miðvikudagur, 15. desember 2004

Tilviljanir

eru ótrúlega skemmtilegar. Ég fór í leikfimi í morgun en var hálf lúin eftir smákökubaksturinn í gærkvöldi. Var þess vegna bara stutt á æfingu og skellti mér í langt gufubað í staðinn. Við vorum fjórar konur í búningsklefanum og vorum allar að klæða okkur á svipuðum tíma. Þá tók ég eftir því að þrjár okkar voru í dökkum teinóttum buxum og hvítri blússu/peysu að ofan og sú fjórða var líka í hvítri peysu. Mér fannst þetta hryllilega fyndið en vissi ekki hvort það væri við hæfi að vekja athygli hinna á þessu enda finnst konum fátt verra (skv. kerlingabókunum amk.) en vera eins klæddar. En þá segir ein: "Sjá okkur, það mætti halda að við værum að fara á kóramót, allar í eins fötum". Og jú, jú, auðvitað höfðum við allar tekið eftir þessu og hlógum hjartanlega að þessari tilviljun.

Sem minnir mig á aðra tilviljun. Þegar við Valur komum frá París og vorum að keyra norður í brjáluðu veðri um miðjan október kveiktum við á útvarpinu e-s staðar í Húnavatnssýslunni. Það skrýtna var að við náðum ekki einni einustu íslenskri útvarpsstöð - en þremur eða fjórum norskum. Norskar stöðvar voru þær einu sem náðust og okkur fannst það sérstaklega fyndið í ljósi þess að um þessi áramót eru 10 ár síðan við fluttum aftur heim frá Noregi og þetta er í fyrsta skipti á öllum þessum tíma sem við náum norskri útvarpsstöð í bílnum.

Engin ummæli: