fimmtudagur, 1. desember 2011

Skammdegið er greinilega komið í hús

Ég svaf til hálf tíu í morgun og fór létt með það. Úti er ennþá rökkur og ég sit hér nánast hálfsofandi. Lítil merki sjást um dagsbirtu, og miðað við útganginn á mér er ekki hægt að sjá að ég eigi að mæta í leikfimi eftir 40 mínútur.

Í gær var ég að vinna frá 10 til 15.45. Þá fór ég heim og hugsaði að nóg væri komið af vinnu þann daginn. Ekki stóð ég nú samt við það, því þegar ég var búin að fá mér aðeins í gogginn settist ég við tölvuna og fór að reikna út launin. Það er dálítið tímafrekt því við skrifum vinnutíma allra upp í Excel skjal og þó Excel sé síðan eldsnöggt að reikna út fjölda tíma (sem við setjum síðan inn í þar til gert launakerfi sem reiknar út sjálf launin, frádráttarliði og slíkt) þá er það alltaf smá handavinna að skrifa tölur inn í Excel og passa að réttar tölur fari á rétta staði. Að því loknu fór ég að skoða vörulista frá Sagaform og klippa þar út myndir af vörum til að auglýsa þær á facebook. Það var líka handavinna því skjalið var á pdf formi og ég þurfti að taka skjámynd af þeim vörum sem ég vildi og vista þær sem jpg skjöl, svo hægt væri að hlaða þeim inn á fb. En þá eigum við líka fleiri myndir í góðum gæðum sem hægt er að nota þegar við erum að auglýsa í Extra dagskránni. Svo fór ég að skoða verðlista yfir nýjar vörur sem við höfðum ekki komist í að vinna úr. Þá þarf að finna mynd af viðkomandi vöru á netinu, skoða hvað hún myndi kosta út úr búð hjá okkur, og ákveða hvort við viljum panta hana og þá í hvaða magni. Þetta síðasta gerum við Sunna raunar yfirleitt í sameiningu og þess vegna hringdi ég í hana eftir kvöldmatinn og við tókum smá syrpu saman.

Þegar hér var komið sögu var ég orðin frekar steikt í höfðinu en Anna systir bjargaði því að ég yrði enn verri með því að hringja í mig á Skype og við spjölluðum aðeins saman. Alltaf gaman að heyra í fólkinu sínu, ég er að verða enn viðkvæmari fyrir því með aldrinum, hvað er langt á milli okkar allra. Ekki þannig samt að ég hugsi um það alla daga... En já það væri notalegt að geta hist oftar. Það gildir líka um fjölskylduna hans Vals en þau eru jú öll í Reykjavík.

Jæja nú er ég hætt þessu bulli. 30 mínútur þar til leikfimin byrjar, ég ekki búin að borða og Birta liggur í fanginu á mér malandi sæl og glöð. Verst að þurfa að henda henni niður á gólf en við það verður ekki ráðið.

Engin ummæli: