fimmtudagur, 14. október 2010

Sauðfé á beit í sólinni


Mér fannst þetta svo skemmtileg litablanda þegar ég sá þessar rollur við Mývatn um daginn, að ég stóðst ekki að mynda þær. Í sömu ferð tók ég reyndar líka myndir af hesti og kúm, svo hinum ýmsu dýrategundum var bara gert nokkuð hátt undir höfði.

Ég hef verið svo lánsöm að geta farið töluvert út að mynda í þessu dásemdarveðri sem leikið hefur við okkur undanfarið og vonandi komumst við Valur í smá ljósmyndatúr á laugardaginn. Hann kemur sem sagt heim á morgun, eftir 13 daga fjarveru, en tíminn hefur verið ótrúlega fljótur að líða finnst mér.

Í kvöld fór ég á tónleika í Hofi, nýja menningarhúsinu. Það voru Margrét Bóasdóttir (sem er einmitt ættuð úr Mývatnssveit) sem söng, Daníel Þorsteinsson (stjórnandinn okkar í kvennakórnum) sem lék undir á píanó, og Þráinn Karlsson leikari, sem las ljóð. Lögin voru eftir Jón Hlöðver Áskelsson en hann á 40 ára starfsafmæli um þessar mundir. Þetta var afar sérstakt en skemmtilegt. Mér fundust lögin hans mörg hver afskaplega falleg en erfitt að útsetja þau til söngflutnings, sérstaklega þegar ljóðin voru held ég öll órímuð. En já þetta var fínt og fullur salur af fólki. Ég kannaðist við ótrúlega mörg andlit, og sat við hliðina á einni kórsystur.

Svo gekk ég heim í kvöldkyrrðinni. Það hafði rignt fyrr í dag og lyktin af gróðrinum lá í loftinu. Og þögnin var algjör fyrir utan stöku bíl sem ók framhjá mér. Það eina sem heyrðist var fótatak mitt og brakið í laufinu sem ég steig ofan á, en nú er laufið óðum að falla af trjánum. Jamm, það er nú ósköp notalegt að ganga úti í myrkri þegar veðrið er svona fallegt. Ég þarf bara að fá mér endurskinsmerki.

Engin ummæli: