Henni leið eins og kvenkyns útgáfu af dr. Jekyll og mr. Hyde. Ekki framdi hún þó nein voðaverk. Ja, nema á sjálfri sér kannski. Andlegt ofbeldi. Í dag var góður dagur en þeir urðu færri og færri fannst henni. Áður fyrr gat hún átt marga góða daga í röð, jafnvel heilu vikurnar og mánuðirnir voru góðir. Kannski einn og einn slæmur dagur inn á milli en oftast leið henni vel.
Núna hafði þetta snúist við. Henni leið illa svo vikum og mánuðum skipti en ef hún var heppin fékk hún kannski tvo góða daga í mánuði. Þá var um að gera að „grípa daginn“ eins og það hét í myndinni frægu, „Carpe Diem“. Fá sem mest út úr honum. Njóta þess að vera til. Horfa á sjálfa sig í speglinum og þykja vænt um andlitið sem blasti við henni. Augun sem yfirleitt voru stór og dökk, þrungin leiða og vonleysi. Augu sem oftast nær vildu ekki sjá andlitið í speglinum. Þoldu ekki niðurdregin munnvikin, þjáninguna. Í dag leiftruðu þau. Það var líf og það var gleði.
Hún starði á sjálfa sig, staðráðin í að festa sér í minni þetta glaðlega andlit, brosandi augun. Af hverju gat ekki sjálfsmyndin alltaf verið svona? Af hverju gat hún ekki, þegar lífsleiðinn kom yfir hana, tekið fram úr hugarskotinu sitt glaða andlit og hreinlega skipt um fjés? Svona eins og maður skiptir um dekk á bílum. Frá vetrardekkjum yfir á sumardekk. Ef hún réði einhverju þá myndi hún alltaf vera á sumardekkjum.
Áður en hún hafði misst vinnuna hafði hún haldið að svona löguðu gæti maður ráðið sjálfur. Hugsað jákvætt og ætíð verið ánægður, bara ef maður óskaði þess nógu heitt. Þá hélt hún að hugsanirnar væru tilfinningunum yfirsterkari. Að hugurinn réði yfir sálinni. Nú vissi hún betur. Lengi hafði hún þó reynt þetta með jákvæða hugsun. Farið að sofa að kvöldi, ákveðin í að morgundagurinn yrði góður dagur. Ákveðin í að hún myndi vakna frísk og full af orku næsta dag, til þess eins að vakna svo full af sorg og sút. Það fannst henni svo óréttlátt. Að hún skyldi vakna í þessu ástandi. Ef hún fengi að minnsta kosti tækifæri til að bera hendur fyrir höfuð sér. Henni fannst þetta eins og að vera skotin með bindi fyrir augum. Vera drepin án þess að sjá gerningsmanninn. Hún hafði gefist upp á því fyrir löngu síðan að reyna að sjá samhengi milli atburða í lífi sínu og andlegs ástands síns. Það var ekkert samhengi. Hún fór kannski að sofa að kvöldi sátt við lífið og tilveruna en vaknaði næsta morgunn með allar heimsins byrðar á herðum sér.
Úff, það fór hrollur um hana. Nei, í dag var góður dagur og honum skyldi ekki verða eytt í sjálfsvorkunn. Hann var sem dýrmætur gimsteinn sem þurfti að passa vel. Hún hugsaði um allt sem hún ætlaði að gera; skrifa atvinnuumsóknir og hringja í hugsanlega atvinnuveitendur. Nota tækifærið. Á góðum degi gat ekkert stöðvað hana. Hún var sjálfsörugg og hafði ómælda trú á sjálfri sér. Orku hafði hún líka og nú þaut hún um húsið syngjandi glöð. Vaskaði upp, lagaði til og bakaði bollur handa krökkunum. Þau voru því miður í skólanum og gátu ekki notið þess að sjá mömmu sína svona lífsglaða. Hún vonaði að ekkert kæmi fyrir í dag sem rændi hana gleðinni. Stundum þurfti svo lítið til. Hún vildi að börnin fengju að gleðjast með henni í dag. Að þau þyrftu ekki að koma heim og finna hana þreytta og fúla. Nei, í dag skyldi ekkert standa í vegi fyrir henni. Meira að segja sólin brosti sínu blíðasta og það hlaut að vita á gott.
Hún settist við tölvuna og stuttu síðar blés prentarinn út úr sér heilum fimm atvinnuumsóknum. Það vantaði ekki, á góðum degi lék hún sér að því að skrifa. Orðin komu svo leikandi létt. Draumur hennar var að starfa við skriftir. Hún naut þess að skrifa. Þegar hún skrifaði var það hún sem hafði yfirhöndina. Það var hún og enginn annar sem réði því hvaða orð komust á pappírinn og mynduðu setningar.
Að þessu loknu skellti hún sér í sturtu, snyrti sig og klæddi. Hún kinkaði ánægð kolli til spegilmyndar sinnar, sem í dag sýndi konu um þrítugt sem bauð af sér góðan þokka. Hún var engin fegurðardrottning en á góðum degi leit hún vel út og vissi það. Þá horfðu karlmenn eftir henni á götunni og hún fékk athygli og góða þjónustu hvarvetna. Bréfin rötuðu ofan í umslög og hún dreif sig í bæinn til að póstleggja þau. Á miðri leið snérist henni hugur, í þetta skiptið skyldi hún fara í eigin persónu og biðja um vinnu. Þannig hafði fólk farið að hér áður fyrr, en núorðið var allt orðið svo formlegt og slíkt gerði maður einfaldlega ekki lengur. Skítt með það, nú skyldi verða breyting þar á. Sjálfsörugg gekk hún sem leið lá á fyrsta staðinn en það var ritstjórnarskrifstofa staðarblaðsins. Þar hafði verið auglýst eftir starfskrafti til að taka við auglýsingum, svara í símann og vinna ýmis tilfallandi verk.
Hún opnaði dyrnar og kom inn í rúmgóða móttöku. Þar var enginn sjáanlegur svo hún beið átekta og hugsaði sinn gang. Þá hringdi síminn hátt og snjallt og hún ímyndaði sér að ekki liði á löngu þar til einhver myndi birtast til að svara í símann. Þannig stóð hún og hlustaði á hringinguna, óralengi að því er henni fannst, en enginn kom. Hvað átti hún að gera, var virkilega enginn í húsinu eða hvað? Skömmu síðar hóf síminn aftur upp sama sönginn og eftir að hafa hlustað hann hringja dágóða stund gafst hún upp og svaraði, án þess að hugsa um það hvað hún væri eiginlega að gera. - Dagblaðið, góðan dag, sagði hún glaðlega og henni til mikillar undrunar hljómaði hún eins og hún hefði aldrei gert annað en svara annarra manna síma.
- Já, góðan dag, sagði röddin í símanum, er Hólmar við? - Nei, því miður, hann er á fundi eins og er, get ég tekið skilaboð? spurði hún án þess að blikna, og skrifaði síðan nafn og símanúmer hringjandans samviskusamlega í minnisblokk sem lá við hliðina á símanum.
-Ég var reyndar á fundi, heyrði hún þá sagt fyrir aftan sig og henni dauðbrá. Hún snerist á hæli og stóð andspænis fremur smávöxnum, kröftugum manni, sem hélt áfram að tala - …en hvernig vissir þú það? Og hver ertu eiginlega? Hann horfði forvitinn á hana en í bland við forvitnina sást glettnisbliki bregða fyrir í augunum. - Ég er nýja símastúlkan, sagði hún hálf hlægjandi, ég hélt að það væri nú augljóst…. Svo ákvað hún að hætta þessu bulli, sagðist hafa ætlað að sækja um vinnu en enginn hefði verið sjáanlegur og þegar síminn hringdi án afláts hefðu það eiginlega verið ósjálfráð viðbrögð hjá henni að svara.
Hann horfði kankvís á hana og spurði – Hvað heitir svo nýja símastúlkan, það er nú lágmarkið að ég fái að vita það ef ég á að setja þig á launaskrá hjá mér. Hún vissi ekki alveg hvað hún átti af sér að gera en ákvað að taka þátt í gamninu með honum. – Nú ég heiti auðvitað Bella, sagði hún, og bætti svo við, -Bella símamær, eins og í laginu. - Bella, sagði hann hátt og snjallt, þú ert ráðin í starfið, geturðu nokkuð byrjað strax? Hún vissi varla hvort hún átti að hlægja eða gráta, en hláturinn varð ofan á og hún hló og hló. Hann horfði hálf undarlega á hana til að byrja með en gat svo ekki annað en hlegið líka og þar sem þau stóðu þarna og hlógu saman, varð henni hugsað til þess að nú væru margir góðir dagar framundan.
(Birtist í Nýju lífi, 5. tbl. 25. árg. júní 2002)