sunnudagur, 28. september 2008

Heima er best

Eða a.m.k. þá er rúmið okkar hér heima allra best..

Við flugum suður eftir þónokkra seinkunn á föstudagsmorguninn og lentum í höfuðborginni í þvílíkri ausandi rigningu að flugbrautin var gjörsamlega á floti. Valur fór beint á aðalfund læknafélagsins en ég byrjaði á því að hitta Rósu vinkonu og borðuðum við saman góða fiskisúpu í hádeginu og spjölluðum um heima og geima.

Eftir matinn kíkti ég í Smáralindina og fór góðan hring þar í fatabúðunum, aðallega þó Debenhams og Zöru. Var svo ljónheppin að það var 50% afsláttur á eldri fötum í Esprit (sem er eiginlega mitt uppáhaldsfatamerki þessa dagana) og það fannst mér nú ekki verra. Náði í þessa fínu buxnadragt á hálfvirði.

Þegar Valur var búinn á fundinum kom hann til fundar við mig og við fórum að kíkja á gleraugu handa honum. Það fylgja því töluverðar pælingar að fá sér ný gleraugu og eftir að hafa spáð og spekúlerað og farið og fengið okkur kaffi/tebolla í millitíðinni, valdi hann sér loks þessi fínu gleraugu.

Næst lá leiðin heim á "hótel" en það var gisting sem ég fann á netinu, smá stúdíóíbúð í Bolholti. Við vorum hálf dösuð eftir daginn en ákváðum að fara út að borða og duttum inn á þennan fína stað, Orange, þrátt fyrir að þekkja sama og ekkert til veitingahúsaflórunnar í höfuðstaðnum. Eftir matinn skruppum við svo í heimsókn til tengdó og áttum notalega stund með þeim.

Það var þó ekkert notalegt við það að þegar við fórum í háttinn sáum við að rúmið var varla meira en 1.20 á breidd og þó hvorugt okkar sé sérlega stórvaxið þá var plássið ekki nægilegt til þess að við næðum nokkurri hvíld að ráði. Ég ætlaði aldrei að geta sofnað og svo vöknuðum við bæði örugglega hundrað sinnum, ýmist til að hagræða okkur í rúminu eða af því maður var við það að detta framúr.

Laugardagsmorguninn rann upp og við ætluðum að fara fram í "continental breakfast" sem auglýstur er á heimasíðunni - en hlaðborðið samanstóð þá af nokkrum samlokubrauðsneiðum, osti, skinku og einni fernu af eplasafa. Engin aðstaða var til að borða (nema þá inni á herberginu), ekkert te, ekkert kaffi og enginn starfsmaður var heldur sjáanlegur til að spyrja nánar út í morgunmatinn. Þannig að við drifum okkur í næsta bakarí og fengum okkur í svanginn.

Svo fór Valur aftur á aðalfundinn og ég hélt áfram að dingla mér. Ætlaði að bruna í Njarðvík að heimsækja mömmu og Ásgrím og lagði af stað þangað, en þegar ég ók framhjá Hafnarfirði fékk ég þá skyndihugdettu að líta inn til Sólrúnar vinkonu minnar. Kunni þó ekki við annað en hringja á undan mér og gerði það af bílaplaninu. Það var svolítið fyndið að þegar ég spurði hvað hún segði gott þá sagði hún "allt gott, það er loksins uppstytta hér á höfuðborgarsvæðinu" og þá sagði ég "ég sé það, ég er hér fyrir utan hjá þér". Hehe, hún varð nú svolítið hissa en líka voða glöð og það var virkilega gaman að heilsa aðeins uppá þau hjónakornin.

Eftir klukkutíma hélt ég svo áfram til mömmu og fékk þar fyrst hina bestu kjötsúpu að borða og svo seinna te og hjónabandssælu. Kíkti aðeins á tölvuna með mömmu því hún á stundum í smá basli við tæknina - en mér finnst nú bara svo flott hjá henni að hafa tekið tölvutæknina í sína þjónustu þrátt fyrir að vera fædd í torfbæ, mikið sem mamma og hennar jafnaldrar hafa upplifað miklar breytingar.

Í gærkvöldi fórum við Valur svo aftur út að borða (bara lúxus á okkur) og fengum okkur indverskan mat á "Indian Mango". Eftir matinn langaði okkur í bíó og eftir smá byrjunarörðugleika enduðum við á því að sjá nýjustu mynd þeirra Cohen bræðra í Smárabíói og höfðum gaman af.

Síðan tók við nótt nr. 2 í horror-rúminu og vorum við bæði fegin að tékka okkur þaðan út í morgun. Höfðum verið boðin í morgunmat til vinafólks okkar, þeirra Ingu og Dóra, og þar beið dekkað borð eftir okkur. Ekki var félagsskapurinn síðri og áttum við góða stund saman áður en við drifum okkur út á flugvöll um hádegið.

Þannig var nú þessi suðurferð, nóg að gera allan tímann (líklega sýnu skemmtilegra hjá mér en hjá Val sem sat á fundi tvo heila daga í röð).

En mikið verður gott að fara að sofa í eigin rúmi í kvöld!

fimmtudagur, 25. september 2008

Kettirnir eru lagstir í hýði

eða það lítur a.m.k. helst út fyrir það. Þau sofa meira og minna allan daginn og Birta er nánast hætt að fara út þrátt fyrir þetta fína veður sem við höfum haft undanfarið. Það er ekki alveg kominn hýðistími hjá mér en yfirleitt fer einhver vetrardrungi að gera vart við sig í október. Þegar daginn fer að stytta og ekki lengur er bjart á morgnana þá finn ég mikinn mun á því hvað ég á erfiðara með að vakna.

Annars var ég að spjalla við eldri konu í sundi í morgun og við vorum að tala um hvað það væri gott að sofa við opinn glugga. Þá sagði hún að maðurinn sinn, sem var lögreglumaður, hefði nú ekki alltaf verið jafn hrifinn þegar hann kom heim af næturvöktum í ískalt rúmið. En það vandamál leysti hún með því að sofa þá bara í hans holu (eins og hún orðaði það) og þá kom hann heim í heita sæng á morgnana og hún gat ennþá sofið við opinn glugga. Flott hjá henni.

Og nú held ég að ég fari að huga að því hvað ég ætla að hafa með mér til Reykjavíkur á morgun.

miðvikudagur, 24. september 2008

Heimalöguð spergilkálsúpa og nýbakað speltbrauð

féll ekkert sérlega vel í kramið hjá yngri kynslóðinni hér á bæ. Það skal reyndar viðurkennast að súpan hefði mátt vera aðeins bragðmeiri og brauðið hefði hugsanlega mátt vera aðeins saltara en annars var þetta bara nokkuð gott. Strákarnir hugsa sjálfsagt gott til glóðarinnar um helgina því þá ætlum við Valur að skreppa suður og matseðillinn hjá þeim á meðan mun líklega samanstanda af pítsu og pítsu og pítsu... Tja, eða pítsu og pítsu, þetta verða bara tveir kvöldmatartímar sem þeir þurfa að sjá um matinn.

Annars hef ég ekki bakað brauð svo lengi að ég man bara hreinlega ekki hvað er langt síðan síðast. Það er af sem áður var, þ.e. þegar við bjuggum í Noregi þá fannst okkur brauðið þar svo hræðilega vont að ég byrjaði að baka brauð og bollur við mikla ánægju heimilisfólksins. En hér á Akureyri höfum við jú okkar fína bakarí við brúna og þar eru brauðin svo góð að mér dettur aldrei í hug að baka sjálf.

Og nú hef ég bara ekki fleira að segja!

mánudagur, 22. september 2008

Sé allt í móðu

Ég var að gera mig klára til að setjast við tölvuna og vinna smávegis í bókhaldinu þegar ég tók eftir því að hendurnar á mér voru álíka þurrar og Sahara eyðimörkin á þurrktímabili. Þannig að ég skellti á mig vestfirskum villimeyjar húðgaldri og ætlaði svo að bretta uppá ermarnar og byrja að pikka. Þá tók ég eftir því að mig vantaði gleraugun. Sé ágætlega án þeirra en þreytist í augunum svo ég ákvað að sækja þau og skella þeim á nefið. Tókst þá ekki betur til en svo að ég rak einn fingur í annað glerið (eða plastið, það er víst ekkert gler í þessum gler-augum) og kámaði það þvílíkt út. Tók tusku og reyndi að þurrka fituna burtu með þeim eina árangri að hún dreifðist út um allt. Ekki vildi ég fara með gleraugun undir rennandi vatn því þá myndi handáburðurinn fara af mér í leiðinni - svo hér sit ég með fremur þokukennda sjón á vinstra auganu ;-)

laugardagur, 20. september 2008

"Ég held að ég hafi bara aldrei borðað svona góðan humar"

Þessi setning hraut af vörum mannsins míns í kvöldmatnum. Þannig var að Valur gerði smá viðvik fyrir vinkonu mína og færði hún okkur humar í þakklætisskyni. Þetta var risastór humar og Valur grillaði hann í kvöld og heppnaðist matreiðslan svona líka ljómandi vel. Ég borðaði heilhveitipasta og salat með humarnum og strákarnir borðuðu hefðbundið hvítt pasta (Rustichella) og snittubrauð. Ég er sem sagt enn í hollustunni og hef enn sem komið er bara átt verulega erfitt með mig einn einasta dag. Það var á fimmtudaginn en þá var ég í fríi frá vinnunni og hreinlega hálf leiddist eitthvað. Svo fékk ég þessa fínu uppskrift að hollustuköku í dag í vinnunni hjá henni Fanneyju Dóru sem er annar tveggja nýrra starfskrafta hjá okkur. Ég hlakka virkilega til að prófa uppskriftina. Svo er meiningin að vera dugleg að finna hollustu-uppskriftir og prófa eitthvað nýtt. Ég verð nú bara að segja að ég finn strax smá mun á mér. Finnst ég ekki vera jafn sljó eitthvað og þokukennd í hugsun (tja svona í heildina séð, á nú alveg mín "utanviðmig" moment ennþá). Verkirnir í skrokknum eru kannski svona hakinu minni - og mega gjarnan minnka ennþá meira - en ég var líka að spá í það að ef maður hefur í langan tíma verið að borða eitthvað sem er ekki gott fyrir mann þá hlýtur líka að taka langan tíma fyrir líkamann að ná að "hreinsa sig" af þessu öllu saman. Ég er alla vega ákveðin í því að halda þessu til streitu og sjá hvort ég næ ekki að verða eitthvað betri til heilsunnar með hollara mataræði. Reyndar er ekki eins og ég hafi verið að borða eitthvað brjálað óhollan mat, alls ekki. Ég t.d. drakk sjaldan gos og ekki lá ég í snakkinu, en súkkulaði og sætindi eru minn veikleiki. Valur eldar yfirleitt hollan mat svo málið sýst í raun um að hætta að troða í sig súkkulaði og sætabrauði milli mála og borða meira af ávöxtum og grænmeti. Ætti ekki að vera flókið en ég er sem sagt algjör kolvetnafíkill. Langar alltaf til að troða í mig kexi, súkkulaði og sætindum þegar ég er þreytt, stressuð, leið eða vantar orku. Brandarinn er bara sá að þegar ég borða sætindi þá líður mér voða vel í smá stund en svo ennþá verr á eftir þegar blóðsykurinn fellur hratt aftur. En þegar ég sleppi sætindunum þá er orkan miklu jafnari yfir daginn og mér líður í heildina mun betur. Svo er það bara að halda sömu stefnu áfram - getur reynst erfitt þegar daginn fer að stytta - en ég geri mitt besta til að falla ekki í freistni ;-)

Þetta var enn ein sjálfhverfa bloggfærslan í boði Guðnýjar.

fimmtudagur, 18. september 2008

Íslenskt veðurfar!

Áðan var sól og töluverður vindur úti svo ég hugsaði mér gott til glóðarinnar og ákvað að þvo af rúminu hans Ísaks af því það var svona góður þurrkur. Það stóð náttúrulega á endum, þegar ég opnaði þvottahúshurðina og fór út með þvottabalann fór að rigna. Sólin skein reyndar ennþá og hjálpaði til við að gera glæsilegan regnboga í norðrinu. Og ég lét þennan rigningarskúr ekki setja mig út af laginu, heldur hengdi upp rúmfötin - hef ekki trú á því að hann standi lengi.

Haustið komið


Haustið komið, originally uploaded by Guðný Pálína.

Já, það fer víst ekki á milli mála að haustið er komið. Ég tók þessa mynd út um svaladyrnar (eru reyndar ekki lengur svalir þar heldur trappa niður í garðinn), bara svona til að sýna að það snjóaði í fjöll í nótt. Annars hefur septembermánuður fram til þessa verið mjög hlýr, sérstaklega yfir miðjan daginn. Maður kappklæðir sig að morgni því þá er fremur kalt en svo þegar vinnan er búin er maður að kafna úr hita því úti er kannski sól og 18 stiga hiti. Reyndar er hálf skrítið veður úti núna, það er til skiptis sól/sólarlaust og logn/vindur. En akkúrat þegar ég tók myndina var hávaðarok og sólin í felum bak við ský.

miðvikudagur, 17. september 2008

Slök sundferð í morgun

Ég fór í sund þrátt fyrir hvassviðri og komst að því að nýja sundlaugin var lokuð. Mikið af laufblöðum og rusli hafði fokið ofan í hana í nótt og stíflað rennur og niðurföll svo hitastýringin í lauginni klikkaði og hún var ísköld. Það var hægt að synda í gömlu lauginni og ég fór nokkrar ferðir en hún var líka ansi skítug. Svo fór ég í pottinn samkvæmt venju en að sjálfsögðu var hann líka fullur af laufblöðum og sandi þannig að upplifunin var ekki alveg sú sama og venjulega. Gufan var að vísu hrein - en ekki nógu heit, þannig að þetta var hálf misheppnað eitthvað. Kalda sturtan stóð reyndar alveg fyrir sínu, þannig að sá partur var í lagi. Á heimleiðinni sá ég starfsmenn bæjarins í óða önn að hreinsa upp brotin tré af götum og gangstéttum. Íbúum húss við Þingvallastræti hefur áreiðanlega brugðið í brún í nótt því stærðarinnar ösp hafði brotnað nánast niðri við rætur sínar og fallið á húsið. Ég sá nú ekki hvort rúður voru brotnar eða þvíumlíkt en það hefur greinilega gengið á ýmsu í nótt. Sem betur fer svaf ég sætum svefni því það er fátt sem ég þoli verr en hvassviðri.

mánudagur, 15. september 2008

Ég þoli ekki skápalykt af fötum

Er sem sagt búin að taka megnið af sumarfötunum úr umferð og var að setja vetrarpeysurnar í réttar hillur en þá var svo hræðileg skápalykt af sumum þeirra að ég þarf að þvo þær fyrst. Þannig að núna snýst tromlan í þvottavélinni og ég er bara að leika mér á meðan. Þyrfti samt að finna stóran plastpoka undir föt sem fjölskyldan er hætt að nota svo hægt sé að gefa þau í Rauða krossinn.

Svo þyrfti ég líka að leggjast í smá pappírsvinnu og ganga frá reikningum í möppur en því nenni ég ómögulega núna. Það styttist líka í næsta virðisaukauppgjör svo ég þyrfti eiginlega að fara að byrja á bókhaldinu fyrir júlí og ágúst - en ég nenni því ekki heldur. Fussum svei, þvílík leti í konunni! Annars held ég að ég sé ekkert sérlega löt að eðlisfari. Var það þegar ég var unglingur (nennti ekki að hjálpa til heima o.s.frv.) en núna er það aðallega heilsufarið sem verður til þess að ég geri ekki hluti sem ég þyrfti að gera. Tja, að vísu þá á ég það til að fresta því í lengstu lög að byrja á vissum verkefnum, en það er ekki beint leti sem er orsakavaldurinn (frekar angi af verkkvíða, þ.e. það er eitthvað sem vex mér í augum). En svo þegar ég er byrjuð þá er þetta auðvitað ekkert mál.

Af starfsmannamálum í Pottum og prikum er það að frétta að við erum komnar með tvo nýja starfsmenn í hlutastarfi og ætti þá að létta aðeins á okkur Sunnu sem höfum verið að vinna svolítið mikið síðan Nanna flutti til Danmerkur. Þannig að bráðum verðum við komnar með þetta fína vaktaskipulag og þá ætti að komast meiri regla á vinnutímann hjá okkur - sem er bara hið besta mál.

sunnudagur, 14. september 2008

Mér tókst það

Að minnsta kosti nokkurn veginn, að vera með hollustufæði í kvennaklúbbnum. Ég var með hollustuköku (í botninum eru rifnar gulrætur, malaðar hnetur og döðlur og ávextir ofaná) og heitt rúllutertubrauð með grænmeti, hráskinku og ostum. Með kökunni var vanillusósa sem búin var til úr kasjúhnetum sem lagðar voru í bleyti, hörfræolíu, vatni og vanilluhrásykri. Þetta féll bara í ágætan jarðveg hjá dömunum og ég gat borðað veitingarnar án þess að hafa áhyggjur af því að vera að svindla í mataræðinu. Að vísu var eitthvað hveiti í rúllutertubrauðinu en ég geri nú kannski ekki ráð fyrir því að geta verið alveg 100% hveitilaus, amk ekki alveg strax. Í gærkvöldi fórum við svo út að borða fjölskyldan og þá fékk ég mér þetta fína kjúklingasalat. Horfði smá öfundaraugum á karlpeninginn borða afar girnilegt nýbakað hveitibrauð með pestói - en stóðst freistinguna.

Í dag er ég búin að fara í sund, borða morgunmat með eiginmanninum, setja í eina þvottavél og þá er það víst upptalið. Eiginlega ætlaði ég að fara í gegnum fataskápinn minn í dag, setja sumarfötin í geymslu og skoða hvaða föt ég er hætt að nota. En svo settist ég bara fyrir framan tölvuna... Svo erum við Ísak að fara í leikhúsið klukkan þrjú. Hann langaði svo mikið að sjá Óvita af því vinur hans er að leika í sýningunni.

miðvikudagur, 10. september 2008

Byrjar ballið aftur

Eða öllu heldur, nú er komið haust og þá byrjar kvennaklúbburinn að hittast að nýju. Og enn er röðin komin að mér að halda klúbb - og enn er ég í vandræðum með það hvaða veitingar ég á að bjóða uppá. Það er auðvitað ekkert nýtt en nú vandast málið enn frekar því ég er í hveiti- og sykurátaki, þ.e. markmiðið er að hætta alfarið að borða hveiti og sykur og sjá hvort það hefur áhrif til hins betra á vefjagigtina. Þá er nú áskorunin að finna uppskriftir að bragðgóðu hollustufæði í klúbbinn. Ég var reyndar að fletta ýmsum uppskriftum eftir Sollu á Grænum kosti og þar má finna margt sem virðist vera gómsætt. Eiginlega svo margt að það er erfitt að velja. En sem sagt, föstudagurinn í síðustu viku var fyrsti sykur- og hveitilausi dagurinn og hef ég bara staðið mig eins og hetja (með undantekningu af smá ostakökusneið sem var í eftirrétt í matarboðinu á laugardagskvöldið). Er búin að fylla ávaxtaskálina og grænmetishólfin í ísskápnum og kaupa þurrkaðar apríkósur og fíkjur til að seðja sætindaþörfina. Ég reyndar fór í svona samskonar átak í fyrrahaust og það gekk ágætlega fram í nóvember. Um leið og við byrjuðum að vera með nammi í skál handa viðskiptavinum fyrir jólin sprakk ég á limminu og þegar ég var einu sinni sprungin þá var svo óskaplega erfitt að byrja aftur. Þannig að nú má ég bara ekki springa á limminu ;-)

þriðjudagur, 9. september 2008

Uss þetta gengur ekki

Var allt í einu að átta mig á því að ég hef nánast ekki tekið neinar myndir í sumar. Annað en Valur sem hefur verið að taka fullt af myndum. Núna síðast hefur hann verið mikið niðri við sjó og tekið myndir af nýju "vinum sínum" hvölunum sem halda til á Pollinum. Nokkrar þeirra mynda eru rosalega skemmtilegar og spurning hvort ég verð ekki bara að fá eina þeirra lánaða hjá honum til að birta hér á síðunni úr því ég er ekki að standa mig í stykkinu.

Frí í dag og ég í letikasti

Já ég á frí í dag og veit ekki alveg hvað ég á af mér að gera því allir aðrir eru jú í vinnu eða skóla. Heimilisverkin bíða reyndar eftir mér en það er nú önnur saga...

Annars gengur lífið sinn vanagang. Ég hef að vísu verið alveg sérlega slæm af vefjagigtinni undanfarið og í ofanálag hefur lati fótur verið að stríða mér. Þannig að það er auðvelt að leggjast í sjálfsvorkunn og skiptir þá litlu máli þó maður viti að það sé fullt af fólki sem hefur það margfalt verra en maður sjálfur. Maður verður alveg ótrúlega sjálfhverfur þegar maður á bágt.

Ég áttaði mig samt á því þegar ég sat í heita pottinum áðan að ég mætti nú bara alveg hrósa sjálfri mér stundum. Þó ekki væri nema fyrir það að hafa viljastyrk til að fara á fætur á morgnana, synda og fara í vinnuna, þegar líkaminn er allur undirlagður úr stirðleika og verkjum, þreytan er yfirgengileg og heilastarfsemin er ekki uppá sitt besta. Það væri ótrúlega auðvelt í rauninni að gefast bara upp á þessu ástandi og leggjast í rúmið fyrir fullt og allt. En ég veit að ég er ekki alltaf svona slæm svo það er bara að þreyja þorrann í þeirri fullvissu að þetta fari skánandi.

Sem betur fer tekst mér yfirleitt að gleyma vanlíðaninni í vinnunni og líður vel ef það er mátulega mikið að gera. En það þýðir þá líka að öll orkan er búin þegar ég kem heim svo það er afar heppilegt að minn ástkæri eiginmaður sér um matseldina á þessu heimili. Ég þarf ekki að gera neitt nema setjast að borðinu og ganga frá eftir matinn. Svo set ég kannski í eina þvottavél og þá er það upptalið.

Einhverra hluta vegna hef ég reynt að tala sem minnst um vefjagigtina á þessum blogg-vettvangi. Kannski er ég hálfpartinn með fordóma gagnvart mínum eigin sjúkdómi. Finnst þetta innst inni vera einhver aumingjaskapur, að ég ætti nú að vera fær um að "hrista þetta af mér" og verða frísk. Eftir að hafa verið með þessa gigt í mörg ár er ég farin að átta mig á því að ég get ekki sveiflað töfrastaf og látið hana hverfa. En nú er ég bara eitthvað svo innilega leið á þessu ástandi að ég fann þörf hjá mér til að skrifa um þetta.

Svo ég endi þetta nú á skemmtilegri nótum, þá vorum við Valur boðin í mat á laugardagskvöldið síðasta. Þannig var mál með vexti að vinafólk okkar sem flutti suður fyrir þremur árum voru stödd í sumarbústað yfir í Vaðlaheiði og þau buðu okkur og öðrum vinahjónum í grillaðan mat. Það var humar í forrétt og lax í aðalrétt, hvoruteggja afar ljúffengt. Ekki var nú síðra að hitta gamla vini og spjalla um heima og geima langt fram á kvöld.

Andri og Sunneva eru komin heim frá útlöndum og hafði Andri meðferðis glaðning handa mömmu sinni og pabba og litla bróður. Ég fékk hvorki meira né minna en hlýja peysu fyrir veturinn, Ísak fékk bol og Valur... já hann fékk Superman nærbuxur ;-)

fimmtudagur, 4. september 2008

SMS frá Ísaki...

"Var 4 á toppinn, er núna þar og hinir eru langt á eftir"

Það er sem sagt göngudagur í Lundarskóla í dag og 7. og 8. bekkur gengu á Súlur. Bara verst hvað er lágskýjað þannig að göngugarparnir fá ekki annað útsýni en nærumhverfið.

þriðjudagur, 2. september 2008

Sumarnótt


Sumarnótt, originally uploaded by Guðný Pálína.

Ein frá því í júlí...

Húsmóðurheiðrinum bjargað

Já gardínurnar eru komnar upp, ótrúlegt en satt. Þetta telst nú enginn afreks-saumaskapur en afrek samt af minni hálfu, amk á þessum síðustu og verstu tímum. Að vísu fannst mér liturinn á gömlu gardínunum tóna betur við gula litinn sem Ísak er með á veggjunum en ég á reyndar eftir að sjá þetta í dagsbirtu. Svo eru veggirnir dálítið tómlegir eftir að hann tók niður allar myndirnar sem þar voru. En það má skoða þetta allt saman.
Áðan heyrði ég einhver ámátleg væl utan úr garði og fann Mána í pattstöðu með öðrum ketti þar úti. Þeir hreyfðu sig aðeins til þegar ég kom og Máni notaði tækifærið til að sýna mér hvað hann væri nú orðinn flinkur að verja lóðina okkar - en sem betur fer urðu engin meiriháttar slagsmál. Meira hvað hannn þykist nú allt í einu vera orðin mikil hetja. Og í þessum töluðu orðum kemur kappinn og stekkur uppá skrifborð til mín. Ætli hann planti sér ekki beint fyrir framan skjáinn næst, hann er vanur því. Við fengum okkur nú öll smá blund saman í dag, ég, Birta og Máni. Vinnunni var nefnilega þannig háttað hjá mér í dag að fyrst var ég að vinna frá 10-13.30 og svo frá 16-18. Í pásunni þarna á milli kom ég heim og var svo slöpp eitthvað að ég lagði mig. Nokkuð sem gladdi kettina mikið og hressti mig við ;-) Svo labbaði ég í vinnuna og kom þangað úthvíld og rjóð í kinnum eftir gönguna.
Heimferðin reyndist mér öllu erfiðari og þessi blessaði "lati" fótur minn var farinn að þvælast dálítið mikið fyrir mér í restina. Hann er svo kraftlaus eitthvað og mig fer að verkja í hann + að ég hálfpartinn dreg hann á eftir mér þegar ég er þreytt. Það eru núna fjórir og hálfur mánuður frá því að ég fór í brjósklosaðgerðina svo eiginlega finnst mér að fóturinn ætti að vera búinn að jafna sig betur - en ætli sé ekki bara best að panta sér tíma hjá sjúkraþjálfara og athuga hvort hann getur kennt mér einhverjar æfingar til að styrkja fótinn.