miðvikudagur, 10. nóvember 2010

Skammdegið skellur brátt á af fullum þungaA snapshot, originally uploaded by Guðný Pálína.
Dagarnir eru farnir að styttast all verulega og þegar áhugamálið er ljósmyndun utandyra finnur maður vel fyrir því. Lykilatriði í því að ná góðum myndum er nefnilega birtan og þegar hún fer að verða af skornum skammti versnar í því . Besta birtan er yfirleitt þegar ég er í vinnunni og kannski eins gott að ég vinn innandyra og get ekki séð veðrið úti þegar ég er í vinnunni. Það gæti orðið of erfitt að horfa uppá frábær myndaskilyrði og komast ekki út að taka myndir. í gær þegar ég var á leiðinni heim úr vinnunni um fjögurleytið skein sólin svo dásamlega fallega á Kaldbak. Ég brunaði heim og sótti myndavélina og skálmaði út á klappirnar hér í endanum á götunni, en þá var sólin farin. Reyndar komst ég líka að því að það eru komin of há tré þarna í einhverjum garði sem skyggja of mikið á útsýnið, svo ef ég ætla að taka myndir út fjörðinn þá verð ég að finna aðra staðsetningu.

Í morgun fór ég í sund og hélt að það yrði fínt myndaveður þegar færi að birta, en þá fór að snjóa og sú birta er mjög erfið fyrir ljósmyndun. Þannig að ég fór bara í Hagkaup og erindaðist eitthvað fleira. Já skilaði bókum á bókasafnið - sem var komin sekt á. Ja, reyndar bara eitt tímarit sem betur fer. Svo kom Rósa vinkona í heimsókn og við spjölluðum bara nokkuð lengi. Þegar hún var farin sá ég að það var einhver smá sólarglæta úti, svo ég tættist af stað eina ferðina enn... Þó var fátt um fína drætti, enda hvarf sólin fljótlega bakvið ský. En ég smellti nú samt af nokkrum myndum úr því ég var á annað borð komin út. Þessi er tekin í fjörunni niðri við ósa Glerár.

Annars er allt meinhægt í fréttum. Ég held bara áfram að vera eitthvað svo óskaplega þreytt og er orðin ferlega leið á ástandinu. Til að kóróna þetta allt saman verð ég svo stressuð þegar ég hugsa til þess að jólavertíðin sé að byrja og ég nú þegar ónýt af þreytu. Þetta stress leiðir örugglega af sér enn meiri þreytu svo úr verður vítahringur. Ég var reyndar í fríi í dag en gerði þau mistök að leggja mig ekki aftur þegar Ísak var farinn í skólann. Ætlaði að vera dugleg og baka eitthvað gott en gerði bara nákvæmlega ekkert af viti í dag, frekar en aðra daga. Jú annars, það var vit í því að hitta Rósu :) Og svo spjallaði ég örllítið við Hrefnu á Skype. Í kvöld er ætlunin að fara á tónleika með Megasi og tveimur félögum hans, þeim Gylfa Ægissyni og Rúnari Þór. Við Valur förum og Andri. Ég treysti eiginlega á það að hressast eitthvað við að hlusta á þá félaga.

Engin ummæli: