fimmtudagur, 4. nóvember 2010

Hver hefur eiginlega ruslað svona til í húsinu?

Ekki ég... Eða... Ojú ætli ég standi nú ekki fyrir stórum hluta af draslinu - en þó ekki öllu. Draslið í svefnherberginu er til dæmis alfarið á mína ábyrgð. Ég stunda nefnilega þann "leik" að máta föt og finnast ég ómöguleg í flestu og þetta gerist yfirleitt þegar ég er að verða alltof sein í vinnuna, þannig að ég hef ekki tíma til að ganga frá dótinu inn í skáp aftur. Það hvað ég hef "stækkað" er enn að valda mér vandamálum, þó aðeins sé um 2-3 kíló að ræða, og gerir það að verkum að mér finnst ég ekki eiga nein mátuleg föt sem klæða mig vel. Eitthvað á ég jú, en svo t.d. í gær sótti ég hlýja og góða peysu sem ég er búin að ganga í síðustu tvö ár og þá bara var meira að segja hún orðin of þröng á mig. Uss uss, þetta gengur náttúrulega ekki og líklega er skásta lausnin að kaupa sér hreinlega fleiri föt sem passa. Ég bara nenni því ómögulega! O jæja, nóg um það.

Það er búið að vera alveg brjálað að gera í vinnunni hjá okkur Sunnu þessa vikuna. Þannig er mál með vexti að Glerártorg á 10 ára afmæli nú um mundir og í því felst meðal annars að verslanirnar þurfa að vera með virkilega góð tilboð í tilefni afmælishátíðarinnar nú um helgina. Við fórum á stúfana og fengum birgjana okkar til að vera með í þessu og getum því boðið uppá flotta afslætti af ýmsum vörum þessa helgina. En það var töluvert mikil vinna að panta vörurnar (ákveða hvaða vörur og hve mikið magn) og svo duttu þær allar í hús á nánast sama tíma og þá þarf að taka þær upp, setja sumt inn í sölukerfið, verðmerkja og stilla fram. Og þetta er enn meira verk heldur en það kannski hljómar, þannig að við höfum mætt báðar alla morgna og verið að framundir fjögur til fimm á daginn þessa vikuna. Nema í dag, þá fór Sunna ein í morgun og ég mæti ekki alveg strax. Er samt með móral og hef áhyggjur af því að það haldi áfram að flæða inn vörur, því við áttum jú ennþá eftir að fá tvær sendingar, og Sunna komist ekki yfir að taka það allt upp sjálf. Sérstaklega ef það koma margir viðskiptavinir sem þarf að afgreiða á sama tíma. Ætli ég hringi ekki í hana á eftir og heyri í henni hljóðið.

Ég þyrfti samt líka alveg nauðsynlega að ganga frá í eldhúsinu. Ég var nefnilega svo þreytt þegar ég kom heim úr vinnunni í gær og fannst ég vera að fá hálsbólgu að ég vildi borða eitthvað staðgott. Svo ég eldaði mér grænmetissúpu en hafði ekki einu sinni orku í að ganga frá úr uppþvottavélinni, né setja í hana aftur. Þannig að eldhúsbekkurinn er bara fullur af óhreinu leirtaui. Eftir matinn sofnaði ég á sófanum en dreif mig svo á Bláu könnuna þar sem við hittumst nokkrar ljósmyndaskvísur.

Í morgun vakti ég Ísak um hálf átta og keyrði hann svo reyndar í skólann vegna þess að hann var með stórt plakat sem ekki mátti blotna. Ekki nennti ég í sund heldur kom heim aftur og fékk mér te og brauð og endaði svo aftur uppi í rúmi. Sofnaði nú samt ekki nema í mesta lagi í korter en það var samt gott að láta líða aðeins betur úr fótunum. Og nú er klukkan sem sagt orðin ellefu og eldhúsið og vaskahúsið bíða þess að einhver taki til heldinni. Já og ekki má gleyma fatahrúgunni í svefnherberginu. Mikið er samt agalega gott bara að sitja svona á rassinum aðeins lengur...

Engin ummæli: