laugardagur, 13. nóvember 2010

Afmælisblús

Úff já, ég er víst orðin 46 ára. Skil ekki ástæðuna fyrir því, en mér finnst ég allt í einu vera að verða svo gömul. Lenti síðast í svipaðri afmæliskrísu þegar ég var 30 ára, svo það er ljóst að þetta hefur ekki beinlínis með aldurinn að gera sem slíkan. Meira eitthvað hugarástand og óljós tilfinning. En jú jú, það liggur nú svo sem fyrir okkur öllum að eldast, og ekkert annað í boði en sætta sig við það.
Þegar ég átti 30 ára afmæli bjuggum við í Tromsö og Valur var einhvers staðar fjarverandi (mér finnst eins og hann hafi verið á Íslandi í stuttu skreppi þangað, en við vorum jú svo fara að flytja til Íslands skömmu síðar). Ég var ekkert að auglýsa það að ég ætti afmæli og fór bara með Hrefnu og Andra út að borða en bauð engum heim. Svo kom reyndar Anne-Marie óvænt í heimsókn og færði mér drykkjarkönnu með mynd af Tromsö, svona til minningar um veruna þar, en kannan sú er komin til feðra sinna. En já ég var svolítið upptekin af því þá að hugsa um allt sem ég hefði EKKI gert á minni stuttu/löngu ævi, s.s. að ég hefði ekki klárað háskólanám eins og ég hafði ætlað mér.

Í gær langaði mig bara ekkert sérstaklega að eiga afmæli. Kannski var ég bara eitthvað illa stemmd. En já ég nennti ekki að baka neitt og bauð engum heim. Þegar leið á daginn langaði mig samt til að gera eitthvað örlítið öðruvísi en venjulega, svo við fórum saman út að borða fjölskyldan. Og um kvöldið hringdu Anna systir, mamma og tengdamamma til að óska mér til hamingju. Eins komu Sunna og Kiddi í heimsókn og þá dauðskammaðist ég mín að vera ekki með eitthvað smá bakkelsi að bjóða þeim. Svo fékk ég jú heilan helling af afmæliskveðjum á facebook.

Í dag á Hrefna mín afmæli, orðin 27 ára. Hún er náttúrulega stödd í Afríku svo ekki get ég knúsað hana og kysst til hamingju með daginn, en ég geri það bara í anda og sendi henni góða strauma. Já og auðvitað sms :o)

Annars er hér allt á kafi í snjó og veturinn svo sannarlega að minna á sig. Ég er í fríi þessa helgi og ætla bara að slappa af og hvíla mig sem mest. Kannski byrja á nýrri lopapeysu á sjálfa mig. Ég keypti fallega bláan plötulopa og ætla að prjóna úr honum einföldum - held ég... Nema ég breyti um áætlun, þarf eiginlega að finna einhverja betri uppskrift því ég er ekki orðin það sjóuð að ég geti prjónað eitthvað gáfulegt uppúr sjálfri mér. Sem minnnir mig á það þegar ég prjónaði kjólinn á Hrefnu þegar hún var lítil, alveg án þess að hafa uppskrift. Skil ekki núna hvernig ég fór að því...

En já, nú er ég hætt þessu "kellingabloggi".

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Kellingablogg eru góð! Anna systir