Það var svo brjálað að gera í vinnunni í dag. Sem er afskaplega jákvætt, en um leið gerir það að verkum að ég settist ekki niður í 5,5 tíma og var orðið óglatt af þreytu þegar ég fór heim. Við vorum þrjú að vinna þegar mesta álagið var, sem betur fer, og hefðum næstum mátt vera fjögur. En það er samt bara einn kassi/posi svo það er takmarkað gagn að því að hafa fleiri starfsmenn. Ég var samt mjög ánægð með daginn, svona rekstrarlega séð, og svo er bara að þrauka næstu 2 vikurnar... þetta hefst. Bara pirrandi að komast aldrei yfir allt sem þarf að gera og ég sé fram á að þurfa að græja ýmislegt á morgun s.s. að reikna út desemberuppbót og panta vörur. Já og við Sunna eigum enn eftir að skipuleggja vinnuna fram að jólum, og ætlum að gera það á morgun. Svo þarf ég að vera á bakvakt, ef ske kynni að það vantaði fleira fólk í vinnu, en þær verða tvær Silja og Kara yfir háannatímann.
Á morgun á líka tengdamamma afmæli. Hún verður 85 ára og ætlar að halda uppá það með því að bjóða fólkinu sínu á jólahlaðborð. Valur flýgur suður í fyrramálið og kemur heim seinnipartinn. Ég fer ekki með, enda yfirdrifið nóg að stússast + að ég þyrfti nú eiginlega að hvíla mig eitthvað á morgun. En er að sjálfsögðu með samviskubit yfir því að fara ekki... Ég fór reyndar ekki heldur suður þegar mamma átti afmæli - og skammaðist mín líka fyrir það. Mér til afsökunar hélt hún ekki formlega uppá afmælið sitt og ég heimsótti hana skömmu síðar þegar ég var á leiðinni til Köben.
Æ jæja, best að hætta þessu væli og reyna að fara að sofa í hausinn á sér. Spurning hvort þetta endar með uppáskrift á svefnlyf handa frú stresshaus.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli