miðvikudagur, 31. október 2007

Það ætlar að ganga erfiðlega að ná hinum fullkomna espresso

Við erum sem sagt farnar að selja espresso-kaffivélar í Pottum og prikum, og ég er að reyna að ná upp einhverri hæfni í að hella uppá gott kaffi. Það gengur misvel, svo ekki sé meira sagt. Alltaf þegar ég held að nú sé ég orðin útlærð í þessu, hef sem sagt náð einum virkilega góðum bolla, þá mistekst næsta uppáhelling... Ég drekk nú eiginlega ekki kaffi en hvað leggur maður ekki á sig fyrir bisnessinn ;-)

þriðjudagur, 30. október 2007

Það biðu örugglega 50 bílar

fyrir utan dekkjaverkstæðið þegar ég kom keyrandi á sumardekkjunum í fljúgandi hálku. Ég gat ekki séð að það væri neins staðar laust pláss fyrir einn bíl í viðbót og ákvað að bíllinn minn gæti alveg eins staðið áfram í bílskúrnum heima eins og í þessari kös. Til að nýta ferðina skrapp ég í Sportver og keypti vettlinga á Ísak og rölti inn í Nettó í leiðinni. Tók bara litla körfu af því ég ætlaði ekki að gera nein stórinnkaup en alltaf bættist meira og meira í körfuna því ég mundi alltaf eftir einhverju fleiru sem vantaði. Þegar ég var svo að seta vörurnar í ísskápinn heima velti ég um koll safafernu sem stóð þar opin, og það sullaðist ávaxtasafi út um allt. Skemmtilegt!

Var bara alein í sundlauginni um tíma í morgun

Það hefur orðið einhver breyting á bæði fólki og tímasetningum frá því í fyrravetur og einhvern veginn annar rytmi í þessu öllu saman. Sumar konurnar sem ég voru á sama tíma og ég í búningsklefanum eru farnar að mæta fyrr, aðrar seinna og enn aðrar hættar að mæta. En sundið sem slíkt stendur alltaf fyrir sínu, þrátt fyrir bólgið hné og aðra annmarka mína. Svo þegar ég kem heim þá er mér fagnað af köttunum sem eru hálfpartinn lagstir í hýði enda veturinn að skella á af alvöru. Stundum vildi ég óska að ég gæti lagst í hýði yfir veturinn, mér finnst myrkrið svo leiðinlegt (ég fyllist alltaf hálfgerðum kvíða á haustin þegar fer að dimma, eins fáránlegt og það er). Þyrfti að breyta hugarfarinu gagnvart myrkrinu. Gera eins og allir hinir, kveikja á kertum og njóta skammdegisins (held nú samt að ég þurfi að taka mig verulega mikið á til að það verði að veruleika). Jamm og jæja, maður lifir þetta víst allt saman af og fyrr en varir verða komin jól, svo páskar og svo vorar á ný :-)

mánudagur, 29. október 2007

Haust í Berlín - Vetur á Akureyri

Það var mjög fínt í Berlín, við gistum á virkilega góðu hóteli og ekki spillti fyrir að það var mjög vel staðsett. Veðrið var milt haustveður, ca 8-10 gráður en sólin lét ekki sjá sig (manni varð þó hvorki of heitt né of kalt) og við röltum um borgina, sátum á kaffihúsum, fórum þrisvar út að borða, kíktum í búðir (2 peysur voru nú allur afraksturinn hjá mér) og (einhverra hluta vegna) aðeins á eitt einasta safn, DDR safnið sem greinir frá lífi fólks í Austur-Þýskalandi fyrir fall múrsins, og var afar fróðlegt að sjá. Eitthvað hljótum við að hafa gert fleira sem ég man ekki í augnablikinu, en aðaltilgangi ferðarinnar (sem var að hafa það gaman saman, slappa af og fá smá upplyftingu í hverdaginn) var að minnsta kosti náð :-)

þriðjudagur, 23. október 2007

Fjör, fjör og aftur fjör

Við Valur erum að fara suður seinni partinn á morgun og til Berlínar snemma á fimmtudagsmorguninn. Eins og það sé ekki nógu spennandi eitt og sér, þá er Ísak búinn að æla þrisvar núna í kvöld og stóra spurningin hvort þetta er eitthvað tilfallandi eða meiriháttar æluveiki. Í viðbót þá er ég með bólgið hægra hné en eins og allir vita þá fer maður ekki í borgarferð nema vel skóaður og helst með heila limi því mikið er gengið. Annað mál er einnig í deiglunni núna sem ekki er hægt að ræða um á blogginu (að svo stöddu) sem veldur töluverðri streitu þessa dagana, svo það er sem sagt mikið fjör. Verður maður ekki bara að trúa því að allt fari á besta veg?

mánudagur, 22. október 2007

Litadýrð á himni


Litadýrð á himni, originally uploaded by Guðný Pálína.

Það má eiginlega segja að himininn hafi staðið í ljósum logum seinni part laugardagsins. Samspil vindsins, skýjanna og sólarinnar sem var að setjast bjó til hinar ótrúlegustu myndir sem breyttust í sífellu. Hér er aðeins eitt sýnishorn. Líklega hefði ég þurft að vera með þrífót til að geta gert þessu almennileg skil.

laugardagur, 20. október 2007

Þegar unglingurinn var spurður

hvort hann væri búinn að laga til í herberginu sínu, svaraði hann: "svona 70%". Þetta svar kom í kjölfarið af nýrri reglu sem mamman á heimilinu kynnti til sögunnar í dag, að á laugardögum skyldi lagað til... Já, og vel að merkja var unglingurinn kominn út á tröppur, á leið út í bíl, þegar hann var spurður þessarar spurningar. Þegar mamman situr svo í herberginu hans og er að blogga, lítur hún í kringum sig og hennar mat á tiltektinni er að hann hafi lagað til ca. 60%. Það fer víst ætíð eftir sjónarhorninu hverju sinni fólk metur hlutina... :-)

fimmtudagur, 18. október 2007

Er hálf "lost" eitthvað í dag

Hvort sem það er vegna síðbúinnar þreytu eftir sýninguna, eða bara vegna þess að ég byrjaði ekki daginn á því að fara í sund eins og venjulega. Ísak var að fara í samræmt próf, þurfti þess vegna ekki að vakna fyrr en klukkan átta og ég ákvað að láta það eftir mér að sofa aðeins lengur fyrir vikið. Vaknaði samt fyrir sjö þegar klukkan hringdi hjá Val og gat ekkert sofnað aftur. Eftir að Ísak var farinn í skólann væflaðist ég um húsið og kom mér ekki að því að gera neitt gáfulegt. Las blöðin og hékk í tölvunni en svo um tíuleytið bað menntaskólaneminn mig að skutla sér í skólann og þá fór ég út í Kjarnaskóg og gekk rösklega einn hring. En ekki dugði það nú til að koma blóðinu í mér almennilega á hreyfingu og ekki hafði ég orku til að gera fleira af viti. Tja, nema þvo eina vél af þvotti. Nú styttist hins vegar í að ég þurfi að fara að vinna þannig að það er eins gott að fara að taka sig saman í andlitinu.

Það styttist líka í Berlínarferðina, ein vika til stefnu. Það verður gaman að bregða sér út fyrir landsteinana enda erum við að fara með skemmtilegu fólki. Bara stór galli að búa úti á landi og þurfa alltaf að bæta ferðum til og frá Reykjavík við ferðalagið.

þriðjudagur, 16. október 2007

Þá er sýningin afstaðin og allt gekk vel

Það var mikið fjör á sýningunni og alveg ný upplifun fyrir mig að taka þátt í svona viðburði. Ég hafði haft áhyggjur af því fyrirfram að við þyrftum að "veiða" fólk inn í básinn til okkar en það var nú aldeilis ekki raunin. Fólk hafði mikinn áhuga á að skoða vörurnar og við komumst ekki einu sinni í pásu þessa 6 tíma sem sýningin var opin bæði laugardag og sunnudag. En það var bara ánægjulegt og ég fann ekki fyrir þreytu þrátt fyrir loftleysi, hita og hávaða (tja ekki fyrr en í gær og í dag... ).

Annars er hálf leiðinlegt veður, kalt og snjóföl á jörðu í morgun með tilheyrandi hálku. Tvær konur í sundi voru að tala um það að Akureyringar kynnu þó allavega að keyra í hálku (þ.e. aka hægt) og höfðu greinilega samanburðu úr höfuðborginni. Ég sem sagt syndi enn á morgnana en minna hefur farið fyrir þeim áætlunum mínum að fara líka í ræktina. Veit ekki alveg hvað ég á að gera í því máli.

Gengur hins vegar bara furðu vel að sleppa sykri og hvítu hveiti úr mataræðinu og er duglegri að borða ávexti og grænmeti. Það kemur reyndar ennþá yfir mig alveg skelfileg löngun í sykur þegar ég er þreytt eða stressuð en í gær uppgötvaði ég þurrkaðar apríkósur sem eru mjög sætar á bragðið en hafa bara blóðsykurstuðul uppá 43 (minnir mig) og hækkar því ekki blóðsykurinn hratt eins og hvítur sykur gerir.

föstudagur, 12. október 2007

Sykurfíknin lætur á sér kræla

þessa dagana. Það er afskaplega slæmur ávani að vera sífellt að narta í eitthvað sætt þegar maður er þreyttur eða stressaður - en einmitt þennan ávana hef ég. Í dag uppfylli ég bæði þreytu og streitu skilyrðin (auk PMS) og hef átt ansi erfitt með mig. Hnetu- og rúsínublanda sem ég fann í búrinu hefur bjargað mér í bili, held hins vegar að ég hafi borðað yfir mig af þessu góðgæti, er hálf ómótt eitthvað...

Matur-inn 2007 um helgina

Já, okkur Sunnu leiðist ekki, afmælisveisla um síðustu helgi og þátttaka í sýningu þessa helgi. Það er sem sagt sýning í Verkemenntaskólanum sem félagið Matur úr héraði stendur fyrir. Okkur var boðið að taka þátt og það var varla hægt að segja nei við tilboði um að kynna Potta og prik fyrir þúsundum gesta :-) En það er heilmikil vinna sem fylgir þessu, bara það að ákveða hvaða vörur við ætluðum að vera með og panta þær tók ótrúlega mikinn tíma. Svo þurfum við að reyna að gera básinn okkar fallegan í dag og raða í hann í fyrramálið áður en sýningin hefst klukkan ellefu. Hún er opin frá 11-17 bæði laugardag og sunnudag og ég hugsa að ég verði mjög fegin á sunnudagskvöldið þegar þessu lýkur. En þetta verður örugglega mjög gaman.

laugardagur, 6. október 2007

Vel heppnuð afmælisveisla

Við ætluðum að hafa opið frá 11-16 í Pottum og prikum í dag, og mættum við Sunna klukkan hálf ellefu til að hella uppá kaffi og gera klárt. Við vorum hins vegar varla komnar inn úr dyrunum en það byrjaði fólk að streyma inn og þar af leiðandi varð smá seinkunn á veitingunum því við komumst hreinlega ekki til að hella uppá og sækja afmælistertuna í Bakaríið við brúna. En það hafðist nú á endanum og það var stöðugur straumur fólks í búðina fram til hálf fimm. Mikið af nýjum viðskiptavinum líka, svo það var nú aldeilis gaman að því. Og allir kátir og glaðir og við Sunna að sjálfsögðu einnig. Valur leit við og hjálpaði okkur að kynna nýju kaffivélarnar sem við erum að byrja að selja (frá Kaffiboði við Barónsstíg) og Kiddi kom brunandi með tertuspaða sem okkur hafði báðum tekist að gleyma heima... Í kvöld fórum við fjölskyldan svo út að borða á Strikið, höfðum ekki komið þangað síðan staðurinn hét Fiðlarinn, og það kom ánægjulega á óvart. Sem sagt, hinn besti dagur að kvöldi kominn og framundan að horfa á eins og eina James Bond mynd í heimabíóinu í kjallaranum :-)

miðvikudagur, 3. október 2007

Reynitrén eru svo falleg á þessum tíma árs,


Reyniber, originally uploaded by Guðný Pálína.

eru reyndar orðin enn fallegri síðan þessi mynd var tekin, en hér voru jú berin í aðalhlutverki. Það er búið að vera yndislegt haustveður hér í dag og í gær, alveg eins og maður vill hafa það.

Annars er ekki mikið að frétta... ég keypti mér nýjan sundbol um daginn sem reyndist of stuttur á mig þegar til kom - spælandi .... og svo er afmælisveisla hjá Pottum og prikum á laugardaginn. Vonandi kíkja sem flestir í kaffi til okkar, verðum með opið frá 11-16 :-)

mánudagur, 1. október 2007

Pottar og prik 1. árs í dag

Já hugsa sér, eitt ár er liðið frá því við Sunna gerðumst verslunareigendur, mikið sem tíminn flýgur. Þetta hefur bara verið hinn skemmtilegasti tími og allt gengið vel, bæði samstarf okkar Sunnu og svo hafa viðskiptavinirnir tekið okkur vel og verið jákvæðir út í vörurnar sem við erum að selja. Nú er bara að halda áfram að vaxa og dafna :-)