sunnudagur, 14. nóvember 2010

Er í brjáluðu pirringskasti á þessum fallega degiWinter in the country, originally uploaded by Guðný Pálína.
Þannig er mál með vexti að við Valur fórum út í ljósmyndatúr í morgun og veðrið var eins og á jólamynd. Snjór yfir öllu og á trjánum líka, nokkuð sem er ekki algengt hér á landi. Ég tók helling af myndum, bæði á hæðinni fyrir aftan kirkjugarðinn, í Kjarnaskógi og í Eyjafjarðarsveit - og þær eru nánast allar ónýtar!! Eitthvað hefur komið fyrir stillinguna á fókusnum, þannig að það voru ekki nema örfáar myndir í fókus. Þessi hér er ein af þeim. Æ, þetta er bara svo ótrúlega gremjulegt eitthvað, en ég mun auðvitað jafna mig á þessu. Svo var ég orðin svo lúin að þegar ég kom heim og uppgötvaði að allt var ónýtt, þá var ekki séns að ég nennti aftur út, enda birtan ekki jafn falleg lengur.

Það er líka smá pirringur eða stress í mér útaf tónleikum hjá kórnum. Það eiga að vera tónleikar í Akureyrarkirkju næsta laugardag til styrktar Mæðrastyrksnefnd, og kórinn á að syngja 10 lög í allt. Mig langar pínu að vera með þeim og hef verið að rembast við að læra textana undanfarið. Er samt ekki alveg komin með þá alla á hreint, líklega má segja að ég kunni svona 60 prósent, svo ég ætti nú að geta lagst yfir þetta áfram og druslast til að læra þá. Það er ekki eins og þetta séu afskaplega flókin verk né löng. Gallinn er bara sá að ég fæ þetta á heilann og svo ligg ég andvaka og geri ekki annað en "syngja" lögin og pirrast yfir að muna ekki textana rétt. Ég er alveg ótrúlegt eintak! Stressast upp yfir öllu og meira að segja hlutir / atburðir sem ættu að vera skemmtilegir verða bara stressvaldandi í mínum ruglaða heila.

Í morgun vaknaði ég líka klukkan fimm og var andvaka í tvo tíma áður en ég náði að sofna aftur. Þá byrjaði ég strax að a) hugsa um allt mögulegt í sambandi við vinnuna og b) rifja upp texta... Svo var ég reyndar alveg að drepast í hryggsúlunni, alveg uppúr og niðrúr, og endaði á að fara og taka verkjatöflur. En sem betur fer náði ég að sofna aftur og var allt í lagi með bakið þegar ég vaknaði um hálf tíu leytið.

Svona rétt í lokin.. Þá er ég pirruð á að vera svona pirruð! Hlýt að lagast við að fara á kóræfingu.

Engin ummæli: