fimmtudagur, 30. desember 2010

Bla bla bla blogg

Úff, ég veit ekki af hverju ég er að gera sjálfri mér og öðrum það að blogga núna. Eða bara blogga yfirleitt. Mér finnst ég ekki gera neitt annað en væla á þessari síðu og vorkenni fólki að  þurfa að lesa þessi ósköp. Hm, ok reyndar ÞARF enginn að lesa þetta en ég veit jú að Anna systir og mamma gera það og einhverjir fleiri. Eins og sjá má er dagsformið sem sagt ekkert æðislegt hjá frúnni. Mér tókst að krækja mér í einhverja hálsbólgu um jólin og hún mallar í mér og gerir mig enn ómögulegri en venjulega. Í gær var ég svo komin með höfuðverk og orðin ferlega slöpp en fór samt í vinnuna. Þar var brjálað að gera nánast allan tímann og í gærkvöldi var ég algjörlega ónýt. Ætlaði aldrei að geta sofnað því mér leið svo illa, en það hafðist eftir að ég tók tvær verkjatöflur. Sko væl, væl og aftur væl!!

Hér kemur tilraun til að gera eitthvað annað en væla:

Aðfangadagskvöld var ósköp notalegt hjá okkur. Það bar þó til tíðinda, að á meðan við sátum og borðuðum jólamatinn, heyrðist allt í einu hljóð undan jólatrénu. Enginn skildi neitt í neinu... tja nema ég. Ein jólagjöfin til Vals var nefnilega ný vekjaraklukka, og tók hún uppá því að hringja þarna undir borðhaldinu. Ég fékk algjört hláturskast og tilkynnti að þar sem Valur hefði verið svo þægur í dag fengi hann að opna einn pakka á undan hinum. Enda vissi ég sem var að klukkan myndi að öðrum kosti bara halda heillengi áfram að hringja.

Á annan í jólum fórum við Valur út í smá bíltúr til að viðra frúna. Við tókum myndavélarnar með okkur og náðum að viðra okkur almennilega því það var þvílíka rokið úti á leirum, og tókum eitthvað af myndum líka. En hressandi var það.

Sama dag átti Hrefna von á vini sínum frá Danmörku, en fluginu hans seinkaði vegna bilaðrar flugvélar. Upphaflega átti hann að ná til Akureyrar sama dag en svo var ljóst að það myndi ekki ganga og þá var pantað hótel í Reykjavík. Enn var beðið og svo kom í ljós að ekki yrði flogið frá Danmörku þetta kvöld/nótt. Þá ætlaði hann að fá endurgreitt hótelherbergið en það var ekki hægt þar sem hann hafði pantað í gegnum einhverja erlenda bókunarsíðu á netinu. Daginn eftir átti að fljúga kl. 13 og enn var innanlandsfluginu breytt þannig að hann átti bókað með síðustu vél norður. En ekki fór nú vélin af stað frá Köben fyrr en kl. 16 að dönskum tíma og þá var útséð um að hann myndi ná vélinni norður sama dag. Þannig að pabbi Hrefnu og hún sjálf brunuðu af stað suður til að sækja piltinn svo hann þyrfti ekki að vera strandaglópur í Reykjavík til næsta dags. Sú ferð gekk sem betur fer vel í alla staði og norður er hann kominn.

Birta er að gera mig brjálaða. Hún mjálmar og vill fá athygli hverja stund sem hún er vakandi. Það er ekkert skrítið því hún saknar Mána greinilega mikið, en ég á erfitt með að þola hávaðann í henni. Svo tókst mér nú áðan að hleypa henni út - og gleyma henni svo úti - og mér sýnist hún helst þurfa áfallahjálp eftir þá lífsreynslu.

Valur var í Bónus að versla inn fyrir áramótin. Enn og aftur sér hann um að halda öllu gangandi hér í húsinu - og ekkert gagn er í mér frekar en fyrri daginn.

Er lögst í jóladvala

Já einhvern veginn lifði ég af tímann fram að jólum en það gerði Máni greyið hinsvegar ekki. Hann fékk einhverja þvagfærasýkingu, sennilega útaf nýrnasteinum, sem bara ágerðist þrátt fyrir sýklalyf og við ákváðum að láta svæfa hann á Þorláksmessu. Hann hefði dáið sjálfur en okkur fannst betra að stytta þjáningar hans því honum leið orðið mjög illa. Það var á sunnudeginum að við tókum eftir því að hann var eitthvað rólegri en venjulega, þannig að ekki var þetta langur tími sem hann var veikur. Enda var ég að lesa á netinu að kettir gætu dáið úr þessu á þremur til sex dögum, svo það stemmir við okkar reynslu. Þrátt fyrir að vera oft búin að skammast út í hann í gegnum árin (hann opnaði hurðar og gat auðvitað aldrei lokað á eftir sér, "merkti" húsið okkar á sumrin, var afskaplega athyglissjúkur og fór mikið úr hárum), þá söknum við hans mikið. Því hann var alveg ótrúlega skemmtilegur köttur. Svo blíður og góður en mikill grallari og mjög kelinn.

P.S. Þetta var ég búin að skrifa einhvern tímann um jólin en átti alltaf eftir að birta - svo hér kemur það.

laugardagur, 18. desember 2010

Bara svona til að sýna að ég er á lífi

þá kemur hér ein bloggfærsla. Ég þurfti hvort sem er að setjast niður og hvíla mig því ég var svo þreytt eftir morgunmatinn. Já þetta hljómar kannski undarlega, en stundum, ef ég er þreytt, þá verð ég alveg ónýt eftir að borða. Það er eins og líkaminn ráði ekki við það auka álag sem fylgir því að melta matinn. Samt borðaði ég nú bara eina brauðsneið. Annars geri ég fátt þessa dagana, annað en vinna og reyna með öllum ráðum að lifa af þessa jólavertíð. Í því felst að reyna að borða bara hollan mat (t.d. sem allra minnst af unnum kjötvörum, gera græna hristinga, ekki borða sykur og ekki drekka vín með mat), hvíla mig þegar ég er ekki í vinnunni, fara í nudd og hlusta á slökunarefni á geisladiskum. Þá fer nú samviskubitið aðeins að láta á sér kræla, því auk þess að vera mikið að vinna, þá geri ég ekkert hér á heimilinu og Valur sér um allt. En það þýðir ekki að velta sér of mikið uppúr því, svona er þetta bara. Síþreytan sem fylgir vefjagigtinni er ekkert grín og eins og ég segi, þá er ég hreinlega að reyna að lifa af, svo ég verði ekki ónýt allt næsta ár, svona eins og ég hef verið þetta ár.

Talandi um síþreytu þá sendi Anna systir mér upplýsingar um norska sjónvarpsmynd þar sem konu með síþreytu var fylgt eftir í þrjú ár. Hún hafði verið veik í 15 ár minnir mig en var á góðri bataleið í lok þáttarins. Það gerðist eftir ítarlegar rannsóknir og meðhöndlun sem belgískur læknir hafði umsjón með. Þá fundust ýmsar bakteríur í blóði hennar (sem skila frá sér eitruðum úrgangsefnum), og eins greindist hún með þennan XMRV vírus sem vísindamenn hafa nú fundið í blóði 85% greindra síþreytusjúklinga. Í dag er svo stutt síðan menn fundu þennan vírus að ekki er fundið sértækt lyf við honum og eins vita menn ekki hvort hann er í raun eina orsökin fyrir síþreytu, en það verður spennandi að fylgjast með þessu í framtíðinni. Varðandi þessa norsku konu og meðhöndlunina sem hún fékk, þá var það margra mánaða ferli og ef ég skildi málið rétt þá þarf hún að halda áfram að taka lyf og fleiri bætiefni til að haldast frísk. Þetta er ekki kostað af ríkinu og hún var að borga um 140 þús. á mánuði fyrir meðferðina. Enda var hún að selja íbúðina sína í lok þáttarins, til að hafa efni á þessu.

Það vekur samt smá von að í Lilleström er meðferðarstofnun sem vinnur í anda þessa læknis og þar setja þeir vefjagigt undir sama hatt og síþreytuna, og það er virkilega hægt að finna ýmislegt að hjá þeim sjúklingum sem til þeirra leita (s.s. sýkingar ofl) og hægt að meðhöndla þá. En já mergurinn málsins er sem sagt, að hingað til hefur vefjagigt og síþreyta oft verið talin af andlegum toga, en ef loksins finnst vírus eða annað sem veldur þessu er vonandi hægt að fá einhverja lækningu. Eins og t.d. með magasár. Einu sinni var talið að andlegt álag/streita ylli magasári en svo fundu menn bakteríu og í framhaldi lyf við þessu.

Jamm og jæja, best að drífa sig í sturtu og koma sér í vinnuna.

sunnudagur, 12. desember 2010

Nú ætlaði ég að detta í vælugírinn

en ákvað í staðinn að reyna að vera jákvæð. Þannig að hér kemur jákvæða hliðin á frúnni:
  • Valur vinnusami heldur áfram að sjá um heimilið eins og honum einum er lagið. Í gær þegar ég kom heim úr vinnunni var hann búinn að þrífa gardínurnar í stofunni og hengja upp jólakransana í gluggana. Hann hafði líka farið í Bónus og eldaði þar að auki þessar líka frábæru pítsur í kvöldmatinn.
  • Ég talaði aðeins við Hrefnu á skype í gær. Hún var að gera sig fína fyrir jólaboð hjá vinkonu sinni og var alveg stórglæsileg. Það verður gaman að fá hana heim eftir eina viku :)
  • Jólaverslunin gengur vel hjá okkur í búðinni. 
  • Himininn úti er afskaplega fallega bleikur núna í ljósaskiptunum.
  • Valur sendi myndavélina mína suður í hreinsun, svo núna get ég tekið myndir aftur án þess að þær verði allar blettóttar.
  • Andri og Ísak eru flottir strákar, bæði að innan og utan.
  • Ég fór í nudd í gær eftir vinnu.
  • Það er síðasta kóræfing fyrir jól í dag. Hún verður stutt og svo verða smá Litlu jól.
  • Ég er í fríi í dag (tja fyrir utan klukkutíma vinnu)...

miðvikudagur, 1. desember 2010

Fór á ljósmyndaskvísuhitting í kvöld

þó ég ætlaði varla að hafa mig af stað. Ég er orðin svo heimakær að það hálfa væri nóg og nenni bara engan veginn út á kvöldin. En þar sem ég er líka að reyna að vera duglegri að gera eitthvað fyrir sjálfa mig, þá verð ég víst að standa við það, og þess vegna drefi ég mig af stað. Við vorum nú bara þrjár sem mættum í þetta sinn - þrjár gigtarkerlingar. Já, önnur hinna er með greinda vefjagigt og hin er greinilega með öll einkennin en hefur ekki farið til gigtarlæknis - "af því hún er bara 23ja ára og alltof ung til að vera svona eins og gömul kona". Já þetta er furðulegt fyrirbæri þessi vefjagigt, svo ekki sé meira sagt. Og já, hún leggst jafnt á unga sem gamla og fer ekki í manngreinarálit fremur en aðrir sjúkdómar. Það var nú reyndar frekar skondið að hlusta á lýsingar stelpunnar, á þeim skýringum sem hinir ýmsu heimilislæknar höfðu komið með, og áttu að vera ástæða fyrir einkennum hennar. En nóg um það.

Ég er nú annars bara á leið í háttinn og spurning hvernig mér gengur að sofna eftir að hafa verið á þessu "útstáelsi".

þriðjudagur, 30. nóvember 2010

Nú væri líklega snjallt að sleppa því að blogga

þar sem ég er í gigtarkasti og ekkert voðalega hress og kát. Og eins og venjulega þegar ég er í verkja- og þreytukasti hellast yfir mig áhyggjurnar af öllu sem ég þarf að gera en á erfitt með þegar ég er svona. Ég þyrfti til dæmis nauðsynlega að skipta á rúminu áður en Valur kemur heim (ætla ekki að lýsa því yfir á opinberum vettvangi hve langt er síðan það var gert síðast). Svo þyrfti ég að halda áfram að æfa lög og texta fyrir tónleikana á sunnudaginn, en meira að segja það finnst mér erfitt þegar ég er í þessu ástandi. Það er líka fallegt ljósmyndaveður úti en ekki hef ég mig í að fara út. Já og sturtan bíður, en ... vá mér finnst meira að segja erfitt að þurfa að fara í sturtu. Vinnan bíður líka og ef satt skal segja þá er það algjörlega óyfirstíganleg tilhugsun að þurfa að fara í vinnu þegar mér líður svona. En ég mun fara í vinnuna og það mun verða í lagi. Ég ætla að sleppa því að elda fyrir okkur Ísak í kvöld og láta Subway sjá um það. Hitt þarf ég víst að gera og það sem ég þarf allra mest að gera, er að hætta þessu væli. Ætli sé ekki best að taka af rúminu, drattast í sturtuna og rúlla svo nokkrum sinnum í gegnum kóralögin fyrir vinnu. Jamm, það held ég bara.

miðvikudagur, 24. nóvember 2010

Mónótón söngur hljómar hér

Já það þýðir ekkert annað en sitja með sveittan skallann og æfa sig. Nú er það bara Betlehemsstjarnan alveg hægri vinstri... Laglínan sem sópran 2 syngur er að hluta til svo hræðilega eintóna að það er hálf erfitt að halda einbeitingunni. En já, ég skal ná þessu!!

Ég svaf illa síðustu nótt og var alltaf að vakna. Þar sem ég var nú einu sinni í fríi í dag ákvað ég að sleppa sundinu og leggja mig aftur þegar Ísak var farinn í skólann. En ég bara lá og lá en sofnaði ekki fyrr en eftir ca. klukkutíma. Þá vaknaði ég korteri seinna því ég hafði stillt klukkuna á hálf tíu, til þess að ég gæti hringt og athugað hvort Andri væri ekki örugglega vaknaður og viðbúinn að ná flugrútunni. Það var nefnilega bara ein flugrúta og hún fór frá BSÍ rúmum tveimur tímum fyrir brottför, en venjulega er nú miðað við að ferðafólk sé komið til Keflavíkur þá, svo það hefði verið slæmt að missa af rútunni. Já já, drengurinn orðinn tvítugur og mamman enn að passa uppá að hann vakni... Ætli maður þurfi ekki aðeins að slaka á klónni með þessi börn og leyfa þeim að passa sig sjálf.

En já, svo var ég bara eitthvað ómöguleg og vissi engan veginn í hvað ég ætti að nota þennan fína frídag. Það voru froststillur úti og ég var að spá í hvort ég ætti að fara út að taka myndir, en þá kom risastór veghefill og fór að hefla snjó í götunni, og lokaði mig inni. Þannig að ég hélt áfram að æða eirðarlaus um húsið og reyndi m.a. að hringja í eina vinkonu mína en hún var ekki heima. Þar til veghefillinn var farinn og þá dreif ég mig bara í kuldagallann og fór út með myndavélina. Það var reyndar skítkalt en ég var nú samt úti í eina tvo tíma eða svo.

Fór síðan í heimsókn til vinkonunnar sem þá var komin heim og ég hef ekki hitt lengi lengi. Einu sinni fórum við alltaf út að ganga saman, en svo fékk hún sér hund og fór í staðinn að fara út að ganga með annarri vinkonu sinni sem líka á hund, og við höfum einhvern veginn ekki fundið sambandinu farveg eftir það. Hún til dæmis kemur aldrei í heimsókn til mín, og ég var nú eiginlega búin að sætta mig við að ef ég vildi hitta hana þá færi ég til hennar eða við hittumst á kaffihúsi. En svo varð ég engu að síður hálf leið á því dæmi öllu saman. Iss piss, það er svo sem ekki eins og ég sé eitthvað að velta mér uppúr þessu, þetta kom bara upp í hugann þegar ég var að skrifa um að við hefðum hist í dag. Og nú er ég svo sannarlega farin að skrifa 100% kellingablogg, eins og Valur myndi kalla það.

En já eftir útiveruna og heimsóknina var ég orðin ótrúlega dösuð eitthvað en fór samt stutta ferð á bókasafnið + í Bónus að kaupa aðeins inn. Það er pínu flókið að vita hvað ég á að hafa í matinn handa okkur Ísak, því matarsmekkur okkar fer ekki beinlínis saman. Ég ætlaði að steikja fisk en þá hafði verið fiskur í skólanum svo hann vildi ekki fisk. Það endaði með því að ég hafði (ógeðslega) kjúklingabita/nagga og hrísgrjón og sæta chilisósu með. En ég finn það að sú sósa er alltof sæt fyrir mig og kveikir á "langar í meiri sykur" takkanum í heilanum á mér. Sem ég er búin að berjast í allt kvöld við að slökkva aftur á...

Jæja ég ætla að hætta þessu bulli og halda áfram að gera ekki neitt.

þriðjudagur, 23. nóvember 2010

Áfram með smjörið - upp með fjörið...

Já áfram heldur fjörið. Ég fór sem sagt á þessa auka kóræfingu í kvöld og sé nú barasta sæng mína uppreidda. Tónleikarnir í Þorgeirskirkju eru þann 5. des. (eftir 12 daga) og það eru komin þrjú ný lög sem ég þarf að læra. Tvö þeirra eru nú alveg þolanleg, en það þriðja, Betlehemsstjarnan er "pain in the ass". Þar syngur sópran 2 megnið af laginu í einhverri hræðilegri tóntegund, sem ég er bara ekki að finna hjá mér þó hún eigi að vera þarna einvers staðar. Ég hafði nú ekki verið búin að ákveða 100% að vera með á þessum tónleikum en svo heyrði ég í kvöld að það kæmi til með að vanta svo margar konur í minni rödd, svo þá finnst mér ég nú varla geta skorast undan þar sem ég er meira að segja í fríi umrædda helgi. En hvernig ég á að finna tíma til að æfa lögin, það er önnur saga. Ég held samt að þetta komi til með að vera rosalega skemmtilegir tónleikar. Við verðum með einsöngvara með okkur í hluta af prógramminu og mér líst mjög vel á hana. Þetta er ung og sjarmerandi stelpa, Eyrún Unnarsdóttir, og sú getur greinilega sungið ;-) Svo er Þorgeirskirkja örugglega skemmtilegur rammi fyrir tónleika. Segi ég sem hef aldrei komið þangað, en bara séð myndir þaðan.

En já, ég ítreka það að ég er virkilega ánægð að hafa drifið mig í þennan kór. Bæði fæ ég mikla ánægju af að syngja og eins er þetta skemmtilegur félagsskapur. Ég kynnist fullt af nýjum konum + endurnýja kynnin við aðrar, eins og hana Ingu Möggu sem ég vann með fyrir 27 árum síðan. Og þær Kamillu og Unu sem voru með mér í sjúkraliðanáminu. Þetta var einmitt það sem mig vantaði. Eini gallinn er  sá að lögin hætta aldrei að óma í höfðinu á mér eftir æfingar, svo það verður líklega erfitt að sofna á eftir. En já ætli þau sitji ekki bara ennþá betur í mér fyrir vikið.

Annars er frídagur hjá mér á morgun og líklega verð ég að passa uppá að slappa aðeins af og hvíla mig. Ég var búin að upphugsa hitt og þetta sem ég ætlaði að gera, en þar sem það er langt í næsta frídag þá er víst eins gott að vera ekki með nein læti og hugsa frekar um að hlaða batteríin. En ég þarf að vakna með Ísaki í fyrramálið og ætli ég fari þá ekki í sund. Tja nema ég leggi mig aftur... Svo þori ég ekki öðru en hringja í Andra og tékka á því hvort hann verði ekki örugglega vaknaður þarna í Reykjavíkinni, þannig að hann missi ekki af flugrútunni til Keflavíkur. Ég er pínu stressuð með það því hann er jú búinn að snúa sólarhringnum svo gjörsamlega við og er bara nýsofnaður um níuleytið á morgnana. Jæja smá ýkjur kannski, en ætli hann sé ekki að sofna svona um fimmleytið cirka.

Úff, ég er alltof upprifin eftir þessa kóræfingu og ekki séns að fara að sofa. Verð nú samt að reyna það.

mánudagur, 22. nóvember 2010

Sólarupprás í morgun kl. 11.25


Ég var að vinna seinnipartinn í dag og hafði ekki stillt klukku í morgun af því Ísak þurfti ekki að mæta í skólann. En þar sem ég vaknaði nú samt kl. 7.45 dreif ég mig í sund, því ég hafði haft það bak við eyrað að fara út að taka myndir ef veðrið væri gott. Þannig að þegar ég var búin að borða morgunmatinn og bíða eftir að ein þvottavél kláraði tættist ég af stað. Fyrst fór ég uppá klöppina fyrir aftan efra Gerðahverfið, svo upp í Hlíðarfjall og loks út með sjó. 

Myndin sem fylgir er tekin rétt utan við Skjaldarvík. Sólin stirndi svo fallega á hvítan snjóinn í frostinu og himininn var líka svo fallegur. Ég hefði helst bara viljað vera þarna og njóta náttúrunnar, en bæði var nú frekar kalt og eins var ég jú að fara að vinna. Enda stóð það líka á endum að eftir 2ja tíma útiveru var ég orðin býsna lúin og það passaði vel að fara heim og borða og slaka örlítið á fyrir vinnuna. Maður sest lítið niður þessa dagana í vinnunni, og eins er ekki heldur tími til að borða. Ég þarf að muna að gera mér grænan hristing á morgun til að taka með mér, hann er að minnsta kosti hægt að drekka á hlaupum.
 
Annað sem ég þarf að muna á morgun er að panta tíma fyrir bílinn á verkstæði, því það þarf að laga stefnuljósið hægra megin og svo á hann að fara í þjónustuskoðun.

Já og á morgun þarf ég líka að keyra Andra á flugvöllinn, ekki má ég nú gleyma því. 

Og í fyrramálið klukkan átta er foreldrafundur með kennaranum hans Ísaks og svo var ég jafnvel að hugsa um að drífa mig fljótlega eftir það í vinnuna því það veitir ekkert af aðeins lengri vinnutíma þessa dagana, í öllu annríkinu. 

Nú, svo er líka aukaæfing hjá kórnum annað kvöld. Já já, nóg að gera, ekki vantar það.

sunnudagur, 21. nóvember 2010

Ánægð í lok dags

Já eftir að hafa verið búin að æfa mig ansi mikið hér heima, var ég bara nokkuð sátt við eigin frammistöðu á tónleikunum í dag. Ég hefði reyndar alveg getað gert aðeins betur, en ég hef samt ákveðið að láta fullkomnunaráráttuna ekki vera að eyðileggja ánægjuna við sönginn fyrir mér. Við máttum vera með möppur og ég var með mína en notaði hana afar lítið. Kunni textana orðið nánast utanað, en fannst samt ágætt að hafa möppuna eins og hækju og geta litið í hana ef ég var ekki alveg viss hvað átti að koma næst. Þegar var verið að stilla upp var ein sem lenti við hliðina á sópran 1 og ég hef tekið eftir því á æfingum að henni líður mjög illa ef hún lendir þar. Sem er nokkuð oft því þær eru greinilega svo margar sem ekki vilja vera þar. Og þessar sem eru búnar að vera lengi hafa komið sér upp ákveðnum stöðum og eru fastar þar (þetta er svona eins og að fara alltaf í sama skápinn í sundinu...). En já, ég var svo full sjálfstrausts að ég bauð henni að skipta við hana, sem hún þáði. Og af því ég var búin að æfa mig svo vel þá fann ég ekkert fyrir því þó ég væri við hliðina á sópran 1. Það reyndar munaði kannski aðeins um það að ég var ekki alveg beint við hliðina, heldur var hin konan einni tröppu lægra, en ég er eiginlega alveg viss um að það hefði samt sloppið til hjá mér. Eini gallinn var sá hvað var illa mætt á þessa blessaða tónleika. Þetta eru jú styrktartónleikar og því væri skemmtilegra að vel væri mætt. En það söfnuðust samt 300 þúsund krónur, sem er betra en ekki neitt.

Svo eru aðrir tónleikar eftir hálfan mánuð. Þá syngur einsöngvari með okkur og ég veit að það verða a.m.k. tvö ný lög sem engin okkar hefur sungið áður + örugglega einhver lög sem þær kunna og ég ekki, svo ég veit nú ekki alveg hvort ég ætla að vera með þeim þá. En ég sé til. Þetta er að minnsta kosti alveg afskaplega skemmtilegt og gefandi. Við fengum til dæmis mikið lófaklapp þegar við sungum lagið hans Megasar, Tvær stjörnur, enda er það alveg sérlega fallegt lag og texti.

Jæja, annars er allt með kyrrum kjörum. Ég spjallaði áðan bæði við Val og Hrefnu á skype og svo ætlaði ég að fara að færa bókhald en er eiginlega ekki að nenna því núna. Það er líka gott að slappa aðeins af. Ísak fór í bíó með vini sínum og Andri er niðri að horfa á sjónvarpið. Máni liggur í kjöltunni á mér og Birta sefur á ofninum. Þvottavélin var að klára að vinda, svo það er best að ég komi mér í að hengja upp úr henni. Svo ætla ég að reyna að fara snemma að sofa í kvöld enda löng vika framundan. Það lítur út fyrir að við Sunna þurfum að dekka vinnuna alfarið um næstu helgi því Silja (nýi starfsmaðurinn okkar) er að fara í skátaútilegu, Andri verður kominn til Tromsö og Anna ætlar að vera í laufabrauði. Þessa dagana erum við endalaust að panta vörur + taka upp vörur + afgreiða viðskiptavini (já og ég þarf að vinna bókhaldið fyrir 5. des) og þetta er svolítið "over the top" svona miðað við aðra tíma ársins. Það er helst að júlí og fyrripartur ágúst komist í hálfkvisti við þennan tíma, en álagið mætti gjarnan vera aðeins jafnara, svona fyrir mína parta. Ég er þó að gera allt sem ég get til að halda dampi, s.s. að borða hollt, og reyna að hvíla mig vel, en það síðarnefnda gengur nú misvel. Sérstaklega þar sem ég verð svo upprifin og á bæði erfitt með að sofna á kvöldin + að ég vaknaði t.d. klukkan hálf fimm á föstudagsmorguninn og náði ekkert að sofna aftur. En nú ætla að að reyna að græja einhverjar slökunarspólur og taka með mér í háttinn.

Lýkur hér með þessu "í belg og biðu" bloggi.

laugardagur, 20. nóvember 2010

Ég sem ætlaði að fara snemma að sofa...



Warm and cozy, originally uploaded by Guðný Pálína.
og klukkan er orðin hálf ellefu. Þegar ég segi snemma þá meina ég að vera komin í háttinn uppúr hálf tíu. En ég sat nú bara sem fastast við tölvuna á þeim tímapunkti og þá bað Andri mig að skutla sér og vini sínum út í bæ. Ég vildi náttúrulega ekki vera leiðinleg mamma svo ég játaði því. Og þá hringdi líka Valur sem er á hóteli í Reykjavík í nótt, á leið til Tromsö á morgun. Svo við spjölluðum aðeins og svo keyrði ég strákana og svo kom ég heim og settist aftur fyrir framan tölvuna, í stað þess að drífa mig beint í háttinn. Ætlaði bara aðeins að kíkja aftur á lögin fyrir morgundaginn, en ég held að ég geri það frekar í fyrramálið.

Tónleikarnir byrja klukkan fjögur en við eigum að mæta klukkan tvö. Ég hef þarf eiginlega að skipuleggja matarinntöku dagsins, svo ég verði mátulega södd þegar tónleikarnir byrja og lendi ekki í sykurfalli. Ætli ég fái mér ekki haframjöl í morgunmat, orkuhristing um eittleytið og taki svo með mér grænan safa (sem ég geri sjálf) til að drekka rétt áður en tónleikarnir byrja.

Já og ég er sem sagt pínu stressuð yfir þessu en vona að það hristist af mér á æfingunni á morgun. Ég kann textana svona nokkurn veginn og svo fáum við að hafa litlar möppur með okkur til að líta í ef við erum alveg týndar í textanum. Og ég er ekki að láta sópran 1 trufla mig jafn mikið lengur, sem er gott. Hins vegar sýnist mér það ekki eingöngu vera vandamál hjá mér. Það lá nú við slagsmálum um daginn þegar tvær konur vildu hvorug vera við hliðina á sópran 1 á æfingu. En ég var þar á síðustu æfingu og náði alveg að einbeita mér að mínum söng (já eða svona næstum því að minnsta kosti :)

En nú er ég farin í háttinn, góða nótt.

fimmtudagur, 18. nóvember 2010

Máni mættur á svæðið

Já ég sit hér við skrifborðið og það er eins og við manninn mælt, Máni lætur sig ekki vanta. Hann er kominn á þá skoðun að kjöltan á mér sé ætluð honum einum þegar ég sit hér. Sem er bæði gott og slæmt. Gott af því hann er hlýr og notalegur og malar. Slæmt vegna þess að þá þarf ég að sitja lengra frá sjálfu borðinu og teygja hendurnar inná borðið til að ná með puttana á lyklaborðið - sem er ekki góð vinnustelling.

Annars ætlaði ég nú eiginlega að opinbera það fyrir öllum sem álpast til að lesa þessa síðu hversu mjög ég er farin að kalka. Sem er líklega ekki gott þegar maður er ekki eldri en ég er.

Þannig var mál með vexti að síðasta sunnudag hafði snjóað ógurlega og ófært var um bæinn framan af degi. Andri hafði farið á ball ásamt vinum sínum og fengu þeir nokkrir að gista um nóttina hjá öðrum vinum sem búa í miðbænum. Ísak hafði gist hjá Arnari vini sínum og þegar ég fór að sækja Ísak datt mér í hug að bjóða Andra að ná í hann líka. Sem ég og gerði. Auk Andra voru það tveir vinir hans sem ég keyrði líka heim til sín. Það var ekki búið að moka nema sums staðar og mikill snjór út um allt. Þá fór vinur Andra að tala um hvað þetta væri mikill snjór, hann myndi nú bara ekki eftir svona miklum snjó áður á Akureyri. Ég fór þá að lýsa því fjálglega að það hefði nú verið allt á kafi í snjó árið sem þeir fæddust og ég hefði varla komist með Andra heim af fæðingardeildinni fyrir snjó, því ófært var inn í götuna okkar. Svo skutlaði ég bara strákunum heim og hélt áfram mínu stússi. En seinna um daginn laust því allt í eini niður í huga mér að nú hefði orðið heldur betur slegið út í fyrir mér. Því auðvitað var  Andri fæddur í Noregi og það var Ísak sem við þurftum að klofa snjóinn með í fanginu, hér inn götuna nýfæddan. ÚFF! Ég fékk áfall þegar ég áttaði mig á því hvað ég hafði eiginlega verið að rugla mikið. Og Andri hafði ekki sagt neitt. Líklega ekki kunnað við að leiðrétta mömmu sína þarna fyrir framan vini sína. Þegar ég bar málið undir hann viðurkenndi hann að hafa tekið eftir þessari rangfærslu, og orðið hugsað til þess hvað vinir hans myndu nú eiginlega halda. Því hann hefði jú alltaf sagt þeim að hann væri fæddur í Noregi ...

Ég var nú eiginlega alveg miður mín yfir þessu máli öllu, og þá sérstaklega því að það gæti slegið svona rosalega út í fyrir ekki eldri konu. Þetta er eitthvað sem maður stendur gamla fólkið kannski að því að gera og kímir kannski með sjálfum sér, en þetta er ekki eitthvað sem á að koma fyrir mig... Svo sagði ég konunum í sundlauginni frá þessu í gærmorgun og við hlógum hjartanlega að þessu öllu saman. Og ég fékk að vita að ég væri nú ekki ein um að gera svona gloríur - sem var gott :-)

sunnudagur, 14. nóvember 2010

P.S.

Læknaðist af þessum brjálaða pirringi við að blogga um hann og fara svo í langa heita sturtu. Svona getur nú lífið verið ljúft.

Er í brjáluðu pirringskasti á þessum fallega degi



Winter in the country, originally uploaded by Guðný Pálína.
Þannig er mál með vexti að við Valur fórum út í ljósmyndatúr í morgun og veðrið var eins og á jólamynd. Snjór yfir öllu og á trjánum líka, nokkuð sem er ekki algengt hér á landi. Ég tók helling af myndum, bæði á hæðinni fyrir aftan kirkjugarðinn, í Kjarnaskógi og í Eyjafjarðarsveit - og þær eru nánast allar ónýtar!! Eitthvað hefur komið fyrir stillinguna á fókusnum, þannig að það voru ekki nema örfáar myndir í fókus. Þessi hér er ein af þeim. Æ, þetta er bara svo ótrúlega gremjulegt eitthvað, en ég mun auðvitað jafna mig á þessu. Svo var ég orðin svo lúin að þegar ég kom heim og uppgötvaði að allt var ónýtt, þá var ekki séns að ég nennti aftur út, enda birtan ekki jafn falleg lengur.

Það er líka smá pirringur eða stress í mér útaf tónleikum hjá kórnum. Það eiga að vera tónleikar í Akureyrarkirkju næsta laugardag til styrktar Mæðrastyrksnefnd, og kórinn á að syngja 10 lög í allt. Mig langar pínu að vera með þeim og hef verið að rembast við að læra textana undanfarið. Er samt ekki alveg komin með þá alla á hreint, líklega má segja að ég kunni svona 60 prósent, svo ég ætti nú að geta lagst yfir þetta áfram og druslast til að læra þá. Það er ekki eins og þetta séu afskaplega flókin verk né löng. Gallinn er bara sá að ég fæ þetta á heilann og svo ligg ég andvaka og geri ekki annað en "syngja" lögin og pirrast yfir að muna ekki textana rétt. Ég er alveg ótrúlegt eintak! Stressast upp yfir öllu og meira að segja hlutir / atburðir sem ættu að vera skemmtilegir verða bara stressvaldandi í mínum ruglaða heila.

Í morgun vaknaði ég líka klukkan fimm og var andvaka í tvo tíma áður en ég náði að sofna aftur. Þá byrjaði ég strax að a) hugsa um allt mögulegt í sambandi við vinnuna og b) rifja upp texta... Svo var ég reyndar alveg að drepast í hryggsúlunni, alveg uppúr og niðrúr, og endaði á að fara og taka verkjatöflur. En sem betur fer náði ég að sofna aftur og var allt í lagi með bakið þegar ég vaknaði um hálf tíu leytið.

Svona rétt í lokin.. Þá er ég pirruð á að vera svona pirruð! Hlýt að lagast við að fara á kóræfingu.

laugardagur, 13. nóvember 2010

Afmælisblús

Úff já, ég er víst orðin 46 ára. Skil ekki ástæðuna fyrir því, en mér finnst ég allt í einu vera að verða svo gömul. Lenti síðast í svipaðri afmæliskrísu þegar ég var 30 ára, svo það er ljóst að þetta hefur ekki beinlínis með aldurinn að gera sem slíkan. Meira eitthvað hugarástand og óljós tilfinning. En jú jú, það liggur nú svo sem fyrir okkur öllum að eldast, og ekkert annað í boði en sætta sig við það.
Þegar ég átti 30 ára afmæli bjuggum við í Tromsö og Valur var einhvers staðar fjarverandi (mér finnst eins og hann hafi verið á Íslandi í stuttu skreppi þangað, en við vorum jú svo fara að flytja til Íslands skömmu síðar). Ég var ekkert að auglýsa það að ég ætti afmæli og fór bara með Hrefnu og Andra út að borða en bauð engum heim. Svo kom reyndar Anne-Marie óvænt í heimsókn og færði mér drykkjarkönnu með mynd af Tromsö, svona til minningar um veruna þar, en kannan sú er komin til feðra sinna. En já ég var svolítið upptekin af því þá að hugsa um allt sem ég hefði EKKI gert á minni stuttu/löngu ævi, s.s. að ég hefði ekki klárað háskólanám eins og ég hafði ætlað mér.

Í gær langaði mig bara ekkert sérstaklega að eiga afmæli. Kannski var ég bara eitthvað illa stemmd. En já ég nennti ekki að baka neitt og bauð engum heim. Þegar leið á daginn langaði mig samt til að gera eitthvað örlítið öðruvísi en venjulega, svo við fórum saman út að borða fjölskyldan. Og um kvöldið hringdu Anna systir, mamma og tengdamamma til að óska mér til hamingju. Eins komu Sunna og Kiddi í heimsókn og þá dauðskammaðist ég mín að vera ekki með eitthvað smá bakkelsi að bjóða þeim. Svo fékk ég jú heilan helling af afmæliskveðjum á facebook.

Í dag á Hrefna mín afmæli, orðin 27 ára. Hún er náttúrulega stödd í Afríku svo ekki get ég knúsað hana og kysst til hamingju með daginn, en ég geri það bara í anda og sendi henni góða strauma. Já og auðvitað sms :o)

Annars er hér allt á kafi í snjó og veturinn svo sannarlega að minna á sig. Ég er í fríi þessa helgi og ætla bara að slappa af og hvíla mig sem mest. Kannski byrja á nýrri lopapeysu á sjálfa mig. Ég keypti fallega bláan plötulopa og ætla að prjóna úr honum einföldum - held ég... Nema ég breyti um áætlun, þarf eiginlega að finna einhverja betri uppskrift því ég er ekki orðin það sjóuð að ég geti prjónað eitthvað gáfulegt uppúr sjálfri mér. Sem minnnir mig á það þegar ég prjónaði kjólinn á Hrefnu þegar hún var lítil, alveg án þess að hafa uppskrift. Skil ekki núna hvernig ég fór að því...

En já, nú er ég hætt þessu "kellingabloggi".

miðvikudagur, 10. nóvember 2010

Skammdegið skellur brátt á af fullum þunga



A snapshot, originally uploaded by Guðný Pálína.
Dagarnir eru farnir að styttast all verulega og þegar áhugamálið er ljósmyndun utandyra finnur maður vel fyrir því. Lykilatriði í því að ná góðum myndum er nefnilega birtan og þegar hún fer að verða af skornum skammti versnar í því . Besta birtan er yfirleitt þegar ég er í vinnunni og kannski eins gott að ég vinn innandyra og get ekki séð veðrið úti þegar ég er í vinnunni. Það gæti orðið of erfitt að horfa uppá frábær myndaskilyrði og komast ekki út að taka myndir. í gær þegar ég var á leiðinni heim úr vinnunni um fjögurleytið skein sólin svo dásamlega fallega á Kaldbak. Ég brunaði heim og sótti myndavélina og skálmaði út á klappirnar hér í endanum á götunni, en þá var sólin farin. Reyndar komst ég líka að því að það eru komin of há tré þarna í einhverjum garði sem skyggja of mikið á útsýnið, svo ef ég ætla að taka myndir út fjörðinn þá verð ég að finna aðra staðsetningu.

Í morgun fór ég í sund og hélt að það yrði fínt myndaveður þegar færi að birta, en þá fór að snjóa og sú birta er mjög erfið fyrir ljósmyndun. Þannig að ég fór bara í Hagkaup og erindaðist eitthvað fleira. Já skilaði bókum á bókasafnið - sem var komin sekt á. Ja, reyndar bara eitt tímarit sem betur fer. Svo kom Rósa vinkona í heimsókn og við spjölluðum bara nokkuð lengi. Þegar hún var farin sá ég að það var einhver smá sólarglæta úti, svo ég tættist af stað eina ferðina enn... Þó var fátt um fína drætti, enda hvarf sólin fljótlega bakvið ský. En ég smellti nú samt af nokkrum myndum úr því ég var á annað borð komin út. Þessi er tekin í fjörunni niðri við ósa Glerár.

Annars er allt meinhægt í fréttum. Ég held bara áfram að vera eitthvað svo óskaplega þreytt og er orðin ferlega leið á ástandinu. Til að kóróna þetta allt saman verð ég svo stressuð þegar ég hugsa til þess að jólavertíðin sé að byrja og ég nú þegar ónýt af þreytu. Þetta stress leiðir örugglega af sér enn meiri þreytu svo úr verður vítahringur. Ég var reyndar í fríi í dag en gerði þau mistök að leggja mig ekki aftur þegar Ísak var farinn í skólann. Ætlaði að vera dugleg og baka eitthvað gott en gerði bara nákvæmlega ekkert af viti í dag, frekar en aðra daga. Jú annars, það var vit í því að hitta Rósu :) Og svo spjallaði ég örllítið við Hrefnu á Skype. Í kvöld er ætlunin að fara á tónleika með Megasi og tveimur félögum hans, þeim Gylfa Ægissyni og Rúnari Þór. Við Valur förum og Andri. Ég treysti eiginlega á það að hressast eitthvað við að hlusta á þá félaga.

fimmtudagur, 4. nóvember 2010

Jæja, ekki alveg jafn draslaralegt núna

En í vinnunni bíða enn margir kassar fullir af vörum svo þar er allt í drasli. Er að spá í að mæta klukkutíma fyrir opnun á morgun til að ráðast á kassana. Ef ég nenni...

Hver hefur eiginlega ruslað svona til í húsinu?

Ekki ég... Eða... Ojú ætli ég standi nú ekki fyrir stórum hluta af draslinu - en þó ekki öllu. Draslið í svefnherberginu er til dæmis alfarið á mína ábyrgð. Ég stunda nefnilega þann "leik" að máta föt og finnast ég ómöguleg í flestu og þetta gerist yfirleitt þegar ég er að verða alltof sein í vinnuna, þannig að ég hef ekki tíma til að ganga frá dótinu inn í skáp aftur. Það hvað ég hef "stækkað" er enn að valda mér vandamálum, þó aðeins sé um 2-3 kíló að ræða, og gerir það að verkum að mér finnst ég ekki eiga nein mátuleg föt sem klæða mig vel. Eitthvað á ég jú, en svo t.d. í gær sótti ég hlýja og góða peysu sem ég er búin að ganga í síðustu tvö ár og þá bara var meira að segja hún orðin of þröng á mig. Uss uss, þetta gengur náttúrulega ekki og líklega er skásta lausnin að kaupa sér hreinlega fleiri föt sem passa. Ég bara nenni því ómögulega! O jæja, nóg um það.

Það er búið að vera alveg brjálað að gera í vinnunni hjá okkur Sunnu þessa vikuna. Þannig er mál með vexti að Glerártorg á 10 ára afmæli nú um mundir og í því felst meðal annars að verslanirnar þurfa að vera með virkilega góð tilboð í tilefni afmælishátíðarinnar nú um helgina. Við fórum á stúfana og fengum birgjana okkar til að vera með í þessu og getum því boðið uppá flotta afslætti af ýmsum vörum þessa helgina. En það var töluvert mikil vinna að panta vörurnar (ákveða hvaða vörur og hve mikið magn) og svo duttu þær allar í hús á nánast sama tíma og þá þarf að taka þær upp, setja sumt inn í sölukerfið, verðmerkja og stilla fram. Og þetta er enn meira verk heldur en það kannski hljómar, þannig að við höfum mætt báðar alla morgna og verið að framundir fjögur til fimm á daginn þessa vikuna. Nema í dag, þá fór Sunna ein í morgun og ég mæti ekki alveg strax. Er samt með móral og hef áhyggjur af því að það haldi áfram að flæða inn vörur, því við áttum jú ennþá eftir að fá tvær sendingar, og Sunna komist ekki yfir að taka það allt upp sjálf. Sérstaklega ef það koma margir viðskiptavinir sem þarf að afgreiða á sama tíma. Ætli ég hringi ekki í hana á eftir og heyri í henni hljóðið.

Ég þyrfti samt líka alveg nauðsynlega að ganga frá í eldhúsinu. Ég var nefnilega svo þreytt þegar ég kom heim úr vinnunni í gær og fannst ég vera að fá hálsbólgu að ég vildi borða eitthvað staðgott. Svo ég eldaði mér grænmetissúpu en hafði ekki einu sinni orku í að ganga frá úr uppþvottavélinni, né setja í hana aftur. Þannig að eldhúsbekkurinn er bara fullur af óhreinu leirtaui. Eftir matinn sofnaði ég á sófanum en dreif mig svo á Bláu könnuna þar sem við hittumst nokkrar ljósmyndaskvísur.

Í morgun vakti ég Ísak um hálf átta og keyrði hann svo reyndar í skólann vegna þess að hann var með stórt plakat sem ekki mátti blotna. Ekki nennti ég í sund heldur kom heim aftur og fékk mér te og brauð og endaði svo aftur uppi í rúmi. Sofnaði nú samt ekki nema í mesta lagi í korter en það var samt gott að láta líða aðeins betur úr fótunum. Og nú er klukkan sem sagt orðin ellefu og eldhúsið og vaskahúsið bíða þess að einhver taki til heldinni. Já og ekki má gleyma fatahrúgunni í svefnherberginu. Mikið er samt agalega gott bara að sitja svona á rassinum aðeins lengur...

sunnudagur, 31. október 2010

Haustlitadýrð við Mývatn


Það er eitt svolítið skrítið við ljósmyndun sem áhugamál. Maður fer á stúfana og tekur hellinga af myndum. Heima á ný er sest við tölvuna og afraksturinn skoðaður. Þá gerist það oftar en ekki að við fyrstu sýn líst mér ekki á neinar af myndunum sem ég hef tekið og dett í smá óánægjukast yfir þessum lélega árangri. En svo líður tíminn og einn góðan veðurdag sest ég aftur yfir þessar sömu myndir og sé þá jafnvel fleiri en eina sem er bara allt í lagi. Þessi mynd er einmitt dæmi um slíkt. Mér sjálfri finnst hún reyndar ekkert meiriháttar, en margir eru hrifnir af svona "speglunar" myndum og jú haustlitirnir standa alltaf fyrir sínu.

Annars er bara allt gott í fréttum svoleiðis. Við vorum jú með helgargesti úr höfuðborginni og það var voða notalegt þrátt fyrir pínu leiðinlegt veður í gær. Valur bauð uppá heilmiklar kræsingar bæði á föstudags- og laugardagskvöldið, eins og hans er von og vísa, og ég náði svona nokkurn veginn að halda haus. Við fórum á margar listasýningar í gær og fengum okkur að danskt smörrebröd í Hofi í hádeginu. Í gærkvöldi horfðum við Edda á Mamma Mia á meðan bræðurnir hlustuðu á tónlist í Hellinum.

Í dag svar svo kóræfing samkvæmt sunnudagsvenju og ég fór að sjálfsögðu. Ég sé að það sem mun reynast erfiðast fyrir mig meðan ég er að komast inn í þetta allt saman, er að ná að halda mínum sópran 2 tón, og passa að elta ekki sópran 1 uppá háu nóturnar. Í dag var ég að minnsta kosti ekki alveg við hliðina á sópran 1 svo það gekk mun betur en síðast. En í staðinn var konan við hliðina á mér alveg uppgefin að reyna að halda sér á réttum stað, svo þetta er ekki vandamál sem ég er ein um að glíma við.

Og nú held ég að ég fari barasta í háttinn. Það er annasöm vika framundan því Glerártorg á 10 ára afmæli í vikunni, sem haldið verður uppá í vikunni. Og já Sunna á afmæli á morgun!

miðvikudagur, 27. október 2010

Er að baka brauð

Já maður reynir að rífa sig upp úr aumingjaskapnum... Við Valur fórum og fengum okkur sushi í hádeginu og þá varð mér svona agalega illt í maganum á eftir. Ekki af því fiskurinn hafi ekki verið ferskur, því það var hann, líklega hef ég bara ekki þolað wasabi maukið eða sojasósuna eða súrsaða engiferið eða ... Alla vega þá líður mér miklu betur núna og ákvað að taka mig aðeins saman í andlitinu og baka. Ég hafði nýlega fengið senda í tölvupósti uppskrift frá Sollu hollu og ákvað að prófa hana. Og svo ég hafi þetta nú einhvers staðar aðgengilegt þá kemur uppskriftin hér:

Gróft og gott speltbrauð

2 ½ dl gróft spelt
2 ½ dl fínt spelt
1 dl sesamfræ
1 dl sólblómafræ
1 dl kókosmjöl
1 dl saxaðar hnetur
1 msk vínsteinslyftiduft
½ tsk salt
2 -3 msk hunang
2-2 ½ dl sjóðandi vatn
1 msk sítrónusafi
Hitið ofninn í 180°C, blandið þurrefnunum saman í skál + hunang, hellið vatni og sítrónusafa útí og hrærið þessu saman, skiptið í tvennt, setjið í 2 meðalstór smurð form eða 1 í stærra lagi. Bakið við 180°C í um 30 mín , takið brauðið úr forminu og haldið áfram að baka í 10 mín.
Svo er bara spurning hvernig brauðið bragðast.

Bras og þras í höfðinu á mér í dag

Eins og svo oft vill verða þegar skrokkurinn segir pass en hugurinn er ósáttur við svoleiðis ræfilshátt.

Ég vaknaði á tilsettum tíma í morgun og dreif mig í sund um leið og Ísak fór í skólann. Mér gekk nú bara nokkuð vel að koma mér út úr húsi, svona miðað við að ég var gjörsamlega að drepast úr þreytu eftir vinnu í gær. Þá gerði ég nákvæmlega ekki neitt nema bara hanga. Hékk í tölvunni, hékk fyrir framan sjónvarpið, hékk við eldhúsborðið og gerði krossgátu. Þið skiljið hvað ég er að fara...

Það var ósköp ljúft í sundinu, ég synti mínar tíu aumingja-ferðir og fór svo í pottinn og gufu samkvæmt venju. Held að ég hafi samt verið einum of lengi á báðum stöðum því ég var orðin eins og slytti að því loknu. Reyndi að fara undir köldu sturtuna en það var algjör kattarþvottur þar á ferð. Það voru hressar konur í búningsklefanum og ég var að tala um það hvað aldurssamsetningin hefði breyst frá því ég byrjaði að synda svona á hverjum degi. Munur að vera ekki lengur langyngst :)

Þegar ég kom heim var ég svo lúin eitthvað að ég var ekki að nenna að fá mér morgunmat heldur lufsaðist niður fyrir framan tölvuna (já ég veit, meiri bölvaldurinn þessi tölva) í hálftíma eða svo. Þar til hungrið rak mig á fætur og ég fékk mér mitt haframjöl. Ekki dugði það þó til að hressa mig og eftir að hafa farið aftur í tölvuna í smá stund lá leiðin rakleiðis inn í rúm og þar hef ég legið þar til núna (að ég sest aftur fyrir framan tölvuna - vá, held að ég verði barasta að fara í tölvubindindi).

Eins og staðan er núna, þá er ég ekki búin að taka úr uppþvottavélinni né laga til í eldhúsinu, og já ekki búin að gera neitt yfirhöfuð annað en fara í sund í dag - já og anda inn og út. Reyndar setti ég í eina þvottavél áður en ég lagði mig - og þyrfti að hengja upp þvottinn. Svo þyrfti ég sem sagt að græja eldhúsið og helst laga til í húsinu. Nota tímann því við erum að fá gesti um helgina. Guðjón bróðir Vals og Edda konan hans ætla að heiðra okkur með heimsókn, nokkuð sem gerist afar sjaldan. Þannig að það væri nú skemmtilegra að húsfreyjan drattaðist til að hafa sæmilega snyrtilegt þegar gestina ber að garði. Það er bara dálítið erfitt þegar maður kemst varla milli herbergja fyrir þreytu.

Þetta eru líklega  eftirköst eftir ferðina suður í síðustu viku. Ég svaf náttúrulega illa bæði nóttina fyrir Reykjavíkurferðina, á hótelinu, og nóttina eftir að ég kom heim. Og þessa daga vorum við alveg á fullu, plús að ég fór beint í vinnu á föstudagsmorgninum og var líka að vinna á laugardeginum. Var reyndar í fríi á sunnudeginum og hann var bara alveg þokkalega góður hjá mér. En á mánudagurinn, gærdagurinn og dagurinn í dag hafa verið hrikalega þungir. Svona er þetta víst bara, maður þarf að borga fyrir allt sem maður tekur út úr "orkubankanum" með háum vöxtum og nú er ég farin að borga háa yfirdráttarvexti, svona ef maður heldur áfram með þessa líkingu. Og það eina sem dugar í því máli er að safna orku aftur - með því að hvíla mig. En einhvern veginn finnst manni að fullfrísk manneskja á besta aldri eigi ekki að þurfa að sitja á rassinum allan daginn og hvíla sig. Sem sagt, enn og aftur kemur í ljós að ég get seint sætt mig við að vera svona og er með brjálaða fordóma gagnvart eigin sjúkdómi.

Nú er ég aldeilis búin að ausa úr mér og ætla að drífa mig út úr þessu volæði og hitta Val í hádeginu niðri í bæ ;-)

mánudagur, 25. október 2010

Same old, same old... svefnleysi


Ég er svo engan veginn að fatta hvað það er sem ræður því hvort ég næ að sofna á kvöldin eða ekki. Síðustu tvær næturnar hef ég sofið eins og ungabarn og líka gengið mjög vel að sofna. Í kvöld fór ég því mjög afslöppuð inn í rúm og beið eftir því að svefninn kæmi - en hann kom bara ekki neitt. Eftir að hafa legið og bylt mér í rúman klukkutíma gafst ég upp og fór fram. Reyndar var maginn eitthvað að plaga mig eins og stundum áður, svo kannski var það ástæðan fyrir því að ég náði ekki að sofna. Þannig að ég fékk mér lífræna AB jógúrt áðan og vonandi róast mallakútur aðeins við það.

Í morgun spjallaði ég við Hrefnu á skype en svo fórum við Valur út á Hjalteyri í ljósmyndaferð. Veðrið var nú svona la la til að byrja með, sól á köflum og kalt. Það stóð á endum að þegar við vorum orðin svöng og ætluðum að drífa okkur heim fór sólin að skína og loks komið þetta fína ljósmyndaveður. En þá vorum við nú búin að vera þarna í dágóða stund og auðvitað að taka myndir þó skilyrðin væru ekki alveg fullkomin.

Ég eignaðist tvo vini, eða aðallega einn, í ferðinni. Það voru tveir hundar sem gengu lausir en þó báðir með ólar svo líklega hafa þeir átt heima í einhverju af húsunum á Hjalteyri. Stærri hundurinn var tík og greinilega nýlega búin að eiga hvolpa því spenarnir á henni voru svo áberandi stórir. Ekki veit ég nú hvaða tegund þetta var en hún var frekar smávaxin en samt mun stærri en litla dýrið sem fylgdi henni. Sá hundur var svipaður á stærð og púðluhundur - en ekki veit ég heldur hvaða tegund hann var. Þekki greinilega afar fáar hundategundir. Ég er sem betur fer ekki hrædd við hunda og hef bara nokkuð gaman af þeim, þannig að það plagaði mig ekkert þó þau eltu mig á röndum hvert sem ég fór. Tíkin var þó öllu frekari á athyglina og vildi í sífellu láta klappa sér. Henni var nú reyndar svo kalt á tímabili að hún hríðskalf, enda var ansi napurt þarna alveg niðri við sjóinn í norðannepjunni. Það var líka búið að raka megnið af feldinum af henni svo hún hafði ekki sinn venjulega hlýja pels. Ég velti því fyrir mér hvort hún hafi kannski verið með ofnæmi eins og hundur vinkonu minnar, því ég sá enga aðra ástæðu til að raka hana.

Það er nú þannig með þessa ljósmyndara að þeir elta myndefnin eins og þeir geta og ég er engin undantekning þar á. Mér sýndist alveg gráupplagt að klifra uppá varnargarðinn sem lá meðfram vitanum og ná þannig mynd þegar brimið væri að skella á steinunum, með vitann í baksýn. Þannig að uppá varnargarðinn fór ég og byrjaði að taka myndir. Heyrði eftir smá stund miklar drunur í briminu en leit ekki við heldur beið eftir gusunni sem myndi koma. Þá byrjaði tíkin að gelta af miklum móð og fyrr en varði skall sjórinn á mér. Reyndar skvettist bara hressilega á þann fót sem nær var sjónum en brimið fór alla leið uppá garðinn áður en það sogaðist út aftur. Og hundurinn gelti og gelti þar til ég klifraði niður og var komin úr allri hættu. Þetta fannst mér nú svolítið merkilegt. Svo nálguðumst við Val þar sem hann stóð og tók myndir og aftur byrjaði hundurinn að gelta og ætlaði nú að vara mig við þessum manni. Frekar fyndið í ljósi þess að hún þekkti mig ekki frá því áður.

Og svona til gamans þá má sjá þessa nýju vinkonu mína hér á myndinni.

laugardagur, 23. október 2010

Stundum finnst mér ég þurfa að blogga

en hef svo ekkert að segja. Núna er einmitt þannig ástand á mér. Ég er bara hálf andlaus í augnablikinu og á leið í háttinn. Dagurinn var samt fínn. Ég var að vinna frá ca. 10-14.30 og hafði nóg að gera. Bæði við að taka upp vörurnar sem við Sunna komum með úr höfuðborginni, og eins að afgreiða því það var fullt af fólki sem kom í búðina. Margt utanbæjarfólk og ég skildi ekki alveg hvaðan allt þetta fólk kom eiginlega. Tja, ekki fyrr en ég fór á kóramótið í Hofi seinnipartinn og sá allan fjöldann sem þar var af fólki. Já og sumir þeirra höfðu meira að segja komið í Potta og prik fyrr um daginn.

Það var sem sagt heljarinnar kóramót en ég söng ekki með kórnum mínum af þeirri einföldu, eða tvöföldu ástæðu, að ég bæði var að vinna og eins taldi ég mig ekki reiðubúna að syngja með þeim svona nýbyrjuð. Aðallega útaf einu ákveðnu lagi reyndar. Það er japanskt barnalag og ég held að þær hafi byrjað að æfa það fyrir tveimur árum síðan, svo það er nú ekki von að ég hafi náð því alveg einn tveir og bingó. En það var rosa gaman að fara og horfa á þær og ég var bara voða stolt af því að tilheyra þessum kór þegar ég sá þær á sviðinu.

Valur eldaði svo dýrindis kvöldmat eins og hans var von og vísa og kvöldinu eyddum við fyrir framan imbann. Horfðum fyrst á breskan sjónvarpsþátt um Barnaby og svo sat ég heiladauð og horfði á einhverja hundleiðinlega ameríska bíómynd. Valur hafði náttúrulega vit á því að standa upp og fara að gera eitthvað gáfulegra en ég bara lá þarna eins og klessa þar til myndin var búin. Svo er sunnudagur á morgun og frí frá vinnu. Spurning hvernig maður notar tímann fram að kóræfingu. Og nú er ég farin að sofa þó fyrr hefði verið.

þriðjudagur, 19. október 2010

Enn einn dýrðardagurinn


Þó Súlur hafi reyndar gránað aðeins í nótt, enda var hitastigið um frostmark í morgun. En úti skín sólin þó lágt á lofti sé og örlítill andvari sér um að hreyfa greinar trjánna. Ég væri alveg til í að fara út að taka myndir núna en hef ekki tækifæri til þess þar sem ég er að fara á hárgreiðslustofu að láta lita og klippa pínu pons. Ég ætla að halda þessu hársöfnunarátaki til streitu enn um sinn, það þýðir ekkert að gefast upp strax... En ég var sem sagt að skoða gamlar myndir af mér og fannst ég þá miklu fínni með stutt hár. Já það er erfitt að gera sumum til hæfis.

Við Sunna erum að fara í skreppitúr til höfuðborgarinnar á morgun að kíkja á birgjana okkar og vonandi taka með okkur eitthvað af vörum norður. Það er ágætt að nota tækifærið og draga úr sendingarkostnaði sem er orðinn all svakalega hár. Við ætlum sem sagt að keyra suður og leggja af stað eldsnemma í fyrramálið og koma heim á fimmtudagskvöld. Svo er vinna á föstudag og laugardag og ég hef pínu áhyggjur af því að þetta komi til með að verða frekar mikið fyrir frúna, en þetta verður nú gaman líka, ekki má gleyma því.

Ég hef verið að lesa undanfarið um baráttu fólks við vefjagigt og síþreytu og sýnist að eitt sem skiptir gríðarlegu máli, sé að skipuleggja líf sitt þannig að maður geri ráð fyrir að hvíla sig nóg. Til dæmis ef maður veit að maður er að fara að gera eitthvað orkukrefjandi, að maður geri ráð fyrir hvíldartíma bæði fyrir og eftir. Æ og eitthvað fleira sem ég hef ekki tíma til að tala um núna af því ég er að drífa mig til hennar Ernu hárgreiðslukonu.

laugardagur, 16. október 2010

Sælkerasúpa

Já kokkurinn er kominn heim og byrjaður að sýna snilli sína í eldhúsinu enn á ný. Í kvöld eldaði hann alveg dásamlega fiskisúpu og við fengum okkur hvítvínstár með. Ísak reyndar var ekki alveg að falla fyrir súpunni svo hann borðaði afgang af pítsu sem var til í ísskápnum, en við hin borðuðum með bestu lyst.

Annars  er  ég í fríi í dag, nokkuð sem ætti að vera ósköp ljúft, en er minna ljúft þegar vefjagigtar þreytan er að yfirbuga mig. Það er voða lítið gaman að vera í fríi og geta ekkert gert sér til skemmtunar. En svona er þetta bara og ekki seinna vænna að fara að sætta sig við það. Við Valur fórum að vísu saman í Bónus og var það eina útiveran í dag. Vonandi verður morgundagurinn betri, eins og oft er ef ég hef hvílt mig heilan dag. Til dæmis var ég líka í fríi á miðvikudaginn var og sá dagur fór nánast eingöngu í hvíld, og þá var ég aðeins hressari á fimmtudeginum. Þetta er í raun alveg fáránlegt ástand og engin leið fyrir fólk að skilja það sem ekki hefur reynt það á eigin skinni. En já það sem ég hef gert í dag fyrir utan að fara í Bónus er að brjóta saman þvott, taka úr uppþvottavélinni, leggja á borð fyrir kvöldmatinn og vinna í því að koma rennilás í eiturgrænu peysuna mína. Já og tala aðeins við Önnu í símann, Hrefnu á skype og mömmu í símann núna í kvöld. Að öðru leyti hef ég bara ekkert gert í dag, ekki einu sinni lagt mig, og ég hef eiginlega ekki hugmynd um það í hvað tíminn hefur farið. Ég sem var vöknuð klukkan átta í morgun...

En sem sagt, það kemur dagur eftir þennan dag og "I will survive" :-)

P.S. Sorry börnin mín góð, ég veit að það er hundleiðinlegt að lesa svona þreytublogg.

fimmtudagur, 14. október 2010

Sauðfé á beit í sólinni


Mér fannst þetta svo skemmtileg litablanda þegar ég sá þessar rollur við Mývatn um daginn, að ég stóðst ekki að mynda þær. Í sömu ferð tók ég reyndar líka myndir af hesti og kúm, svo hinum ýmsu dýrategundum var bara gert nokkuð hátt undir höfði.

Ég hef verið svo lánsöm að geta farið töluvert út að mynda í þessu dásemdarveðri sem leikið hefur við okkur undanfarið og vonandi komumst við Valur í smá ljósmyndatúr á laugardaginn. Hann kemur sem sagt heim á morgun, eftir 13 daga fjarveru, en tíminn hefur verið ótrúlega fljótur að líða finnst mér.

Í kvöld fór ég á tónleika í Hofi, nýja menningarhúsinu. Það voru Margrét Bóasdóttir (sem er einmitt ættuð úr Mývatnssveit) sem söng, Daníel Þorsteinsson (stjórnandinn okkar í kvennakórnum) sem lék undir á píanó, og Þráinn Karlsson leikari, sem las ljóð. Lögin voru eftir Jón Hlöðver Áskelsson en hann á 40 ára starfsafmæli um þessar mundir. Þetta var afar sérstakt en skemmtilegt. Mér fundust lögin hans mörg hver afskaplega falleg en erfitt að útsetja þau til söngflutnings, sérstaklega þegar ljóðin voru held ég öll órímuð. En já þetta var fínt og fullur salur af fólki. Ég kannaðist við ótrúlega mörg andlit, og sat við hliðina á einni kórsystur.

Svo gekk ég heim í kvöldkyrrðinni. Það hafði rignt fyrr í dag og lyktin af gróðrinum lá í loftinu. Og þögnin var algjör fyrir utan stöku bíl sem ók framhjá mér. Það eina sem heyrðist var fótatak mitt og brakið í laufinu sem ég steig ofan á, en nú er laufið óðum að falla af trjánum. Jamm, það er nú ósköp notalegt að ganga úti í myrkri þegar veðrið er svona fallegt. Ég þarf bara að fá mér endurskinsmerki.

þriðjudagur, 12. október 2010

Ég var dugleg og dreif mig í Mývatnssveitina

Stillti klukkuna á hálf átta og hafði hugsað mér að vera farin af stað um hálf níu leytið. Það tókst nú ekki alveg því ég var svo þreytt þegar ég vaknaði að ég lá í rúminu til átta... En hafði mig samt af stað og var ánægð með það. Olíuljósið í bílnum var reyndar að hrella mig. Það hafði byrjað að gefa skilaboð fyrir einni eða tveimur vikum síðan, en ég hafði ekki verið að stressa mig neitt yfir því meðan það blikkaði bara. Um leið og ég var komin á Svalbarðsströndina var það hins vegar farið að loga stöðugt og það stressaði mig nú pínulítið. En áfram hélt ég samt. Var komin í Mývatnssveit um tíuleytið og ók um, stoppaði, fór út úr bílnum og gekk um - já og tók myndir í gríð og erg. Hins vegar þótti mér ráðlegra að kaupa olíu í Reynihlíð en þá byrjaði nú fjörið því samkvæmt smurbókinni átti að vera Castrol olía á vélinni, en hún fékkst ekki hjá þeim í Strax. Svo ég ætlaði að hringja í Tryggva, eina bifvélavirkjann sem ég þekki, og spyrja hann hvaða olíu mætti nota í staðinn, en hann var þá ekki heima í augnablikinu. Starfsfólkið hringdi þá í bifvélavirkja í sveitinni og fékk svar fljótt og vel. Ég afrekaði að hella sjálf olíunni á vélina og varð alveg ótrúlega skítug af því að skrúfa lokið af og á.

Það var kóræfing klukkan fimm og klukkan fjögur átti að vera fundur í kórnum, svo ég ætlaði að leggja af stað heim aftur um tvöleytið, þannig að ég hefði góðan tíma til að hvíla mig og fara í sturtu fyrir fundinn. En veðrið þarna var svo dásamlegt að ég hafði mig ekki af stað heim á leið fyrr en uppúr hálf þrjú. Heimferðin gekk eins og í sögu og þegar ég lagði bílnum á stæðinu heima var kallað á mig. Það var þá Rósa vinkona, sem hafði einmitt verið stödd í Mývatnssveit um helgina. Svona er þetta nú stundum fyndið. Verst bara að ég gat svo lítið spjallað við hana af því ég þurfti að drífa mig heim í sturtu fyrir fundinn.

Eitt af því sem rætt var um á fundinum var kóradagur í Hofi þann 23. október. Þá er kóramót og kórsöngur mun óma liðlangan daginn í nýja menningarhúsinu. Kvennakórinn syngur, bæði einn og sér, en líka í lokin með öllum hinum kórunum. Þetta verður örugglega mjög skemmtilegt, en bæði er þetta vinnuhelgi hjá mér og eins finnst mér ég ekki kunna lögin nógu vel til að geta sungið þau "utanbókar". Það er þó aðallega eitt lag sem ég stend alveg á gati í, japanskt barnalag, en ég er orðin slarkfær í flestum hinna. Það er að segja flestum þeirra sem á að syngja á kóradeginum. Það eru ennþá fullt af lögum sem ég á alveg eftir að læra. En æfingadagurinn á Svalbarðseyri hefur greinilega skilað sínu, það er alveg ljóst. Ég hef meira sjálfstraust eftir hann og bara læt vaða. Ég ýjaði að því við konuna við hliðina á mér að hún léti mig vita ef ég væri alveg úti að aka, og hún sagði þá að ég stæði mig alveg rosalega vel miðað við að vera svona nýbyrjuð. Þá varð Guðný voða montin... tralalala.

Annað sem er hugsanlega í gangi hjá okkur þann 23. okt. er að Guðjón bróðir Vals og Edda konan hans eru að spá í að koma í heimsókn. Það er þó ekki ljóst hvort það er sú helgi eða næsta. En það verður gaman að fá þau, það er ekki svo oft sem við fáum "sunnanfólk" í heimsókn :-)

laugardagur, 9. október 2010

Sjöundi vinnudagurinn í röð í dag

Já svona er það að vera eigin herra... Einn daginn vann ég reyndar bara tvo tíma, því þá var ég svo ónýt að ég bað Andra að vera hluta af tímanum. En já ég vann fyrir Andra síðasta sunnudag af því hann var veikur, svo það er nú að hluta ástæðan fyrir þessum sjö dögum í röð. Laugardagana þurfum við jú alltaf að vinna til skiptis. Það var dásamlegt þegar við vorum með þannig skipulag að við unnum bara þriðja hvern laugardag, en það hefur ekki verið þannig síðan í vor. Ég er nú ekki að vorkenna mér, enda eins og ég segi, ef maður er með fyrirtæki þá þýðir ekki annað en standa sína pligt. Hins vegar er ég afskaplega fegin að eiga frí á morgun, svo ekki sé meira sagt :)

Þá er bara spurningin í hvað frídagurinn á að fara? Mig langar svolítið að fara í Mývatnssveit að taka myndir en veit ekki alveg hvort ég nenni því. Aksturinn fram og tilbaka tekur jú tvo tíma, og ég þarf að vera mætt á kóræfingu klukkan fjögur. Æfingin sjálf byrjar reyndar ekki fyrr en klukkan fimm en fyrst er fundur. Og ég hefði þurft að æfa lögin betur. Þau eru bara svo mörg að mér fallast eiginlega hendur og veit ekki á hvað ég á að leggja áherslu. Þetta eru jú bæði ný lög og svo eldri lög líka. Kannski best að leggja áherslu á nýju lögin, það er auðveldara að syngja með í þeim gömlu, því hinar konurnar kunna þau svo vel.

Það gengur bara vel hjá okkur hér heima þó kokkurinn sé víðsfjarri. Í gær elduðum við Ísak pylsupasta og í dag elduðum við Andri mexíkóska kjúklingasúpu. Það var nú pínu erfitt því hún á að vera bragðmikil og Andri vill helst hafa matinn sterkan, en ef hann er of sterkur vill Ísak ekki borða hann. Þannig að það vantaði nú pínu "piff" í súpuna af því ég var að reyna að passa uppá að Ísak gæti borðað hana. En já það er spurning hvernig verður með mat á morgun því þá er ég jú á kóræfingu til klukkan sjö...

Í morgun var fallegt veður þegar ég vaknaði en lágskýjað. Þó sá ég að sólin skein uppi á Glerárdal, svo ég dreif mig þangað í stuttan ljósmyndaleiðangur fyrir vinnu. Hitinn var nú ekki nema 4 gráður en annars var mjög milt veður. Þegar ég gekk þarna um varð mér hugsað til þess hvað ég væri nú lánsöm. Því þótt ég sé með minn lata fót eftir brjósklosið, og svo óendanlega þreytt á þessari vefjagigt, þá get ég verið úti í náttúrunni.  Ég get gengið úti og andað að mér þessu dásamlega hreina lofti okkar og horft á fegurðina. Fyrir það er ég þakklát. Og með það í huga fer ég í háttinn. Góða nótt :-)

fimmtudagur, 7. október 2010

Stöðuuppfærsla



Gyllt trjágöng, originally uploaded by Guðný Pálína.
Já já já, það er annað hvort í ökkla eða eyra með blogg virknina hjá mér, eins og venjulega. En ég dreif mig sem sagt út í morgun og rúntaði aðeins um bæinn í leit að myndefni. Það gekk nú svona og svona, aðallega vegna þess að ég var enn að drepast úr höfuðverk og bara alveg hrikalega sloj eitthvað. Ég rakst á hana Berglindi úr ljósmyndaklúbbnum, sem var að sjálfsögðu líka úti með myndavél :) Fyrst ók ég aðeins um innbæinn og fór svo inn að gömlu gróðrarstöðinni. Þar rölti ég um og fór meðal annars upp að gróðurhúsunum ofan og vestan við gamla húsið. Þar er þessi mynd tekin, fyrir ofan gróðurhúsin. Mér fannst nú ekki leiðinlegt að ganga þarna um því ég vann jú í garðræktinni nokkur sumur sem unglingur og þá var maður oft á þessu svæði þarna. Það rifjaðist ýmislegt skemmtilegt upp fyrir mér, enda þótti mér afskaplega gaman að vinna í garðræktinni.
Síðan ók ég fram í fjörð og dólaði mér meðfram Eyjafjarðaránni og inn að Hrafnagili. Fór út úr bílnum nokkrum sinnum og rölti um með myndavélina í góða veðrinu. Það er að minnsta kosti ekki hægt að segja annað en ég hafi reynt að láta mér líða betur, en það gekk víst ekki alveg upp. Þegar ég kom heim var ég alveg úrvinda og bað Andra að byrja í vinnunni fyrir mig í dag. Hann fór klukkan tvö og ég fer svo klukkan fjögur. Svo ég ég búin að biðja Andra að fara í Bónus og Ísak ætlar að elda, þannig að þetta verður í góðu lagi allt saman. Sem minnir mig á það að ég á eftir að gera innkaupalista og finna uppskriftina fyrir Ísak. Já og taka mig til fyrir vinnuna. Þannig að það er best að ég hætti þessu rausi.

Gamla þreytta

Ég dreif mig sem sagt í ljósmyndaklúbbinn í gær og við fórum allar og heimsóttum Heiðu, sem er eini kven-atvinnuljósmyndarinn hér á Akureyri. Þar vorum við í nærri fjóra klukkutíma, hvorki meira né minna, eða fram að miðnætti. Það var mjög athyglisvert að sjá hvað hún er að gera og heyra hennar sjónarmið varðandi atvinnumál ljósmyndara, svo dæmi sé tekið. Eins sýndi hún okkur svolítið hvernig hægt er að vinna myndir í photoshop, og er það mun meiri vinna en margur telur.
Heim var ég komin skömmu eftir miðnættið en þá byrjaði þetta venjulega með að geta ekki sofnað fyrr en seint og um síðir. Hef nú samt örugglega verið sofnuð um tvöleytið. Vaknaði svo til að vekja Ísak um hálfátta í morgun og var þá hreinlega ónýt af þreytu. Hás og með dúndrandi höfuðverk og illt í öllum skrokknum. Þannig að ég dreif mig í rúmið fljótlega aftur til að ná aðeins betri hvíld. Núna er þetta dásemdarveður úti, sólin skín á alla haustlitina, það er örlítil gola og stöku ský á himni. Ætli málið sé ekki bara að fá sér morgunmat og koma sér svo út. Hlýt að hressast við það.

miðvikudagur, 6. október 2010

Menningarhúsið Hof



Síðsumar, originally uploaded by Guðný Pálína.
Svona fyrir brottflutta Akureyringa sem lesa bloggið mitt þá kemur hér mynd af hinu nýja menningarhúsi bæjarbúa. Hvað sem segja má um útlit hússins og staðsetningu, þá er ég þeirrar skoðunar að það eigi eftir að verða mikil lyftistöng fyrir bæinn.

Annars er ég eitthvað heilalaus í augnablikinu og ekki í bestu bloggástandi. Ég bara sat hér við tölvuna á meðan ég beið eftir því að stíflueyðirinn virkaði á baðkarið, sem var orðið nánast algjörlega stíflað.

Ég er frekar syfjuð í augnablikinu enda komin í einhverja vitleysu með svefninn eina ferðina enn. Hefur gengið illa að sofna á kvöldin alveg síðan á laugardagskvöldið. Tja, nema í gærkvöldi, þá sofnaði ég líklega um ellefuleytið - en í staðinn var ég vöknuð klukkan sex í morgun. Í sundinu hitti ég svo eina sem hafði vaknað klukkan hálf fimm við slæmar draumfarir og ekkert náð að sofna aftur. Þannig að miðað við það var nú bara hátíð að vakna klukkan sex.

En nú þarf ég að hugsa upp einhvern mat fyrir kvöldið. Andri er loks að jafna sig á húðsýkingunni sem hann fékk, og ætlar á æfingu klukkan sjö, þannig að maturinn þarf að vera snemma. Ég var að spá í að vera annað hvort með fisk eða kjúkling en langar að elda eitthvað nýtt. Og þá vantar jú uppskrift...

Í kvöld er svo fundur í ljósmyndaklúbbnum og ég hafði ætlað mér að mæta. En nú veit ég ekki hvort ég verð uppistandandi eftir kvöldmat, þannig að það verður bara að ráðast af ástandinu á frúnni hvort ég fer eða ekki. Neyðist nú samt kannski til þess því ég var búin að bjóða nýrri konu að mæta og hún vildi bara koma með mér, ef hún kæmi á annað borð. Sjáum hvað setur.

Úff, ég er hreinlega að sofna hérna sitjandi, held ég kíki aðeins í sófann...

mánudagur, 4. október 2010

"Ég þekkti þig ekki, þú ert komin með svo sítt hár"

Þetta fékk ég að heyra í sundinu í morgun og er það í annað skipti á fáeinum dögum að fólk er óvíst um það hvort ég er ég. Frekar fyndið eiginlega en kannski ekki skrítið þegar ég hef jú verið stuttklippt síðustu 25 árin og já mest alla ævina reyndar. Hárið á mér er ekkert orðið svo sítt, en vissulega síðara en venjulega, og mér finnst bara gaman að breyta aðeins til. Það er algjör óþarfi að vera eins í útliti alla ævina, tja fyrir utan elli kerlingu sem vissulega sér til þess að maður breytist í útliti.

Helst í fréttum er það að Valur er kominn til Tromsö þar sem hann verður næstu 12 dagana.  Við verðum að spjara okkur án hans hér heima. Fyrir utan að veita okkur hinum félagsskap er hans helsta hlutverk á heimilinu að sjá um matinn, eins og allir vita sem eitthvað þekkja til hjá okkur. Það verður vissulega áskorun að þurfa að elda en markmiðið er nú að strákarnir taki líka þátt í því verkefni. Ég ákvað að byrja með stæl í gær og keypti lambalærissneiðar. Var fyrst að hugsa um að hafa þær í raspi en rasp fer ekkert sérlega vel í magann á mér svo ég breytti um áætlun. Fann uppskrift á netinu þar sem búinn er til lögur úr ólífuolíu, hvítlauk og kryddi og sneiðunum er velt uppúr þessu og svo steiktar í ofni. Uppskriftin gerði ráð fyrir steikingu í 30 mínútur. Ég tók þetta út eftir rúmar 20 mínútur en þá var kjötið orðið svo steikt og seigt að þetta var eins og að borða skósóla - nema bragðið var betra. Kryddlögurinn var mjög góður fannst mér og þetta HEFÐI getað orðið mjög góður matur. Í dag er ég að borga fyrir langan og strembinn laugardag (þreytan kemur oft ekki fyrr en eftir á). Ég átti í erfiðleikum með að sofna í gær og vaknaði öll undirlögð í morgun. Þannig að það verður engin grand matreiðsla í dag, nei hér verða bara fiskibollur úr dós með karrýsósu.

Ég er alveg að verða búin með eiturgrænu lopapeysuna mína. Hún er reyndar ekki bara græn, það er líka brúnt og hvítt í munstrinu. Ég get ekki sagt að ég sé neitt svakalega ánægð með hana en það gæti nú breyst þegar búið er að þvo hana og setja rennilás. Það er samt á hreinu að ég nenni ekki að rekja hana upp, geri frekar bara fleiri ;-)

laugardagur, 2. október 2010

Jólin koma snemma í ár...

eða þannig. Ég var áðan að syngja O Helga Natt með Sissel Kyrkjebö, svona í tilefni þess að ég er búin að vera syngjandi í allan dag. Það var nefnilega æfingadagur Kvennakórsins og stóð hann yfir frá klukkan níu í morgun til hálf sex. Ég var reyndar orðin vel þreytt strax um hádegisbilið, mjög þreytt um þrjúleytið og algjörlega úrvinda um fimmleytið, en þetta var engu að síður mjög skemmtilegur dagur. Mér finnst bara alveg sérlega gaman að syngja, þó vissulega sé erfitt að byrja í þessu. Hef náttúrulega aldrei sungið neitt að ráði, nema þegar ég var í skátunum, það voru dýrðardagar. En líklega "öskraði" maður meira en söng, ef svo má að orði komast. Nú man ég allt í einu að ég hef raunar verið einu sinni í kór áður. Það var í Gagganum og Ingimar Eydal stjórnaði. Eitt lagið sem við sungum þar var eftir Lennon "Will you still love me". Já, það rifjast ýmislegt upp...

En annars hefur söngur minn undanfarin ár takmarkast við að syngja með jólaplötunni með Sissel Kyrkjebö, Glade Jul. Ég hef tekið hana fram fyrir jólin og gaulað með. Skemmtilegast en jafnframt erfiðast er að syngja O Helga Natt því þar fer hún vel uppá háa C-ið (eða það held ég að minnsta kosti, er ekki alveg með tónfræðina á hreinu sko...). Og já þar sem ég var orðin svo heit eftir allan sönginn í dag datt mér í hug að sækja Sissel og taka Helga natt - og fór létt með það, hehe ;) En ég lét nú þetta eina lag duga að sinni, óþarfi að gaula heila jólaplötu á þessum árstíma.

Ekki þar fyrir, það styttist óðum til jóla, bara svo það sé nú á hreinu. Við þurfum nú að klára að græja starfmsmannamálin í búðinni áður en nær dregur jólum. Þetta er orðið vandamál með helgarnar og sérstaklega ef einhver veikindi eru þá fer allt í vitleysu. Ekki bætir úr skák að 50% af starfsólki búðarinnar eru í Kvennakórnum og þurfa helst að vera í fríi þegar eitthvað sérstakt er um að vera...

Annars er það í fréttum að Valur er farinn suður og flýgur til Tromsö á morgun. Þar verður hann næstu 12 dagana og við verðum víst að bjarga okkur án hans hér heima. Það verður lærdómsríkt fyrir alla, sérstaklega í tengslum við matargerðina en það er nú markmiðið hjá mér að fá strákana til að taka þátt í þeirri vinnu. Svo er spurning hvort ég drattast til að gera lista/skipulag yfir það hvað á að vera í matinn á hverjum degi. Þetta er nokkuð sem við gerðum fyrir löngu og reyndist vel. Svo vel að það hefur alltaf staðið til að gera það aftur - en einhverra hluta vegna hefur það aldrei orðið.

Og já, ætli ég reyni ekki bara að fara snemma að sofa í kvöld.

P.S. Hm, það er kannski best að taka það fram að Sissel söng inná þessa plötu þegar hún var 18 ára, hugsa að ég fari ekki í sporin hennar í dag... Enda fer ég jú ekki í sporin hennar, finnst bara ótrúlega gaman að syngja "með" henni :)

þriðjudagur, 28. september 2010

Ein ég sit og sauma

... eða þannig. Prjóna reyndar og svo er ég ekki heldur ein, Valur situr gegnt mér og Máni liggur á púða í sófanum hjá mér. Ég er að reyna að halda áfram með mína eiturgrænu peysu en það gengur heldur hægt sökum þessarar millirifjagigtar sem fer alltaf að hrjá mig aftur þegar ég held að nú sé hún búin.

Ljósmyndaferðin var mjög fín, fyrir utan veðrið, sem skiptir jú auðvitað máli þegar verið er að mynda landslag. Við ókum sem leið lá á Blönduós og áfram að Þingeyrum í Vatnsdal. Þar ætluðum við að skoða kirkjuna en var lokuð. Berglind ræddi við konu sem kom þar aðvífandi og fékk símanúmer hjá kirkjuverðinum en hann var þá staddur í einhverri smölun og konan hans bara heima. Við fórum þá næst í Vatnsdalinn en þegar hér var komið sögu var komin úrhellisrigning og frekar erfitt um vik að taka myndir. Við reyndum nú samt að láta það ekki á okkur fá og fórum nokkrum sinnum út úr bílnum og smelltum af í gríð og erg. Svo ókum við líka aðeins uppá Grímstungu- og Haukagilsheiði en snérum við því við vissum ekki hvert leiðin lá. Eftir að við komum úr Vatnsdalnum datt okkur í hug að athuga aftur með kirkjuvörðinn og hann var þá kominn heim. Við fórum heim til hans og sóttum lykil að kirkjunni og fórum svo og skoðuðum hana. Þetta er glæsileg kirkja með örgum fallegum munum frá því í kringum 1650. Þegar við skiluðum lyklinum var okkur boðið í kaffi á sveitabænum. Ekki skorti gestrisnina á þeim bænum, svo okkur fannst ekki annað hægt en þiggja það.

Að kaffinu loknu ókum við á Blönduós en þar höfðum við leigt gistingu yfir nóttina. Byrjuðum reyndar á því að fara á Pottinn og pönnuna og fá okkur kvöldmat. En svo fórum við í sumarbústaðinn sem við leigðum og skoðuðum ljósmyndatímarit, spiluðum og fórum í heitan pott fyrir nóttina.

Daginn eftir var hætt að rigna en komið hávaðarok. Við fórum niður að ós Blöndu, niðri við sjó, og tókum einhverjar myndir þar, en svo skildi leiðir. Þær hinar fóru á Vatnsnesið en ég fór með rútunni til Akureyrar. Mig dauðlangaði nú að fara með þeim á Vatnsnesið því þar er fallegt, en á sama tíma vissi ég að það væri ekki skynsamlegt. Var bara voða sátt við ferðina því þetta eru skemmtilegar konur og við hlógum mikið og það var létt yfir öllum.

Svo er alltaf gott að kynnast nýjum konum því með árunum þá hættir manni til að umgangast alltaf sama fólkið og ef það flytur í burtu eins og gerst hefur með ansi margt vinafólk okkar Vals, þá þekkir maður bara alltaf færri og færri. Sem er ekki nógu gott.

föstudagur, 24. september 2010

Það eru til ráð við öllu nema ráðaleysi

sagði pabbi oft, og ég er ekki frá því að þetta hafi verið rétt hjá honum. Eftir að hafa verið nálægt því að hætta við að fara í ljósmyndaferðina af því mér fannst þetta svo óyfirstíganlegt allt saman, datt ég niður á gott ráð. Ég ætla að fara með þeim í fyrramálið og vera með þeim fram á sunnudagsmorgunn. Þá tek ég rútuna frá Blönduósi til Akureyrar um hádegisbilið og verð komin heim um hálf þrjú. Kemst meira að segja á kóræfingu og alles :) Það myndi vera alltof mikið fyrir mig að vera tvo daga á ferðalagi eins og ástandið er á mér núna, svo þetta er bara prýðileg lausn. Þó svo ég missi af því að ljósmynda í Vatnsdalnum og á fleiri stöðum í Húnavatnssýslunni. Maður verður stundum að velja og hafna.

fimmtudagur, 23. september 2010

Fallegt haustveður í dag



Early autumn morning, originally uploaded by Guðný Pálína.
Jæja nú er best að blogga fyrir Hrefnu mína svo hún hafi eitthvað að lesa á kvöldin í Kenya.

Það er bara brjálað að gera hjá frúnni þessa dagana. Ég er í sjúkranuddi einu sinni í viku og finn að það gerir mér gott. Er aðeins að liðkast og vöðvabólgurnar að minnka. Sú sem er að nudda mig lærði í Kanada og hún veit greinilega sínu viti.

Svo erum við að hittast nokkrar ljósmyndaskvísur og ætlunin er að fara í ljósmyndaferð um helgina. Leggja af stað á laugardagsmorgni og fara í Skagafjörðinn / á Skagann. Gista svo á Blönduósi um nóttina og fara í Vatnsdalinn og hugsanlega á fleiri staði á sunnudeginum. Þetta er allt gott og blessað, nema hvað ég hef verið svo slæm af vefjagigtinni undanfarið að ég treysti mér varla í tveggja daga ferð. Erfiðast er að vera partur af hópi og þurfa að fylgja prógrammi sem maður stjórnar ekki sjálfur. Þolið er nú ekki meira en svo að í morgun fór ég út að taka myndir og var alveg búin á því eftir klukkutíma. Mér hafði dottið í hug að ég gæti bara verið á mínum eigin bíl og þá gæti ég t.d. bara farið heim þegar/ef ég væri alveg búin á því á sunnudagsmorgninum - en ég veit það ekki. Það er auðvitað miklu skemmtilegra að vera allar saman í bíl þar sem við verðum nú bara fjórar. Æ jæja, þetta kemur bara allt í ljós.

En já svo er reyndar líka kóræfing á sunnudaginn klukkan fimm og ef ég verð í ljósmyndaferð þá kemst ég ekki á kóræfingu. Meinið er að mig langar ekki að missa af henni, svo ég er í smá klemmu með þetta allt saman.

Núna á eftir er ég svo að fara að hitta vinkonur mínar, þær Hafdísi og Bryndísi, í hádegismat. Við ætlum að fara á nýja staðinn í menningarhúsinu og það verður bæði spennandi að koma þangað og mjög gaman að hitta þær. Við kynntumst þegar Hafdís var leiðbeinandinn okkar Bryndísar í lokaverkefninu í viðskiptafræðinni og höfum reynt að halda sambandi síðan. Það hefur þó verið afar stopult einhverra hluta vegna, en alltaf jafn gaman þegar við hittumst.

Annars er veðrið úti alveg hreint yndislegt núna. Það var við frostmark í morgun en sólin yljar allt og einhverjar hitagráður eru á mælinum núna þó þær séu ekki margar. Ég kippti myndavélinni með mér í töskuna þegar ég fór í sundið í morgun og fór smá myndarúnt eftir sund. Þessi mynd er tekin niðri á eyri eins og sjá má á göngubrúnni. Ég var svo heppin að það kom flugvél og flaug þarna yfir einmitt þegar ég var á leið í bílinn aftur. Það er miklu skemmtilegra að hafa einhverja svona "aukahluti" á myndunum en það tekst nú ekki alltaf. Svo tók ég líka fleiri myndir af bænum frá ólíkum sjónarhornum og einhverjar þeirra eiga sjálfsagt eftir að rata hingað inn síðar.

mánudagur, 20. september 2010

Mikið er ég glöð að hafa drifið mig í kórinn

Vissulega er þetta erfitt í byrjun og enn sem komið er finnst mér upphitunin skemmtilegasti hluti kóræfingarinnar. En það er bara vegna þess að þá getur hver sungið með sínu nefi og ég þarf ekki að hafa áhyggjur af því hvort ég er örugglega í réttri rödd. Erfiðast finnst mér að æfa nýju lögin þegar hver rödd syngur ólíkt og ég er óörugg með það hvort ég held mig á réttum stað eða ekki. Finnst að konurnar við hliðina á mér ættu að syngja aðeins hærra svo ég heyri þetta betur... Hehe, nei bara að grínast. Í gær gerðist það að ég var of nálægt konunum í sópran 1 og fór að elta þær í staðinn fyrir sópran 2. Svo færði ég mig og þá gekk þetta aðeins betur en ég sé samt að ég þarf að troða mér betur inn í miðjan sópran 2 hópinn næst. Hins vegar líður mér svo vel þegar ég syng og fæ heilmikið orkubúst út úr þessu. Svo mikið að ég get ekki sofnað á sunnudagskvöldum af því ég er svo upprifin. En það hlýtur nú að lagast.

Ég ætlaði reyndar að leggja mig aftur í morgun þegar Ísak var farinn í skólann, en gat heldur ekki sofnað þá. Það hafði nú eitthvað með þá staðreynd að gera að mér var svo kalt á fótunum. Það er greinilega kominn tími til að taka fram vetrarsængina og hitateppið mitt. Já svo þarf ég að prjóna á mig nýja ullarsokka, eða prjóna nýtt neðan á þessa rauðu sem eru orðnir götóttir.

Svo er líka kominn tími til að taka til í fataskápnum. Setja sumarfötin í geymslu og taka vetrarfötin fram. Mér finnst ágætt að skipta þessu svona gróflega, þó svo að auðvitað gangi megnið af fötunum allt árið um kring. Enda búum við nú á Íslandi þar sem ætíð er allra veðra von.

Ég var eiginlega með tvö verkefni í huganum sem ég ætlaði að ljúka áður en ég færi í vinnuna.  Að taka til í fataskápnum og baka kryddbrauð. Það var nú bara einhver della sem ég fékk í höfuðið og satt best að segja er ég varla að nenna að baka núna. Þannig að það er spurning hvernig það endar. Svo er náttúrulega þetta klassíska, að taka úr uppþvottavélinni, þvo þvott o.s.frv. Æ já og svo þyrfti ég endilega að komast út í smá labbitúr. Fór ekkert í sund í morgun. Þannig að það er best að hætta þessu rausi og standa upp frá tölvunni...

laugardagur, 18. september 2010

Akureyri í gær



My hometown, originally uploaded by Guðný Pálína.
Já það var ekki hægt að kvarta undan veðrinu í gær - og reyndar ekki í dag heldur ef út í það er farið. Eftir sund og morgunmat í gærmorgun fór ég út með myndavélina. Það var svo yndislegt veðrið, en hitinn var nú ekki nemar 4 gráður þegar ég fór út. En það gildir víst að reyna að nota þessa góðviðrisdaga eins og hægt er. Segi ég og horfi á góða veðrið út um gluggann. Ég var að vinna frá tíu til tvö í dag og fór svo í bæinn. Þar settist ég inn í Eymundsson, fékk mér kaffi og fletti tímaritum. Mér finnst voða notalegt að eiga stundum smá "quality time" með sjálfri mér. Svo fór ég og fjárfesti í stærri brjóstahaldara, því stellið framan á manni stækkar náttúrulega í takt við allt hitt. Reyndar var nú eiginlega markmiðið að fara út að hjóla og líklega geri ég það þegar ég er hætt þessu pári.

Valur fór í ljósmyndaferð að Aldeyjarfossi í dag (enn einu sinni, hehe). Hann er nú á heimleið og fær örugglega að klára að elda þegar hann kemur heim. Það er lambahryggur í matinn, mikill uppáhaldsmatur minn, og ég er búin að setja hann í ofninn. En það er best að Valur geri sósuna, hann er algjör sósusnillingur.

Annars er fátt í fréttum. Ég fer á kóræfingu nr. 2 á morgun. Um miðja vikuna fékk ég allt í einu áfall yfir því hvað ég væri nú búin að koma mér út í. Mér óx svo í augum að kunna ekki að lesa nótur, af því í síðasta tíma fór öll orkan í að reyna að fylgjast með á nótnablaðinu, og ég söng voða lítið. Fullkomnunaráráttan aðeins að láta á sér kræla. En já ég kveð hana bara í kútinn og þetta hlýtur að koma smám saman. Svo er ég líka búin að vera alveg gjörsamlega ónýt af gigtinni síðustu tvær vikurnar og fór að hugsa sem svo að ég gæti örugglega ekki verið í þessum kór af því heilsan er svona léleg - en ég blæs nú bara á það líka. Maður getur ekki bara grafið sig lifandi þó þessi gigt sé að gera mér lífið leitt.

Og já nú er ég búin að tæma sarpinn í bili.

miðvikudagur, 15. september 2010

Bolla, bolla, bolla

Já þetta er nú meira fjörið að fitna svona. Við erum ekki að tala um að ég sé orðin svo feit að ég kjagi, bara nokkrum kílóum þyngri en ég er vön að vera. Og já, ég er óvön því að vera svona "mikil". Sem dæmi má nefna að þegar ég sit í gufubaðinu í sundlauginni, með báða fætur uppi á bekknum, þá fletjast lærin á mér út og þegar ég horfi á þau  þá bara þekki ég þau engan veginn sem mín eigin læri. Og talandi um sundið þá hef ég reyndar smá áhyggjur af því að sundbolurinn muni rifna utan af mér, enda krefst það nú þónokkurra átaka að komast í hann.

Í dag tróð ég mér í gallabuxurnar mínar. Ég komst í þær með nokkuð góðu móti og gat rennt upp og alles (þökk sé þeirri staðreynd að þær eru úr stretch-efni). Það sem næst gerðist er að fyrir ofan strenginn myndaðist þetta líka fína möffins sem náði allan hringinn og sást mjög vel þar sem ég var í frekar þröngum bol að ofanverðu. Nánast allir mínir bolir eru frekar þröngir, enda keyptir þegar ég var einu númeri minni...

En já í buxunum hef ég svo sem verið í dag en engu að síður er það nokkuð ljóst að annað hvort þarf ég að minnka aftur hið snarasta eða fjárfesta í nýjum buxum. Einhvern veginn hef ég ekki alveg trú á því að mér takist að grenna mig í hvelli, sérstaklega þar sem ég bara get ekki farið í megrun. Ég hef aldrei hugsað jafn mikið um mat og í þau örfáu skipti sem ég hef reynt að grenna mig. Úff, púff og æ, æ. Og mér sem finnst svo hræðilega leiðinlegt að máta gallabuxur!

P.S. Það er kannski eins gott að taka það fram að ég hef ekki þungar áhyggjur af þessari þyngdaraukningu minni. Þetta rennur örugglega af mér um leið og fer að vera meira að gera í vinnunni fyrir jólin. Ef ég væri mjög miður mín yfir ástandinu þá væri ég líklega ekki að skrifa um þetta hér ;-)

Nú er ég alveg búin að gleyma hvað ég ætlaði að segja



Dreamy, originally uploaded by Guðný Pálína.
Gleymna Guðný ;-) En já ég var búin að hugsa upp eitthvað til að blogga um en það hefur greinilega ekki verið merkilegt því það er ekki séns að ég muni hvað það var. Þar sem ég er nú sest við tölvuna mun ég engu að síður bulla eitthvað eins og mín er von og vísa.

Ég fór í sund í morgun og synti heilar sex ferðir. Eftir að hafa byrjað af þessum mikla krafti um daginn (að synda tíu ferðir daglega í viku) fékk ég svo miklar vöðvabólgur að ég neyddist til að draga úr fjölda ferða. Sjúkranuddarinn sem er að reyna að losa mig við alla mína vöðvahnúta ráðlagði að ég myndi bara synda 4-6 ferðir næstu tvær til þrjár vikurnar. Úff, mér líður eins og algjörum aumingja að synda svona lítið þegar ég er á annað borð komin ofan í laugina, en það er heldur ekki gott að verkja óendanlega mikið í skrokkinn, svo ætli ég fari ekki að ráðum hennar. Stundum þarf maður á því að halda að heyra sannleikann frá öðrum þó svo að maður viti þetta allt.

Það hefur verið alveg skelfilega rólegt í vinnunni það sem af er september og ég á pínu erfitt með mig í öllum þessum rólegheitum. Bæði vegna þess að þá fer ég að hafa áhyggjur af afkomunni, og eins fer mér hreinlega að leiðast þegar ég hitti svona fáa viðskiptavini. Það eru takmörk fyrir því hvað maður nennir að þurrka af og vinna í pappírum. Enda hef ég heldur ekki getað unnið í bókhaldinu vegna verkjanna í síðunni. Mér skilst að þessi rólegheit séu ekki bara hjá okkur. Áðan var ég að spjalla við konu sem var nýkomin að sunnan og hún hafði heyrt í fjórum ólíkum verslunum að um leið og september skall á þá hafi bara öll verslun dottið niður. Já já, en svo styttist í október og jólasalan byrjar jafnvel aðeins þá, þannig að þetta fer allt að hafast.

Annars er ég í fríi í dag og ætla að reyna að njóta þess. Þarf reyndar að byrja á því að fara á pósthúsið og sækja sendingu fyrir búðina. Ég ætlaði nú að gera það í gær en tókst að steingleyma því. Svo á ég pantað í lit og klippingu klukkan tólf og það fer nú alltaf dágóður tími í það stúss. Já og ferð í Bónus er líka á dagskránni, þannig að mér mun að minnsta kosti ekki leiðast í dag ;-)

þriðjudagur, 14. september 2010

Þyrfti að fara að fá mér morgunmat

en er ekki að nenna því. Aðallega vegna þess að ég veit ekkert hvað mig langar í. Hm, kannski ég spæli mér bara egg í morgunmat, eða geri egg í brauði. Er orðin hálf leið á haframjöli og langar ekki í kaldan ávaxtabúster því mér var hálf kalt eftir sundið. Já ég veit, mjög merkilegar pælingar. En ég þarf að fara að gera eitthvað plan með mataræðið hjá mér svo þetta endi ekki bara í brauði og mjöli alla daga. Suma daga er það haframjöl á morgnana, brauð í hádeginu og brauð í kaffinu og það er alltof mikið. Ég hef þá trú að allt þetta brauðát sé ekki gott fyrir mann - en það er hægara sagt en gert að kenna gömlum hundi að sitja. Jamm og jæja, en nú er ég orðin verulega svöng, svo ég er farin.

laugardagur, 11. september 2010

Hornafjarðarmagi

Já nú rekur kannski einhver upp stór augu. Hornafjarðarmagi - hvað er nú það? Þannig er mál með vexti að þegar ég var lítil stelpa þótti mömmu á einverjum tímapunkti ég vera með útstæðan maga. Mamma er ættuð úr Hornafirði og líklega hefur stór magi verið í ættinni (a.m.k. minnir mig að amma hafi verið með fremur útstæðan maga). Þannig að mamma sagði einhverju sinni við mig að ég væri með Hornafjarðarmaga. Ég tók þessu nú ekki sem sérstakri upphefð og varð meira að segja fremur sár við mömmu, sem hefur án efa ekki meint neitt illt með þessu, heldur bara verið að reyna að staðsetja mig einhvers staðar á ættboganum. En já mér fannst það ómögulega geta verið mér til framdráttar að vera með stóran maga sem þar að auki gengi undir svona stóru nafni. Síðan leið tíminn og maginn á mér hefur nú verið nokkuð til friðs í gegnum tíðina. Það er helst að hann hafi stækkað í kringum meðgöngur barnanna en þess á milli hefur hann bara verið ágætlega sléttur og ekki sérlega útstæður. Þar til núna nýlega. Nú hef ég fitnað svo mikið að maginn hefur öðlast sjálfstætt líf. Stinnur og fínn af fitu stendur hann út í loftið og viti menn... ég er komin með Hornafjarðarmaga enn á ný ;-)

föstudagur, 10. september 2010

Varúð vælubíllinn!!


Sum nýyrði í íslensku eru nú eiginlega frekar skondin, eins og þetta að nota orðið, "vælubíll" þegar einhver er að kvarta. En já ég er sem sagt aðeins að kvarta núna. Skal samt reyna að koma með eitthvað jákvætt líka til mótvægis.
Neikvætt:
- Er aftur komin með verki í millirifjasvæðið hægra megin og ferlega svekkt með það. Í morgun fór ég í sund eftir að hafa sleppt því í tvo daga. Hélt að það væri kannski óhætt ef ég myndi taka með mér blöðkur og nota aðallega fæturnar. En viti menn það sem ég græddi á því að nota blöðkur voru verkir neðst í spjaldhrygginn hægra megin. Þannig að nú er hægri hliðin meira og minna öll undirlögð.
- Ég er svo hræðilega stífluð í nefinu / nefholunum, án þess þó að vera kvefuð.
- Ég er svooo þreytt og búin að vera í allan dag. Við erum að tala um svona þreytu þar sem ég get varla hugsað mér að fara í vinnuna því bara tilhugsunin að þurfa að standa í lappirnar veldur mér kvíða. Enda var ég fljót að henda mér uppí rúm þegar heim var komið.
-Dett í kvíðakast yfir mínu heilsufarsástandi - og það er ekki til að bæta ástandið.

Jákvætt:
+ Valur dreif sig í ljósmyndaferð að Dettifossi í dag, þó að ég væri að vinna og kæmist ekki með honum. Sem er frábært.
+ Valur málaði útihurðina í vikunni og einnig útihurðina niðri. Svo er hann byrjaður að mála kassann utan af gasinu, svo nú er að verða búið að mála allt sem hægt er að mála hér utanhúss.
+ Ég er að spá í að fara á kóræfingu á sunnudaginn hjá Kvennakór Akureyrar - ef ég koksa ekki á því... Mig hefur lengi langað í kór, tja eða bara að syngja öllu heldur og þá er kór víst leiðin til þess. Vona bara að þessi nefstífla mín verði skárri. Já og svo veit ég reyndar ekkert hvernig þetta fer fram ef ný kona vill byrja í kórnum. Hvort það er einhvers konar inntökupróf eða?
+ Ég er búin að mæla mér mót við Hafdísi og Bryndísi vinkonur mínar í þarnæstu viku. Við ætlum að hittast í hádegi og spjalla saman. Þegar ég hugsa um það væri náttúrulega gáfulegra að hittast að kvöldi til svo við getum spjallað almennilega saman án þess að hafa áhyggjur af klukkunni, en það verður bara síðar.
+ Ég er búin að panta miða fyrir fjölskylduna í leikhús þann 6. nóvember, að sjá Rocky horror, í Hofi. Það verður örugglega gaman.

Jamm og jæja, svo mörg voru þau orð. Vælubíllinn kveður að sinni.

fimmtudagur, 9. september 2010

Já já, annað hvort í ökkla eða eyra

eins og venjulega hjá mér. Nú blogga ég án afláts í einhverja daga - spurning hvað það endist lengi. En Hrefna mín hlýtur að vera glöð með það, hún hefur þá eitthvað að gera frá kl. 18 á kvöldin... Þannig er mál með vexti að þær stöllur verða að vera komnar í hús fyrir myrkur og eiga ekki að vera úti eftir kl. 18. Þá eru þær sem sagt bara tvær og verða að hafa ofan af fyrir sér í húsi þar sem rafmagnið er alltaf að detta út. Já það er áskorun, ekki er hægt að segja annað.

En svo ég segi nú strax eitthvað jákvætt þá er ég betri af þessari millirifjagigt - og er þakklát fyrir það. Í staðinn er bara ógurleg leti/þreyta að hrjá mig. Ég byrja ekki að vinna fyrr en kl. 14 í dag og finnst tíminn ótrúlega lengi að líða núna, þó vissulega gæti ég haft ýmislegt fyrir stafni. Ég fór ekki í sund í morgun af því ég vildi hvíla handlegginn/síðuna betur og þá fékk ég heldur ekki hressandi áhrifin af því að byrja daginn á sundferð.

Fyrst las ég aðeins blöðin, svo lagði ég mig aftur, fór á fætur aftur og kláraði að lesa blöðin á meðan ég borðaði morgunmat. Prófaði að borða lífrænt skyr og er spennt að sjá hvernig það fer í mig. Þetta venjulega verður nefnilega eins og steinn í maganum á mér. Já, og svo sit ég bara hér... Þyrfti að koma mér í sturtu og jafnvel setja í eina þvottavél, taka úr uppþvottavélinni og helst koma mér út að ganga eða hjóla. Hm, mér sýnist ég bara vera komin með ágætis áætlun, best að framfylgja henni ;-)

miðvikudagur, 8. september 2010

6 ára blogg-afmæli um þessar mundir

Það er nú eiginlega bara nokkuð gott finnst mér. Þó vissulega hafi bloggfærslum farið fækkandi hin síðari ár. Ég kíkti aðeins á færslu frá því í ágúst 2004 og sá að þá hafði ég fengið nýja fartölvu til umráða. Hún dugði í rúm fimm ár - og dugar reyndar enn - en er orðin afar hægvirk. Ég fékk jú nýja tölvu í janúar á þessu ári, svo það er bara Ísak sem notar þá gömlu endrum og sinnum.

En já, það sem ég vildi sagt hafa, er að í þessari 6 ára gömlu bloggfærslu er ég að tala um að vonandi fari ég að skrifa meira með nýrri tölvu. Og þá meina ég svona skáldskap og þess háttar skrif. Ekki reyndist ég nú sannspá þar, því miður. Stundum finnst mér eins og ég eyði ótakmarkaðri orku og tíma í að forðast að skrifa. Held jafnvel að ég hafi farið í viðskiptafræðina m.a. til að "þurfa ekki" að láta á það reyna hvort ég gæti skrifað eitthvað af viti. En á sama tíma er eins og það að skrifa hafi verið í blóðinu á mér alveg frá því ég var krakki. Hvers vegna í ósköpunum lætur maður þá ekki bara á það reyna? Mér er eiginlega fyrirmunað að skilja það.

Gáseyri í haustlitum


Ég er í smá pirringskasti núna og kannski ekki gott að vera að blogga akkúrat þá. En svo ég fái nú bara útrás fyrir það sem er að gera mig brjálaða þá kemur runan hér:
- Aðal vandamálið er að ég er að drepast úr millirifjagigt, eða er með bólgnar vöðvafestur í hægri síðunni, og þessu fylgja alveg ótrúlega miklir verkir. Svona eins og tannpína eiginlega og gerir mér erfitt um vik að nota hægri hendina því þetta er eins og allt í kringum axlarliðinn með leiðni út í handlegginn.
- Kettirnir eru að gera mig brjálaða með sínum endalausa óþrifnaði. Húsamerkingar, ælur, hár út um allt og sú staðreynd að endalaust þarf að þrífa kattaklósettið. Ég hugsa að ég væri löngu búin að losa mig við þau ef Ísak væri ekki á heimilinu, hann verður voða sár við mömmu sína þegar ég tala illa um kettina.
- Annað rusl og óhreinindi í húsinu - sem fylgja því að hér býr fólk... Einhverra hluta er það orðið miklu meira atriði í mínum huga hin síðari ár að hafa tiltölulega hreint og helst sem minnst rusl í kringum mig. En mikið óskaplega sem það er erfitt að viðhalda því.
- Já og kemur á óvart! Ég er aftur dottin í síþreytuástand - eða að minnsta kosti mjög mikla þreytu. Var nokkuð góð fyrstu tvo dagana eftir að við komum frá Kanada en svo bara BÚMM kom fílinnn og trampaði mig niður og þar er ég bara. Hef samt reynt að berjast gegn þessu með því að fara í sund á morgnana og það virkar pínu pons, en ekki nógu mikið.
- Gigtin hefur líka verið að hrjá mig en það gæti verið vegna þess að ég er byrjuð í sjúkranuddi og konan var nú reyndar búin að vara mig við að þá færi allt af stað.
- Hm, held bara að listinn sé tæmdur í bili. Mikið var nú gott að ausa aðeins úr sér, held bara að mér sé strax farið að líða aðeins betur ;-)