laugardagur, 26. nóvember 2011

Frú Guðný á margt eftir ólært í saumaskap

Það þýðir greinilega ekkert að ætla sér að lifa á fornri frægð þegar kemur að saumaskap. Þó frú Guðný hafi saumað ýmislegt hérna í den, þá er ekki sjálfgefið að allt lukkist hjá henni í dag, eftir 20 ára hlé. Þessi staðreynd blasir nú við frúnni, eftir að hafa reynt að sníða langerma bol, sem mistókst svona hrapallega. Hún fylgdi sniði og upplýsingum um mál á sniðinu. Þar var raunar tekið fram að sniðið væri mun minna en eðlilegt gæti talist vegna þess að ætlast væri til að saumað væri úr mjög teygjanlegu efni. Frú Guðný var alveg með teygjanlegt efni - en greinilega ekki nógu teygjanlegt! Og ekki datt nú frúnni í hug að máta sniðið við einhvern langermabol sem hún átti fyrir, ónei. Ekki fyrr en hún var búin að klippa út ermar og bakhluta. Þá fyrst hringdu einhverjar aðvörunarbjöllur í huga hennar. Með smávægilega óþægindatilfinningu sótti hún gamlan bol og staðfesti þær grunsemdir sem vaknað höfðu. Nýi fíni bolurinn yrði sennilega svona 15-20 cm. of þröngur, aðeins!! Verst með fallega efnið sem keypt hafði verið. Það er reyndar aðeins eftir af því en afar ólíklegt að takist að sníða fram- og bakstykki úr því sem eftir er. Frúin hefur hins vegar lagt frekari saumaskap á hilluna í kvöld og því mun ekki fást endanlega skorið úr því máli fyrr en á morgun. Ef veikburða taugar leyfa.

Engin ummæli: