mánudagur, 22. nóvember 2010

Sólarupprás í morgun kl. 11.25


Ég var að vinna seinnipartinn í dag og hafði ekki stillt klukku í morgun af því Ísak þurfti ekki að mæta í skólann. En þar sem ég vaknaði nú samt kl. 7.45 dreif ég mig í sund, því ég hafði haft það bak við eyrað að fara út að taka myndir ef veðrið væri gott. Þannig að þegar ég var búin að borða morgunmatinn og bíða eftir að ein þvottavél kláraði tættist ég af stað. Fyrst fór ég uppá klöppina fyrir aftan efra Gerðahverfið, svo upp í Hlíðarfjall og loks út með sjó. 

Myndin sem fylgir er tekin rétt utan við Skjaldarvík. Sólin stirndi svo fallega á hvítan snjóinn í frostinu og himininn var líka svo fallegur. Ég hefði helst bara viljað vera þarna og njóta náttúrunnar, en bæði var nú frekar kalt og eins var ég jú að fara að vinna. Enda stóð það líka á endum að eftir 2ja tíma útiveru var ég orðin býsna lúin og það passaði vel að fara heim og borða og slaka örlítið á fyrir vinnuna. Maður sest lítið niður þessa dagana í vinnunni, og eins er ekki heldur tími til að borða. Ég þarf að muna að gera mér grænan hristing á morgun til að taka með mér, hann er að minnsta kosti hægt að drekka á hlaupum.
 
Annað sem ég þarf að muna á morgun er að panta tíma fyrir bílinn á verkstæði, því það þarf að laga stefnuljósið hægra megin og svo á hann að fara í þjónustuskoðun.

Já og á morgun þarf ég líka að keyra Andra á flugvöllinn, ekki má ég nú gleyma því. 

Og í fyrramálið klukkan átta er foreldrafundur með kennaranum hans Ísaks og svo var ég jafnvel að hugsa um að drífa mig fljótlega eftir það í vinnuna því það veitir ekkert af aðeins lengri vinnutíma þessa dagana, í öllu annríkinu. 

Nú, svo er líka aukaæfing hjá kórnum annað kvöld. Já já, nóg að gera, ekki vantar það.

Engin ummæli: