Ég fór kerfisbundið yfir ljósin og skipti út einni peru í einu, árangurslaust. Þá datt mér helst í hug að fleiri en ein væru ónýt og þá var úr vöndu að ráða því ég átti ekki nógu margar til að skipta þeim öllum út. Eitthvað hefur þó athyglisgáfan verið farin að gefa sig því eftir að hafa nært mig á heimagerðri pítsu úr smiðju bóndans fann ég biluðu peruna í fyrstu tilraun!
Eftir að vera búin að þræða rauðar jólagardínur á neðri kappann í gluggunum er ég ekki frá því að votti fyrir örlitlum skilningi hjá mér á því að jólin nálgast nú óðfluga. Á reyndar eftir að sækja stóru piparkökuhjörtun (sem skreytt eru með hvítum glassúr og hanga í rauðum borðum) ofan í frystikistu og hengja þau upp á efri kappana á gardínunum. Mér fannst ansi snjallt þegar mér datt í hug að frysta hjörtun milli jóla og eru þau orðin 5-6 ára gömul núna. Talandi um endurnýtingu.....
Átti annars sérlega ánægjulegt símtal við gamlan mann í dag. Hann hringdi hingað til að fá heimilisfangið hjá Guðjóni bróður Vals sem hafði verið í sveit hjá honum um fermingaraldur. Gamli maðurinn kom með ýmis gullkorn í þessu samtali sem varði í nærri 40 mínútur. Meðal annars sagði hann um pabba (eftir að hafa grennslast fyrir um það hverra manna ég væri) að hann hefði ekki bundið bagga sína sömu hnútum og aðrir. En mesta gullkornið kom þegar sá gamli bað mig að skila kæru þakklæti til Vals því hann hefði lagað svo vel á sér skaufann hérna um árið!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli