laugardagur, 31. mars 2007

Það styttist í Danmerkurferð

hjá mér. Fer suður á mánudaginn og gisti hjá mömmu í Keflavík um nóttina. Flýg svo út snemma á þriðjudagsmorgni og verð komin til Köben um hádegisbilið. Ég er nú eiginlega með smá samviskubit yfir því að yfirgefa strákana mína (Val, Andra og Ísak) um páskana en veit samt alveg að það er óþarfi. Annars er ég búin að komast að þeirri niðurstöðu að ég fer of sjaldan í ferðalög. Mér finnst nefnilega alveg ógurlega flókið að ákveða hvaða föt ég á að taka með mér. Aðalvandamálið er skórnir. Mig vantar betri alhliða skó sem passa við flestan fatnað en eru þægilegir. Það er hálf fyndið að vera að básúna þetta hér en í augnablikinu er þetta mitt stærsta vandamál. Ég er að fara í burtu í eina viku og veit ekki hverju ég á að pakka í ferðatöskuna. Þegar ég var í skátunum var þetta svo einfalt, það var alltaf það sama sem fór í bakpokann og fötin áttu bara að henta sumri eða vetri og vera þægileg. Undanfarin ár hefur það yfrleitt verið þannig að ég tek annað hvort alltof mikið með mér, alltof lítið, eða þá ranga hluti. Jæja, þetta fer allt einhvern veginn...

föstudagur, 30. mars 2007

Bílpróf og alles


Andri er kominn með bílpróf. Sem þýðir að hann fær bílinn lánaðann í tíma og ótíma og nálin á bensín- mælinum hreyfist ansi hratt niður á við þessa dagana. Ætli þetta róist ekki aðeins þegar mesta nýjabrumið er farið af? Ja, það má allavega vona... Hér er kappinn að bakka út af bílastæðinu og eins og sjá má horfir hann vel og vandlega í kringum sig á meðan :-)

fimmtudagur, 29. mars 2007

Og áframhaldandi fjör...

Búið að skila skattaskýrslunni, bókhaldið nánast búið, þetta er allt í áttina. Ég hef samt haft óvenju mikið að gera undanfarið og meira að segja sundið hefur farið halloka þessa vikuna. Meðal annars dreif ég mig ásamt 549 öðrum akureyskum konum á leiðtoganámskeið núna í vikunni. Ég var nú hálf efins í fyrstu af því námskeiðið er í boði Sjálfstæðisflokksins - en ákvað svo að það væri sama hvaðan gott kæmi. Á þriðjudagskvöldið var fyrirlestur með Ásdísi Höllu Bragadóttur og skemmst er frá að segja að hún var skemmtilegur fyrirlesari og ýmislegt sem hún sagði ýtti við mér. Það er oft þannig á námskeiðum að maður er kannski ekki beint að heyra svo margt nýtt en samt rifjast ýmislegt upp og kannski einmitt hlutir sem maður þarf á að halda í augnablikinu. En fyrir utan innihald fyrirlestursins þá var það í rauninni afar sérstök upplifun að sitja í sal með öllum þessum konum. Þetta voru konur á öllum aldri og af ýmsum þjóðernum. Og ég þekkti eða kannaðist við alveg ótrúlega margar. En nú er best að hætta þessu rausi og taka sig til fyrir námskeiðskvöld nr. 2.

sunnudagur, 25. mars 2007

Já það er fjör

og nóg að gera. Á föstudaginn var ég að vinna frá tíu til tvö og fór þá á árshátíð Lundarskóla þar sem Ísak var að leika í Skilaboðaskjóðunni og var rosa flottur dvergur. Svo tættist ég í bakarí og keypti tvær tertur og þaðan heim þar sem ég bjó til snittubrauð með dalabrie og hunangi og rúllutertubrauð með gráðaosti og blaðlauk. Konuklúbburinn heppaðist með ágætum en ég var svo sprungin á limminu um kvöldið að ég held að ég hafi farið að sofa fyrir hálf ellefu.
Í gær vorum við Sunna að vinna heimasíðunni og bókhaldinu lungann úr deginum. Í gærkvöldi horfðum við Valur á Mors Elling, norska mynd sem Kiddi var svo höfðinglegur að færa Val þegar hann (Kiddi) kom frá Danmörku um daginn. Hann gaf reyndar líka dvd-myndina um Elling (sem við áttum á vídeóspólu). Sú mynd er alveg frábær og skemmtilegri saga sem liggur þar að baki.
Núna á eftir erum við svo að fá vinafólk okkar í heimsókn. Ég er að baka eplabrauð og Valur ætlar að baka vöfflur. Það verður gaman að hitta þau en þau eru hluti af þeim mörgu vinum og kunningjum sem hafa flust héðan frá Akureyri á síðustu tíu árunum.

Þá er bara skattaskýrslan eftir... já og klára bókhaldið.

miðvikudagur, 21. mars 2007

Skattaskýrsla, bókhald,

árshátíð Lundarskóla, kvennaklúbbur... það er fleira á listanum en ég sleppi því að telja það allt upp. Aðal vandamálið er að fá þetta til að smella saman á þeim stutta tíma sem er til stefnu. Auðvitað hefst þetta allt en stundum virka hlutirnir hálf óyfirstíganlegir eitthvað þó maður viti að það sé bara vitleysa.

mánudagur, 19. mars 2007

Undur og stórmerki

Já undrin gerast enn. Eftir langa fjarveru úr bloggheimi hefur Halur bloggað. Hvort þetta er byrjunin á nýjum og glæstum bloggferli er ekki vitað en við getum vonað :-)

laugardagur, 17. mars 2007

Velheppnuð afmælisveisla

Í gær var haldið uppá afmælið hans Ísaks og komu 14 strákar í veisluna. Fjörið byrjaði reyndar niðri í sundlaug þar sem öllum gestunum var boðið í sund. Þar skemmtu þeir sér við að atast í Val, í stórfiskaleik og fleiri leikjum og renndu sér í rennibrautunum í um klukkutíma. Valur labbaði svo með þeim heim en ég keyrði heim á undan þeim og pantaði pítsur í tonnatali. Það veitti ekki af því þeir voru vel svangir eftir sundið. Svo hófst keppni í fótboltaspili (svona gamaldags, ekki tölvu) sem leit út fyrir að vera æsispennandi miðað við hljóðin sem bárust upp á efri hæðina. Eftir það fóru sumir í feluleik og aðrir í lego en stuttu áður en afmælið endaði fóru allir út að leika sér. Strákarnir voru allir í góðu skapi allan tímann og Ísak var himinlifandi með velheppnaða veislu. Gaman að þessu :-)

fimmtudagur, 15. mars 2007

Fallið í valinn


Líklega er það merki um að ég sé að eldast - en sífellt fleira fólk á mínum aldri fellur í valinn. Fyrir ekki löngu síðan var ein jafnaldra mín sem ég kannaðist við jörðuð hér á Akureyri og í morgun sá ég í Morgunblaðinu að gamli skátaforinginn minn, hún Sigga Stefáns, er dáin. Ég veit að þetta er gangur lífsins og óneitanlega deyr fullt af miklu yngra fólki en engu að síður þá fær þetta á mig. Kannski af því maður þarf að horfast í augu við að vera sjálfur dauðlegur, kannski af því þetta minnir mann á að bíða ekki með að gera hitt og þetta þar til seinna, kannski af því maður minnist góðra stunda með viðkomandi og á erfitt með að samþykkja að hann eða hún sé ekki meðal okkar lengur. Æ, ég veit það ekki, Sigga var alla vega frábær skátaforingi. Við stofnuðum nýjan skátaflokk, Sporið 2. sveit, og það var svo gaman þegar við vorum að búa til merki flokksins, hanna skátaskikkjurnar, göngustafinn og fleira og fleira. Svo fórum við á skátamót í Leyningshólum, það var fyrsta skátamótið mitt og mér fannst það algjört ævintýri.

miðvikudagur, 14. mars 2007

Tókst að komast áfallalaust í gegnum daginn

Var þó farin að efast á tímabili. Hélt mig hér heima framan af morgni en fór svo í útréttingar og kom heim um eittleytið. Rak þá augun í Andra sem var á leiðinni aftur í skólann eftir matarpásu. Keyrði hann í skólann og þegar við vorum að renna þar upp að hringdi farsíminn minn. Andri svaraði og talaði smá við pabba sinn en rétti mér svo símann. Á þeim tímapunkti var bíllinn stopp. Ég tók við símanum af Andra og ætlaði að aka af stað - en á sama tíma ætlaði sonurinn að fara út úr bílnum (var búinn að opna hurðina og ætlaði að stíga út). Ég áttaði mig í tíma og stoppaði aftur og hann fór út (eftir að hafa horft á mig með ansi skemmmtilegum svip, það var eins og hann væri ekki alveg að trúa því að mamma hans gæti verið svona rosalega utan við sig). Síðan keyrði ég af stað, með símann í hendinni, og var búin að steingleyma að Valur biði á línunni. Það tók nú reyndar ekki nema stutta stund þar til ég mundi eftir því og tók upp tólið. En ég var eiginlega farin að hafa þungar áhyggjur af því hvernig þessi dagur myndi enda úr því hann byrjaði svona skrautlega. Ótrúlegt en satt, ég var þó nokkurn veginn með réttu ráði það sem eftir lifði dagsins, gerði engar gloríur í vinnunni og ekki heldur á Greifanum. Batnandi fólki er best að lifa...

Afmæli og nærri því ákeyrsla á blaðaburðarmann

Ísak á afmæli í dag og er orðinn 12 ára. Á hraðri leið með að verða fullorðinn (eða það finnst mér). Formleg afmælisveisla verður haldin á föstudaginn en svo fékk hann að velja um það hvort haldið yrði fjölskyldu-afmæliskaffi hér heima í dag eða við færum út að borða á Greifann. Það kemur engum á óvart sem til þekkir að hann valdi Greifann. Ég er að vinna til sex í dag og sagði að við skyldum bara fara um leið og ég væri búin að vinna. Andri var ekki viðstaddur þegar þetta var rætt en þegar hann var á leið í skólann í morgun mundi ég allt í einu eftir að segja honum frá þessu. Þá kom í ljós að mamma gleymna hafði gleymt því að sonurinn er á handboltaæfingu klukkan sjö. Og þar með var allt skipulag komið í uppnám og ég var hálf miður mín yfir því. Ég kvaddi Andra og ætlaði sjálf að drífa mig í sund. Fór inn í bílskúr og bakkaði út en var svo hugsi yfir þessu öllu að ég hlýt að hafa gleymt að fylgjast með umferðinni þegar ég bakkaði út á götuna. Að minnsta kosti sá ég ekki manninn sem var að bera út Fréttablaðið (þann sama og gekk einu sinni beint út á götuna í veg fyrir mig þannig að ég þurfti að snarstoppa) og var nærri búin að bakka á hann. Fór svona rétt framhjá honum og fékk vægt áfall þegar ég kom auga á hann þarna við hliðina á bílnum. Sem betur fer slapp ég með skrekkinn í þetta sinn. Alla vega, enginn meiddist og Sunna ætlar að bjarga mér með síðasta hálftímann í vinnunni þannig að við getum farið út að borða klukkan hálf sex og allir geta verið glaðir. Ja, nema Hrefna sem er í Köben og missir af út-að-borða ferð með fjölskyldunni. En við förum bara saman út að borða mæðgurnar þegar ég fer til hennar um páskana :-)

Hér á heimasíðu Goðamótsins má sjá afmælisbarnið á fullri ferð í einum af mörgum fótboltaleikjum liðinnar helgi.

mánudagur, 12. mars 2007

Ég steingleymdi að minnka myndirnar

hér að neðan áður en ég setti þær á síðuna og þess vegna gera síðuna örugglega svolítið þunga. Ætli það endi ekki bara með því að ég kippi alla vega annarri þeirra út.

Má bjóða þér sæti?


Má bjóða þér sæti?, originally uploaded by Guðný Pálína.

Ég læt þessa mynd fljóta með líka. Eflaust væri hægt að leika sér með liti og lýsingu og fá þannig meiri dýpt í hana en í fyrsta lagi á ég ekkert almennilegt myndvinnsluforrit og í öðru lagi þá er ég svolítið veik fyrir að hafa myndirnar eins og þær koma af skepnunni (ef svo má að orði komast). En alla vega, þessi mynd er tekin niðri á Óseyri og eflaust gætu þessir stólar sagt okkur margar skemmtilegar sögur ef þeir gætu talað ;-)

laugardagur, 10. mars 2007

Góður dagur

Ísak er að keppa á Goðamótinu í knattspyrnu þessa helgina og spilar í allt fimm eða sex leiki, allt eftir því hvort þeir komast í úrslit i sínum riðli. Hann byrjaði reyndar mótið ekkert smá vel, skoraði einu tvö mörkin sem hans lið skoraði í fyrsta leiknum og var mjög ánægður með það eins og gefur að skilja.

Í morgun átti hann svo leik klukkan tíu og við foreldrarnir fórum og horfðum á. Eftir leikinn fórum við heim og fengum okkur kaffi og brauð úr Bakaríinu við brúna en skelltum okkur svo upp í fjall og náðum þar rúmum klukkutíma í alveg hreint yndislegu veðri, sól og hita. Færið var líka frábært svo ég var hreint og beint í sæluvímu. Brunuðum svo í bæinn og sáum næsta leik hjá Ísak en það var fyrsti leikurinn sem þeir töpuðu. Þeir voru ógurlega svekktir en svona eru víst íþróttirnar.

Eftir að hafa ryksugað alla efri hæðina (synirnir sáu reyndar um sín herbergi, verst að kettirnir geta ekki ryksugað öll hárin eftir sig) skutlaði ég Ísak að kaupa laugardagsnammi og keypti í matinn. Var í svo góðum gír að ég dreif mig í góðan göngutúr og var ægilega ánægð með sjálfa mig á eftir.

Svo eldaði Valur rétt sem er í matreiðslubók Jóhönnu Vigdísar fréttakonu og er alveg rosalega einfaldur en engu að síður bragðgóður. Í honum á reyndar að vera kálfakjöt en það fæst aldrei hér í verslunum svo við vorum með svínalundir í staðinn og það virkaði vel.

Nú er Ísak farinn á kvöldvöku, Andri er á sínum venjulega stað fyrir framan tölvuna og ætli styttist ekki í það að við foreldrarnir deyjum heiladauða fyrir framan imbakassann. En það er líka allt í lagi þegar maður er búinn að eiga svona góðan dag :O)

föstudagur, 9. mars 2007

Frekar fúlt

Er í vinnunni núna og það er frekar rólegt í dag. Föstudagseftirmiðdagar eru reyndar yfirleitt fremur rólegir, ætli flestir séu ekki að kaupa matvörur og þvíumlíkt til helgarinnar og straumurinn liggi í Bónus, Hagkaup og Nettó. Nema hvað, þeir sem hafa þó komið í búðina hafa greinilega ætlað að fara að þrífa fyrir helgina (ja fyrir utan einn sem kom hér og fékk að hringja, það var svo mikil vínlykt af honum að ég þurfti að lofta út á eftir...). Allir ætluðu að kaupa magnaða moppuskaftið en það er uppselt hjá heildsalanum svo við eigum það ekki til í augnablikinu. Sem sagt, frekar fúlt!

Annars hefur það komið mér nokkuð á óvart í þessum verslunarrekstri hve erfitt er oft á tíðum að fá vissar vörur hjá heildsölunum. Það líður langt á milli pantana (kannski af því þeir taka vörurnar inn í stórum gámum og þurfa að "safna" í þá) og afleiðingin er sú að ákveðnar vörur eru ekki fáanlegar í langan tíma. Sumt hefur t.d. verið ófáanegt síðan fyrir jól. Í ofanálag eru svo pantanir oft vitlaust afgreiddar og koma seint og illa (það er að vísu aðallega frá einum heildsala). Þannig að þó við séum allar af vilja gerðar til að hafa vissar vörur til sölu í versluninni og veita góða þjónustu þá dugar þð því miður ekki til.

Pípandi reykskynjari og magakveisa

voru þemu næturinnar hjá mér. Gekk illa að sofna í gærkvöldi vegna þess að ég hafði lagt mig seinni partinn í gær og svo loks þegar ég gat sofnað hrökk ég upp um hálf tvöleytið við eitthvert píp sem heyrðist með reglulegu millibili. Áttaði mig á því eftir smá stund að þetta væri í reykskynjaranum á ganginum og rafhlöðurnar væru að kláras. Það var samt ekki til í dæminu að ég nennti að klöngrast uppá stól um miðja nótt til að skipta um rafhlöður. Eins og þetta væri ekki nóg þá fór maginn í mér að vera með einhver læti og við tóku þónokkrar klósettferðir. Til að kóróna fjörið ennfrekar fékk ég brjálaðan pirring í fæturnar og stóð fjörið fram til hálf fimm í morgun. Ég var fegin að eiga seinnipartsvakt í búðinni í dag, því þá gat ég lagt mig aftur eftir að Ísak var farinn í skólann. Svaf til að verða tíu en hef samt verið hálf vönkuð eitthvað það sem af er degi. Kannski ekki skrýtið þegar það eina sem ég hef gert er að borða morgunmat og lesa blöðin, nokkuð sem ég tók mér mjööög langan tíma til að gera. Jú annars, ég er líka búin að skipta um rafhlöðu í reykskynjaranum en hann virðist vera ónýtur, það heyrist ekki múkk í honum þó ég ýti á takkann til að prófa hann. Annars leiðast mér óskaplega svona dagar sem ég bara hengslast og geri ekkert af viti. Ætli sé þá ekki ekki best að reyna að gera eitthvað til að bjarga andlitinu. Til dæmis fara út að ganga, ryksuga, taka úr uppþvottavélinni, fara í sturtu og svo í vinnuna.

miðvikudagur, 7. mars 2007

Búin að panta ferðina til Danmerkur

En mæli ekki með því að panta flug undir miðnætti þegar maður er orðinn þreyttur og sljór...

Hafði verið búin að ákveða að koma heima á páskadag en kíkti inná vefinn hjá Flugfélagi Íslands og komst að því að ekkert innanlandsflug er þann dag (hefði nú átt að vita það en það er önnur saga). Ákvað þá að vera bara í Danmörku fram á annan í páskum svo ég kæmist alla leið norður sama dag. Hugsaði ekki út í að ég þarf að fljúga suður á mánudegi þegar ég fer út því um morgunflug er að ræða, þannig að ferðin er allt í einu orðin að vikuferð (upphaflega var ég að hugsa um að vera í fjóra daga, fannst það hæfilegur skammtur).

Ég var sem sagt ekki fyrr búin að ganga frá miðunum en ég fékk létt kvíðakast yfir því að ætla að vera svona lengi í burtu. Hefði t.d. getað keyrt norður aftur á páskadag ef mér hefði nú yfirhöfuð dottið það snjallræði í hug að keyra á milli áður en ég bókaði miðannn. En við dóttirin hljótum nú að geta fundið okkur eitthvað til dundurs í sex daga...

þriðjudagur, 6. mars 2007

Jibbý

Er loks farin að hressast og byrjuð að líkjast sjálfri mér að nýju. Get núna þvegið þvott, skipt á rúmum og þrifið klósett án þess að vera alveg uppgefin á eftir. Ekkert smá ánægð með það!

Að öðru leyti gengur lífið sinn vanagang. Það er reyndar afskaplega lítið spennandi að gerast þessa dagana en svona er þetta víst bara stundum hjá manni. Að vísu ætla ég að heimsækja dótturina í Danmörku um páskana en á þó ennþá eftir að panta flug. Líklega ekki vitlaust að fara að gera það áður en allt verður uppselt. Og úr því ég verð í Danmörku þá er ekki úr vegi að heimsækja bróður minn og hans fjölskyldu, svona í leiðinni. Mér skilst að það sé þriggja tíma lestarferð frá Kaupmannahöfn og til Jótlands þar sem hann á heima. Spurning hvort sé nokkuð skárra að leigja sér bíl og keyra þangað? Hef ekki hugmynd. En ég er sem sagt búin að reikna það út að ef ég flýg á þriðjudegi út til Köben þá höfum við mæðgur miðvikudaginn (eftir skóla hjá henni) til að rölta í bæinn og vonandi versla eitthvað :-) Á skírdag væri upplagt að heimsækja Palla og Birte og gista jafnvel fram á föstudag. Á laugardeginum gætum við kíkkað aðeins meira í bæinn (Hrefna vertu viðbúin "shop till you drop" leiðangri...) og á páskadag myndi ég svo fljúga heim aftur. Þá hefði ég annan í páskum til að jafna mig áður en ég fer að vinna daginn eftir. Hljómar þetta ekki bara vel?

sunnudagur, 4. mars 2007

Fór í sund áðan

og synti í fyrsta skipti í hálfan mánuð. Eftir fjórar ferðir var ég orðin algjörlega orkulaus en ég píndi mig til að synda sextán ferðir í allt. Flensan hefur tekið sinn toll, er búin að vera eins og drusla alla vikuna og ég fann það í sundinu að ég geng ekki nema á ca. 20% af venjulegri orku. Valur fór á skíði í yndislegu veðri, sól og hita, en ég treysti mér ekki með honum. Er að verða frekar þreytt á þessu ástandi og vona að ég fari nú að skríða meira saman.

laugardagur, 3. mars 2007

Í sól og sumaryl


Í sól og sumaryl, originally uploaded by Guðný Pálína.

Þessi mynd var tekin í ágúst s.l. sumar þegar við Ísak heimsóttum Önnu systur, Kjell-Einar og Sigurð. Sá síðastnefndi var að setja upp skrýtinn svip (eins og sjá má) en af því þetta var skásta myndin af okkur í heildina séð þá verður bara að hafa það þó hann sé að geifla sig eitthvað :-)

fimmtudagur, 1. mars 2007

Á Seyðisfirði


Á Seyðisfirði, originally uploaded by Guðný Pálína.

Hef ekki verið dugleg að taka myndir undanfarið. Skreyti mig því með gömlum fjöðrum... þessi mynd var tekin s.l. sumar.

Er að dunda mér

við að setja vörur inn á heimasíðu Potta og prika. Við erum ekki enn búnar að opna hana formlega en hún er samt aðgengileg hér. Það er búið að taka óratíma að koma þessari blessaðri síðu á koppinn og sér ekki fyrir endann á því enn. Bæði hefur tekið langan tíma að fá það útlit og þá virkni sem við viljum fá og eins er ótrúlega tímafrekt að hlaða upplýsingum inná síðuna. En þetta fer nú vonandi allt að smella.