þriðjudagur, 19. október 2010

Enn einn dýrðardagurinn


Þó Súlur hafi reyndar gránað aðeins í nótt, enda var hitastigið um frostmark í morgun. En úti skín sólin þó lágt á lofti sé og örlítill andvari sér um að hreyfa greinar trjánna. Ég væri alveg til í að fara út að taka myndir núna en hef ekki tækifæri til þess þar sem ég er að fara á hárgreiðslustofu að láta lita og klippa pínu pons. Ég ætla að halda þessu hársöfnunarátaki til streitu enn um sinn, það þýðir ekkert að gefast upp strax... En ég var sem sagt að skoða gamlar myndir af mér og fannst ég þá miklu fínni með stutt hár. Já það er erfitt að gera sumum til hæfis.

Við Sunna erum að fara í skreppitúr til höfuðborgarinnar á morgun að kíkja á birgjana okkar og vonandi taka með okkur eitthvað af vörum norður. Það er ágætt að nota tækifærið og draga úr sendingarkostnaði sem er orðinn all svakalega hár. Við ætlum sem sagt að keyra suður og leggja af stað eldsnemma í fyrramálið og koma heim á fimmtudagskvöld. Svo er vinna á föstudag og laugardag og ég hef pínu áhyggjur af því að þetta komi til með að verða frekar mikið fyrir frúna, en þetta verður nú gaman líka, ekki má gleyma því.

Ég hef verið að lesa undanfarið um baráttu fólks við vefjagigt og síþreytu og sýnist að eitt sem skiptir gríðarlegu máli, sé að skipuleggja líf sitt þannig að maður geri ráð fyrir að hvíla sig nóg. Til dæmis ef maður veit að maður er að fara að gera eitthvað orkukrefjandi, að maður geri ráð fyrir hvíldartíma bæði fyrir og eftir. Æ og eitthvað fleira sem ég hef ekki tíma til að tala um núna af því ég er að drífa mig til hennar Ernu hárgreiðslukonu.

Engin ummæli: