sunnudagur, 27. febrúar 2005

Ekki beint

hægt að segja að ég sé dugleg að blogga þessa dagana - og verð það ekki á næstunni því þá verð ég í Orlando.... En það hefur verið nóg að gera. Ég hef verið að undirbúa kennsluna sem ég á að vera með í vikunni þegar við komum heim. Síðasta föstudag hitti ég loks fjarnemana augliti til auglitis. Mér finnst svo skrýtið að kenna svona í gegnum sjónvarpsskjá og tilbreyting að fá að sjá framan í fólkið. Þau tóku virkan þátt í umræðum og voru svo hress og skemmtileg. Gaman að þessu.

Annars er ég á fullu að klára allt sem þarf að gera áður en maður fer í frí. Borga reikninga sem gjaldfalla á meðan við erum úti, prenta út rafrænu farseðlana, panta bílaleigubíl, þvo föt og pakka niður. Tók mér nú samt tíma til að fara í sund í morgun, þvílíki lúxusinn sem það er að geta farið í þessar útisundlaugar okkar. Veðrið var alveg frábært, nánast logn og 3ja stiga frost. Sólin var að koma upp og allur gróður var hulinn ísnálum frá því í þokunni og frostinu í gær. Enda voru margir úti að taka myndir í gær, veðrið var svo sérstakt.

Ísak var á Þelamörk í nótt með fótboltanum (KA) og kom MJÖG þreyttur heim í morgun, enda voru þeir búnir að spila sex leiki, fara í sund og leika sér. Hann sagðist að sitt lið hefði unnið tvo leiki og tapað fjórum en það hefði verið allt í lagi. Verra var það með sigurliðið, það tapaði nefnilega leiknum á móti Ísaks lið og þá vildi ekki betur til en svo að flestir leikmennirnir fóru að hágráta!

fimmtudagur, 24. febrúar 2005

Við vorum með næturgesti

síðustu tvær næturnar, sem er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi. Gestirnir voru hér á Akureyri í ákveðnum erindagjörðum og voru því ekki í húsinu nema rétt yfir blánóttina. Ég hitti þau að vísu á morgnana en þá var Valur og annað heimilisfólk farið í vinnu og skóla. Valur hitti þau sem sagt aldrei - og ekki nóg með það - hann hefur aldrei hitt þau því ég kynntist þeim á námskeiði í Reykjavík (þar sem hann var ekki). Þannig að þegar þau fóru þá spurði ég auðmjúklega hvort ég mætti ekki taka mynd af þeim, til að sýna Val hvernig þau litu út og sanna að við hefðum raunverulega haft gesti þó hann enginn hefði séð þá nema ég.... En rafhlaðan var tóm í stafrænu myndavélinni svo ég tók myndina á gamla Canon vél með filmu í. Eini gallinn er sá að filman hefur verið í vélinni í amk. tvö ár og ég er ennþá bara hálfnuð með hana, þannig að það gætu liðið önnur tvö ár þangað til Valur sér hvernig næturgestirnir litu út ;-)

þriðjudagur, 22. febrúar 2005

Er þetta ekki dæmigert?

Við Bryndís nýbúnar að leggja fyrirtækið niður og þá er auðvitað í hringt í mig (sem fulltrúa Innan handar) varðandi verkefni! Ég sagðist nú ætla að hugsa málið, kannski maður bæti bara á sig vinnu... en það er nóg að gera hjá mér í kennslunni á næstunni, yfirferð hópverkefna ofl. þannig að ég veit ekki hvað ég geri. Mér finnst þetta bara svo fyndið, við höfðum einhvern tímann verið að grínast með að það væri nú alveg eftir því að verkefnin byrjuðu að hrynja inn ef við tækjum þá ákvörðun að hætta.

Annars er áfram sól og hiti hér norðanlands. Ég frétti í gær af konu sem var á Kanaríeyjum og þar var kaldara en hér, svo hún spurði aðra konu sem átti pantaða ferð út hvort hún gæti tekið með sér úlpuna sína þegar hún kæmi. Já, þá er nú betra að vera bara heima.. Nei annars, mér finnst það ekki neitt. Það er alltaf gaman að breyta um umhverfi og gera eitthvað annað en maður er vanur í smá tíma. Það hafa allir gott af því.

Eini gallinn við góða veðrið er sá að maður nennir engan veginn að sitja inni, fyrir framan tölvuna og einbeitingin er ekki alveg í lagi. Sem sést m.a. á því að ég er að blogga í stað þess að undirbúa kennslu. Best að fara að gera eitthvað af viti ;-)

mánudagur, 21. febrúar 2005

Stundum hleypur ímyndunaraflið með mig í gönur

og það gerðist núna í morgun. Þannig var mál með vexti að Andri var hjá félögum sínum í gær að "lana" og hafði lofað að koma ekki seint heim. Ég sofnaði sætt í gærkvöldi og rumskaði ekki fyrr en vekjaraklukkan hringdi í morgun. Valur fór á undan mér fram og sagði "Andri hefur ekki komið heim í nótt, hann hlýtur að hafa gist hjá vini sínum". Sem var auðvitað lógísk skýring á málinu og ég samþykkti með sjálfri mér - a.m.k. í tíu mínútur eða svo. Hann hefur nefnilega gert það áður að gista heima hjá strák í tengslum við svona lan, en þá vissum við af því fyrir fram.

Þarna lá ég í rúminu, hafði ætlað að leggja mig aðeins lengur af því það er vetrarfrí hjá strákunum, en gat með engu móti sofnað. Fór þess í stað að spá í alla mögulega og ómögulega hluti sem gætu hafa valdið því að Andri kom ekki heim í nótt. Og ég get fullyrt að áhorf mitt á þætti eins og "CSI", "Law and Order" og fleiri slíka var ekki til að auka á rósemi mína, heldur þvert á móti. Ég sá hann fyrir mér liggjandi einhvers staðar úti í vegkanti, að einhver geðsjúklingur hefði rænt honum, að ráðist hefði verið á hann.... nefndu það! Loks var mér orðið svo órótt að ég ákvað að hringja í farsímann hans og gefa skít í það hvort ég myndi vekja strákana alla saman. Fór fram, sótti símann - og viti menn. Eftir mér biðu skilaboð frá Andra um að hann myndi sofa heima hjá vini sínum (einn sem er með hálfgerða íbúð á neðri hæðinni heima hjá sér).

Ég varpaði öndinni léttar og skreið aftur upp í rúm en gat auðvitað ekkert sofnað aftur, var orðin alltof upptjúnnuð af þessu öllu saman.

sunnudagur, 20. febrúar 2005

Vor í febrúar

Já, það er ýmist sumar eða vetur hér á Norðurlandi. Á þriðjudaginn í síðustu viku gegkk ég í vinnuna á strigaskóm, svo fór aftur að snjóa en í dag er autt að nýju. Ég gekk í Bakaríið við Brúna í morgun - til að kaupa kaffibaunir handa Val en hann var heima á meðan og bakaði bollur.

Töluvert var um fólk úti að ganga og blessuð dýrin lágu víða og sleiktu sólskinið. Fyrst gekk ég fram hjá stórum hvítum ketti (sennilega blanda af persneskum og venjulegum heimilisketti) sem hafði lagt sig uppi á húddinu á rauðum smábíl og hvítur feldurinn gljáði í sólinni og var svo fallegur á þessum rauða grunni.

Skömmu síðar gekk ég framhjá hundi sem lá með höfuðið ofan á framlöppnum, úti á tröppum fyrir utan húsið sitt. Hann var þó snöggur að reisa sig upp og hnusa út í loftið þegar ég gekk fram hjá honum. Hefur kannski fundið kattalykt af mér??

Þegar ég kom svo aftur heim eftir að vera búin að sækja kaffið þá var nágranni minn að klippa hekkið hjá sér og uppi á leikvellinum fyrir aftan hjá okkur voru börn að leik. Niðurstaðan: Það er komið vor! Bara spurning hvað það endist lengi í þetta sinn?

laugardagur, 19. febrúar 2005

Öðruvísi mér áður brá

Hvað skyldi þessi málsháttur eiginlega þýða?

Valur er í bílahugleiðingum þessa dagana. Það hefur þær afleiðingar að hér dúkka upp alls konar bílar og ég er "látin" prófa hinar ýmsu tegundir. Var reyndar hundleiðinleg framan af, þegar hann var að spá í ameríska Ford og Ram pallbíla og hafði engan áhuga á að prófa þá, var bara ekki alveg tilbúin að aka um götur bæjarins á risastórum pallbíl. Erfitt að fá bílastæði o.s.frv. En Valur sá hins vegar fyrir sér að keypt yrði hús á pallinn og síðan myndum við leggjast í ferðalög... Ætli við hefuðum ekki þurft að setja playstation tölvu, dvd-spilara og sjónvarp í bílinn til að strákarnir hefðu haft áhuga á að koma með í ferðir um náttúru Íslands? Þeir eiga ekki gott með að vera fjarri rafmagnstækjum og tólum lengi í senn.

Um daginn kom Valur svo með Landcruiser jeppa heim á hlað, og ég verð að viðurkenna að eftir að hafa keyrt hann í hálfan dag eða svo þá var það með hálfum huga að ég skilaði honum aftur, svo ljúfur var hann. Daginn eftir prófuðum við svo Lexus (bara til að prófa hann) en það kom mjög á óvart hversu stífur hann var og hálf hastur eitthvað. Í dag prófuðum við svo Dodge Durango og þrátt fyrir að vera amerískur "lúxusbíll" þá var enginn lúxus að keyra hann. Sætin voru líka hörð og innréttingin hálf spartönsk eitthvað. Það var nú það.

Við matarborðið áðan kom Valur síðan með þá hugmynd að kaupa fólksbíl handa mér og hann myndi bara eiga gamla jeppan áfram, til að fara á honum í veiði o.s.frv. Hvað honum dettur næst í hug veit nú enginn (vandi er um slíkt að spá...) en það er nokkuð ljóst að þessum bílaleitarmálum er hvergi nærri lokið enn.

Læt þetta duga í bili, Guðný has left the building.

fimmtudagur, 17. febrúar 2005

Afmælisbarn dagsins er Andri Þór

sonur okkar en hann er 15 ára í dag. Ég skil bara ekki hvað tíminn líður hratt! 15 ár síðan hann kom í heiminn á "Sentralsjukehuset i Sogn og fjordane" sem staðsett er í Førde í Vestur-Noregi en þar bjuggum við veturinn 1989-1990. Nágrannahjón okkar, þau Astrid og Jens, voru svo almennileg að passa Hrefnu (sem þá var rúmlega 6 ára) á meðan við Valur fórum á fæðingardeildina. En ef ég man rétt þá duttu hríðirnar niður þegar ég kom þangað svo ég var send heim aftur. Andri kom nú samt í heiminn fyrir rest og þegar ljósmóðirin sá hann sagði hún "Det var en stor pappagutt" því henni fannst hann líkjast föðurnum svo mikið. Valur var náttúrulega mjög feginn að heyra það, hann þurfti þá ekki að efast um faðernið....

Afmælisbarnið er farið að "lana" með vinum sínum og Ísak gistir hjá Jóni Stefáni, þannig að við Valur erum ein í kotinu núna - ásamt Birtu og Mána sem sofa sætt í rúminu hérna við hliðina á mér ;-)

þriðjudagur, 15. febrúar 2005

Hef verið afar slök í blogginu

undanfarið eins og "dyggir" lesendur mínir hafa eflaust tekið eftir. Ýmislegt hefur valdið því en aðallega er það ein höfuðsyndanna sjö, letin, sem hér er að verki. Og svo þetta klassíska "ég hef ekkert að segja". Sem er, ef eitthvað er, jafnvel enn lélegri afsökun en letin. En lífið bara gengur sinn vanagang - og miðað við margt sem er í gangi í kringum mig þessa dagana - þá get ég bara þakkað fyrir það!

Það styttist í Orlando ferðina en mikið rosalega sem mér finnst það óraunverulegt að vera á leiðinni til útlanda á þessum árstíma. Þarna ætlaði ég að skrifa "um miðjan vetur" en með 5-10 hitagráður á mælinum þá passaði það orðalag einhvern veginn ekki alveg. Ég gekk í vinnuna í dag á strigaskóm!

En við erum búin að fá staðfestingu á gistingunni og vinafólk okkar, þau Inga og Dóri, færðu okkur fullt af bæklingum þegar þau komu frá Orlando í síðustu viku. Nú er bara að fara að plana dagskrána ;-)

Marglytta í fjörunni við Hvítserk á Vatnsnesi


CIMG0755, originally uploaded by Guðný Pálína.

sunnudagur, 13. febrúar 2005

Missti af Salsa námskeiði um helgina

- spurning hvort það er gott eða slæmt? Alla vega, þá var meiningin að við í Kvennaklúbb Akureyrar (stórt nafn á litlum klúbbi...) færum á Salsa námskeið sem haldið var í líkamsræktarstöðinni Átaki á laugardag og sunnudag. Ég hafði sagt já við því að vera með, þrátt fyrir að vera með "10 stórutár" þegar kemur að dansi og öllum samhæfðum hreyfingum handa og fóta. Á fimmtudaginn í síðustu viku fór ég síðan út að ganga í Kjarnaskógi ásamt Unni vinkonu minni. Veðrið var ægifagurt, sólskin og nýfallinn snjór yfir öllu. Við höfðum ekki gengið lengi þegar ég steig á svellbunka sem sást ekki undir snjónum, mér skrikaði fótur, sveiflaði höndunum ógurlega fram og aftur, fetti mig og bretti, og rétt náði að standa í lappirnar. Þetta hefur örugglega verið mjög fyndin sjón en Unnur hló ekki enda nýbúin að jafna sig þokkalega í bakinu eftir brjósklos. Ég var mest hissa á því að hafa ekki fengið hnykk á bakið en jafnframt mjög ánægð með að hafa sloppið svona vel frá skautaferðinni á svellinu.

Daginn eftir hringdi vinkona mín í mig til að tékka á því hvort ég hefði nokkuð fengið hnykk. Nei, nei sagði ég og meinti hvert orð. Var samt eitthvað skrýtin í hægri fætinum og versnaði eftir því sem leið á daginn. Endaði loks á því að kvarta við manninn minn yfir þessum dofa í fætinum enda skildi ég ekkert hvað var í gangi. Hann var náttúrulega ekki lengi að átta sig á því að dofinn tengdist bakinu og hægt var að "elta" skrýtnu tilfinninguna neðan úr ökkla og alveg upp í mjóbak. Ég var ekki alveg tilbúin að fara á dansnámskeið með dofinn fót svo ég afpantaði - en var auðvitað orðin miklu betri strax daginn eftir. Í dag er fóturinn orðinn eins og hann á að sér en bakið svona la, la. Svona er það þegar manni verður "hált á svellinu"...

fimmtudagur, 10. febrúar 2005

Saga úr heita pottinum

Sundlaugin á Akureyri er, sennilega eins og allar sundlaugar á landinu, mikið sótt af fastagestum. Einn hópur fastagesta hittist alltaf um áttaleytið á kvöldin í heita pottinum og ræðir landsins gagn og nauðsynjar. En fólk er ekki aðeins fastheldið á það hvenær það kemur í sundið, það notar líka alltaf sama skápinn (og verður jafnvel alveg miður sín ef hann er ekki laus) og - situr á sama stað í pottinum kvöld eftir kvöld, ár eftir ár. Einn fastagestanna hefur líklega þótt sækja fast rétt sinn til að sitja á sama stað í pottinum því einn daginn var búið að líma skilti á pottvegginn, yfir vatnsborðinu. Í skiltið var búið að grafa eftirfarandi áritun: "Hér hvílir X". Ekki fer sögum af viðbrögðum X við þessu en ef ég þekki hann rétt hefur honum ekki þótt þetta slæmt. Skiltið hékk síðan þarna í einhverja daga eða vikur og sennilega hefur ekki reynst auðvelt að ná því af.

En þetta átti nú eftir að koma sér vel fyrir X. Eitt kvöldið þegar hann kom í sund var heiti potturinn fullur af ferðamönnum frá fyrrum Austur-Þýskalandi og eina sætið sem var laust - var að sjálfsögðu sætið hans með skiltinu yfir. Þrátt fyrir tímann sem liðinn var frá falli múrsins virtist ennþá sitja í Þjóðverjunum óttablandin virðing við yfirvaldið. Þeir horfðu með lotningu á X þegar hann settist í sætið sitt, þetta hlaut jú að vera einhver afskaplega háttsettur maður úr því hann fékk frátekið sæti í heita pottinum!

miðvikudagur, 9. febrúar 2005

Undur og stórmerki...

ég er að elda og Valur er meira að segja í bænum. En - rétt skal vera rétt - hann er að vísu í vinnunni (að lækna og líkna eins og hann lýsir því svo skemmtilega). Ég fór sem sagt út af örkinni í leit að einhverju matarkyns sem þarfnaðist ekki mjög hárrar eldhús-greindarvísitölu. Fann lamba-nagga og ákvað að hafa hrísgrjón og sæta chilisósu með þeim. Það er spurning hvort grjónin eru nokku að brenna við í eldhúsinu á meðan ég skrifa þennan pistil....

Hér var ekki saltkjöt á borðum í gær, ég fór á Greifann með bekknum hans Ísaks en þau voru að halda upp á að samræmdu prófin voru búin. Það var mjög veglegt pítsuhlaðborð, með fleiri tegundum af pítsu, ostabrauðstöngum, hvítlauksbrauði og frönskum kartöflum.
Þessu skoluðu krakkarnir niður með 0,5 l. af gosi og fengu auk þess frostpinna í eftirrétt. Það var ótrúlega gaman að vera þarna með þeim, þau voru svo glöð og ánægð, enda í fyrsta skipti sem þau fara saman út að borða. Það er hins vegar verðugt verkefni fyrir mannfræðinga að skoða muninn á strákum og stelpum þegar frostpinnaát er annars vegar. Á meðan strákarnir kláruðu ísinn á nokkrum sekúndum voru stelpurnar að dunda sér við þetta í 5 - 10 mín.

Valur saknaði þess nú reyndar að fá ekki saltkjöt en hið sama var ekki sagt um einn pabbann sem kom að ná í dóttur sína. Þegar hefðbundinn matur sprengidags barst í tal sagði hann hátt og snjallt "Ég er kominn með upp í kok af saltkjöti, át þetta helv. bæði í hádeginu og í kvöld".

mánudagur, 7. febrúar 2005

Mikið sem tölvutæknin

er frábær! Sit og spjalla við Önnu systur mína í Noregi á MSN en ég er nýbúin að setja það upp í tölvunni hjá mér. Ég er reyndar líka búin að setja upp Skype en Anna á eftir að sækja þá snilld á netið. Jú, ég á reyndar eftir að kaupa mér heyrnartól líka. Hugsa sér að það eru innan við 10 ár síðan við tókum netið í notkun og núna gæti maður ekki ímyndað sér lífið án þess. Meira að segja mamma og hennar maður (en þau eru bæði í kringum áttrætt) eru alvarlega að íhuga að fá sér nettengingu en þau eiga nú þegar þrjár tölvur. Já, þrjár! Þau erfa nefnilega alltaf gömlu tölvurnar frá börnunum sínum og jafnvel frændum og frænkum...
Eini gallinn er sá að mamma kann ekkert rosalega mikið á þessar græjur og hún á það til að hringja og spyrja mig ráða þegar hún fær einhver skilaboð á skjáinn sem hún skilur ekki. Þá hleypur hún úr símanum og les á skjáinn og kemur svo aftur og segir mér hvað stóð - en skilaboðin eru á ensku og framburðurinnn svona alla vega hjá henni, þannig að stundum hef ég ekki hugmynd um það hvert vandamálið er. En stundum get ég aðstoðað hana og þá líður mér voða vel á eftir ;-)

sunnudagur, 6. febrúar 2005

"Ég segi allt fínt"

er hið klassíska svar við spurningunni "Hvað segirðu?" en þessi spurning er nánast hefðbundin þegar tvær manneskjur taka tal saman. Ég hef í gegnum tíðina svarað þessari spurningu með svarinu sem allir búast við - en hef upp á síðkastið verið að velta þessu aðeins fyrir mér. Af hverju segjumst við alltaf hafa það gott, sama þó allt sé kannski í kalda koli hjá okkur? Mér finnst reyndar ekki að við eigum að úthella hjarta okkar yfir fólk sem við þekkjum harla lítið og hittum á kassanum í Hagkaup, en mættum við ekki vera aðeins hreinskilnari stundum við vini okkar?

Þrátt fyrir þessar pælingar viðurkenni ég fúslega að mér er orðið svo tamt að "halda andlitinu" út á við að kannski geri ég mér ekki einu sinni almennilega grein fyrir því hvernig mér líður í raun og veru. Ef við tökum atvinnumálin mín sem dæmi, þá verð ég líklega atvinnulaus þegar vorar, en hef ekki viljað horfast í augu við sannleikann og látið eins og það sé nú ekkert vandamál. Mér hljóti að leggjast eitthvað til o.s.frv. Sannleikurinn er hinsvegar sá að ég er skíthrædd um að fá bara aldrei neina vinnu við mitt hæfi, ég er skíthrædd um að verða atvinnulaus í lengri tíma, ég er skíthrædd um að verða stimpluð sem algjör lúser............og svona mætti lengi telja.

Svo fær maður bara alls kyns streitueinkenni, svo sem hjartsláttartruflanir, svefntruflanir, meltingartruflanir o.s.frv. og skilur ekkert í því hvernig standi á þessu. Því það er jú ekkert að hjá mér!

föstudagur, 4. febrúar 2005

Keppnisferðir

eru mun algengari í íþróttum í dag heldur en þegar ég var ung. Andri er t.d. að fara í aðra ferðina sína í vetur, suður yfir að heiðar, að keppa í handbolta. Af því pistill gærdagsins fjallaði nú einu sinni um kostnað við íþróttaiðkun barna og unglinga, þá upplýsist hér með að bara bílferðin suður + gistingin kostar 5.900 krónur. Þá er matarkostnaður ótalinn en ég fór í Bónus áðan og keypti helstu nauðsynjar (felast aðallega í ostaslaufum, pítsusnúðum, kexi og appelsínusafa) fyrir u.þ.b. 2000 krónur. Þá eiga þeir eftir að kaupa mat (veðja helst á pítsur og hamborgara) á laugardeginum og sunnudeginum áður en haldið er heim. Ferðin kostar þannig að lágmarki 10.000 krónur. En við höfum sem betur fer efni á þessu og Andri hefur gaman af þessu þannig að þá er nú tilganginum náð.

Ísak var sem sagt í samræmdum prófum í íslensku og stærðfræði eins og allir fjórðu bekkingar í landinu. Þegar ég spurði hvernig hefði verið í prófinu í dag svaraði hann "Ekkert leiðinlegt". Ef honum tækist nú að halda þessu viðhorfi upp í gegnum grunnskólann...

fimmtudagur, 3. febrúar 2005

Morgunkaffi

með góðum vinkonum svíkur aldrei. Eftir að hafa komið Ísak af stað í skólann þar sem SAMRÆMDU PRÓFIN biðu eftir honum settist ég og ætlaði að fara að undirbúa kennslu morgundagsins. En í mér var eitthvert eirðarleysi svo ég sendi sms á Unni og Heiðu vinkonur mínar sem báðar vinna sem sjúkraliðar (og eiga þ.a.l. oft frí á tímum sem "venjulegt" fólk er í vinnunni) og við mæltum okkur mót heima hjá Heiðu. Það eru ár og dagar síðan ég hef farið eitthvert í morgunkaffi á vinnutíma, nokkuð sem ég gerði oft þegar ég var heimavinnandi húsmóðir.

Við áttum hið notalegasta spjall og komum m.a. inn á íþróttaiðkun barna og hve dýrt það væri fyrir fólk að hafa börnin sín í íþróttum. Heiðu finnst að bæjarfélagið eigi að greiða niður kostnaðinn við íþróttir barna, alltaf sé verið að leggja áherslu á mikilvægi þess að börn hreyfi sig en vandamálið sé m.a. það að margar fjölskyldur (t.d. einstæðar mæður) hafi oft ekki efni á að leyfa börnunum sínum að taka þátt í starfi íþróttafélaganna. Þessu er ég hjartanlega sammála og mér finnst sorglegt að búa í þjóðfélagi þar sem svona mikil mismunun ríkir. Samt veit ég að þetta er raunveruleikinn sem við búum við - en þurfum við endilega að sætta okkur við hann?

miðvikudagur, 2. febrúar 2005

Það er af sem áður var...

Þegar ég var að vinna sem sjúkraliði þurfti ég að kljást við ýmislegt í vinnunni sem fólk alla jafna þarf ekki að gera. Sem dæmi má nefna að gefa stólpípu, þrífa gamalt fólk sem hafði verið svo óheppið að missa þvag og hægðir í rúmið, þrífa ælu upp af gólfinu - og það allra versta sem ég lenti nokkrun tímann í - að þrífa upp hráka úr fullum hrákadalli sem hafði oltið um koll, fyrst á borðið og svo niður á gólf. Það var í eina skiptið sem ég man eftir að hafa verið að því komin að æla í þessu starfi. Ég kúgaðist og kúgaðist og rétt náði að halda aftur af mér. Núna hef ég ekki unnið sem sjúkraliði síðan við bjuggum í Tromsö og er að breytast í þvílíka pempíu að mér er orðið um og ó.

Ísak var svo óheppinn í dag að fá gat á hausinn þegar hann var í körfubolta með vini sínum. Ég var ekki heima þegar hann kom heim og ekki datt honum í hug að hringja í mig. Sem ég skil ekki því venjulega hringir hann frekar of oft heldur en hitt (mjög algengt: "mamma, má ég poppa?"). En þegar ég kom heim ætlaði hann að sýna mér sárið en ég sá ekki neitt vegna þess að allt blóðið var storknað í risastóra klessu í hárinu á honum. Velti málinu aðeins fyrir mér en hringdi svo í "Val sem reddar öllu sem hefur með sjúkdóma og slys að gera". Hann ráðlagði mér að skola hárið á honum með vatni og þá myndi ég sjá stærðina á sárinu. Ef það væri lítið þyrfti ekkert að gera meira - annars þyrfti að athuga málið nánar.

Ég hlýddi þessum fyrirmælum og fór með Ísak inn á bað. Skolaði síðan hárið á honum úr volgu vatni og fyrr en varði var lak fagurrauður blóðtaumur ofan í niðurfallið. En blóðlyktin sem þá gaus upp olli því að mér varð svo hræðilega flökurt að ég átti í mestu vandræðum með að klára að skola hárið á honum. Það hafðist þó fyrir rest og þá gat ég séð að hann var með risastóra kúlu en sárið sjálft var ekki mjög stórt. Slapp sem sagt við að fara með hann upp á sjúkrahús, sem betur fer.

þriðjudagur, 1. febrúar 2005

Athygli mín

var vakin á því hve oft ég fjallaði um það hvað ég væri þreytt, eða kæmi eitthvað inn á eigin þreytu eða lasleika í þessum pistlum mínum. Fyrst í stað neitaði ég að horfast í augu við eigin galla og kannaðist ekki við að hafa nefnt slíkt nema í hæsta lagi tvisvar eða þrisvar. Nú er ég hins vegar komin af afneitunarstiginu og viðurkenni "afbrot" mín. Þreyta og "óupplögðheit" hafa víst verið umræðuefnið hjá mér oftar en ég vil muna. Ástæðan er einföld: ég er alltof oft þreytt og illa fyrirkölluð. Síðustu fimm árin (bráðum sex) hefur heilsan hjá mér ekki verið til að hrópa húrra yfir og þegar ástandið var sem verst þurfti ég að fara inn og leggja mig eftir 5 mín. vinnu í garðinum (já, það hefur löngum verið erfitt að reita arfa...).

Þetta er sem sagt ekki skemmtileg staða að vera í en með því að fara í leikfimi þrisvar til fjórum sinnum í viku (passa samt að reyna ekki of mikið á mig), gæta þess að ég fái nægan svefn, borða hollan mat (sem bóndinn eldar fyrir mig eins og honum er einum lagið) og sætta mig við takmarkanir mínar hefur ástandið lagast töluvert og góðu tímabilin eru yfirleitt mun lengri en þessi slæmu. Samt verð ég alltaf jafn hrikalega spæld í hvert sinn sem mér "slær niður" og sennilega eru það þessi vonbrigði sem brjótast út hérna á blogginu.

Svo má alltaf deila um það hvers konar miðill þetta blessað blogg er. Hvers konar upplýsingar um eigin hagi maður á að setja á síðuna sína? Hversu persónulegur maður á að vera? Langar einhvern yfirhöfuð til að lesa um mína þreytu?

Við því hef ég ekkert svar. En það sama gildir um bloggið og sjónvarpið: Það er alltaf hægt að slökkva ef manni leiðist dagskráin ;-)