mánudagur, 4. október 2010

"Ég þekkti þig ekki, þú ert komin með svo sítt hár"

Þetta fékk ég að heyra í sundinu í morgun og er það í annað skipti á fáeinum dögum að fólk er óvíst um það hvort ég er ég. Frekar fyndið eiginlega en kannski ekki skrítið þegar ég hef jú verið stuttklippt síðustu 25 árin og já mest alla ævina reyndar. Hárið á mér er ekkert orðið svo sítt, en vissulega síðara en venjulega, og mér finnst bara gaman að breyta aðeins til. Það er algjör óþarfi að vera eins í útliti alla ævina, tja fyrir utan elli kerlingu sem vissulega sér til þess að maður breytist í útliti.

Helst í fréttum er það að Valur er kominn til Tromsö þar sem hann verður næstu 12 dagana.  Við verðum að spjara okkur án hans hér heima. Fyrir utan að veita okkur hinum félagsskap er hans helsta hlutverk á heimilinu að sjá um matinn, eins og allir vita sem eitthvað þekkja til hjá okkur. Það verður vissulega áskorun að þurfa að elda en markmiðið er nú að strákarnir taki líka þátt í því verkefni. Ég ákvað að byrja með stæl í gær og keypti lambalærissneiðar. Var fyrst að hugsa um að hafa þær í raspi en rasp fer ekkert sérlega vel í magann á mér svo ég breytti um áætlun. Fann uppskrift á netinu þar sem búinn er til lögur úr ólífuolíu, hvítlauk og kryddi og sneiðunum er velt uppúr þessu og svo steiktar í ofni. Uppskriftin gerði ráð fyrir steikingu í 30 mínútur. Ég tók þetta út eftir rúmar 20 mínútur en þá var kjötið orðið svo steikt og seigt að þetta var eins og að borða skósóla - nema bragðið var betra. Kryddlögurinn var mjög góður fannst mér og þetta HEFÐI getað orðið mjög góður matur. Í dag er ég að borga fyrir langan og strembinn laugardag (þreytan kemur oft ekki fyrr en eftir á). Ég átti í erfiðleikum með að sofna í gær og vaknaði öll undirlögð í morgun. Þannig að það verður engin grand matreiðsla í dag, nei hér verða bara fiskibollur úr dós með karrýsósu.

Ég er alveg að verða búin með eiturgrænu lopapeysuna mína. Hún er reyndar ekki bara græn, það er líka brúnt og hvítt í munstrinu. Ég get ekki sagt að ég sé neitt svakalega ánægð með hana en það gæti nú breyst þegar búið er að þvo hana og setja rennilás. Það er samt á hreinu að ég nenni ekki að rekja hana upp, geri frekar bara fleiri ;-)

Engin ummæli: