sunnudagur, 20. nóvember 2011

Óreiða í huganum

Samanber söguna hennar Kristínar Marju, "Óreiða á striga". Það koma svona dagar þar sem óreiða er alls ráðandi í huga mínum. Þá er einhvern veginn eins og ekkert "passi saman" og hugurinn æðir viðstöðulaust í allar áttir. Þetta gerist gjarnan þegar ég er þreytt. Stundum verð ég þunglynd þegar ég er þreytt, stundum fer ég í þessa óreiðu, veit eiginlega ekki hvort er verra. Það sem virkar best á hugann þegar ég er í þessu ástandi er að gera eitthað líkamlegt - en það er aftur á móti ekki eins gott þegar þreytan er alls ráðandi. Sem sagt smá dilemma. Ansi oft hef ég farið að laga til þegar ég er í þessu standi, en Valur stoppaði mig af áðan þegar ég ætlaði að byrja á því, og sagði (réttilega) að þá yrði ég bara enn þreyttari eftirá. Þannig að ... úrræðið varð að setjast niður og reyna að róa hugann með því að skrifa.

Talandi um að gera eitthvað líkamlegt, þá fór ég raunar í smá gönguferð áðan. Gekk mjög stuttan hring hér í hverfinu, en merkilegt nokk, ákvað að ganga upp bratta brekku, svona til að sjá hvernig formið væri. Fyrir þá sem til þekkja, þá gekk ég nánar tiltekið upp Kotárbrekkuna, eða það sem er eftir af henni síðan nýja hverfið var byggt. Stoppaði að vísu tvisvar á leiðinni upp en fann samt mikinn mun á mér frá því í vor/sumar. Ég reyndi ekki einu sinni að ganga þennan stíg þegar ég var sem verst.

Annars er það helst að frétta að hér er kominn þurrkofn í hús. Þegar ég var farin að kaupa hráfæðiskex dýrum dómum, datt Vali í hug að betra væri að eiga sinn eigin ofn og yrði það fljótt að borga sig. Mér finnst reyndar hráfæðiskex mjög gott og svo er líka hægt að "baka" smákökur, pizzubotna og fleiri hollustuvörur í ofninum. En merkilegt nokk, þá fæ ég líka smá sting í magann yfir þessum ofni, sem er bara fyndið. Óttast að ég verði ekki nógu dugleg að nota hann (fátt verra en eyða peningum í vitleysu) og svo krefst þetta skipulagningar og þolinmæði sem ég veit ekki hvort ég er fær um. En á sama tíma veit ég að mér líður mjög vel af hráfæði og þá er auðvitað um að gera að reyna að auka þátt þess í mataræðinu.

P.S. Fór í Bónus og ætlaði bara rétt að kaupa pylsur og eitthvað smá en kom með 3 fulla poka út. Svo fór ég í Hagkaup og ætlaði að kaupa grænmeti, en stoppaði óvart hjá snyrtivörunum. Kom út með augnblýant og augnskuggan en ekkert grænmeti... Var dottin í full-time þreytu-breakdown þegar ég kom heim - og fékk smá skammir af eiginmanninum - sem vill mér allt hið besta og finnst að ég eigi að hafa vit á því að falla ekki í svona heimskupytti.

Engin ummæli: