Þessi strákur flutti hingað í bæinn í fyrra ásamt pabba sínum. Mamman er ekki inni í myndinni og hefur strákurinn ekki hafa neitt samband við hana. Pabbinn vinnur ekki úti en sonurinn segir að hann vinni heima á tölvuna. Vandinn er sá að það virðist bara alls ekki vera hugsað nógu vel um strákinn. Hann er að vísu yfirleitt í hreinum fötum en virðist ótrúlega afskiptur að öðru leyti. Í fyrra fékk hann einu sinni að gista hjá okkur, hringdi heim og fékk leyfi. Pabbinn talaði ekkert við mig og kom ekki einu sinni með tannbursta handa stráknum. Þetta var á föstudagskvöldi og stráksi hafði verið hér frá hádegi. Nóttin leið og næsti dagur og aldrei hringdi pabbinn, né kom, til að grennslast fyrir um soninn. Ég sendi hann heim um kvöldmatarleytið á laugardeginum en þá hafði hann verið hér í einn og hálfan sólarhring.
Hann kom hingað á hverjum degi í langan tíma, yfirleitt strax eftir skóla, þó ég brýndi fyrir honum að hann ætti fyrst að fara heim og borða. Og við þurftum nánast að reka hann heim með valdi á kvöldin. Hann sagðist ekki þurfa að koma heim fyrr en kl. átta því þá væri kvöldmatur hjá þeim. Oft þegar við ætluðum að senda hann heim þá fór hann bara út, beið þangað til við vorum búin að borða og hringdi þá bjöllunni aftur. Um vorið fór bekkurinn saman ásamt foreldrum út í Kjarnaskóg að grilla. Hringt var í alla foreldra til að tilkynna ferðina. Þegar hringt var í pabba stráksins sagðist hann ekki reikna með að nenna að mæta! Enda kom hvorugur þeirra.
Þó pabbanum virðist þykja mjög vænt um strákinn (kyssir hann bless þegar hann er að skutla honum eitthvert, leiðir hann úti á götu o.s.frv.) þá er ýmsu í uppeldinu mjög ábótavant. Strákurinn fær að horfa á sjónvarpsþætti eins og CSI og annað efni sem bannað er börnum. Kannski ekki skrýtið að hann hefur orðaforða sem hæfir mun eldri strákum. Svo er hann ótrúlega frekur og telur sjálfsagt að vera hér lon og don + fá hádegismat og kaffi - en þakkar aldrei fyrir sig.
Mitt vandamál er sem sagt það að syni mínum finnst þessi strákur skemmtilegur og vill gjarnan leika við hann en ég vil helst ekki að þeir séu of mikið saman. Og eins og áður sagði þá fer hann bara svo í taugarnar á mér. Veit að ég er hræðilega vond því hann hefur það greinilega hálf skítt heima hjá sér en ég ræð bara ekki við þessar tilfinningar mínar. Algjörlega lost í þessu máli!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli