Ég geri mér grein fyrir því að miklu er sjálfsagt stolið í verslunum á þessum árstíma, hins vegar finnst mér eiginlega hálf fyndið að sjá þessa stráka sem varla er vaxin grön vinna sem öryggisverðir í aukastarfi og horfa grunsemdaraugum á allt og alla. Í Rúmfatalagernum pípti í nánast hverjum manni sem gekk inn/út úr búðinni og þar var það fullt starf að stoppa allt þetta fólk og fá að kíkja ofan í töskurnar hjá þeim. Búið var að tína allt upp úr veski einnar konu en í hvert sinn sem veskið var sett í hliðið þá fór það að pípa. Ég sá nú ekki hvernig því máli lyktaði, gekk út og var dauðhrædd um að það myndi pípa í mér (minnug síðustu utanlandsferðar þegar hællinn á stígvélunum mínum var sökudólgurinn og ég gekk á sokkaleistunum gegnum tollhliðið).
Öllu ánægjulegra var að sjá hvað rómantíkin virtist blómstra hjá mörgum, kona sem stakk hendi undir arm eiginmannsins, ungt par að kyssast, gömul hjón að leiðast....
Engin ummæli:
Skrifa ummæli