þriðjudagur, 21. desember 2004

Jóla hvað?

Það er ýmislegt sem bætist á mann í jólastressinu. Til dæmis datt Ísak það í hug um daginn að hann þyrfti alveg bráðnauðsynlega að eignast laser (lítið innrautt ljós í lyklakippu, upphaflega fundið upp fyrir fyrirlesara sem þurfa að benda á power-point showið á tjaldinu en litlir krakkar eru mun hrifnari af fyrirbrigðinu en fullorðnir að því er virðist vera). Og til að létta mér ákvarðanatökuna benti hann mér á að hann gæti bara fengið laser í skóinn! Ég er ekki talsmanneskja þess að gefa dýrar gjafir í skóinn þannig að ég gaf bara mjög lítið í nokkurn tíma en svo fékk hann laserinn. Og sá varð nú glaður.

Ekki liðu þó margir dagar þangað til mér var bent á að nú væri upplagt að hann fengi rafhlöður í laserinn (í skóinn að sjálfsögðu). Ég hafði nú ekki enn látið verða af því þegar hann hringir í mig í vinnuna í gær í miklu ofboði og nú var orðið um líf eða dauða að tefla að fá nýjar rafhlöður. Hann var hálf vælandi í símann og móðurhjartað bráðnaði alveg. Fór búð úr búð í hádeginu í því skyni að bjarga þessum málumm, árangurslaust, þar til mér datt í hug að fara á bensínstöð. Viti menn, þar fengust rafhlöður og ég var svo útsjónarsöm að kaupa sex stykki. En það var niðurlútur drengur sem tók á móti mér, laserinn hafði dottið í gólfið og dottið í sundur. Næsti hálftíminn fór í það að reyna að setja hann saman en ekki lukkaðist það nú.

Í gærkvöldi fékk ég svo SMS frá vinkonu minni þar sem hún stakk upp á spjalli yfir einum jólabjór. Mér fannst það góð hugmynd og Valur skutlaði mér til hennar. Við sátum við kertaljós og kjöftuðum og á einhverjum tímapunkti fór ég að rekja þessar laser-raunir mínar. Þá hittist þannig á að sonur hennar, 13 ára gamall heyrði allt saman og kom færandi hendi með laser sem hann hafði keypt á Spáni sl. sumar. Þetta var ennþá flottari laser en sá sem Ísak hafði fengið í skóinn, með fullt af aukahlutum, og strákurinn vildi endilega gefa Ísak hann. Ja, ef þetta er ekki andi jólanna þá veit ég ekki hvað! Og Ísak brosti eyrnanna á milli þegar hann fékk nýja laserinn afhentan í morgun :-)

Engin ummæli: