fimmtudagur, 30. desember 2010

Bla bla bla blogg

Úff, ég veit ekki af hverju ég er að gera sjálfri mér og öðrum það að blogga núna. Eða bara blogga yfirleitt. Mér finnst ég ekki gera neitt annað en væla á þessari síðu og vorkenni fólki að  þurfa að lesa þessi ósköp. Hm, ok reyndar ÞARF enginn að lesa þetta en ég veit jú að Anna systir og mamma gera það og einhverjir fleiri. Eins og sjá má er dagsformið sem sagt ekkert æðislegt hjá frúnni. Mér tókst að krækja mér í einhverja hálsbólgu um jólin og hún mallar í mér og gerir mig enn ómögulegri en venjulega. Í gær var ég svo komin með höfuðverk og orðin ferlega slöpp en fór samt í vinnuna. Þar var brjálað að gera nánast allan tímann og í gærkvöldi var ég algjörlega ónýt. Ætlaði aldrei að geta sofnað því mér leið svo illa, en það hafðist eftir að ég tók tvær verkjatöflur. Sko væl, væl og aftur væl!!

Hér kemur tilraun til að gera eitthvað annað en væla:

Aðfangadagskvöld var ósköp notalegt hjá okkur. Það bar þó til tíðinda, að á meðan við sátum og borðuðum jólamatinn, heyrðist allt í einu hljóð undan jólatrénu. Enginn skildi neitt í neinu... tja nema ég. Ein jólagjöfin til Vals var nefnilega ný vekjaraklukka, og tók hún uppá því að hringja þarna undir borðhaldinu. Ég fékk algjört hláturskast og tilkynnti að þar sem Valur hefði verið svo þægur í dag fengi hann að opna einn pakka á undan hinum. Enda vissi ég sem var að klukkan myndi að öðrum kosti bara halda heillengi áfram að hringja.

Á annan í jólum fórum við Valur út í smá bíltúr til að viðra frúna. Við tókum myndavélarnar með okkur og náðum að viðra okkur almennilega því það var þvílíka rokið úti á leirum, og tókum eitthvað af myndum líka. En hressandi var það.

Sama dag átti Hrefna von á vini sínum frá Danmörku, en fluginu hans seinkaði vegna bilaðrar flugvélar. Upphaflega átti hann að ná til Akureyrar sama dag en svo var ljóst að það myndi ekki ganga og þá var pantað hótel í Reykjavík. Enn var beðið og svo kom í ljós að ekki yrði flogið frá Danmörku þetta kvöld/nótt. Þá ætlaði hann að fá endurgreitt hótelherbergið en það var ekki hægt þar sem hann hafði pantað í gegnum einhverja erlenda bókunarsíðu á netinu. Daginn eftir átti að fljúga kl. 13 og enn var innanlandsfluginu breytt þannig að hann átti bókað með síðustu vél norður. En ekki fór nú vélin af stað frá Köben fyrr en kl. 16 að dönskum tíma og þá var útséð um að hann myndi ná vélinni norður sama dag. Þannig að pabbi Hrefnu og hún sjálf brunuðu af stað suður til að sækja piltinn svo hann þyrfti ekki að vera strandaglópur í Reykjavík til næsta dags. Sú ferð gekk sem betur fer vel í alla staði og norður er hann kominn.

Birta er að gera mig brjálaða. Hún mjálmar og vill fá athygli hverja stund sem hún er vakandi. Það er ekkert skrítið því hún saknar Mána greinilega mikið, en ég á erfitt með að þola hávaðann í henni. Svo tókst mér nú áðan að hleypa henni út - og gleyma henni svo úti - og mér sýnist hún helst þurfa áfallahjálp eftir þá lífsreynslu.

Valur var í Bónus að versla inn fyrir áramótin. Enn og aftur sér hann um að halda öllu gangandi hér í húsinu - og ekkert gagn er í mér frekar en fyrri daginn.

2 ummæli:

Bryndís Dagbjartsdóttir sagði...

Sæl Guðný mín
Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir allt gamalt og gott.
Mikið er leiðinlegt að heyra þetta með Mána greyið æi það er alltaf erfitt að missa sína líka þessa loðnu. Skiljanlegt að Birta sé einmana.
Hittumst vonandi sem fyrst á nýja árinu, hvernig væri að reyna að plana hitting með Hafdísi? Ef við byrjum fljótlega þá náum við kannski saman allar 3 áður en árið 2012 gegnur í garð :)
Kveðja
Bryndís

Guðný sagði...

Gleðilegt nýtt ár sömuleiðis og takk fyrir þau gömlu :) Já það væri gaman að hittast og þá jafnvel með Hafdísi líka. Um að gera að byrja að plana það sem fyrst ;) Ég hitti mömmu hennar og systur í búðinni fyrir jólin og Mörthu Mekkín. Brjálað að gera hjá Hafdísi eins og venjulega á þeim árstíma. Ég skal senda tölvupóst á ykkur bráðlega til að reyna að finna tíma :)