laugardagur, 9. október 2010

Sjöundi vinnudagurinn í röð í dag

Já svona er það að vera eigin herra... Einn daginn vann ég reyndar bara tvo tíma, því þá var ég svo ónýt að ég bað Andra að vera hluta af tímanum. En já ég vann fyrir Andra síðasta sunnudag af því hann var veikur, svo það er nú að hluta ástæðan fyrir þessum sjö dögum í röð. Laugardagana þurfum við jú alltaf að vinna til skiptis. Það var dásamlegt þegar við vorum með þannig skipulag að við unnum bara þriðja hvern laugardag, en það hefur ekki verið þannig síðan í vor. Ég er nú ekki að vorkenna mér, enda eins og ég segi, ef maður er með fyrirtæki þá þýðir ekki annað en standa sína pligt. Hins vegar er ég afskaplega fegin að eiga frí á morgun, svo ekki sé meira sagt :)

Þá er bara spurningin í hvað frídagurinn á að fara? Mig langar svolítið að fara í Mývatnssveit að taka myndir en veit ekki alveg hvort ég nenni því. Aksturinn fram og tilbaka tekur jú tvo tíma, og ég þarf að vera mætt á kóræfingu klukkan fjögur. Æfingin sjálf byrjar reyndar ekki fyrr en klukkan fimm en fyrst er fundur. Og ég hefði þurft að æfa lögin betur. Þau eru bara svo mörg að mér fallast eiginlega hendur og veit ekki á hvað ég á að leggja áherslu. Þetta eru jú bæði ný lög og svo eldri lög líka. Kannski best að leggja áherslu á nýju lögin, það er auðveldara að syngja með í þeim gömlu, því hinar konurnar kunna þau svo vel.

Það gengur bara vel hjá okkur hér heima þó kokkurinn sé víðsfjarri. Í gær elduðum við Ísak pylsupasta og í dag elduðum við Andri mexíkóska kjúklingasúpu. Það var nú pínu erfitt því hún á að vera bragðmikil og Andri vill helst hafa matinn sterkan, en ef hann er of sterkur vill Ísak ekki borða hann. Þannig að það vantaði nú pínu "piff" í súpuna af því ég var að reyna að passa uppá að Ísak gæti borðað hana. En já það er spurning hvernig verður með mat á morgun því þá er ég jú á kóræfingu til klukkan sjö...

Í morgun var fallegt veður þegar ég vaknaði en lágskýjað. Þó sá ég að sólin skein uppi á Glerárdal, svo ég dreif mig þangað í stuttan ljósmyndaleiðangur fyrir vinnu. Hitinn var nú ekki nema 4 gráður en annars var mjög milt veður. Þegar ég gekk þarna um varð mér hugsað til þess hvað ég væri nú lánsöm. Því þótt ég sé með minn lata fót eftir brjósklosið, og svo óendanlega þreytt á þessari vefjagigt, þá get ég verið úti í náttúrunni.  Ég get gengið úti og andað að mér þessu dásamlega hreina lofti okkar og horft á fegurðina. Fyrir það er ég þakklát. Og með það í huga fer ég í háttinn. Góða nótt :-)

Engin ummæli: