miðvikudagur, 29. maí 2013

The bucket list


er nafn á kvikmynd með Jack Nicholson og Morgan Freeman. Hún fjallar um tvo eldri menn sem eru dauðvona og þrátt fyrir ólíkan bakgrunn (annar er forríkur en hinn verkamaður) ná þeir á einhvern hátt saman. Þeir ákveða að gera lista yfir þá hluti sem þá langar til að gera áður en þeir deyja og myndin fjallar um það hvernig þeir fara í gegnum listann (the bucket list), framkvæma hlutina og öðlast lífsgleði í leiðinni.

Það er vel skiljanlegt að fólk sem á takmarkaðan tíma eftir til að lifa, velti því fyrir sér í hvað það vilji nota tímann sem eftir er, og hafi áhuga á að gera eitthvað markvisst við þann tíma. Um daginn gekk myndband á netinu sem sýndi síðasta tímann í lífi ungs pilts Zachary Sobiech  en hann fór m.a. að semja tónlist þegar hann vissi að hann myndi deyja úr krabbameini. Ég horfði á þetta myndband um daginn og verð að segja að það lætur engan ósnortinn. Zach lést 20 maí s.l. en meðan hann lifði sýndi hann svo sannarlega úr hverju hann var gerður.

Þegar ég sló upp orðunum „bucket list “ á netinu rakst ég líka á vefsíðu stúlku sem gerði sinn eigin lista yfir hluti sem hana langaði að framkvæma áður en hún myndi deyja. Þetta var ung stúlka í Bretlandi og hún lést í byrjun árs 2013.

Málið er bara, að maður ætti ekki að þurfa að vera deyjandi til að velta því fyrir sér hvað mann langar að gera í lífinu. Þetta þurfa ekki að vera stórir hlutir en bara  eitthvað sem mann langar virkilega til að gera.

Einhverra hluta vegna hef ég aldrei sest niður (já alveg bráðnauðsynlegt að sitja  ... eða ekki ...) og virkilega hugsað út í það hvað MIG LANGAR til að gera/framkvæma/fá út úr lífinu. Ég hef bara verið eins og trjádrumbur sem fleytt er út í á í Síberíu, berst með straumnum út í sjó og endar á Langanesi á Íslandi, án þess að fá nokkru um það ráðið. Að hluta til held ég vegna þess að ég hef einhvern veginn ekki áttað mig nógu vel á þeirri staðreynd að við ráðum ótrúlega miklu sjálf um það hvernig okkur reiðir af í lífinu.

Ég hef verið „fangi“ eigin skoðana að svo mörgu leyti. Það er að segja, við höfum öll okkar skoðanir um lífið og tilveruna, um eigin getu, um samhengi hlutanna o.s.frv. Þessar skoðanir upplifum við sem réttar og efumst ef til vill aldrei um réttmæti þeirra. Sem dæmi um skoðanir sem ég hef haft má nefna:
  • Ég hélt að ég gæti ekki lært stærðfræði
  • Ég trúði því að ég væri fölsk og gæti ekki sungið
  • Ég hélt að ég væri ekkert sérstaklega gáfuð
  • Ég hélt að ég væri bara frekar ljót heldur en hitt
  • Ég hélt í hreinskilni sagt að ég hefði enga sérstaka hæfileika
  • Ég hélt að ég væri leiðinleg
  • Ég hélt að ég væri ekki góð móðir
Já já, ég held að ég láti bara gott heita núna ... En sem sagt, allt þetta eru skoðanir sem ég hafði á einhverjum tímapunkti og trúði þeim án þess að velta því fyrir mér af nokkurri alvöru hvort þetta væri satt og rétt. Og ef maður trúir einhverju þá sér maður bara hluti sem staðfesta þá trú og er blindur fyrir hlutum sem gætu hugsanlega afsannað þessar skoðanir. Alveg eins og óléttar konur fara að sjá aðrar óléttar konur og fólk með barnavagna út um allt. Maður þróar með sér svona „selective perception“.

Ef við setjumst niður (já kemur það nú aftur, bráðnauðsynlegt að sitja ....) og virkilega förum í gegnum þær skoðanir sem við höfum - skrifum þær niður t.d. og skoðum réttmæti þeirra, þá sjáum við líklega að sumt af þessu er bara rugl og vitleysa. Eitthvað er jafnvel algjörlega fáránlegt og byggist á einhverju allt öðru en sannleika. Þannig að þá er okkur ekkert að vanbúnaði að velja sjálf hvaða skoðanir við viljum hafa. Ég get t.d. valið að trúa því að ég geti lært stærðfræði og í kjölfarið farið í nám í viðskiptafræði í háskóla og staðist erfitt stærðfræðipróf (eins og ég jú gerði). Ég get líka prófað að fara í inntökupróf í kór og komist inn - hei! ég er ekki fölsk!.

En já sem sagt - ef við hættum að láta okkar eigin takmarkandi skoðanir ráða yfir okkur þá opnast alveg nýr heimur. Heimur þar sem við getum valið hvað okkur langar að gera - og gert akkúrat það. Við þurfum ekki að vera dauðvona til að lifa lífinu. Við getum gert okkar eigin „bucket lista“ og farið í gegnum hann eins hægt eða hratt og við viljum. Svona eins og Marci Nault gerði árið 2008 þegar hún spurði sjálfa sig: Hvað vil ég fá út úr lífinu? Ef ég væri ekki hrædd og þyrfti ekki að fylgja ákveðnum leikreglum, hvernig myndi ég lifa lífinu? Í kjölfarið bjó hún til lista yfir 101 draum sem hún átti sér og hefur núna framkvæmt 89 atriði á þessum lista.

Þannig að nú er stóra spurningin sú - hvað langar mig, Guðnýju Pálínu Sæmundsdóttur, til að gera við líf mitt? Hvað myndi ég gera ef ég léti alla hræðslu lönd og leið? Hvaða litlu og stóru hlutir myndu fara á draumalistann minn?

P.S. Ef einhvern langar til að gera sinn eigin draumalista, eða sjá hvaða lista aðrir hafa, þá er til vefsíða bucketlist.org, sem ég mæli með að kíkja á.


mánudagur, 27. maí 2013

Nostalgía

Jæja þá er ég loks farin að líkjast sjálfri mér aftur - að minnsta kosti þar til ég dett í næsta gigtar/þreytukast ;-)

Í tilefni af 25 ára stúdentsafmælinu mínu datt ég í að skoða gamlar ljósmyndir. Ég hef óendanlega gaman af því að skoða gamlar myndir og núna ákvað ég að skanna nokkrar myndir til gamans.


Útskriftin fór fram í Akureyrarkirkju og þessi mynd er tekin fyrir utan kirkjuna. Valur var myndasmiðurinn. Hér er mamma í íslenska þjóðbúningnum og Hrefna upptekin við að skoða skólaskírteinið mitt og má ekkert vera að því að horfa í myndavélina.


Mæðgurnar á leiðinni í bílinn eftir útskriftarathöfnina.


Næst fór allur stúdentaskarinn í Lystigarðinn þar sem tekin var hópmynd af okkur. Valur notaði tækifærið og smellti mynd af hópnum.


Ég varð stúdent frá VMA 1988, fjórum árum á eftir jafnöldrum mínum, sem flestir urðu stúdentar frá MA. Í millitíðinni hafði ég tekið sjúkraliðapróf og eignast dóttur. Hrefna er fædd í nóvember 1983 og er því 4ra ára þarna. Hana langaði voðalega mikið að fá að vera með mömmu sinni á hópmyndinni, en það gekk víst ekki alveg upp.




Hér er bekkurinn minn, H-bekkur (H stendur fyrir Heilsugæslubraut, sem var síðar breytt í Náttúrufræðibraut). Stærstur hluti stelpnanna lærði hjúkrun og langflestar starfa við það í dag. Það var bara einn strákur í bekknum, og þegar við héldum bekkjarpartý þá fékk hann að taka tvo vini sína með sér, svo hann væri ekki alveg einn á báti með öllum þessum stelpum. 


Fjölskyldumynd: Pabbi, ég og mamma. Pabbi hafði fengið heilablóðfall einhverjum árum áður og var kannski ekki alveg með á nótunum þarna, en mamma klæddi hann upp í tilefni dagsins. Systkini mín bjuggu bæði erlendis á þessum tíma svo hvorugt þeirra var viðstatt þennan dag. 


Um kvöldið var svo farið út að borða í Sjallann. Þessar myndir af okkur Val eru teknar þegar við vorum búin að klæða okkur uppá fyrir kvöldið. Ég veit nú ekki af hverju ég er svona alvarleg á þessari mynd. Dragtin mín fína sést samt vel hér en Valur gaf mér hana í útskriftargjöf. 


Valur minn aldeilis glæsilegur á þessari mynd. 


Og ég bara nokkuð kát með þetta allt saman :-)


Í lokin kemur hér mynd sem tekin var af bekknum mínum í stúdentsafmælinu um daginn. Við vorum 7 sem mættum á laugardagskvöldinu. Ég í rauða kjólnum mínum - já og dökkhærð ;-) Myndgæðin eru reyndar ekkert sérstök.


miðvikudagur, 22. maí 2013

Same old, same old ...


Já það er fyndið (eða sorglegt) hvað ég er alltaf að berjast við sömu vindmyllurnar. Áðan rakst ég á dagbók sem ég byrjaði að skrifa sumarið 2011 og endar í október 2012. Þar sá ég m.a. á eftirfarandi færslu:
8. júlí 2012
Þreytt!!!
Hefur einhver heyrt þetta áður? Nei, örugglega ekki. Veit ekki hvað ég er búin að vera lengi í núverandi þreytukasti en líklega þrjár vikur, eða síðan ég vann síðast heila vinnuviku + laugardag, eða 6 daga í röð. 

Svo mörg voru þau orð. Og ef við spólum áfram til dagsins í dag, þá vann ég sem sagt 6 daga í röð í síðustu viku, og hef verið eins og drusla síðan.

(Ég virðist seint ætla að læra af reynslunni ... dett alltaf ofaní sömu holuna, þó ég viti nákvæmlega hvar hún er staðsett.)

Sófadýr allan sunnudaginn og allan mánudaginn. Vaknaði þreytt og illa fyrir kölluð í gærmorgun, en fór samt í sund. Synti 8 ferðir og fór svo í „legvatnið“ í smá stund. Stóð of snöggt upp þaðan, fékk blóðþrýstingsfall og var heppin að detta ekki á hausinn því mig svimaði svo. Var þreytt allan tímann í vinnunni og því miður þurfti ég í klippingu og litun eftir vinnu, svo þetta varð langur dagur. Var komin með heljarinnar höfuðverk, hálssærindi og beinverki um kvöldmatarleytið. Sofnaði á sófanum eftir kvöldmat, svaf í 11 tíma í nótt en var samt ennþá veik þegar ég vaknaði í morgun. Endalausar snýtur framan af og ennþá sami vondi höfuðverkurinn. Sljó yfir höfðinu og leið eins og ég væri með háan hita.

Og þar sem gigtarkast lýsir sér eins og flensa, þá veit ég aldrei hvað er hvað - a.m.k. ekki svona í byrjun. Enda las ég einhvers staðar að þessi einkenni, sem flestir tengja við flensu, séu í raun til komin vegna þess að ónæmiskerfið er á fullu að vinna. Einkennin eru sem sagt ekki tengd “veikinni/flensunni“ sem slíkri, heldur starfsemi ónæmiskerfisins.

Vona bara að þetta núverandi kast mitt standi ekki í þrjár vikur - segi ekki meira.

Eitt sem er fyndið við að lesa gamlar dagbækur, er að óminnishegrinn miskunnar sig greinilega yfir mig, þannig að ég man ekki milli ára/mánuða hvað ég hef verið þreytt. Í minningunni fannst mér eins og ég hefði átt betra tímabil eftir Kristnes dvölina, en núna sá ég að það hefði bara verið ímyndun. Ég var þreytt allt sumarið og haustið. Komst á þrjósku + adrenalín-flæði í gegnum jólavertíðina og hrundi í janúar ... og hef verið ónýt síðan.

Það fer alveg að verða spurning um að gera gagngera endurskoðun á lífi sínu.  Ekki þar fyrir, það eru ekki margir kostir í stöðunni, og engir góðir. En það er hálfgerð bilun að lifa lífinu á þennan hátt. Eða, eins og einhver (sumir segja Albert Einstein) orðaði það svo skemmtilega:
Insanity: doing the same thing over and over again and expecting different results.  
P.S. Ég veit að þetta er enn ein hörmungar bloggfærslan hjá mér. Lofa að skrifa um eitthvað skemmtilegra á morgun. En það er eins og ég þurfi að skrifa hluti til að hugsa um þá og sortera í höfðinu á mér. Vafalaust á þetta tímabil í lífi mínu eftir að taka enda og það má gjarnan gera það sem allra fyrst, enda komin 5 ár, og úthaldið á þrotum. Ef til vill leynist einhver lexía í þessu öllu. Eitthvað sem ég átta mig á síðar meir. Kannski verð ég einhvern tímann þakklát fyrir þetta þreytutímabil, hver veit.

mánudagur, 20. maí 2013

What about Wilma?

Eftir því sem ég eldist fæ ég meiri áhuga á fólki sem lifir annars konar lífi heldur en fólk almennt gerir. Hm, kannski ruglingslega orðað. En netið gerir manni kleift að kynnast hlutum sem maður myndi kannski aldrei annars kynnast, og þar koma alls kyns bloggsíður sterkar inn.

Núna nýverið rakst ég á blogg ungrar konu í Amsterdam, sem ætlar að lifa eins og „hellisbúi“ í 100 daga. Ég set gæsalappir á hellisbúi, því hún ætlar reyndar ekki að búa í helli, heldur í íbúðinni sinni. En hún hefur sett sér ýmsar reglur í sambandi við þessa tilraun sína og sumar hverjar gera það að verkum að hún lítur ekki út fyrir að vera eins og fólk er flest, samanber það að ganga berfætt á götum borgarinnar.



Ástæða þess að hún ákvað að gera þessa tilraun er dálítið sérstök. Hún hafði þjáðst af þunglyndi en læknaðist með því að fylgja 8 vikna prógrammi sem kynnt er í bókinni The mindful way through depression. (Hér er sýnishorn úr bókinni á pdf formi). Í kjölfarið ákvað hún að hugsa betur um sjálfa sig, hætta að gera hluti sem henni fyndust ekki sérlega skemmtilegir, og gera meira af því sem hún hefði gaman af að gera. Einhvern daginn var hún að ganga úti í skógi og fékk þá hugmynd að gaman væri að lifa eins og hellisbúi. Það hlyti að vera heilsusamlegt og úr því þetta var eitthvað sem hana langaði að gera, þá ákvað hún að framkvæma það.

Hún bjó sér til ákveðnar reglur og hér eru dæmi um nokkrar þeirra:

  • Borða kjöt, fisk, egg, grænmeti, ávexti og hnetur. Helst lífrænt hráefni eins og kostur er. Borða hráan mat eins og hægt er. 
  • Borða alltaf þegar hún er svöng.
  • Ekki drekka aðra drykki en vatn.
  • Ganga berfætt 90% tímans.
  • Ganga a.m.k. 9 kílómetra á dag (fara allt gangandi innan Amsterdam, en má nota hjól eða lest til að heimsækja vini og ættingja sem búa lengra í burtu).
  • Sofa þegar það er dimmt úti. Vaka þegar bjart er.
  • Vera utandyra í a.m.k. 4 klst. á dag.
  • Ekki nota úr/klukku.
  • Má nota þvottavél, fartölvu (max 3 klt. daglega) og síma.
  • Engar snyrtivörur, ekki sjampó, svitalyktareyði og tannkrem.
  • Má vera í venjulegum fatnaði.
  • Reyna að lifa í núinu.

Frekar skrautlegt ha?

Það er hægt að fylgjast með framgangi mála hjá „Wilmu“ (ekki hennar raunverulega nafn, heldur tilvísun í Wilmu eiginkonu Fred Flintstones (teiknimyndaþættir í sjónvarpinu þegar ég var krakki) á vefsíðunni sem hún bjó til í tengslum við þetta verkefni sitt. Þar setur hún inn myndbönd á ensku þar sem hún segir frá því hvernig gengur. Hún er reyndar frekar döpur í nýjasta myndbandinu, aðallega vegna þess að henni gengur illa að sætta sig við alla athyglina sem hún fær þegar hún gengur berfætt um götur borgarinnar.

En já, það er ýmislegt sem fólki dettur í hug :-)

sunnudagur, 19. maí 2013

Tvær greinar um vefjagigt


Starfsfólk Þrautar, þau Arnór Víkingsson gigtarlæknir, Sigrún Baldursdóttir sjúkraþjálfari og Eggert S. Birgisson sálfræðingur, skrifuðu nýverið tvær greinar um vefjagigt sem birtust í Fréttablaðinu og á vísir.is. Þetta eru afskaplega fróðlegar greinar og mig langaði að geta lesið þær síðar meir, svo ég ákvað að setja tenglana á þær hingað inn.

Fyrri greinina má nálgast hér
Tvær setningar vöktu sérstaklega athygli mína:
Það má áfram deila um hvort nafngiftin vefjagigt sé heppileg en í dag ætti enginn að velkjast í vafa um það að fyrirbærið vefjagigt með slæmum stoðkerfisverkjum, magnleysi og svefntruflunum er mjög raunverulegt og brýnt viðfangsefni fyrir samfélagið að leysa úr.“
Samkvæmt erlendum rannsóknum eru mjög fáir sjúklingahópar með jafn slök lífsgæði og vefjagigtarsjúklingar og kostnaður samfélagsins vegna þessa sjúkdóms er mjög hár, ekki síst vegna þess að vefjagigt er ein algengasta ástæða óvinnufærni og örorku.“
Og seinni greinina hér
Þar má m.a. lesa þetta:
Miklar framfarir hafa verið í rannsóknum á vefjagigt síðustu tíu ár og nú vitum við t.d. að stoðkerfisverkirnir eru aðallega afleiðing óeðlilegar úrvinnslu verkja í taugakerfinu þannig að vægir verkir geta magnast upp. Einnig er vitað að mörg einkenni vefjagigtar stafa af truflun í samþættingu taugaboða í taugakerfinu án þess að vefrænn skaði hafi átt sér stað. 
Þessi röskun getur birst í slöku jafnvægi, svima, doða, óskarpri sjón, magnleysi í vöðvum, ristilkrömpum eða of hröðum hjartslætti. Trufluninni í taugakerfi vefjagigtarsjúklinga má líkja við sinfóníuhljómsveit þar sem hljómsveitarstjórinn og sérhver hljóðfæraleikari kann sitt hlutverk og hljóðfærin eru rétt stillt. En þegar hljómsveitin spilar skortir á samstillingu hljómsveitarstjórans og einstakra hljóðfæraleikara og tónlistin verður ekki hljómfögur.“
Og það sem ég vissi hreinlega ekki sjálf fyrr en núna nýlega:
Náttúrulegur gangur vefjagigtar er sá að einkennum fjölgar og sjúkdómsástandið versnar ef ekkert er að gert. Því virkari sem sjúkdómurinn er þegar fólk leitar meðferðar þeim mun erfiðara er að ná góðum bata. 
Þessi staðreynd speglast í niðurstöðum rannsókna sem skoða sambandið á milli virkni vefjagigtar og vinnufærni. Til að mynda sýndi nýleg spænsk rannsókn að 20% þeirra sem höfðu illvíga vefjagigt voru fullvinnufær samanborið við 62% þeirra sem höfðu væga vefjagigt. Í annarri rannsókn var heildarkostnaður vegna illvígrar vefjagigtar fjórfalt hærri en vegna vægrar vefjagigtar. “ 
Þetta er í samræmi við mína upplifun. Að þeim mun fleiri einkenni sem ég er komin með, þeim mun erfiðara að eiga við þetta allt saman. Fram að árinu 2008 gekk mér mun betur að stjórna þessu ástandi og náði að halda mér góðri með hreyfingu og reglusömu líferni. En árið 2008 gerðist tvennt sem ég held að hafi skipt miklu máli fyrir framhaldið. Ég fékk brjósklos og fór í aðgerð og í kjölfarið minnkaði hreyfigeta mín verulega. Ég gat ekki gengið úti eins og ég hafði verið vön og ekki lengur synt af sama krafti og áður (hætti að geta notað froskalappir t.d.). Svo um haustið skall kreppan á okkur. Við eigendur Potta og prika höfðum flutt verslunina á Glerártorg í maí það sama ár og þegar efnahagsumhverfið breyttist svo að segja á einni nóttu, þá tóku við mjög streituvaldandi tímar. Og streita er eitur fyrir fólk með vefjagigt. 

Síðustu ár hef ég því miður keyrt mig alltof mikið út, enda áttaði ég mig ekki á því að vefjagigtin myndi versna svona mikið - og að erfitt gæti orðið að „koma til baka“ úr verra ástandi. En það er jú fátt í boði þegar maður á fyrirtæki og maður tilkynnir sig ekki bara veikan hægri og vinstri. Einhverra hluta vegna þá finnst mér alveg ofboðslega erfitt að viðurkenna þessi veikindi mín og það tekur á sig undarlegar birtingarmyndir. Eins og bara t.d. núna í vikunni þá vissi ég að það væri of mikið fyrir mig að vinna 6 daga í röð en samt reyndi ég ekki að redda mér fríi einn dag, sem hefði getað bjargað miklu. Onei, mín bítur bara saman tönnum og mætir í vinnuna. 

Ég var svo þreytt á föstudaginn að mig langaði næstum til að grenja og ekki hjálpaði til að allt gekk á afturfótunum hjá mér þann dag. Verkjaði gjörsamlega í allan skrokkkinn, var endalaust að missa hluti og lokaði skúffu á puttana á mér, svo dæmi séu nefnd. Eftir vinnu fór ég að taka bensín og þá setti ég bílinn ekki í Park (hélt að ég hefði gert það) og hann byrjaði að renna þannig að ég þurfti að stökkva upp í hann aftur og þruma gírstönginni á réttan stað til að stoppa bílinn. Bara stuð!

Á föstudaginn var líka hittingur hjá konuklúbbnum mínum og ég ætlaði eiginlega ekki að fara. En eftir að hafa sofnað heima á sófanum ákvað ég að það myndi bara gera mér gott, svona andlega séð, að koma mér út úr húsi. Og það reyndist rétt hjá mér. 

Sem betur fer leið mér mun betur í gær. Fór meira að segja í sund í gærmorgun og náði mér í d-vítamín í skrokkinn. Eftir hádegi var ég að vinna og það gekk bara mjög vel. Var ekki svona örmagna eins og daginn áður. Það var margt fólk á torginu og margir sem komu í búðina og gaman í vinnunni. Valur eldaði nautalundir þegar ég kom heim og svo löbbðum við í bæinn á meðan landsmenn flestir horfðu á Evróvision. Fengum okkur kaffi í Eymundsson og tókum svo leigubíl heim, því það var ekki séns að ég hefði getað komist gangandi aftur heim.

Í dag er ég svo aftur mjög lúin ... hehe ... en ég fæ frí á morgun líka, svo tveir frídagar í röð ættu að duga mér til að safna mér aðeins saman. Ætla að fara út núna og ganga berfætt á grasinu. Las um daginn að það væri svo afskaplega hollt og gott :-)

miðvikudagur, 15. maí 2013

Sá á kvölina sem á völina


Ég get flækt ótrúlegustu hluti óendanlega mikið fyrir mér. Eins og t.d. allt sem hefur að gera með samneyti við annað fólk utan vinnunnar. Eftir að vefjagigtin læsti klóm sínum svona heiftarlega í mig, þá er aldrei einfalt svar við því hvort ég get gert hluti eins og t.d. að fara á kaffihús með vinkonum eða hitta ljósmyndaklúbbinn minn að kvöldi til.

Einmitt núna er fundur í ljósmyndaklúbbnum og mig langaði að mæta. En þar sem ég var búin að fara í sund í morgun + vinna í dag + fara út að hjóla þegar ég kom heim, þá var innistæðan á orku-reikningnum orðin ansi lág í lok dags. Þar að auki á ég eftir þrjá vinnudaga í þessari viku - sem ég þarf að klára - og svo hef ég bara einn frídag til að safna mér saman fyrir næstu vinnuviku ... þannig að það er margt sem ég þarf að taka tillit til.

Þegar við bættist að ég var lúin og þar að auki ískalt inn að beini, þá varð niðurstaðan sú að vera heima.

Ég veit alveg að ég má ekki hætta að lifa lífinu þó ég sé með vefjagigt - en þegar það er þannig að maður þarf að „borga“ fyrir allt sem maður gerir, þá verð ég alltaf að vega og meta kosti (gaman að hitta skemmtilegar konur) og galla (á erfitt með að sofna þegar ég fer út á kvöldin - slæmur svefn leiðir af sér meiri verki, þreytu og sljóleika daginn eftir og jafnvel næstu 2-3 daga ef ég er óheppin.

Það var býsna góður þáttur um gigt í sjónvarpinu um daginn. Þar var meðal annars talað við konu sem lýsti þessu með þreytuna svo vel. Hvernig hún þyrfti helst að hvíla sig fyrirfram í einn dag ef hún vissi að hún ætti erfiðan dag fyrir höndum - og hvíla sig í 1-3 daga eftirá, allt eftir því hversu erfiður dagurinn var.

Þetta er mín upplifun líka, nema hvað ég hef ekki verið nógu dugleg fram að þessu að hvíla mig fyrirfram. Tók því samt viljandi mjög rólega vikuna fyrir stúdentsafmælið, til að eiga orku, og hvíldi mig svo allan laugardaginn og allan sunnudaginn - en fékk þá líka innistæðu fyrir því að geta verið úti bæði föstudags- og laugardagskvöld. Þannig að mér tókst að spila nokkuð vel úr þessu öllu þá.

Annars var ég að panta mér bók frá Amazon. Bókin heitir
Mind Over Medicine: Scientific Proof That You Can Heal Yourself og er eftir bandaríska konu sem heitir Lissa Rankin. Hún var starfandi kvensjúkdómalæknir í fullu starfi, en heilsan var ekki góð, þegar ytri kringumstæður urðu þess valdandi að hún ákvað að horfast í augu við óánægju sína með líf sitt, og gera breytingar á högum sínum. Í kjölfarið fór hún að skoða placebo áhrifin og hæfileika líkamans til að lækna sig sjálfur af ýmsum kvillum (að því gefnu að réttar kringumstæður séu fyrir hendi). Það er hægt að sjá tvo fyrirlestra með henni (á ensku) á TEDxTalks og hér er annar þeirra, ef einhver hefur áhuga. Mér sjálfri finnst þetta mjög spennandi efni og hlakka til að lesa bókina.

mánudagur, 13. maí 2013

Ágætasta stúdentsafmæli að baki

Já helgin lukkaðist bara vel :) Ég vissi að það myndi ekki þýða neitt fyrir mig að ætla að taka þátt í allri dagskránni, svo ég valdi bara úr. Hitti bekkinn minn á föstudagskvöldinu eftir að þær (það voru bara stelpur sem mættu) höfðu verið á Icelandair hotel. Við fórum út að borða saman og svo heim til Svanhildar á eftir. Það var gaman að heyra hvað allar eru að gera og virkilega gaman að hitta hópinn, enda höfum við ekki hist í 5 ár. Mætingin hefði alveg mátt vera aðeins betri en það er bara eins og það er.

Á laugardeginum var heimsókn í VMA og svo ratleikur - hjá þeim hinum - ég var heima að hvíla mig. Um kvöldið var síðan matur, söngur, skemmtiatriði, myndataka og dans í húsi Náttúrulækningafélagsins í Kjarnaskógi. Það gekk bara nokkuð vel hjá mér að þola hávaðann svona framan af og þetta var í alla staði afskaplega vel heppnað. Ég meira að segja dansaði í smá stund en um hálf tólf leytið var hins vegar úthaldið búið og ég var komin heim um miðnættið.

Gærdagurinn fór svo að langmestu leyti í hvíld en við Valur fórum samt einn rúnt fram í fjörð. Ókum lengri hringinn og tókum nokkrar myndir. Þessi hér er tekin við þjóðveginn, fyrir neðan Kristnes (þó Kristnes sjáist nú reyndar ekki á myndinni). Allt á kafi í vatni eins og sjá má.



miðvikudagur, 8. maí 2013

Ýmislegt framundan


Já ég er víst 25 ára stúdent um þessar mundir ... ótrúlegt en satt ;-) Ég hef mætt á öll afmælin, kom meira að segja heim frá Noregi þegar við bjuggum þar, til að halda uppá 5 ára stúdentsafmælið. Þetta er mjög skemmtilegur hópur og ég hlakka til að hitta þau, en ætla samt að sleppa óvissuferðinni á laugardaginn, svo ég klári ekki alla orkuna fyrir kvöldið.

Þetta er reyndar full dagskrá, fyrst á að hittast á Icelandair hotel á föstudeginum (hm ég var fyrst núna að fatta að ég á að vera að vinna þá ...) og bekkjarpartý um kvöldið þar sem hver bekkur fyrir sig hittist. Síðan á laugardag er heimsókn í VMA og svo óvissuferð en um kvöldið er matur og skemmtun fram á nótt í Náttúrulækningafélags húsinu í Kjarnaskógi. Og þá er það mál málanna ... í hvaða fötum á ég að vera? Úff púff alltaf sama vesenið á manni með það. Hm, kannski ég verði bara í rauða kjólnum sem ég keypti fyrir brúðkaupið þeirra Palla og Sanne. Það er alla vega hugmynd.

Í gær var eins og sumarið væri loks komið yfir sæinn (sbr. lagið) með sól og hækkandi hitastigi. Ég var að vinna fyrripartinn og var ekki komin heim fyrr en að verða fjögur (en það var nú líka af því ég fór í búð + að sækja bílinn á dekkjaverkstæði eftir vinnu). Þá fannst mér ekki annað hægt en nýta þetta góða veður á einhvern hátt, svo ég sótti reiðhjólið mitt niður í kjallara, pumpaði í dekkin og fór í smá hjóltúr upp í hverfið hér fyrir ofan. Var ekkert smá ánægð með mig :-)

Í dag er ég í fríi og er það þriðji miðvikudagurinn í röð sem ég er í fríi, því síðast var jú 1. maí og þá lokað á torginu. Ég finn að það gerir mér gott að fá svona fasta frídaga, finnst eins og þreytan nái ekki að verða jafn yfirgengileg, sem er alveg frábært. Yfirleitt fara frí-miðvikudagarnir aðallega í hvíld hjá mér en núna finnst mér ég jafnvel hafa orku í að gera eitthvað. Hm, ekki of mikið samt ... verð víst að safna í orkubankann fyrir stúdentsafmælið ;o)

Myndin sem fylgir er (enn og aftur!!) tekin á klöppunum norðan Háagerðis. Mér finnst svo gott að labba þangað og fá útsýni til norðurs, út á sjóinn og að Kaldbaki. Ljósmyndalega séð er þetta kannski ekkert æðisleg mynd, en ég var að reyna að sýna mosann og gróðurinn í forgrunni = snjórinn farinn :)

sunnudagur, 5. maí 2013

Sunnudagur til sælu

sunset, guðný pálína sæmundsdóttirÞað er fátt í fréttum. Tíminn líður og dagarnir hver öðrum svipaðir. Í síðustu viku bar það reyndar til tíðinda að við ÁLFkonur lögðum land undir fót með ljósmyndasýninguna sem var í safnaðarheimili Akureyrarkirkju, og settum hana upp í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík. Við fórum á þriðjudeginum 30. apríl til að setja upp sýninguna og ég fór sem sagt líka þó ég hafi nú kannski ekki gert mikið gagn. Daginn eftir, þann 1. maí var svo opnunin. Þær hinar fóru reyndar kl. 10 um morguninn til að klára uppsetninguna en ég treysti mér ekki af stað svo snemma. En við Valur vorum komin úteftir um hálf tvöleytið. Það er gaman að segja frá því að sýningin kemur enn betur út í þessu húsnæði og er næstum því eins og ný sýning. Við breyttum líka uppsetningunni og það hjálpaði mikið til fannst mér.

Þar sem við Valur vorum komin þetta langt út fjörðinn, þá datt okkur í hug að „nota ferðina“ og kíkja í kaffi til vinafólks okkar á Ólafsfirði, þeirra Ásgeirs og Stínu. Ég sló á þráðinn til Stínu og þau voru heima svo við renndum til þeirra. Það er alltaf jafn gaman að hittast. Nú eru um 20 ár síðan við bjuggum öll í Tromsö en þrátt fyrir að oft líði langt á milli samverustunda þá er ekki hægt að merkja það þegar við hittumst.

Við stoppuðum ekkert óskaplega lengi hjá þeim og komum svo aðeins aftur við á ljósmyndasýningunni en það var mjög stutt stopp því það var nánast orðið dautt á batteríinu hjá mér. Enda sofnaði ég í bílnum á leiðinni heim, svaf á sófanum fram að kvöldmat og svaf í nærri 12 tíma um nóttina ... Þegar ég vaknaði á fimmtudagsmorgni kl. 10:30 leið mér reyndar í fyrsta skipti í langan tíma eins og ég væri nokkuð vel úthvíld. Sú tilfinning var virkilega góð en því miður dugði hún aðeins þann daginn.

Ég er alltaf að spá í að nú verði ég að taka mataræðið hjá mér í gegn en það gengur hægt að framkvæma það. Það er reyndar ekki svo slæmt hjá mér mataræðið en alltaf hægt að gera betur. Ég sleppi enn þessum matartegundum sem ég var mæld með óþol fyrir en svo eru það blessuð kolvetnin ... Það sem ég þyrfti að gera er að skrá hjá mér það sem ég borða og líðan mína á eftir. Já ég þyrfti eiginlega að vera með alls herjar skráningarkerfi til að meta áhrif þess sem ég geri (vinna, hreyfing, svefn, mataræði) á líðan mína. Samkvæmt því sem ég hef lesið þá virðist svoleiðis skráning skila sér í betri sjálfsþekkingu og betri líðan hjá þeim sem gera þetta. Mér hefur bara vaxið þetta í augum. Svo reyndar er núna nýkomið á markaðinn tölvuforrit sem heitir FibroTrack og var þróað fyrir vefjagigtarsjúklinga og það er kannski auðveldara að vinna í því, heldur en búa til sitt eigið kerfi. En það kostar reyndar 10 dollara á mánuði.

Annars var ég í einhverju „fjölskyldu- og vina- saknaðarkasti“ áðan og birti í kjölfarið pínu væminn status á facebook. Með honum fylgdi 2ja ára gömul mynd af sólarlagi við Eyjafjörð og fær hún að fljóta með hér (smá tilbreyting frá öllum vetrarmyndunum).