mánudagur, 13. desember 2004

Eftir að hafa hreinsað kattasandkassann

er nefið á mér svo stútfullt af ammoníak-lykt að mér liggur við yfirliði. Þetta er refsingin fyrir að hafa látið líða 2-3 daga milli þess að hreinsa úr kassanum. Þessir kettir mínir eru svo miklar blúndur að þau fara helst ekki út fyrir hússins dyr nema það sé nægilega hlýtt úti að þeirra mati og snjókoma eða rigning eiga alls ekki upp á pallborðið hjá þeim. Þannig að þau gera þarfir sínar eingöngu innandyra þessa dagana (sem er náttúrulega hið besta mál, þá þarf ég ekki að hafa áhyggjur af því að þau séu að skíta í sandkassa sem ætlaðir eru börnum) . Í sumar áttu þau reyndar sérstakt utandyra"klósett" en það er mexíkóskur arinn sem við setjum upp á sólpallinum yfir sumarmánuðina, í þeim tilgangi að kveikja í honum þegar kólnar á kvöldin. Einhverra hluta vegna hefur þessi blessaður arinn aldrei verið nýttur í sínum upphaflega tilgangi en kettirnir voru snöggir upp á lagið, enda sandur í botninum og gat framaná, alveg eins og á kassanum þeirra inni!

Engin ummæli: