þriðjudagur, 12. október 2010

Ég var dugleg og dreif mig í Mývatnssveitina

Stillti klukkuna á hálf átta og hafði hugsað mér að vera farin af stað um hálf níu leytið. Það tókst nú ekki alveg því ég var svo þreytt þegar ég vaknaði að ég lá í rúminu til átta... En hafði mig samt af stað og var ánægð með það. Olíuljósið í bílnum var reyndar að hrella mig. Það hafði byrjað að gefa skilaboð fyrir einni eða tveimur vikum síðan, en ég hafði ekki verið að stressa mig neitt yfir því meðan það blikkaði bara. Um leið og ég var komin á Svalbarðsströndina var það hins vegar farið að loga stöðugt og það stressaði mig nú pínulítið. En áfram hélt ég samt. Var komin í Mývatnssveit um tíuleytið og ók um, stoppaði, fór út úr bílnum og gekk um - já og tók myndir í gríð og erg. Hins vegar þótti mér ráðlegra að kaupa olíu í Reynihlíð en þá byrjaði nú fjörið því samkvæmt smurbókinni átti að vera Castrol olía á vélinni, en hún fékkst ekki hjá þeim í Strax. Svo ég ætlaði að hringja í Tryggva, eina bifvélavirkjann sem ég þekki, og spyrja hann hvaða olíu mætti nota í staðinn, en hann var þá ekki heima í augnablikinu. Starfsfólkið hringdi þá í bifvélavirkja í sveitinni og fékk svar fljótt og vel. Ég afrekaði að hella sjálf olíunni á vélina og varð alveg ótrúlega skítug af því að skrúfa lokið af og á.

Það var kóræfing klukkan fimm og klukkan fjögur átti að vera fundur í kórnum, svo ég ætlaði að leggja af stað heim aftur um tvöleytið, þannig að ég hefði góðan tíma til að hvíla mig og fara í sturtu fyrir fundinn. En veðrið þarna var svo dásamlegt að ég hafði mig ekki af stað heim á leið fyrr en uppúr hálf þrjú. Heimferðin gekk eins og í sögu og þegar ég lagði bílnum á stæðinu heima var kallað á mig. Það var þá Rósa vinkona, sem hafði einmitt verið stödd í Mývatnssveit um helgina. Svona er þetta nú stundum fyndið. Verst bara að ég gat svo lítið spjallað við hana af því ég þurfti að drífa mig heim í sturtu fyrir fundinn.

Eitt af því sem rætt var um á fundinum var kóradagur í Hofi þann 23. október. Þá er kóramót og kórsöngur mun óma liðlangan daginn í nýja menningarhúsinu. Kvennakórinn syngur, bæði einn og sér, en líka í lokin með öllum hinum kórunum. Þetta verður örugglega mjög skemmtilegt, en bæði er þetta vinnuhelgi hjá mér og eins finnst mér ég ekki kunna lögin nógu vel til að geta sungið þau "utanbókar". Það er þó aðallega eitt lag sem ég stend alveg á gati í, japanskt barnalag, en ég er orðin slarkfær í flestum hinna. Það er að segja flestum þeirra sem á að syngja á kóradeginum. Það eru ennþá fullt af lögum sem ég á alveg eftir að læra. En æfingadagurinn á Svalbarðseyri hefur greinilega skilað sínu, það er alveg ljóst. Ég hef meira sjálfstraust eftir hann og bara læt vaða. Ég ýjaði að því við konuna við hliðina á mér að hún léti mig vita ef ég væri alveg úti að aka, og hún sagði þá að ég stæði mig alveg rosalega vel miðað við að vera svona nýbyrjuð. Þá varð Guðný voða montin... tralalala.

Annað sem er hugsanlega í gangi hjá okkur þann 23. okt. er að Guðjón bróðir Vals og Edda konan hans eru að spá í að koma í heimsókn. Það er þó ekki ljóst hvort það er sú helgi eða næsta. En það verður gaman að fá þau, það er ekki svo oft sem við fáum "sunnanfólk" í heimsókn :-)

Engin ummæli: