en sofa, éta og rölta á milli herbergja. Hm, og skyggja á tölvuskjáinn fyrir mér (það er Máni sem sér um þá deildina "as we speak"). Ég hef ekki haft það jafn náðugt og kettirnir þessa helgina. Yngriflokkaráð KA hélt Greifamótið í knattspyrnu frá föstudegi til sunnudags og eins og alltaf þá eru það foreldrarnir sem draga vagninn í sjálfboðavinnu. Í gær og í dag sá ég um að gefa hungruðum fótboltadrengjum hádegismat og eftir matinn í dag þurfti líka að ganga frá og þrífa svo starfsfólk Glerárskóla kæmi að öllu hreinu og fínu þegar það mætir til vinnu á morgun. Ég tel það reyndar ekkert eftir mér að taka þátt í þessu og það er voða gaman að umgangast þessa prúðu og flottu stráka sem voru á mótinu.

Seinnipartinn á föstudag var formleg opnun Læknastofa Akureyrar og þangað mætti ég að sjálfsögðu til að samgleðjast eiginmanninum og hans samstarfsfólki. Þar hitti ég líka Friðu maraþonhlaupara og bloggara og hafði gaman af. Til að kóróna annasama helgi fórum við Valur svo í bíó í kvöld og nú verð ég að viðurkenna að ég hlakka ógurlega til að komast í háttinn - held barasta að ég láti þetta gott heita og fari að bursta tennurnar ;-)

fimmtudagur, 6. mars 2008

Fyrrum leiksvæði krakkanna í hverfinu


Blokkir við Mýrarveg, originally uploaded by Guðný Pálína.

Ég fór með vasamyndavél í göngutúr um daginn. Birtan var svolítið erfið, það var að byrja að skyggja og fæstar myndirnar urðu í fókus. Það var eins og vélin réði ekki almennilega við þessi skilyrði. Held samt að þessi mynd sé svona nokkurn veginn í fókus...

En sem sagt, á þessu svæði lékum við okkur oft sem börn, vinsælt var að renna sér á snjóþotum og jafnvel fara á skauta þegar mýrina fraus á vetrum. Ég er samt alveg sérlega "minnislaus" þegar kemur að ýmsum æskuminningum og ég er viss um að hún systir mín man þetta miklu betur en ég. Hvað var t.d. brekkan kölluð þar sem við renndum okkur mest?

P.S. Það var ekki mikil hrifning meðal nágrannanna þegar ákveðið var að byggja þessar blokkir á sínum tíma en ég hef a.m.k. heyrt að íbúarnir séu mjög ánægðir. Reyndar vantar fjórðu blokkina á þessa mynd, hún er nyrst, græn á litinn.

mánudagur, 3. mars 2008

Fyndið

hvað maður verður háður þeim tækjum og tólum sem maður hefur í krinum sig. Heimatölvan mín var orðin eitthvað leiðinleg og Valur fór með hana í viðgerð fyrir sléttri viku síðan. Fyrstu dagana saknaði ég tölvunnar svo sem ekkert ógurlega en svo fann ég hvað ég nota hana í raun mikið. Kíki t.d. á póstinn minn á hverjum degi, blogga og les blogg, set myndir inn á tölvuna sem ég hef tekið og vinn í bókhaldinu. Og nú finnst mér orðið tímabært að fara að fá tölvuna MÍNA aftur. Ég kemst auðvitað í tölvu í vinnunni og heima kemst ég í tölvurnar þeirra Vals og Andra - en það er bara ekki það sama...