þriðjudagur, 30. nóvember 2010
Nú væri líklega snjallt að sleppa því að blogga
þar sem ég er í gigtarkasti og ekkert voðalega hress og kát. Og eins og venjulega þegar ég er í verkja- og þreytukasti hellast yfir mig áhyggjurnar af öllu sem ég þarf að gera en á erfitt með þegar ég er svona. Ég þyrfti til dæmis nauðsynlega að skipta á rúminu áður en Valur kemur heim (ætla ekki að lýsa því yfir á opinberum vettvangi hve langt er síðan það var gert síðast). Svo þyrfti ég að halda áfram að æfa lög og texta fyrir tónleikana á sunnudaginn, en meira að segja það finnst mér erfitt þegar ég er í þessu ástandi. Það er líka fallegt ljósmyndaveður úti en ekki hef ég mig í að fara út. Já og sturtan bíður, en ... vá mér finnst meira að segja erfitt að þurfa að fara í sturtu. Vinnan bíður líka og ef satt skal segja þá er það algjörlega óyfirstíganleg tilhugsun að þurfa að fara í vinnu þegar mér líður svona. En ég mun fara í vinnuna og það mun verða í lagi. Ég ætla að sleppa því að elda fyrir okkur Ísak í kvöld og láta Subway sjá um það. Hitt þarf ég víst að gera og það sem ég þarf allra mest að gera, er að hætta þessu væli. Ætli sé ekki best að taka af rúminu, drattast í sturtuna og rúlla svo nokkrum sinnum í gegnum kóralögin fyrir vinnu. Jamm, það held ég bara.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli