miðvikudagur, 22. desember 2004

Alltaf gott

að skila af sér verkefnum í vinnunni. Við vorum að klára verkefni og senda það frá okkur - verðlaunin voru þau að fara fyrr í jólafrí. Leyfði mér þess vegna að sofa til rúmlega níu í morgun, veitti heldur ekki af, var andvaka framan af nóttu og leið eins og fílahjörð hefði trampað yfir mig þegar ég vaknaði. Það var reytingur af fólki í ræktinni þrátt fyrir að jólin nálgist óðum, enda eru menn að átta sig á þeim sannleika allir vita innst inni að líkamsrækt er nauðsynleg nútímafólki, sérstaklega þeim sem sitja á rassinum fyrir framan tölvu allan daginn eins og ég. Kem þó til með að standa aðeins meira upp á endann eftir áramót þegar ég byrja að kenna markaðsfræðina ;-)

Annars er það svo skrítið að mér finnst gaman að kenna og hlakka til að byrja - en engu að síður er smá kvíði í mér. Veit að ég losna við hann um leið og fyrsti tíminn er búinn. En það er hálf fyndið að hugsa til þess að ég sem var svo hræðilega feimin hér áður fyrr skuli núna vera farin að kenna 100 krökkum. Ég man eftir því þegar ég var að byrja í háskólanáminu og við áttum að kynna verkefni og tala fyrir framan alla hina, úff ég var svo stressuð að ég mundi varla eftirá hvað ég hafði sagt. En ein kynning í ensku var tekin upp á videó og svo fékk maður að horfa á hana heima hjá sér í rólegheitum. Það var rosalega skrýtið en gott samt því þá sá ég að þetta hafði nú bara gengið ágætlega hjá mér. Dúndrandi hjartslátturinn sást ekki á upptökunni sem betur fer!

Engin ummæli: