sunnudagur, 31. október 2010

Haustlitadýrð við Mývatn


Það er eitt svolítið skrítið við ljósmyndun sem áhugamál. Maður fer á stúfana og tekur hellinga af myndum. Heima á ný er sest við tölvuna og afraksturinn skoðaður. Þá gerist það oftar en ekki að við fyrstu sýn líst mér ekki á neinar af myndunum sem ég hef tekið og dett í smá óánægjukast yfir þessum lélega árangri. En svo líður tíminn og einn góðan veðurdag sest ég aftur yfir þessar sömu myndir og sé þá jafnvel fleiri en eina sem er bara allt í lagi. Þessi mynd er einmitt dæmi um slíkt. Mér sjálfri finnst hún reyndar ekkert meiriháttar, en margir eru hrifnir af svona "speglunar" myndum og jú haustlitirnir standa alltaf fyrir sínu.

Annars er bara allt gott í fréttum svoleiðis. Við vorum jú með helgargesti úr höfuðborginni og það var voða notalegt þrátt fyrir pínu leiðinlegt veður í gær. Valur bauð uppá heilmiklar kræsingar bæði á föstudags- og laugardagskvöldið, eins og hans er von og vísa, og ég náði svona nokkurn veginn að halda haus. Við fórum á margar listasýningar í gær og fengum okkur að danskt smörrebröd í Hofi í hádeginu. Í gærkvöldi horfðum við Edda á Mamma Mia á meðan bræðurnir hlustuðu á tónlist í Hellinum.

Í dag svar svo kóræfing samkvæmt sunnudagsvenju og ég fór að sjálfsögðu. Ég sé að það sem mun reynast erfiðast fyrir mig meðan ég er að komast inn í þetta allt saman, er að ná að halda mínum sópran 2 tón, og passa að elta ekki sópran 1 uppá háu nóturnar. Í dag var ég að minnsta kosti ekki alveg við hliðina á sópran 1 svo það gekk mun betur en síðast. En í staðinn var konan við hliðina á mér alveg uppgefin að reyna að halda sér á réttum stað, svo þetta er ekki vandamál sem ég er ein um að glíma við.

Og nú held ég að ég fari barasta í háttinn. Það er annasöm vika framundan því Glerártorg á 10 ára afmæli í vikunni, sem haldið verður uppá í vikunni. Og já Sunna á afmæli á morgun!

2 ummæli:

Anna sagði...

Falleg mynd og svo mikil ró yfir henni :-)

Guðný sagði...

Takk Anna mín :) Nú ferð þú kannski að hafa meiri tíma til að taka myndir, þegar eldhúsið er komið á sinn stað :)