laugardagur, 3. desember 2011

Sofnaði ekki á tónleikunum

... en það munaði ekki miklu. Við sátum á 3ja bekk og fengum því söng og píanóleik nánast beint í æð. Það var gaman að geta fylgst náið með svipbrigðum þeirra Kristins og Víkings Heiðars, og þannig lagað séð var gaman að sitja svona framarlega. Það er þó ábyggilega betra að sitja á 4-5 bekk, vegna þess að þá er maður í svipaðri hæð og sviðið. Mér finnst eiginlega að enginn ætti að þurfa að sitja á 1-2 bekk því þá fær maður nú bara hálsríg af að horfa uppá sviðið fyrir framan sig. Eiginlega hönnunargalli.

En svo ég víki nú sögunni aftur að tónleikunum sjálfum þá var gaman hvað þeir tveir eru miklar andstæður í útliti. Þrjátíu og fimm ár skilja þá að í aldri og á meðan Víkingur Heiðar er fremur smávaxinn og nettur, er Kristinn þrekinn og stórbeinóttur.  Sá yngri var í aðsniðnum jakkafötum með bindi, gleraugu með dökkri umgjörð og hárið klippt þannig að toppurinn slúttir fram þegar hann hallar sér fram og spilar af ástríðu á píanóið. Sá eldri var í svörtum jakkafötum sem pössuðu honum ekkert alltof vel. Þau voru víð og nokkuð farin að láta á sjá. Innan undir var hann í smókingskyrtu en án hálstaus, sem gaf léttara yfirbragð. En þrátt fyrir ólíkt yfirbragð var samvinnan milli þeirra fumlaus og virðing ríkti greinilega af beggja hálfu fyrir hinum aðilanum. Söngurinn var frábær, Kristinn fór létt með bæði hæstu og lægstu tóna og söng af mikilli tilfinningu. Hið sama má segja um píanóleikinn, alveg fyrsta flokks og vel það.Það eina sem var að trufla mig var lýsingin. Salurinn sjálfur var myrkvaður en sviðið vel uppljómað og birtan af sviðinu skar mig dálítið í augun. Sennilega af því ég var þreytt. Lausnin var að loka augunum og sitja bara og hlusta með lokuð augu. Sem var afskaplega notalegt, en leiddi til þess að í rólegustu köflunum var ég hreinlega alveg að sofna. Úff, það slapp nú samt fyrir horn. En um leið og heim var komið var sófinn í stofunni skyndilega orðinn minn besti vinur og þar lá ég fram að kvöldmat.

Eftir kvöldmat var ég áfram þreytt og pínu pirruð. Aðallega pirruð yfir því að vera svona þreytt og svo langaði mig út að taka myndir. Það jók eiginlega á pirringinn því ef ég ætlaði út að taka myndir, þá vissi ég að ég þyrfti að nota þrífótinn og taka myndir á tíma. Sem ég geri aldrei! Einhverra hluta vegna þá finnst mér þrífótur hefta mig svo mikið. Það á ekki við mig að standa kyrr á sama stað og láta stöðuna á þrífætinum ráða sjónarhorninu á myndefnið. Ég vil helst vera á röltinu og beygja mig niður eftir þörfum. Vissulega er jú hægt að ganga með þrífótinn með sér, hann er léttur, en ég er svo mikill klaufi við að stilla lappirnar á honum rétt. Svo er myndavélin orðin pikkföst ofan á honum og ef ég vil taka mynd sem er lóðrétt þá þarf enn að breyta stillingu á þrífætinum. Allt hægt samt ef viljinn er fyrir hendi.

Ég ákvað að mér myndi líða svona þúsund sinnum betur andlega ef ég sigraðist á þreytu og ótta við þrífótinn og drifi mig út. Svo við Valur skelltum okkur í kuldagallann og brunuðum af stað. Fyrst vorum við niðri við Bílasölu Höldurs, en þar höfðum við séð nokkuð skemmtilegt myndefni fyrr um dagin. En ég varð fljótt leið þar og Valur hafði þá hugmynd að fara í kirkjugarðinn. Þar voru mikil rólegheit, allt svo undrakyrrt og næg myndefni. Ég sá fljótt að ég hafði heldur betur miklað of mikið fyrir mér að taka myndir á tíma, þetta var afskaplega einfalt. Í myrkrinu í gær kom best út að taka myndir á sem lengstum tíma, eða 30 sek. Það sem reyndist erfiðast var að standa svona mikið kyrr, enda var 6-7 gráðu frost úti. En við áttum virkilega notalega stund saman þarna í kirkjugarðinum hjónin :-)

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Einstaka sinnum telur Halur sig heyra hinn hreina tón, það var á tónleikum þessum.

Guðný Pálína sagði...

Hinn hreina tón já :) Þetta voru flottir tónleikar, við verðurm að skoða hvaða fleiri tónleika við getum farið á núna í desember :)