miðvikudagur, 15. september 2010

Bolla, bolla, bolla

Já þetta er nú meira fjörið að fitna svona. Við erum ekki að tala um að ég sé orðin svo feit að ég kjagi, bara nokkrum kílóum þyngri en ég er vön að vera. Og já, ég er óvön því að vera svona "mikil". Sem dæmi má nefna að þegar ég sit í gufubaðinu í sundlauginni, með báða fætur uppi á bekknum, þá fletjast lærin á mér út og þegar ég horfi á þau  þá bara þekki ég þau engan veginn sem mín eigin læri. Og talandi um sundið þá hef ég reyndar smá áhyggjur af því að sundbolurinn muni rifna utan af mér, enda krefst það nú þónokkurra átaka að komast í hann.

Í dag tróð ég mér í gallabuxurnar mínar. Ég komst í þær með nokkuð góðu móti og gat rennt upp og alles (þökk sé þeirri staðreynd að þær eru úr stretch-efni). Það sem næst gerðist er að fyrir ofan strenginn myndaðist þetta líka fína möffins sem náði allan hringinn og sást mjög vel þar sem ég var í frekar þröngum bol að ofanverðu. Nánast allir mínir bolir eru frekar þröngir, enda keyptir þegar ég var einu númeri minni...

En já í buxunum hef ég svo sem verið í dag en engu að síður er það nokkuð ljóst að annað hvort þarf ég að minnka aftur hið snarasta eða fjárfesta í nýjum buxum. Einhvern veginn hef ég ekki alveg trú á því að mér takist að grenna mig í hvelli, sérstaklega þar sem ég bara get ekki farið í megrun. Ég hef aldrei hugsað jafn mikið um mat og í þau örfáu skipti sem ég hef reynt að grenna mig. Úff, púff og æ, æ. Og mér sem finnst svo hræðilega leiðinlegt að máta gallabuxur!

P.S. Það er kannski eins gott að taka það fram að ég hef ekki þungar áhyggjur af þessari þyngdaraukningu minni. Þetta rennur örugglega af mér um leið og fer að vera meira að gera í vinnunni fyrir jólin. Ef ég væri mjög miður mín yfir ástandinu þá væri ég líklega ekki að skrifa um þetta hér ;-)

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Heheheheheh þetta er kostuleg lesning ;) HSE

Guðný sagði...

Það er nú gott að ég get skemmt þér þarna í Afríkunni :)