þriðjudagur, 28. september 2010

Ein ég sit og sauma

... eða þannig. Prjóna reyndar og svo er ég ekki heldur ein, Valur situr gegnt mér og Máni liggur á púða í sófanum hjá mér. Ég er að reyna að halda áfram með mína eiturgrænu peysu en það gengur heldur hægt sökum þessarar millirifjagigtar sem fer alltaf að hrjá mig aftur þegar ég held að nú sé hún búin.

Ljósmyndaferðin var mjög fín, fyrir utan veðrið, sem skiptir jú auðvitað máli þegar verið er að mynda landslag. Við ókum sem leið lá á Blönduós og áfram að Þingeyrum í Vatnsdal. Þar ætluðum við að skoða kirkjuna en var lokuð. Berglind ræddi við konu sem kom þar aðvífandi og fékk símanúmer hjá kirkjuverðinum en hann var þá staddur í einhverri smölun og konan hans bara heima. Við fórum þá næst í Vatnsdalinn en þegar hér var komið sögu var komin úrhellisrigning og frekar erfitt um vik að taka myndir. Við reyndum nú samt að láta það ekki á okkur fá og fórum nokkrum sinnum út úr bílnum og smelltum af í gríð og erg. Svo ókum við líka aðeins uppá Grímstungu- og Haukagilsheiði en snérum við því við vissum ekki hvert leiðin lá. Eftir að við komum úr Vatnsdalnum datt okkur í hug að athuga aftur með kirkjuvörðinn og hann var þá kominn heim. Við fórum heim til hans og sóttum lykil að kirkjunni og fórum svo og skoðuðum hana. Þetta er glæsileg kirkja með örgum fallegum munum frá því í kringum 1650. Þegar við skiluðum lyklinum var okkur boðið í kaffi á sveitabænum. Ekki skorti gestrisnina á þeim bænum, svo okkur fannst ekki annað hægt en þiggja það.

Að kaffinu loknu ókum við á Blönduós en þar höfðum við leigt gistingu yfir nóttina. Byrjuðum reyndar á því að fara á Pottinn og pönnuna og fá okkur kvöldmat. En svo fórum við í sumarbústaðinn sem við leigðum og skoðuðum ljósmyndatímarit, spiluðum og fórum í heitan pott fyrir nóttina.

Daginn eftir var hætt að rigna en komið hávaðarok. Við fórum niður að ós Blöndu, niðri við sjó, og tókum einhverjar myndir þar, en svo skildi leiðir. Þær hinar fóru á Vatnsnesið en ég fór með rútunni til Akureyrar. Mig dauðlangaði nú að fara með þeim á Vatnsnesið því þar er fallegt, en á sama tíma vissi ég að það væri ekki skynsamlegt. Var bara voða sátt við ferðina því þetta eru skemmtilegar konur og við hlógum mikið og það var létt yfir öllum.

Svo er alltaf gott að kynnast nýjum konum því með árunum þá hættir manni til að umgangast alltaf sama fólkið og ef það flytur í burtu eins og gerst hefur með ansi margt vinafólk okkar Vals, þá þekkir maður bara alltaf færri og færri. Sem er ekki nógu gott.

Engin ummæli: