Það var sem sagt heljarinnar kóramót en ég söng ekki með kórnum mínum af þeirri einföldu, eða tvöföldu ástæðu, að ég bæði var að vinna og eins taldi ég mig ekki reiðubúna að syngja með þeim svona nýbyrjuð. Aðallega útaf einu ákveðnu lagi reyndar. Það er japanskt barnalag og ég held að þær hafi byrjað að æfa það fyrir tveimur árum síðan, svo það er nú ekki von að ég hafi náð því alveg einn tveir og bingó. En það var rosa gaman að fara og horfa á þær og ég var bara voða stolt af því að tilheyra þessum kór þegar ég sá þær á sviðinu.
Valur eldaði svo dýrindis kvöldmat eins og hans var von og vísa og kvöldinu eyddum við fyrir framan imbann. Horfðum fyrst á breskan sjónvarpsþátt um Barnaby og svo sat ég heiladauð og horfði á einhverja hundleiðinlega ameríska bíómynd. Valur hafði náttúrulega vit á því að standa upp og fara að gera eitthvað gáfulegra en ég bara lá þarna eins og klessa þar til myndin var búin. Svo er sunnudagur á morgun og frí frá vinnu. Spurning hvernig maður notar tímann fram að kóræfingu. Og nú er ég farin að sofa þó fyrr hefði verið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli