miðvikudagur, 6. október 2010

Menningarhúsið HofSíðsumar, originally uploaded by Guðný Pálína.
Svona fyrir brottflutta Akureyringa sem lesa bloggið mitt þá kemur hér mynd af hinu nýja menningarhúsi bæjarbúa. Hvað sem segja má um útlit hússins og staðsetningu, þá er ég þeirrar skoðunar að það eigi eftir að verða mikil lyftistöng fyrir bæinn.

Annars er ég eitthvað heilalaus í augnablikinu og ekki í bestu bloggástandi. Ég bara sat hér við tölvuna á meðan ég beið eftir því að stíflueyðirinn virkaði á baðkarið, sem var orðið nánast algjörlega stíflað.

Ég er frekar syfjuð í augnablikinu enda komin í einhverja vitleysu með svefninn eina ferðina enn. Hefur gengið illa að sofna á kvöldin alveg síðan á laugardagskvöldið. Tja, nema í gærkvöldi, þá sofnaði ég líklega um ellefuleytið - en í staðinn var ég vöknuð klukkan sex í morgun. Í sundinu hitti ég svo eina sem hafði vaknað klukkan hálf fimm við slæmar draumfarir og ekkert náð að sofna aftur. Þannig að miðað við það var nú bara hátíð að vakna klukkan sex.

En nú þarf ég að hugsa upp einhvern mat fyrir kvöldið. Andri er loks að jafna sig á húðsýkingunni sem hann fékk, og ætlar á æfingu klukkan sjö, þannig að maturinn þarf að vera snemma. Ég var að spá í að vera annað hvort með fisk eða kjúkling en langar að elda eitthvað nýtt. Og þá vantar jú uppskrift...

Í kvöld er svo fundur í ljósmyndaklúbbnum og ég hafði ætlað mér að mæta. En nú veit ég ekki hvort ég verð uppistandandi eftir kvöldmat, þannig að það verður bara að ráðast af ástandinu á frúnni hvort ég fer eða ekki. Neyðist nú samt kannski til þess því ég var búin að bjóða nýrri konu að mæta og hún vildi bara koma með mér, ef hún kæmi á annað borð. Sjáum hvað setur.

Úff, ég er hreinlega að sofna hérna sitjandi, held ég kíki aðeins í sófann...

Engin ummæli: