þriðjudagur, 29. nóvember 2011

Jæja var dugleg í dag

En ekki dugleg í þeirri merkingu að hafa gert margt og mikið, heldur var ég dugleg að hvíla mig :-) Ég átti ekki að mæta í vinnu fyrr en seinni partinn og ákvað að reyna að sofa eins lengi og ég þyrfti. Með þeim afleiðingum að ég steinsvaf til rúmlega níu og lá í rúminu til hálf tíu. Þá var ég ekkert að æsa mig heldur borðaði morgunmat í rólegheitum, las blöð og gerði fátt. Tja, setti reyndar í eina þvottavél, braut saman þvott, tók úr uppþvottavélinni, gerði við eina peysu, fór í sturtu, bjó til hráfæðis"deig" sem ég setti í þurrkofninn ... en allt þetta gerði ég í afslöppuðum gír. Svo ætlaði ég nú að mæta í vinnuna kl. 13.30 en fékk svo hraustlegar blóðnasir að þær töfðu mig um korter. Það tafði mig líka að finna pakka sem ég ætlaði með í póst í gær en gleymdi, sem leiddi til þess að ég fór á pósthúsið fyrir vinnu og mætti rétt á slaginu tvö í vinnuna. Þar var afskaplega rólegt líka vegna þess að úti var veður vont (jæja semi-vont eins og Ísak myndi kannski segja) og fáir á ferli. Hins vegar hafði komið nokkuð stór sending af vörum og nóg að gera við að taka hana uppúr kössum. Því er nú ekki lokið enn en liggur svo sem ekki lífið á. Það er ekki von á fleiri stórum sendingum í vikunni, svo það þarf ekki að stressa sig eins mikið yfir að taka upp.

Hérna heima var Valur svo búinn að elda pítsur. Ég hafði verið búin að gera pítsubotn handa mér sem er laus við hveiti og þetta kom bara svona ljómandi vel út. Innihaldið er sem hér segir:
4 dl möndlur lagðar í bleyti í sólarhring og afhýddar
1 dl rifnar gulrætur
1 tómatur
1 hvítlauksrif
smávegis salt
1 msk þurrkað oreganó
2 dl fínt möluð hörfræ
Það á að vera hægt að gera einhvers konar ost-líki úr kasjúhnetum en ég er ekki komin alveg svo langt í fræðunum ennþá. Það er pínu skrítið að borða pítsu án osts en það mun ábyggilega venjast. Svo var ég með hummus með henni og það kom líka ótrúlega vel út. Ég er samt ekki að detta í hráfæðisgírinn þó ég sé komin með þurrkofninn, eins og sést best á því að þrátt fyrir að hafa þurrkað pítsubotninn samkvæmt öllum hráfæðisreglum, þá langaði mig í heita pítsu og Valur hitaði mína alveg eins og þeirra. En ég á líka eftir að þreifa mig meira áfram með ofninn t.d. í smákökugerð. Núna er í honum kex sem ég er að þurrka. Í kexinu eru hörfræ, tómatar, paprika, sólþurrkaðir tómatar, hvítlaukur og safi úr einni sítrónu. Ég er nú búin að smakka það og þetta er ótrúlega bragðsterkt.

Í kvöld átti að vera fundur í ljósmyndaklúbbnum en hann féll niður. Í staðinn setti ég upp jólagardínurnar (í hreinu og fínu gluggana sem Valur var búinn að þvo) og þræddi jólaseríur utan um stálhringi sem komu innan úr Ikea krönsunum (sem reyndust ónýtir þegar þeir voru sóttir í geymsluna). Það væri kannski fallegra að hafa eitthvað skraut með seríunum, þetta er afskaplega spartanskt svona, og kannski panta ég skrautlengjur frá einum heildsalanum sem við skiptum við. Svo eru þetta 20 ljósa seríur og gefa ekkert sérlega mikla birtu frá sér, en samt betra en ekki neitt.

Já, í morgun skannaði ég líka inn gamla mynd af mér og Rósu vinkonu, í tilefni þess að Rósa á afmæli í dag. Við vorum bestu vinkonur sem krakkar og erum enn mjög góðar vinkonur, svo mér datt í hug að skanna þessa mynd og setja á facebook hjá henni með afmæliskveðjunni. Og til gamans kemur myndin hér.

Engin ummæli: