mánudagur, 7. nóvember 2011

Sköpunarþörfin að brjótast fram hjá frúnni

En það gengur nú ekki þrautalaust að fá útrás fyrir hana.

Ég var að hugsa um að prjóna eitthvað, og er búin að kaupa tvö prjónablöð (sem eru nú ekki ókeypis) en fékk einhvern veginn ekki andann yfir mig á því sviðinu. Svo ég fór í Vouge á laugardaginn, rétt fyrir lokun, og byrjaði á því að ráfa um búðina og skoða efni. Spurningin var nú líka hvað ég ætti að sauma, því það var nokkuð ljóst að ég myndi ekki byrja á einhverju flóknu stykki eftir allan þennan tíma. Mér reiknast nefnilega til að ég hafi ekki saumað flík á sjálfa mig síðan við bjuggum í Tromsö. Þá saumaði ég vesti á mig, Hrefnu og Andra fyrir jólin (held það hafi verið 1991, eða kannski einu eða tveimur árum síðar...).

Alla vega, ég gekk um búðina og þuklaði efnin (það er algjört "must" að þreifa á efnunum) og horfði á litina. Féll fyrir prjónuðu efni sem ég sá að gæti orðið prýðis pils með tiltölulega lítilli fyrirhöfn. Keypti efnið og breiða teygju til að hafa í mittið svo ég þyrfti ekki einu sinni að sauma í rennilás. Komst að því þegar ég var heima á ný, að ég hef líklega hent öllum saumablöðunum mínum. Þannig að bókasafnið var næsta stopp. Þangað fór ég og var svo heppin að finna nokkur saumablöð sem ég fékk að láni. Var nú reyndar orðin frekar framlág þegar hér var komið sögu, enda laugardagur og laugardagar eru jú þreytu/hvíldardagar hjá mér.

Stóðst samt ekki mátið og fór að skoða þessi fínu saumablöð og fann snið að barnapilsi (á 12 ára) sem ég sá að ég gæti stækkað örlítið og þá myndi það sennilega passa. Ég sá reyndar fullt af öðrum flottum sniðum, en já ætli sé nú ekki best að klára þetta áður en ég fer að láta mig dreyma um flíkur sem krefjast meiri saumaskapar. Hvað um það, þegar ég lagði efnið á borðið sá ég að það var gallað. Og búðin búin að loka, svo ekkert saumaði ég um helgina, en fór í morgun og fékk nýtt efni. Eftir kvöldmatinn í kvöld tók ég mig til og sneið pilsið og er eiginlega frekar spennt að drífa mig heim úr vinnunni á morgun til að sauma það. Vona að það passi...

Engin ummæli: