mánudagur, 6. desember 2004

Er með höfuðið fullt af hugsunum

eins og svo oft áður eftir námskeiðin hjá Þorvaldi Þorsteins. Þetta eru góðar hugsanir og til þess gerðar að hjálpa mér áleiðis í lífsdansinum en eini gallinn er sá að ég kann ekki að slökkva á hugsanastraumnum þegar ég ætla að fara að sofa. Hef ekki fundið on-off takkann ennþá... Ligg í rúminu, reyni að slaka á, prófa að telja andardrætti o.s.frv. en hringekjan í höfðinu á mér er óstöðvandi, fer bara áfram hring eftir hring, hraðar og hraðar. Mér var einu sinni sagt að besta ráðið til að stöðva hugann væri að fara á fætur og gera eitthvað verklegt s.s. strauja eða laga til - en ef satt skal segja hef ég aldrei prufað það. Held einhvern veginn að það yrði ekki vinsælt hjá öðru heimilisfólki þegar kveikt yrði á ryksugunni um miðja nótt!

Annars er mér efst í huga þakklæti til þessa indæla fólks sem ég var með á námskeiðinu. Að vera í hópi fólks sem maður þekkir afar takmarkað en geta engu að síður deilt hugsunum sínum með þeim og skipst á skoðunum á jafnréttisgrundvelli (þrátt fyrir afar ólíkan bakgrunn) eru í raun forréttindi. Ef eitthvert þeirra les þessi orð mín þá þakka ég kærlega fyrir samfylgdina og vona að við látum ekki sitja við orðin tóm, heldur höldum fast í þessi tengsl sem hafa myndast.

Engin ummæli: