miðvikudagur, 27. október 2010

Er að baka brauð

Já maður reynir að rífa sig upp úr aumingjaskapnum... Við Valur fórum og fengum okkur sushi í hádeginu og þá varð mér svona agalega illt í maganum á eftir. Ekki af því fiskurinn hafi ekki verið ferskur, því það var hann, líklega hef ég bara ekki þolað wasabi maukið eða sojasósuna eða súrsaða engiferið eða ... Alla vega þá líður mér miklu betur núna og ákvað að taka mig aðeins saman í andlitinu og baka. Ég hafði nýlega fengið senda í tölvupósti uppskrift frá Sollu hollu og ákvað að prófa hana. Og svo ég hafi þetta nú einhvers staðar aðgengilegt þá kemur uppskriftin hér:

Gróft og gott speltbrauð

2 ½ dl gróft spelt
2 ½ dl fínt spelt
1 dl sesamfræ
1 dl sólblómafræ
1 dl kókosmjöl
1 dl saxaðar hnetur
1 msk vínsteinslyftiduft
½ tsk salt
2 -3 msk hunang
2-2 ½ dl sjóðandi vatn
1 msk sítrónusafi
Hitið ofninn í 180°C, blandið þurrefnunum saman í skál + hunang, hellið vatni og sítrónusafa útí og hrærið þessu saman, skiptið í tvennt, setjið í 2 meðalstór smurð form eða 1 í stærra lagi. Bakið við 180°C í um 30 mín , takið brauðið úr forminu og haldið áfram að baka í 10 mín.
Svo er bara spurning hvernig brauðið bragðast.

1 ummæli:

Guðný sagði...

Brauðið bragðaðist vel en var ansi laust í sér. Næst ætla ég að prófa að setja gulrætur í það líka.