laugardagur, 28. apríl 2007

Heimalærdómur með Birtu


Kettirnir okkar eru mjög félagslyndir og elta okkur gjarnan á röndum um húsið. Eitt það besta sem þau vita er að fá að liggja ofan á okkur mannfólkinu þegar við erum sitjandi eða liggjandi einhversstaðar. Ísak var að lesa skólabók uppi í rúmi eitt kvöldið í vikunni og Birta var ekki lengi að átta sig á því að þarna væri gott að vera :-)

Í sól og sumaryl...

Mikið sem veðrið er yndislegt. Ég er að vinna núna (já og stelast til að blogga), með hurðina galopna út og hlýr sunnanvindurinn (sem angar reyndar af sinubruna í augnablikinu) streymir hér inn. Í viðbót við brunalyktina ber hann með sér svifryk frá umferðinni hér fyrir utan og það hefur jú í för með sér að við þurfum að vera duglegar að þurrka af, en það er bara ekki hægt að hafa lokað út í svona góðu veðri. Svo eru allir viðskiptavinirnir brosandi og glaðir í góða veðrinu.

Ferðin suður gekk vel, við vorum á fullu allan miðvikudaginn og fórum á milli heildsala og búsáhalda- og gjafaverslana. Það var mjög fróðlegt að sjá hvað aðrar verslanir eru að selja og við lentum á löngu spjalli við eigendur nokkurra þeirra. Allt í allt var þetta hin fínasta ferð.

Annars er Andri fyrir sunnan núna, í menningarferð með menntaskólanum. Um næstu helgi er svo Ísak að fara suður, í fótboltafeð, þannig að heimilisfólkið er heldur betur á ferð og flugi þessa dagana.

þriðjudagur, 24. apríl 2007

Skreppitúr suður

stendur fyrir dyrum hjá okkur Sunnu. Við ætlum að bruna suður í kvöld, gista hjá vinkonum í nótt og eyða morgundeginum í að heimsækja heildsala og skoða aðrar búsáhaldaverslanir. Brunum svo aftur norður annað kvöld. Þetta verður sem sagt sannkallaður skot-túr en vonandi náum við samt að gera margt.

Annars er bara allt við það sama hér. Rigningarsuddi í dag og mér skilst að spáð sé rigningu fyrir sunnan á morgun. Held að ég láti þetta gott heita í bili. Ef lesendur þessarar síðu vita um einhverjar flottar búsáhaldaverslanir í höfuðborginni þá eru allar ábendingar vel þegnar. Verslanir eru jú sífellt að koma og fara og ekki víst að við Sunna vitum um þær allar.

sunnudagur, 22. apríl 2007

Daðrað við hollustu og heilbrigt líferni

Já, ég held áfram að reyna að koma mér í betra form og hrista af mér vetrarslenið. Er búin að kaupa inn ávexti í stórum stíl og blanda mér ávaxta"hristing" á hverjum degi með hjálp töfrasprota frá Magimix. Komst nefnilega einhvern tímann að því að maður kemst yfir að borða miklu meira magn af ávöxtum ef þeir eru maukaðir. Svo er markmiðið að auka sundið úr 30 ferðum í 40 og vera dugleg að fara út að ganga og hjóla. Við hjónakornin drifum okkur út í Kjarnaskóg í gærkvöldi og gengum einn hring (2,2 kílómetrar er kannski ekki svo mikið en allt er betra en ekkert) og vorum svo komin í sund klukkan hálf níu í morgun, með hinu "gamla" fólkinu. Vinnu sinnar vegna þekkir Valur annan hvern karlmann sem kominn er yfir sjötugt (hér á Akureyri) og þeir nýta tækifærið þegar þeir rekast á hann í sundinu, segja honum hvernig heilsan er og biðja hann um að hringja inn endurnýjun á lyfseðli í apótekið. Þessu tekur minn maður með stóískri ró og hefur sjálfsagt lúmskt gaman af ;-)

föstudagur, 20. apríl 2007

Svanasöngur á heiði


Svanasöngur á heiði, originally uploaded by Guðný Pálína.

Þessa mynd tók Valur í gær þegar hann skrapp austur í Kinn að horfa eftir Helsingjum. Því miður veit ég ekki hvar myndin er tekin, kannski myndasmiðurinn sjálfur geti sagt til um það?

Skynfærin fimm

Ég fór út í Kjarnaskóg og gekk einn hring í morgun. Veðrið var yndislegt, 2ja stiga hiti, sól og logn. Og af því ég vildi endilega njóta þess í botn að vera úti í góða veðrinu þá hugsaði ég með mér að það væri upplagt að nýta öll skynfærin fimm. Ég byrjaði á að nota sjónina og horfði á sólina, vetrargrátt grasið, grænu barrtrén og snjóablettina sem enn sjást víða. Svo hlustaði ég á þrestina, hrossagaukinn og smáfuglana og í fjarska mátti heyra í vinnuvélum. Hnusaði þvínæst út í loftið og fann lyktina af vorinu. Snerting var næst á dagskrá en í stað þess að faðma tré (eins og verðandi leikskólakennarar voru látnir gera á námskeiði hjá Önnu Richards) þá lokaði ég augunum og fann hvernig sólin kyssti mig blíðlega á kinn og yljaði mér. Þegar hér var komið sögu var ég býsna ánægð með sjálfa mig, alveg þar til ég ætlaði að fara að nota fimmta skynfærið. Það var alveg sama hvað ég braut heilann, ég gat bara ómögulega munað hvað það var. Gekk þar af leiðandi í þungum þönkum hluta leiðarinnar og hugsaði og hugsaði. Hvað gat það verið? Það olli mér satt best að segja töluverðu hugarangri að geta ekki munað þetta því ég samdi einu sinni prófspurningu sem gekk út á það hvernig markaðsfólk getur nýtt þekkingu sína um skynfærin fimm þegar vara er markaðssett. Ég fór að rifja upp fleiri hluti sem ég hef ekki getað munað undanfarið og var orðin handviss um að teflonheilinn minn væri endanlega að geispa golunni. En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst og allt í einu laust svarinu niður í huga mér, fimmta skynfærið er að sjálfsögðu bragð. Hins vegar langaði mig ekki að bragða á neinu í skóginum í þetta sinnið en hefði örugglega gert það ef grasið hefði verið orðið grænt. Þannig að ég lét þetta gott heita og hélt heim á leið.

miðvikudagur, 18. apríl 2007

Vortiltekt í fullum gangi

Vil eiginlega ekki vera svo djörf að kalla þetta vorhreingerningu því ég er mun meira að laga til en gera hreint. Þreif þó bakaraofninn í gær og sló þannig tvær flugur í einu höggi, prófaði ofn- og grillhreinisinn sem við erum að selja í Pottum og prikum, og þreif jú ofninn sem þarfnaðist þess sárlega. Það væri best ef við gætum sjálfar prófað allt sem við erum að selja en því miður er það erfiðara í reynd. Einhver þarf jú að bera kostnaðinn af því. En fólk vill helst fá ákveðin svör varðandi það hvernig hin eða þessi vara er að reynast, skiljanlega, og mér líður best að geta svarað því með því að vísa í eigin reynslu. En sem betur fer eru margir viðskiptavinir tilbúnir að miðla af sinni reynslu og þá getum við vísað í þær frásagnir.

En svo ég snúi mér nú aftur að tiltektinni þá á ég við það vandamál að stríða að ég veit hreinlega ekki hvað ég á að gera við ýmsa hluti. Til dæmis sængurfötin með barnamyndum sem búið er að nota vel og lengi en eru þó ekki orðin ónýt. Ég kann ekki við að setja svona mikið notaða hluti í t.d. Rauða krossinn en kann ekki heldur við að henda þeim því þau eru jú heil. Svo eru það jakkar (sem sér ekki á) og buxur sem Valur er hættur að ganga í en er ekki tilbúinn að losa sig við. Gömul spariföt af sjálfri mér sem ég er ekki tilbúin að losa mig við (ekki mikið af þeim samt). Ljósmyndir í römmum sem einu sinni héngu uppi á vegg en hafa einhverra hluta vegna ekki ratað þangað aftur eftir málningu og herbergjaskipti. Og ýmislegt fleira... Jamm og jæja, ég hlýt að finna eitthvað út úr þessu.

sunnudagur, 15. apríl 2007

Gamalt hús í Helsingør


CIMG1587, originally uploaded by Guðný Pálína.

laugardagur, 14. apríl 2007

Er ekki alveg komin í blogg-gírinn

eftir Danmerkurferðina en það hlýtur að fara að koma. Fyrst var ég hálfan dag Köben með dótturinni, svo kom Anna systir frá Osló og var með okkur Hrefnu í tvo daga. Og loks fórum við Hrefna til Jótlands að heimsækja Palla bróður og hans fjölskyldu. Þannig að ég sló margar flugur í einu höggi :-) Þetta var afar ljúf ferð og gaman að hitta fólkið sitt. Að sjálfsögðu kíktum við aðeins í búðir og svo vorum við líka í túristaleik.

Heima beið eftir mér páskaegg frá strákunum og það var nú eiginlega hálf fyndið því ég keypti líka páskaegg með handgerðu lúxussúkkulaði handa Val og færði honum. Nú fær hann sér espresso kaffibolla á hverju kvöldi og borðar einn súkkulaðimola með. Finnst það ekki slæmt.

Ég sjálf hef borðað alltof mikið sælgæti og kolvetni síðan um jól og nú er mál að linni. Það er bara alveg hræðilega erfitt að taka upp betri siði, þvílík er sætindafíknin. Vona að þetta komi nú allt með hækkandi sól.

sunnudagur, 1. apríl 2007

Súlur og Súlumýrar


Við Valur skelltum okkur á skíði einn eftirmiðdag í síðustu viku. Eins og sjá má þá skein sólin skært og baðaði umhverfið ljóma á þann hátt sem hún ein er fær um.

Letidagur í dag

Fór reyndar í sund í morgun, Bónus, Nettó, Hagkaup, með rusl í endurvinnslu og ryksugaði en þá held ég að það sé upptalið. Ef einhver skyldi velta því fyrir sér af hverju ég fór í þrjá stórmarkaði þá var ég að leita að Mónu páskaeggi til að færa Hrefnu. Fann það hvergi og keypti Freyju egg í staðinn.

Og svo ég breyti nú skyndilega um umræðuefni þá var ég að velta því fyrir mér hvað þetta er fyndinn heimur sem við lifum í. Ég á vinkonur hér í bænum sem ég hitti nánast aldrei, ég er ekki nógu dugleg að fara í heimsóknir og þær ekki heldur. Bara alltaf sami rúnturinn, vinna, sofa, éta (í grófum dráttum a.m.k.). Í gær sendi ég svo brandara í tölvupósti til einnar og fékk póst tilbaka þar sem hún sagði mér hvað væri í gangi hjá henni þessa dagana og spurði hvað væri að gerast hjá mér. Ég skrifaði auðvitað til baka og sagði henni það helsta. Og fékk aftur svar frá henni um hæl. Það var ekki fyrr en í dag sem ég fór að hugsa um hvað þetta væri í raun fáránlegt. Hér búum við í sama bæ og höfum samskipti í gegnum tölvupóst! Ekki þar fyrir, ég vil frekar eiga þannig samskipti heldur en engin samskipti. En þetta minnir óneitanlega á börnin og unglingana sem sitja hver fyrir framan sína tölvu og tala saman á msn eða spjallrásum. Hvert stefnir þetta eiginlega? Jæja, sem betur fer á maður nú raunveruleg samskipti inn á milli, t.d. vorum við í indælu matarboði hjá Sunnu og Kidda í gærkvöldi, takk kærlega fyrir okkur :-)