Það er ótrúlega erfitt fyrir nútímafólk eins og okkur að gera sér grein fyrir því hversu hörð lífsbaráttan hefur verið hér áður fyrr. Eldri bróðir mömmu, Sigurbergur, fór ungur að heiman til að vinna fyrir peningum til að senda heim. Sá yngri, Daníel, varð eftir heima, tók 18 ára gamall við rekstri búsins og vann myrkranna á milli við að koma öllu í nútímalegra horf, m.a. lét hann byggja þar steinhús ofl. Mamma var yngst, það var langt á milli bæja og hún átti í raun enga leikfélaga nema dýrin. Skólaganga var af skornum skammti, og þegar mamma lærði til ljósmóður seinna meir tók námið ekki nema tæpt ár að ég held. Já, í dag eru breyttir tímar, það sem þótti lúxus hér áður fyrr þykir sjálfsagt í dag - og ótal margt sem ekki fyrirfannst hér áður fyrr gætum við ekki án verið í dag. Sjónvarp, rafmagn, þvottavélar, tölvur, bílar, ferðalög til útlanda, tískufatnaður, .... listinn er óendanlegur. Sumt gott - annað slæmt. Kannski væri ekki svo vitlaust að staldra við annað slagið, setja hlutina í samhengi og þakka fyrir hvað við höfum það gott ;-)
Læt þessum hugleiðingum hér með lokið enda farin fram úr sjálfri mér í tilvistarlegum vangaveltum (sem ekki verða skráðar hér).
Engin ummæli:
Skrifa ummæli