Hér kemur tilraun til að gera eitthvað annað en væla:
Aðfangadagskvöld var ósköp notalegt hjá okkur. Það bar þó til tíðinda, að á meðan við sátum og borðuðum jólamatinn, heyrðist allt í einu hljóð undan jólatrénu. Enginn skildi neitt í neinu... tja nema ég. Ein jólagjöfin til Vals var nefnilega ný vekjaraklukka, og tók hún uppá því að hringja þarna undir borðhaldinu. Ég fékk algjört hláturskast og tilkynnti að þar sem Valur hefði verið svo þægur í dag fengi hann að opna einn pakka á undan hinum. Enda vissi ég sem var að klukkan myndi að öðrum kosti bara halda heillengi áfram að hringja.
Á annan í jólum fórum við Valur út í smá bíltúr til að viðra frúna. Við tókum myndavélarnar með okkur og náðum að viðra okkur almennilega því það var þvílíka rokið úti á leirum, og tókum eitthvað af myndum líka. En hressandi var það.
Sama dag átti Hrefna von á vini sínum frá Danmörku, en fluginu hans seinkaði vegna bilaðrar flugvélar. Upphaflega átti hann að ná til Akureyrar sama dag en svo var ljóst að það myndi ekki ganga og þá var pantað hótel í Reykjavík. Enn var beðið og svo kom í ljós að ekki yrði flogið frá Danmörku þetta kvöld/nótt. Þá ætlaði hann að fá endurgreitt hótelherbergið en það var ekki hægt þar sem hann hafði pantað í gegnum einhverja erlenda bókunarsíðu á netinu. Daginn eftir átti að fljúga kl. 13 og enn var innanlandsfluginu breytt þannig að hann átti bókað með síðustu vél norður. En ekki fór nú vélin af stað frá Köben fyrr en kl. 16 að dönskum tíma og þá var útséð um að hann myndi ná vélinni norður sama dag. Þannig að pabbi Hrefnu og hún sjálf brunuðu af stað suður til að sækja piltinn svo hann þyrfti ekki að vera strandaglópur í Reykjavík til næsta dags. Sú ferð gekk sem betur fer vel í alla staði og norður er hann kominn.
Birta er að gera mig brjálaða. Hún mjálmar og vill fá athygli hverja stund sem hún er vakandi. Það er ekkert skrítið því hún saknar Mána greinilega mikið, en ég á erfitt með að þola hávaðann í henni. Svo tókst mér nú áðan að hleypa henni út - og gleyma henni svo úti - og mér sýnist hún helst þurfa áfallahjálp eftir þá lífsreynslu.
Valur var í Bónus að versla inn fyrir áramótin. Enn og aftur sér hann um að halda öllu gangandi hér í húsinu - og ekkert gagn er í mér frekar en fyrri daginn.